Hlekkir

27. apríl 2018

Ég hef áður vísað í pistla auglýsingamógúlsins Rory Sutherland í breska blaðinu Spectator. Hann er sérstaklega skemmtilegur penni sem hefur alveg einstaka sýn á málefni hversdagsins. Í nýjasta pistli sínum fjallar hann um „internetbyltinguna“ svokölluðu, en að hans mati er hún hvergi nærri hafin. Ef maður lítur t.d. til hefðbundinna skrifstofustarfa þá er hægt að vinna þau flest án þess að ganga út fyrir hússins dyr. Samt keyrir fólk í vinnuna á hverjum degi til þess eins að hanga fyrir framan tölvuskjá – eitthvað sem fólk gæti vel gert í nærbuxunum heima hjá sér. Væri internetbyltingin raunverulega hafin værum við aðeins í nokkra klukkutíma í viku á „vinnustað“, bara til að fara á fundi. Rory talar um þessa skrýtnu þversögn með sínum einstaka hætti. Fæ ekki nóg af því sem hann skrifar. (KF.)

Hér er James Comey, fyrrverandi forstöðumaður FBI, í fínu spjalli við David Remnick, ritstjóra The New Yorker. Comey er flottur, geðþekkur, snyrtilegur –– sjálfsagt draumaafi. Ég ímynda mér að hann lykti vel: lumi á góðum ilmvatnsábendingum. (SN.)

Eitt af mínum uppáhalds bloggum er Marginal Revolution sem hagfræðingarnir Alex Tabarrok og Tyler Cowen halda úti. Ég les það nær daglega og hef gert það síðan ég var sjálfur að læra hagfræði á hrunárunum. Sá síðarnefndi er mjög duglegur að skrifa á bloggið og maður getur eiginlega alltaf treyst á að hann hafi eitthvað áhugavert að segja á næstum hverjum degi. Þetta er frábært dæmi um góða færslu á því bloggi. Í henni er hann að tala um sinfóníuhljómsveitir sem eitt mesta tækniundur mannkynssögunnar og hvernig iðnbyltingin er í raun menningarbylting. Þetta er stutt færsla og vel þess virði að lesa sannfærandi rökstuðning hans fyrir þessum fullyrðingum. (KF.)

Stutt viðtal við Philip Glass, sem mælir með því að allar listaspírurnar fái sér dagvinnu. (SN.)

Af einhverjum ástæðum hefur íslensk listasaga alltaf verið skrifuð þannig að hún hefst um aldamótin 1900. Skilningurinn virðist vera sá að allt sem gæti talist til myndlistar fyrir þann tíma hafi verið einhvers konar föndur. Sem betur fer er að eiga sér stað einhvers konar vitundarvakning til að breyta þessu viðhorfi og opna augu fólks fyrir fjölbreytilegum listarfi Íslendinga í aldanna rás. Gott dæmi um þessa viðleitni er sýningin Sjónarhorn sem hefur verið sýnd í Safnahúsinu síðastliðin ár og stýrð af Markúsi Þóri Andréssyni. Þessi stutti og skemmtilegi pistill á Hugrás fjallar aðeins um sýninguna og vekur athygli á þessari leiðinlegu ranghugmynd um menningararf okkar. (KF.)

Maður óttast að hafa tekið þátt í einhverju sem farið hefur virkilega úrskeiðis.“ Jaron Lanier, frumkvöðull í þróun sýndarveruleika, bókahöfundur og einn af innstu koppum í búri Kísildalsins, er oft mjög beinskeyttur og hress. Það leynast áhugaverðir sprettir í þessu viðtali, einkum eftir því sem líður á seinni hlutann. Væntanleg er bók eftir Lanier með þeim áleitna titli Ten Arguments for Deleting Your Social Media Accounts Right Now.

Það er greinilega hægara sagt en gert að númera bókarsíður. Maður svitnar við að lesa þetta. (SN.)

Ég má til með að bæta þessu stutta og frábæra viðtali við John Gray um nýútkomna bók hans Seven Types of Atheism. Holl og góð lesning fyrir trúaða jafnt sem trúlausa. (KF.)