Allt efni

Af netinu, 7. júní 2019

„Ég myndi segja að allt sem ég geri mótist að einhverju leyti af manngerðri hamfarahlýnun. Ég hugsa um loftslagsbreytingar ábyggilega hundrað sinnum á dag, þær eru faktor í eiginlega öllu sem ég geri; hvernig ég ferðast, hvað ég kaupi mér, hvað ég borða og hvernig ég kýs að lifa lífinu.“

Ég spjallaði um loftslags- og umhverfismál við Hildi Knútsdóttur, fyrir fréttaveitu Klappa. (SN.)

Það hefur glatt mig mikið að sjá áhugaverðum íslenskum fréttabréfum fjölga. Við Leslistamenn viljum gjarnan að til verði ríkuleg flóra af slíkum bréfum. Vil sérstaklega benda á þrjú ný bréf sem ég hef tekið eftir. Í fyrsta lagi er það fréttabréfið hans Jökuls Sólbergs. Í því skrifar hann um „örflæði“ (e. micromobility) sem snýst í stuttu máli um léttari samgöngumáta á borð við rafknúin reiðhjól og hlaupahjól. Sverrir Bollason var að byrja með fréttabréf um borgarþróun, húsnæðismál og fasteignir sem lofar góðu og Tumi Ferrer með fréttabréf um kaffi og vín sem er einnig mjög forvitnilegt. Ef þið kannist við fleiri áhugaverð íslensk fréttabréf þá megið þið gjarnan láta okkur vita. Svo hvet ég alla til að stofna sitt eigið fréttabréf, það er stórskemmtilegt sport. Ágætt að láta vaða á vefsíðum á borð við Substack og sjá svo hvað gerist.

Stundum finnst mér ég vísa of oft í fjármálahugsuðinn Morgan Housel á þessum vettvangi en hann kemur alltaf á óvart með hverja negluna á eftir annarri. Hér fjallar hann um hvað maður getur lært af sögunni og hér veitir hann dóttur sinni, og okkur lesendum í leiðinni, ýmis góð fjármálaráð.

Hér er ansi góð greining á stöðu og tækifærum hlaðvarpsheimsins. Þetta er ört vaxandi og spennandi fjölmiðlaform sem á eflaust eftir að vaxa í mikilvægi.

Fyrsta uppkastið af öllu er drasl. Góð hvatningarorð fyrir rithöfunda.

Stórskemmtileg frásögn frá bandarískri geðlæknaráðstefnu. Fyndið og óhugnanlegt á sama tíma.

Sumarleg grein hérna um vísindin á bak við grillmat.

Grein um af hverju það skiptir máli fyrir alla að kunna að skrifa vel. Greininni er beint til hugbúnaðarverkfræðinga en á erindi við okkur flest.

Heimspekingur skrifar gegn þekkingu. Fersk nálgun. (KF.)

Ég veit ekki hvort þetta er kómískt eða tragískt (sennilega hvorttveggja?): Everest-fjall er nú svo vinsæl áskorun fyrir göngugarpa að suma daga er mannmergðin slík að það myndast biðröð eftir að komast efst á tindinn. Dæmi eru um að örtröðin hafi leitt til dauðaslysa.

Sue Halpern birti mjög skemmtilega lofgjörð um almenningsbókasöfn í The New York Review of Books. Þar vitnar hún meðal annars í bók, sem áður hefur borið á góma hér, The Library Book eftir Susan Orlean, og dregur eftirfarandi tilvitnun fram í dagsljósið: „The publicness of the public library is an increasingly rare commodity. It becomes harder all the time to think of places that welcome everyone and don’t charge any money for that warm embrace.“

Hér gefur að líta gagnvirka innsýn í líf og störf tólf skemmtikrafta í New York-borg; meðal annars dansara í jarðlestum, ballerínu, djasspíanista af gamla skólanum (minn uppáhalds) og latínótrymbils. Birtist í The New York Times. Svoldið skemmtilegt. 

Eitt það besta sem ég las í vikunni var viðtal við frönsku vitsmunaveruna Bruno Latour í Le Monde. Í brenndidepli einkum loftslagsbreytingar og staða mannsins í gjörbreyttum heimi.

Snorri Másson, blaðamaður, er óhræddur við að fremja stílkúnstir í þessari fjörugu grein um Þorstein Davíð Stefánsson, sem útskrifaðist nýlega af fornmáladeild Menntaskólans í Reykjavík með talsverðum bravúr.

Ný heimasíða fyrir hina áhugaverðu ritröð Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar.

Það er völlur á Elton John um þessar mundir. Út er komin kvikmynd byggð á ævi hans, Rocketman, og svo er sjálfsævisaga væntanleg. Popparinn stakk nýlega niður penna og útkoman birtist í The Guardian.

Mér finnst alltaf jafn furðulegt þegar ég heyri því haldið fram að enginn hafi tíma til að lesa. (Samt virðist öll heimsbyggðin hafa séð Game of Thrones – samtals 146 klukkustundir af sjónvarpsefni.) Hvað um það, nú hafa þrír snyrtilegir, ungir Þjóðverjar leyst þetta tímahraks-vandamál okkar og fitjað upp á forriti sem brýtur nonfiksjónbækur til mergjar og eimar þær niður í hnitmiðaðar ritgerðir. Í kynningarefni fyrir forritið hamra þeir á því að enginn hafi tíma til að lesa en allir hag af því. Hinir knáu Þýðverjar kveðast sannfærðir um að hið byltingarkennda forrit þeirra muni umbylta lestrarvenjum heimsbyggðarinnar. Framtíðin er sem sagt fólgin í því að lesendur greiði tæknifyrirtæki áskriftargjald fyrir að hjálpa sér við að lesa einfaldanir á bókum!

Gauti Kristmanns skrifar um „Nóbelsverðlaunaharmleikinn“. Áhugafólk um verðlaunaveitingar ætti svo að gleðjast yfir því að í ár verða veitt tvenn Nóbelsverðlaun fyrir glæsilega framgöngu í bókmenntum – fyrir 2018 og 2019.

Virkilega athyglisverð grein um Kína, stöðu rithöfunda og blaðamanna þar og andóf þeirra gegn síhertri kúgun ríkisvaldsins. (SN.)


Fyrir augu og eyru:


Fjárfestirinn og hugsuðurinn Naval Ravikant er hér í mjög löngu og djúpu spjalli við grínistann og hlaðvarpskónginn Joe Rogan. Hér er fyrst og fremst talað um hvernig maður á að verða ríkur og hamingjusamur.

Þegar ég lærði hagfræði á sínum tíma þá talaði ég oft um að ég lærði töluvert meira af hagfræðihlaðvarpinu Econtalk og hagfræðiblogginu Marginal Revolution en af kennslubókunum mínum. Fannst því alveg sérstaklega gaman að hlusta á Russ Roberts, stjórnanda Econtalk og Tyler Cowen, stjórnanda Marginal Revolution spjalla hér saman í hlaðvarpi hins síðarnefnda.

Í því spjalli minnist Russ Roberts á myndband sem hann var að framleiða um hvernig hægt er að misskilja gögn um tekjuójöfnuð. Hvet alla til að skoða þetta – stutt, fræðandi og skemmtilegt.

Hér er stórkostlega áhugavert spjall við Stephen Wolfram um hvað gerist þegar stór hluti af heimsbyggðinni getur farið að forrita. (KF.)

Bækur, 31. maí 2019

Ég hef haft gaman af bókum Alberto Manguel, sem skrifar nær alfarið um bækur, lestur, bókasöfn og svo framvegis. Í Packing My Library lýsir hann, í hnitmiðaðri og læsilegri frásögn, því þegar fyrir honum lá að pakka niður bókasafninu sínu, 35.000 bindum, hvorki meira né minna, sem stóðu í stórri hlöðu í litlu þorpi í Frakklandi. Tilefnið var fyrirhugaðir búsetuflutningar í litla íbúð á Manhattan. Verkið er hugleiðing um samband bóka og lesenda, bóka og safnara, reglu og óreiðu, minnis og lesturs, og ekki síst gildis hinna áþreifanlegu hluta – svo sem texta sem við getum snert með fingrunum, pappírsins sem myndar (eða myndaði áður) umgjörð um líf okkar.

Ég las Capitalist Realism: Is There No Alternative? í kjölfar þess að ég rambaði á fína umfjöllun um höfundinn, Mark Fisher, eftir Jenny Turner, í The London Review of Books. Í bókinni sýnir Fisher meðal annars fram á hvernig undirgefni okkar við síðkapítalismann hefur hreiðrað um sig sem, að því er virðist, eini valkostur okkar í samfélagsgerð nútímans og stuðlar að kvíða, þunglyndi og vanlíðan hjá milljónum, þar af einkum hjá ungu fólki, til að mynda nemendum Fishers (sem starfaði sem kennari meðfram ritstörfum). Strikaði undir ansi margar línur í þessari (og mun lesa meira eftir Fisher). Hann hélt lengi úti merkri bloggsíðu, k-punk. (SN.)

Af netinu, 31. maí 2019

Arnold Schwarzenegger er hér í frekar skemmtilegu viðtali við Financial Times.

Hér er fjallað um rökræðu á milli blaðamannanna Andrew Sullivan og Adam Gopnik sem hafa oft verið hlekkjaðir á þessum vettvangi. Til umræðu er ný bók eftir hinn síðarnefnda um frjálslynd viðhorf í heiminum og hnignandi mikilvægi þeirra.

Halldór Armand fjallar hér um hvað lítið fer fyrir erlendum fréttum í íslenskum fjölmiðlum og hvaða áhrif þessi erlendi fréttaskortur hefur á íslenskt samfélag. Djúpt og gott eins og svo oft hjá honum Dóra.

Kennslustund frá Ian Fleming í þrilleraskrifum.

Þessi maður vill drepast þegar hann er orðinn 75 ára og færir ansi góð rök fyrir afstöðu sinni.

Bókin sem forrit. Forvitnilegar pælingar hér á ferð fyrir bókelska tölvunörda.

Gamalt samtal hér við Murray Gell Mann, frægan eðlisfræðing sem lést nýlega. (KF.)

Ágætis yfirlitsgrein í The New Yorker um David Milch, hugmyndasmiðinn að baki NYPD Blue og höfund Deadwood-þáttanna. Greinilega snjall og víðlesinn náungi – sem nú þjáist af elliglöpum á alvarlegu stigi og talar opinskátt um þá reynslu sína.

Ég er ekki nógu vel að mér í vísindaskáldskap en finnst þó í síauknum mæli að góður samtímaskáldskapur hljóti að falla að einhverju leyti undir þá regnhlíf, eigi hann að endurspegla veröld okkar í dag. Hér velur Tom Hunter, framkvæmdastjóri Arthur C Clarke-verðlaunanna, bestu vísindaskáldsögur ársins 2019 fram til þessa.

Við nálgumst loftslagsvandann og hækkandi yfirborð sjávar með ólíkum hætti – sum okkar kaupa til dæmis skútu í útlöndum, heimili sem flýtur, og sigla henni, ásamt skrautlegri áhöfn, um höfin blá heim til Íslands.

Auður Ava í viðtali við Politiken. (Athugið að hlekkurinn virkar einungis fyrir áskrifendur.)

Frábær grein eftir Meehan Crist um líf og störf rithöfundarins merka Rachel Carson, höfundar Silent Spring og forkólfs í umhverfismálum á síðustu öld. Tilefnið er nýtt safnrit með úrvali verka hennar, gefið út af The Library of America. (SN.)


Fyrir augu og eyru:

Maðurinn sem ég vísaði á í hlekkjalistanum hér að ofan, þessi sem vildi deyja 75 ára, er hér í feykilega góðu samtali við Tyler Cowen í hlaðvarpinu hans góða. Maðurinn heitir Ezekiel Emanuel og er í senn læknir og stjórnmálafræðingur – mjög forvitnilegar pælingar um heilbrigðisþjónustu og lífið sjálft.

Bandaríski blaðamaðurinn David Epstein gaf nýlega út bókina Range: How Generalists Triumph in the Age of Speculation. Við fyrstu sýn hélt ég að þetta væri enn ein flugvallarbókin – teygð froða sem hefði frekar mátt vera tímaritsgrein – en tvö hlaðvarpssamtöl við höfundinn töldu mér hughvarf svo um munar. Annars vegar þetta og hins vegar þetta. (KF.)

Ráðuneyti Leslistans: Ritstjórn Skandala

Skandali nefnist flunkunýtt (and)menningartímarit sem kemur út á pappír og dafnar einnig á alnetinu. Af því tilefni ginnti ég ritstjórn tímaritsins í nokkuð langt og kaótískt spjall með atbeina tækninnar þvert á heimsálfur. Við ræddum tímaritið en impruðum einnig á ýmsu öðru: The Bloodhound Gang, djöflum og dýrlingum, skopparakúltúr, fótsveppum og svo auðvitað góðum bókum og annarri miðlun hugsunar. — Sverrir Norland

Sverrir Norland: Sælt góða Skandafólk, mig langaði að byrja á því að inna ykkur eftir því hvað Skandali er? Bráðum kemur út fyrsta tölublað; við hverju má íslensk þjóð búast?

Ægir: Skandali er ýmislegt. Þetta er blað. En líka hugsjón, samfélag, verkefni í þróun og mótun, bráðum heimasíða. Mest af öllu er Skandali einskonar leið til að sannreyna þá kenningu að það sé fullt af skapandi fólki í landinu sem er að sinna sínum verkefnum hver í sínu horni og kannski ekki að koma sér á framfæri sem skyldi (eða einfaldlega tala saman). Við róum í raun staurblind á þessi mið. Ekkert okkar í ritstjórn hefur neina alvöru reynslu af svona útgáfu, eða mikið viðskiptavit, eða erum sérstaklega úthverf. Við erum að vinna með kenninguna að um leið og þú byggir eitthvað hljóti fólk að koma að skoða það, að þetta bara reddist. Að því sögðu þá hafa viðbrögðin verið góð og við erum bjartsýn á þetta fyrsta tölublað. Það kemur út fyrir mánaðarlok (ef áætlanir standast!) og ég fullyrði að þetta verður ekkert sorp. Við fengum mun meira efni en hægt væri að birta í einu blaði og sátum því uppi með það lúxusvandamál að þurfa að velja og hafna. Blaðið verður samt troðið og 100% öruggt að allir ættu að geta fundið eitthvað að sínu skapi á þessum síðum, enda áhersla lögð á fjölbreyttni og tilraunastarf. Þjóðin ætti því að fara á klósettið tímanlega, slökkva á PC-filternum og þurrka af lesgleraugunum.

Aldís: Skandali er opinn vettvangur fyrir alla sem vilja tjá sig með einhverju formi, um nokkurnveginn hvað sem er. Blaðið, og kollektívið sem slíkt er einfaldlega tækifæri fyrir skapandi einstaklinga til að birta verk sín á auðveldan máta og með krafti fjöldans.

SN: Hver eruð þið, nákvæmlega, væruð þið til í að flétta af ykkur hulunni? Hvað leiddi ykkur saman annað en ást á hinu háleita og næm móttökuskilyrði gagnvart fegurðinni?

Ægir: Ég er heimspekingur að mennt og lundafari, sagnfræðimenntaður að auki, og ljóðskáld. Svona allsherjarnörd með engin arðbær áhugamál. Ég hafði að vísu mínar efasemdir þegar þessi hugmynd um að gefa út bókmenntatímarit kom fyrst til, einmitt vegna hagkvæmni sjónarmiða, en fífldrifska og hugsjónarmennska náði fljótt yfirhöndinni. Svo er ég líka með leiðigjarnt blæti fyrir því að taka að mér fleiri verkefni en ég réttilega ræð við hverja stundina, þannig að vafalaust er þetta angi af því meiði.

Oddný: Ég játa að ég er líka heimspekingur að mennt og lundarfari. Anton og Ægir fengu hugmyndina að stofna tímarit og buðu mér að vera með. Ég vissi að verkefnið yrði krefjandi en gat ekki staðist áskorunina. Ég stefni á að vinna við heimspekina og vil nýta öll tækifæri til að finna farveg hennar í hinu og þessu.

Aldís: Við Ægir höfðum vitað af hvoröðru í nokkurn tíma þegar við kynntumst loksins almennilega í kringum 2016. Það var um það leiti þegar Ægir gekk til liðs við Fríyrkjuna sem á þeim tíma var starfandi ljóðakollektív sem hélt regluleg ljóðakvöld og gaf út þrjár bækur á árunum 2014–2016. Ég sá um umbrotið á seinni tveimur bókunum og sat í ritstjórn þriðju útgáfunnar.

Á þessum árum höfum við Ægir reglulega sent hvortöðru texta til rýningar og reynt að styðja við hvort annað með ýmsu móti, Ægir hefur komið mér í umbrot á hinum ýmsu verkefnum sem hann hefur verið viðloðandi líkt og tímariti Heimspekideildar HÍ; Byltíng, og svo sá ég um umbrotið á fyrstu ljóðabókinni hans ‘Ódýrir endahnútar’.

SN: Hæ, Ægir, hæ, Oddný.

Karitas M. Bjarkadóttir er svo áskrifendum Leslistans að góðu kunn: hún var vígð inn í ráðuneytið fyrir skemmstu. Hæ, Karitas, hvernig hefurðu það í dag?

Karitas: Ég hef það voða fínt! Gaman að fá að koma aftur!

SN: Gott að fá þig. Og hver ert þú, Tanja, á hvaða hillu siturðu í lífinu og hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Tanja: Ég er svona alt-mulig-manneskja og sit á mörgum hillum, vasast í hinu þessu og virðist aldrei geta sinnt færri en fimm verkefnum í einu. Í augnablikinu er ég íslensku- og ritlistarnemi, rithöfundur í vinnslu, bókaútgefandi, bókasafnsstarfsmaður og björgunarkona. Hvað uppáhaldsmatinn varðar get ég ómögulega gefið ákveðið svar. Kannski mexíkósk súpa eða grænmetisborgari eða súkkulaðiís frá Oatly. Eða pasta með rauðu pestói eða marókóskur baunapottréttur með apríkósum og möndlum.

SN: Bókaútgefandi og björgunarkona er svolítið góð blanda og kannski sami hluturinn. Takk fyrir kynninguna, Tanja.

Og sæll og blessaður, Anton , ert þú jafn heimspekilega sinnaður og samherjar þínir hér að ofan og hvort ertu meira fyrir lífið í sveitinni eða borginni?

Anton: Ég er einmitt að læra heimspeki líka, en þá ekki búinn að ákveða hvað ég ætla að vera þegar ég verð stór. Kannski rafvirki, fer það ekki vel með heimspeki? Annars er ég alfarið fyrir borgina og hef aldrei skilið þetta sveitablæti í sumum, en ég kann svo sem að meta útsýnið þegar ég tek rúnt upp á skipaskaga. Stundum fer ég jafnvel lengra og þá vil ég helst ekki keyra svo ég sé frjáls til að stara út um gluggann. En borgin er minn staður þó svo að það geti vel breyst. Nú er ég nýfluttur í vesturbæinn og eftir heila tvo daga get ég fullyrt að hér er best að vera. Áfram KR! (samt ekki).

SN: Halló, kæra Aldís, hver ert þú — í stuttu eða löngu máli — og manstu eftir jólanótt þar sem þú vaktir og last fram undir morgun, allt úti í smákökumylsnu? Eða hefurðu alltaf verið ákaflega kvöldsvæf manneskja?

Aldís: Sæll Sverrir og ég afsaka sein svör að minni hálfu, ég er stödd erlendis og mikið um að vera hjá mér þessa dagana. Ég hef engar sérlegar minningar af jólalestri en ég hinsvegar man mjög vel eftir fyrstu hljómflutningsgræjunum sem ég fékk um jól, þá 10 ára gömul, helst man ég þetta því þegar ég setti græjurnar í samband og kveikti á útvarpinu var lagið „The Bad Touch“ með Bloodhound gang í gangi; ég kann allann textann enn utanað.

SN: Engar minningar af lestri! Svei mér þá. En heyrðu: Ég á líka minningu af Bloodhound Gang. Ég er svo gamall að þegar ég var í grunnskóla sátu jafnaldrar mínir klukkustundum saman við útvarpstækið (ekki ég — of kúl eða utan við mig) og biðu eftir að vinsælustu lögin yrðu spiluð… og ýttu svo á Record og tóku þau upp á KASSETTU. Ég man að ein bekkjarsystir mín gómaði einmitt „The Bad Touch“ með þessum hætti. Og ekki bara það, heldur mætti hún með kassettuna í matreiðslutíma daginn eftir. Það var power move á þeim tíma. (Þetta var, félagslega, ein sterkasti einstaklingur Hlíðaskóla á þeim tíma og mjög taktískt að leyfa okkur að njóta Bloodhound Gang meðan við hömuðumst í matreiðslustofunni, öll klædd í hvítar svuntur.) Á einhverjum tímapunkti fékk ég það hlutverk, útataður í hveiti, að spila þetta merka framlag The Bloodhound Gang fyrir viðstadda í (á að giska) tólfta skipti í röð. Ég ætlaði að ýta á Play en ýtti óvart á Record og tók sem sagt yfir byrjunina á laginu. Fattaði þetta ekki fyrr en ég hafði eyðilagt fyrstu tuttugu sekúndurnar afþví. Stórslys. Matreiðslukennarinn varð þess vís að ég hafði gert axarskaft (bekkjarsystir mín hafði sem betur fer skroppið á klósettið) og ljóstraði því ekki upp hver sökudólgurinn hefði verið. Bekkjarsystir mín sneri aftur og táraðist af frústrasjón þegar hún fattaði hvað gerst hafði. Enn þann dag í dag veit hún ekki að ég bar ábyrgð á þessu.

En allavega, lestur, Aldís?

Aldís: Já, hvað lestur varðar þá skammast ég mín að viðurkenna það að ég les ekki nærri því jafn mikið og mig langar til, vegna þessa setti ég mér mjög einfalt markmið um 17 ára aldurinn: Að lesa bara “meistaraverk” (og handritin hans Ægis, aka: meistaraverk). Ég hef staðið við þetta markmið og yfir árin náð að vinna á mörgum af helstu meistaraverkum ritsögunnar.

SN: Úff, meistaraverk. Hljómar í senn æðislega og mjög þreytandi. Ég tek ofan fyrir þér.

Og svo síðast en ekki síst: stígðu keikur og heill inn í ráðuneytið, kæri Jón Magnús, hver er uppáhalds-líkamsræktin þín og hvort ertu meira fyrir te eða kaffi? Hverjir eru draumar þínar um framtíð Skandala — og framtíð þína sem einstaklings?

Jón Magnús: Hallú! Ég hef aldrei komist upp á lagið með kaffi og er því vart gjaldgengur í mannlegu samfélagi, hvað þá í skáldasamfélagi. Nema kannski í Englandi. Þar gæti ég sötrað mitt te í skömm. Þegar ég er ekki að arka um Þingholtin í mínum sjö mílna skóm eða veltast um sullsveittur með hálfnöktum karlmönnum þá er ég að vörka axlirnar með því að halda uppi byrðum heimsins. Cue fiðla. Eða fótsveppur. Framtíð Skandala flýgur og fellur með viðtökum lesenda svo ég ætla að leyfa spádómskúlunni að kúra undir sínu fjólubláa flaueli þar til fyrsta tölublað er komið út. Draumurinn væri samt auðvitað Nína. Vonandi á ég mér ekki framtíð sem einstaklingur. Þrái samveru.

SN: Nú langar mig að skjóta á ykkur nokkrum spurningum og þær mynda hlaðborð, fyrstur kemur, fyrstur fær (að svara). Þið megið endilega rífast og vera ósammála og eins svara sömu spurningunni tvívegis, þrívegis o.s.frv.

Fyrsta spurningin er alltof löng (ég virðist eiga það til að spyrja spurninga sem eru lengri en svör viðmælanda en ég skammst mín ekkert fyrir það) og svolítið klaufalega orðuð af minni hálfu en ég læt bara vaða:

Það loðir svolítið við samtímann, þar sem allir eru sítengdir og mögulegt er að slátra orðspori fólks á nokkrum klukkustundum í gapastokki internetsins, að ólíkar skoðanir fá ekki að mætast og skarast með tilheyrandi neistaflugi á gefandi hátt. Þess í stað lokast fólk af í loftlitlum bergmálshellum og þær skoðanir, sem fá mest læk, heyrast hæst. (En marglækaðar skoðanir/yfirlýsingar eru óhjákvæmilega oft svolítið óhugaverðar og klénar enda bókað að þær eru fyrirséðar og „réttar“ — annars fengju þær ekki svona mörg læk. Eða hvað?) Allavega, kannski er þessi súmmering mín bara klisja og bull? Ég held í hið minnsta að eitthvað sé til í henni…

Og ef svo er, þá óttast ég að þetta umhverfi ógni svolítið listsköpun. Við erum hætt að geta aðskilið sköpunarverk fólks frá persónu þess; ef leikstjóri kvikmyndar er staðinn að því að vera karlremba má ekki lengur fíla bíómyndirnar hans, jafnvel þó að leikstjórinn hafi til að mynda alist upp í allt öðru umhverfi en samtímans, fyrir fimmtíu árum, og óhjákvæmilega litast af því. Við trúum ekki á fyrirgefninguna, aðeins fordæminguna.

Og ekki nóg með það, eins þurfum við að passa okkur sérstaklega á því hvað við fílum, sem einstaklingar. Mér skilst að nú sé vafasamt að fíla listaverk nema þau hafi verið búin til af óflekkuðum einstaklingum. Það má til dæmis ekki lengur hlusta á Michael Jackson. Woody Allen hefur verið settur út af sakramentinu (hann hafði mikil áhrif á mig þegar ég var unglingur — bíómyndirnar hans. Og mér finnst erfitt að mega ekki lengur viðurkenna það.)

Eins má ekki lengur hlusta á Morrissey, sem lýsti nýlega yfir stuðningi við einhver öfgahægrisinnuð öfl. Það hefur hins vegar aldrei vafist fyrir mér hvort Morrissey er hálfviti eða ekki. Hann er hálfviti. (Reyndar hef ég aldrei hitt hann og því tæpt af mér að tefla fram öðrum eins sleggudómi.) Að því sögðu, þá var The Smiths ein uppáhaldshljómsveitin mín þegar ég hlustaði enn skipulega á tónlist. Plús að einmitt vegna þess að Morrissey er svolítill hálfviti finnst mér hann áhugaverður listamaður og áhugaverðari en þeir sem eru skotheldir, siðferðilega, og viðhalda geðþekkri birtingarmynd í fjölmiðlum. Morrissey er mannafæla, hefur tilhneigingu til þunglyndis, les mikið af bókum, lýsti einu sinni kóngafólki Englands sem „despicable people“ (sem mér fannst æðislegt) og nú vekur hann máls á því, með kannski svolítið klaufalegum hætti, að honum sé annt um menningu fæðingarlands síns. En það má ekki lengur; alþjóðlega gæskuhyggjan bannar slíkt og kallar það rasisma og þjóðernishyggju.

Sjálfur hef ég ekki gáfur til að mynda mér skýrar skoðanir á jafn stórum málefnum og næ ekki að súmmera upp þessar hugmyndir nema á afar yfirborðskenndan og flatan hátt. Ég er utangátta, lifi á vissan hátt fyrir utan líðandi stundu og hef, meðal annars af þeim sökum, aldrei sett samasemmerki á milli persónu listamanns og verka hans. Um leið er ég þó ekki svo skyni skroppinn að ég átti mig ekki á því að t.Ægird. hvítir karlmenn hafa löngum haft miklu greiðari aðgang að kapítali til að framleiða listaverk en t.d. flestar konur og ýmsir minnihlutahópar (þetta er þó aðeins að breytast til hins betra).

En sem sagt… Mér leikur hugur á að heyra hvaða skoðun þið hafið á þessu:

Oddný: Ég held að ég tali fyrir alla þegar ég segi að sambærilegar vangaveltur um tengsl listamanns við verk sín, sem og tengsl einstaklingsins við ímynd sína á opinberum vettvangi séu uppspretta vonar okkar um að Skandali geti þjónað sem vettvangur fyrir persónulegri tengsl milli listamanna og listunnenda. Skilin milli þessarra hópa þurfa ef til vill ekki að vera jafn skarplega dregin og í raun tíðkast. Satt að segja stendur mér á sama hvort fólk metur listaverk út frá siðfræðilegum-, — pólítískum eða einhverjum öðrum sjónarmiðum, svo lengi sem það telur aðra ekki verða að gera slíkt hið sama. Þetta eru mikilvægar spurningar sem verða ekki útkljáðar í eitt skipti fyrir öll og ættu því frekar að verða uppspretta að góðum samræðum. Við viljum hvetja fólk til þess að ræða eigin list og annarra, hvers vegna hún er list. Við erum öll svo ólík, kannski ef fleiri muna það búa fleiri til list. Ég vil allavega að meiri áhersla sé lögð á að fólk finni út hvað þeim finnist flott með því að búa það til, en að menn þurfi fyrst að að verða ´listunnendur’ til þess að yfirhöfuð mega reyna.

Aldís: Ég tæplega meika þetta umræðuefni og þó er það rauður þráður í flestum verkum mínum og eitthvað sem ég hef gríðarlegan áhuga á, sér í lagi á Íslandi þar sem við erum svo agnarsmá þjóð að ómögulegt er að fela sig í fámenninu. Skýrt og nýlegt dæmi um það er t.d. Ný-uppgvötaður “leyniaðgangur” leikarans Þóris Sæmundar á twitter, þar sem hann var undir nafninu @BoringGylfiSig. Hvað er langt síðan að málið með hann var í loftinu? Hverjum er ekki sama þó maðurinn haldi uppi einhverjum twitter aðgangi í leyni, fær maðurinn bara aldrei að vera í friði héðan af með nokkurn skapaðan hlut? Það er spurning. Er efnið sem hann deilir sem @BoringGylfiSig raunverulegur hugarheimur hans, eða bara eitthvað sem honum finnst fyndið? Nú ef honum finnst eitthvað fyndið, hversu mikið segir það um hans innstu hugarfylgsni?

Íslenskir bergmálsklefar eru mjög athyglisvert fyrirbæri og í litlu samfélagi er það algjör broddur að setja óheflaðar skoðanir sínar á netið, hvað þá að vaða út í ánna sem tröll. Til þess þarf eitthvað sem ég sjálf skilgreini ekki sem hugrekki, heldur klárt “don’t-give-a-fuck” viðhorf. Enda er ég persónulega bönnuð frá öllum íslenskum feminista-grúppum sem ég hef fundið (ég tek það fram að ég er 100% feminisi, ég einfaldlega berst gegn bergmálsklefum) og er þekkt sem tröll á mörgum af stærri grúppum þjóðarinnar og er gjarnan sökuð um að vera gervi-prófíll.

Mikið af minni myndlist er ekki bara gríðarlega persónuleg heldur hefur beina skírskotun og styðst jafnvel við myndefni úr mínu persónulega lífi, ég vinn með sjálfa mig, mínar upplifanir og hugarheim að mestu leyti. Ég get ekki séð hvernig sköpun ætti að koma annarsstaðar frá en úr eigin hugarheimi og ætti því með einhverju móti teljast sem einskonar speglun af listamanninum.
Það er þó ekki þar með sagt að dæma eigi listamanninn út frá verkum hans/hennar því eins og ég segi, þau eru speglun en ekki frummynd, stundum af listamanninum sjálfum, stundum af einhverju sem grípur áhuga hans/hennar. Hvað grípur áhuga okkar skilgreinir okkur ekki sem manneskjur, sögur munu alltaf bara vera sögur og myndir segja kannski meira en 1000 orð en mynd er þó bara stundarbrot. 1000 orð tekin úr samhengi.

Við veltum okkur of mikið upp úr syndum og sorgum annarra. Þær koma mér ekki við.

Tanja: Ég skil þá sem sniðganga verk listafólks sem hefur á einn eða annan hátt brotið af sér en ég skil líka þá sem gera það ekki, hef fengið ágætis rök fyrir hvoru tveggja. Sjálfri hefur mér ekki tekist að taka afstöðu til málsins, ég er þarna einhvers staðar fljótandi mitt á milli, kannski af því að mér finnst heimurinn ekki vera jafn svartur og hvítur og margir vilja meina að hann sé.

SN: Má maður t.d. fíla listaverk eftir skrímsli? Eftir einhvern sem er „vondur“?

Ægir: Fólk getur verið gott eða vont (þó það sé yfirleitt frekar hvorki né), en listaverk eru bara góð eða slæm. Vont fólk getur og hefur skapað góð listaverk og það er ekkert að því að fíla slíkt. Til dæmis eru landslagsmálverk Hitlers alveg frambærileg, ef kannski ekki framúrskarandi, en í það minnsta myndi ég ekki setja persónu skaparans fyrir mig þegar ég met gildi listaverka.

Aldís: Það segir mér enginn að allt í einu sé American Beauty orðin að slæmri mynd.

Það sagði mér maður um daginn að John Wayne Gacy hefði málað trúðamyndir. Sú umræða spratt út frá því að ég er með nokkrar slíkar uppi á vegg hjá mér. Þó ekki eftir hann. En semsagt, svo fylgdi sögunni að það væri maður nokkur sem ætti eina slíka. Geymdi hana í gestaherberginu. Svo fór það eftir skemmtilegheitum gestanna hvort höfundasaga málverksins fylgdi með áður en þau færu að sofa. Já það má. Það MÁ allt.

SN: Getur verið að dýrlingar séu ekki alltaf neitt mjög áhugaverðir?

Ægir: Margir svokallaðir dýrlingar eru reyndar ekkert sérlega áhugaverðir, í það minnsta ekki sem listamenn. Fyrir mér er það frekar einmitt persónueinkenni slíkra einstaklinga sem ég set fyrir mig þegar ég met list, frekar en einkenni þeirra sem fólk gæti kallað “illa”.

Í sambandi við listamenn og hvað má og hvað ekki sat ég einu sinni með fjölskyldu þar sem aldursbilið var 80 ár að horfa á íslenskt uppistand í sjónvarpinu og það var hlegið jafn mikið á báðum endum. Þar myndi ég segja að viðkomandi væri orðinn svo „safe” í sínu gríni að jaðrar við dýrling. Virkar það? Já. Er það mikil list? Neinei ekkert svo.

SN: Eru dýrlingar miklu áhugaverðari en djöflar?

Ægir: Veit ekki með það, en Bukowski er klárlega áhugaverðari en Evelyn Waugh.

SN: Hah! Er það samt? Ég á fimmtíu bækur eftir Bukowski (án gríns: ég var heltekinn af honum á táningsárunum) en dró einmitt út úr hillu af algjörri rælni á japönsku gistiheimili í gær bók eftir Evelyn Waugh og stakk niður í tösku. Hlakka til að lesa hana, ætlaði að gera það í næstu viku.

Aldís: Persónulega tel ég dýrlinga vera grunna falsguði, og djöfla flóknari, raunverulegri og betri að öllu leyti.

SN: … eða nei, þessi bók er ekki eftir Evelyn Waugh heldur Eudora Welty.The Optimist’s Daughter. Vúps. Afsakið ruglingin (og frammíköllin). Og já, kannski erum við öll djöflar?

Hvað finnst þér, Tanja?

Tanja: Það allra, allra áhugaverðasta eru djöfullegir dýrlingar.

SN: Já, þurfa listamenn ekki einmitt að geyma í sér öfgar og ólíka póla — bæði skrímsli og dýrling, illsku og gæsku, greddu og yfirvegun — til að geta endurspeglað heiminn?

Ægir: Öfgar sannarlega hjálpa við að skapa áhugaverð sjónarhorn á heiminn. Sönn snilligáfa þarf mögulega að búa yfir öllu en okkur hinum dugir stundum greddan til þess eins að skapa eitthvað allnokkuð sniðugt.

Við geymum öll í okkur allt ofantalið. Fer allt eftir sjónarhorni. Persónulega tel ég engan illan, sama hversu illt athæfið. Að valda öðrum skaða er alltaf byggt á ótta og vanlíðan. Stundum hættulegri heimsku. Að vinna úr skaða er flóknara. List getur dýpkað eða sundrast sjálf vegna ólíkra póla. Ginnungagap und alles.

SN: Þarf maður að vera pólítískt kórréttur til að hljóta brautargengi a) í heiminum í dag, b) hjá Skandala?

Ægir: a) Nei, en það hefur oft hjálpað, þó ekki endilega þessa stundina (sbr. Trump og co). b) Klárlega ekki.

SN: Á eitthvert ykkar sér eftirlætis-ljóðabók? Jafnvel ljóðlínu?

Ægir: Ég á mér nokkrar eftirlætis ljóðabækur. Fremstar meðal jafningja í íslensku deildinni eru Ræflatestamentið og Veggfóðraður óendanleiki eftir Ísak Harðarson. Í enskunni, Howl and Other Poems eftir Ginsberg. Ég á þrjár ljóðlínur sem eru nógu uppáhalds til að vera flúraðar á húð mína. Tvær þeirra eru „These fragments I have shored against my ruins“ úr The Wasteland T.S. Eliots og „Though lovers be lost love shall not“ úr And Death Shall Have No Dominion eftir Dylan Thomas. Þriðja línan er leyndó.

Jón Magnús: Dead MC Scrolls eftir Saul Williams. Brill stöff. Svo þykir mér fyrsta ljóðabók Halldórs Halldórssonar (Dóra DNA) með því betra. Alveg ótrúlega sönn og sár.

Tanja: Ein af fyrstu þremur bókum Einars Más. Man þó ekki hver þeirra og get ekki komist að því þar sem ég gaf hana frá mér í tilraun til mínímalísks lífstíls (mistök sé ég núna). Uppáhalds ljóðlínu, nei, held ekki. En uppáhalds ljóð, það er einhvers staðar í uppáhalds bókinni. Eitthvað um hagfræði og kartöflur og guð ef mig misminnir ekki.

Aldís: Úrvalsrit Gríms Thomsen er í miklu uppáhaldi hjá mér og Skólaljóðin fylgja mér yfirleitt flest sem ég fer. Ég er mjög hrifin af öllu eftir ísak Harðar og Jóhannes úr Kötlum. Svo finnst mér vert að nefna bók Ásgeirs H. Ingólfssonar, Framtíðin. Að lokum nefni ég Alþingisrímur sem er mjög áhugaverður ljóðabálkur (sér í lagi sjöundu rímu, Bakkusarríma).

SN: Hvor tilfinningin er betri: a) að ná augnsambandi við manneskju á skemmtistað og skynja gagnkvæma hrifningu og hugsanlegt hjónaband í framtíðinni, b) að ljúka við síðustu blaðsíðuna í framúrskarandi skáldsögu og finna þessa stóru, hlýju, alltumvefjandi tilfinningu gagntaka sig þegar allt kemur heim og saman í frásögninni?

Jón Magnús: Að láta hverjum degi nægja sína þjáningu er líka nokkuð magnað.

Tanja: Er það ekki sama tilfinningin?

Aldís: Er það eitthvað sem fólk er að upplifa?

SN: Já, ég hef það eftir áreiðanlegum boðleiðum, Aldís, að þetta sé mjög algengt.

En hvert ykkar er að lesa snilldarbók þessa dagana og vill gauka ábendingu að fróðleiksfúsu samfélagi Leslistans?

Ægir: Ég hef eiginlega ekki haft tíma til að lesa undanfarið. Er nýbyrjaður á Heimsljósi, sem er síðasta stóra Laxness bókin sem ég átti alltaf eftir. En þar sem ég sit hér í rúminu og horfi á bókahilluna dettur mér í hug að ég mæli aldrei nóg með smásögum J.G. Ballards, heildarsafn smásagna hans er ein besta bók sem þú getur eignast.

Tanja: Ég var að ljúka við Skegg Raspútíns eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur, setti hana beinustu leið í Við mælum með hilluna á bókasafninu. Svo verð ég að nefna Karitas án titils og Óreiðu á striga eftir Kristínu Mörju Baldursdóttur þó ég sé ekki að lesa þær. Magnaðar bækur. Ættu að vera skyldulesning.

Jón Magnús: Var að klára Kalak eftir Kim Leine. Svakaleg sjálfsævisaga þar sem heiðarleikinn blívur og ekkert verður samt.

Annars mæli ég heilshugar með The Amazing Adventures of Cavalier and Clay. Stórkostleg Pulitzer bók. Svo auðvitað One Day.

SN: Já, þær tvær eru góðar. Næsti?

Aldís: Ég er að klára síðustu tvo kaflana í bókinni The Spiders House eftir Paul Bowles (meistaraverk). Ég keypti hana á ferðalagi um Marokkó, nánar tiltekið í Tangier þar sem bókin er skrifuð, og hef ekki náð að klára hana. Bowles var staddur í Marokkó á mjög viðkvæmum tíma (1952–54) og skrif hans tóku mikinn lit af ástandinu. Hann rembist við að skrifa skáldsögu og byggja bókina ekki á sjálfum sér en þrátt fyrir það fjallar bókin um rithöfund, búsettan í Marokkó á þessum erfiða umbrotstíma. Bara forkaflinn frá Bowles er ótrúlega merkilegur.

SN: Hvert er áhugaverðasta hlaðvarp samtímans og hvers vegna? (Eða á maður kannski ekki að hlusta á hlaðvarp?)

Ægir: History in the Bible og Literature and History. Allir eiga að kunna skil á bókmenntaarfi vestrænnar menningar og þá sérstaklega Biblíunni, sérstaklega trúleysingjar einsog ég. Og allir mættu hlusta meira á útvarp.

Jón Magnús: Maður á svo hundrað prósent að öllu leyti að hlusta á hlaðvarp. Jafnvel horfa á það. Ég er ákafur talsmaður þess og ég sver, í alvörunni, að einn daginn mun ég gera það. Þetta er einn af mínum stóru draumum, að ég muni bara einn daginn smella og fara að hlusta því mig langar mjög til þess. Enn hefur þó ekkert gerst í þeim efnum þrátt fyrir endalausar ábendingar fólks sem ég met mikils. Skileggi.

Tanja: Er nýlega farin að hlusta á hlaðvörp, kunni ekki að meta þau fyrr en ég fann Normið. Ég get ekki farið að fullyrða að það sé áhugaverðasta hlaðvarp samtímans þar sem ég hef ekki hlustað á nema þrjú önnur en það er klárlega áhugavert. Skemmtilegt. Fyndið. Gott fyrir drifkraftinn og sálina.

SN: Já, þú trúir sem sagt á sálina, Tanja? Mikið gleður það mig að heyra.

Hvaða bók ætti að vera skyldulesning í a) grunnskóla, b) menntaskóla svo að krakkar og unglingar fatti hvað skáldskapur getur verið mikill snilld, að bækur eru í raun frumafl lífsins? Ég veit að krakkar eru þyrstir í að lesa eitthvað hresst sem þeir tengja við, en ég óttast að slíkt efni sé ekki alltaf borið á borð fyrir þá í kennslustofum landsins.

Aldís: The Razor’s Edge eftir W. Somerset Maugham ætti að vera skyldulesning í kringum 16–17 ára aldurinn og jafnframan alla sem einhverntíman upplifa lífskrísu, óvissu um sjálfa sig og stefnuleysi.

Jón Magnús: a) Falskur fugl, b) Fear and Loathing In Las Vegas.

Tanja: Ég veit ekki með grunnskólann en myndi segja Karitas án titils og Óreiða á striga fyrir menntaskólann, bara af því að það eru uppáhalds uppáhalds bækurnar mínar. Á sama tíma held ég samt að það sé of persónubundið hvað hrærir í fólki til að hægt sé að nefna bara tvær bækur. Það sem kveikir áhugann, kveikir skilninginn á snilldinni, hjá einum gerir það ekki hjá öðrum og þriðja og það sem kveikir það hjá öðrum og þriðja gerir það ekki hjá fjórða og fimmta.

SN: Er mikilvægt fyrir ritstjórn (and)menningartímarits að ganga einungis í jökkum eða annars konar yfirhöfnum með vösum sem rúma minnst eina bók? Eða eiga meðlimir ritstjórnar alltaf að vera með hliðartösku?

Ægir: Ég hef reyndar tekið uppá því í seinni tíð að ganga oft með hliðartösku, en það er aðallega því ég skipti úr minnstu bókunum í þessar aðeins stærri sem rúmast illa í vösum jafnvel á bestu frökkum. En annars eru krakkarnir allir farnir að hripa bara á símana sína, ég bekenni það ekki.

Aldís: Ég er alltaf með tvær litlar veraldir í vösunum á gallajakkanum sem ég geng hvað oftast í, stundum leynist þar bók, en því miður oftast bara eitthver vitleysa sem skilur eftir lítið pláss fyrir jafnvel litla kilju.

Jón Magnús: Einu sinni var ég skoppari og aðeins skoppari. Svo þroskaðist ég lengra (sorrí rapp) en í þá daga voru buxurnar svo baggy að það komst hæglega fyrir ein A5 í rassvasann til skrifa. Nú eða skrifta. Ég á þær allar ennþá (eins og raunar hvern snepil sem hef párað á) og loks verða þær gefnar út að mér látnum og fólk mun híja og hæja og skilja betur hvaðan ég kem.

Tanja: Vil helst ekki ganga um með neitt nema sjálfa mig.

SN: Almennilegt.

En hver er að ykkar mati besti íslenski höfundur 16. aldar? Nei, bara djók — myndarlegasti íslenski höfundur 16. aldar? Nei, líka djók. Spurningin er í raun þessi: Hvaða íslenski 16. aldar höfundur hefur haft djúpstæðust áhrif á ykkur sem hugsandi verur og einstaklinga?

Nei, nei, ég er að rugla. Það sem mig langar að vita er þetta:

Ein sterkasta minning mín frá því þegar ég bjó í París fyrir mörgum árum var að mæta í partí til vinkonu minnar og taka eftir því að fólk mætti með vín eða bjór að gjöf — og bækur. Einn gaur gaf vinkonu minni skáldsögu eftir W.G. Sebald og hún sagði bara, mjög hversdagslega: Geðveikt, takk!

Þetta hafði ég aldrei séð gerast á Íslandi. Mig grunar að margir gestgjafar í íslenskum partíum hefði kýlt mig ef ég hefði gefið þeim bók eftir þýskan rithöfund.

Eins tíðkaðist aldrei, þegar ég var yngri, að fólk mætti með vínflöskur og legði í púkk. Að allir deildu öllu. Þvert á móti: það ríkti eins konar andhverfuástand örlætisins. Fólk öskraði úr stofunni inn í eldhús: „Þetta er bjórinn minn!“ ef maður opnaði ísskápinn og renndi augunum yfir innihaldið. Eða þá að hinir slægustu földu vodkaflöskuna sína í fatahenginu svo að fulli, vandræðalegi vinurinn kláraði hana ekki líkt og helgina áður.

Haldið þið að menningin á Íslandi hafi batnað að þessu leyti? Gefa upprennandi vitsmunaverur í Reykjavík gestgjöfum sínum í partíum núorðið bókmenntir? Og deila menn núorðið með sér víninu?

Ægir: Mér er aldrei boðið í partý lengur því ég er vandræðalegi gaurinn sem klárar alltaf áfengi hinna 😦

SN: Leitt að heyra en þú getur sjálfum þér um kennt, Ægir.

Tanja: Það telst til tíðinda ef ég fer í partí, er yfirleitt farin að sofa áður en þau byrja. En í þau fáu skipti sem ég hef ákveðið að vaka fram eftir fyrir partístand hef ég aldrei orðið vitni að því að gestgjafinn fái bækur, eða bara gjafir yfir höfuð. Víninu er aftur á móti bróðurlega deilt, hef aldrei heyrt neinn hrópa „Þetta er bjórinn minn!“. Þó oft „Viltu sopa?“.

Aldís: Ég er nýkomin heim frá langri dvöl í Barcelona og hef ekki hætt að tala um hvað þetta er æðislegur partur af menningunni þar og algjörlega það sem heillaði mig mest við lífið úti. Hægt og rólega er þetta að breytast hér heima og það er munur á þessum málum á milli hópa. Ég hef reyndar bæði gefið og fengið að gjöf bækur í partíum hér heima, en íslendingar eru oftast nokkuð nískir á vínið nema viðkomandi eigi nægan pening, hópurinn hafi keypt saman eða sé vanur að deila almennt mikið. Nú eða ef einstaklingur er markvisst að tæma vínskápinn eins og ég t.d. gerði áður en ég fór út.

Jón Magnús: Einu sinni gaf ég gömlum vini tölusett eintak af ljóðabók Dags Sigurðssonar, Níðstöng hin meiri, á góðri sumbl stundu. Djöfull svíður það enn. Ætli ég hafi ekki líka skenkt honum bjór, helvítinu á honum.

SN: Haldið þið að í kringum Skandala sé að þéttast saman hópur höfunda, líkt og einu sinni gerðist í kringum Nýhil og Nykur (ef þið munið eftir þessum fyrirbærum), eða jafnvel Birting, svo að farið sé lengra aftur í tíma? Nýlegra dæmi, þó að aðeins öðrum toga, væru Meðgönguljóð. Deilið þið, sem hópur, einhverjum fagurfræðilegum útgangspunktum? Eða sameinist þið bara í glundroðanum og sköpunargleðinni?

Ægir: Það er aðeins of snemmt að svara þessari spurningu svo vel sé (og já, ég er nógu gamall til að muna eftir þessu öllu, nema kannski Birting). En ég vil gjarnan sjá þá þróun eiga sér stað. Vandinn er að við sem núna myndum hópinn deilum ekkert endilega fagurfræðilegum útgangspunktum, eða, það hefur ekki verið farið sérstaklega náið í það mál. Þetta stendur til bóta og markmiðið er að skerpa mjög á hugmyndafræði blaðsins í aðdraganda næsta tölublaðs. Þá vonandi sjáum við betur hvar við stöndum nákvæmlega og hvaða breytingar þurfa að eiga sér stað svo við getum skapað okkur sérstöðu. Hingað til hefur þetta verið fremur kaótískt, og ég vil raunar gjarnan halda því þannig að einhverju leyti, en að því sögðu sé ég æ meira hvað þarf að bæta í þessum efnum til þess að þetta verði ekki endasleppt verkefni.

Aldís: Ég virkilega vona að það verði til þess að myndist einhverskonar net, já.

Tanja: Ég segi eins og Aldís, ég vona að einhvers konar net verði til í kringum þetta. Finnst algjör óþarfi að allir innan þess deili fagurfræðilegum útgangspunktum, eiginlega þætti mér það verra. Ef allir eru alltaf á sömu blaðsíðu held ég að sköpunargleðin myndi staðna.

SN: Tek undir það — ég vona að við séum sem öll á gjörólíkum blaðsíðum. Af nógu er líka að taka.

Takk kærlega fyrir spjallið, kæri Skandali, og gangi ykkurvel. Ég hlakka til að fá fyrsta tölublaðið í hendurnar.

Bækur, 24. maí 2019

Var Tolstoy mesti og besti rithöfundur allra tíma? Hugsanlega. Ég er að lesa þriðju stóru skáldsöguna hans, sem í enskri þýðingu Anthony Briggs nefnist Resurrection, en gæti – líkt og þýðandi bendir sjálfur á í formála – eins borið sama titil og ein þekktasta skáldsaga kollega Tolstoys og samlanda: Glæpur & refsingUpprisa er mögnuð bók og ég skil ekki hvers vegna ég hef aldrei lesið hana fyrr. Ætti maður kannski einungis að lesa rússneskar 19. aldar bókmenntir? Ungur maður á stuttan ástarfund með ungri konu og yfirgefur hana svo í leikfléttu sem ekki er beint til fyrirmyndar. Átta árum síðar er okkar maður skipaður í kviðdóm til að dæma í máli fyrrnefndrar konu. Upp úr dúrnum kemur að skömmu eftir ástarfundi þeirra (og þungun konunnar) seig á ógæfuhliðina hjá henni og síðustu árin hefur hún starfað sem vændiskona í alræmdu gleðihúsi. Nú hefur hún verið sökuð um bæði rán og morð (saklaus). Ungi maðurinn, mikill nautnaseggur, landeigandi og gleðigosi sem tilheyrir forréttindastétt (ólíkt konunni) kennir í brjósti um hana og ákveður að bæta ráð sitt og reyna að forða henni frá dæmdri refsingu (áralangri erfiðisvinnu í Síberíu) með því að giftast henni. Margir hafa borið Tolstoy á brýn að vera of predikandi og siðvandur í framsetningu sinni á söguefninu – bókmenntapáfar hafa ýmist hafið verkið til skýjanna eða traðkað það niður í svaðið – en mér finnst hann hitta á hárréttan tón enn sem komið er. (Búinn með þriðjung og get ekki beðið eftir að komast í framhaldið.) Tolstoy gaf Upprisu út undir lok ritferilsins og hún hefur jafnan fallið í skuggann af hinum stóru skáldsögunum hans, Önnu Karenínu og Stríð & friði. Kannski engin furða, enda er þar um að ræða tvær þekktustu og lofuðustu skáldsögur allra tíma. En jafnvel aukaafurðir Tolstoys skara auðvitað fram úr bestu verkum flestra annarra höfunda. (SN.)

Ég hef eina lesreglu sem ég held alltaf í heiðri. Hún er að ef maður er einhvern tímann í vafa um hvað maður á að lesa næst – þá les maður smá Borges. Ég vissi ekkert hvað ég átti að lesa í vikunni þannig að ég greip í enska þýðingu á verkum hans sem nefnist A Personal Anthology og er úrval verka eftir hann sem hann valdi sjálfur – á víst að vera svona persónulegt Best of Borges. Þar eru smásögur, ljóð og ritgerðir eftir hann sem eru að sjálfsögðu allar frábærar en ég mæli með því að kíkja á þær ágætu íslensku þýðingar sem eru til á verkum hans ef maður hefur ekki kynnt sér hann áður. Ég rak sérstaklega augun í eina ritgerð eftir hann sem ég held ég hafi ekki lesið áður; á ensku nefnist hún The Modesty of History (á spænsku El pudor de la historia) en ég veit ekki til þess að hún hafi verið þýdd á íslensku. Íslendingar koma hins vegar við sögu í þessari ágætu ritgerð sem fjallar um söguna og hvernig helstu viðburðir sögunnar eru mun smærri í sniðum en margir kynnu að halda. Hér er ágætis bútur úr ritgerðinni (þ.e. enska þýðingin): “I have suspected that history, real history, is more modest and that its essential dates may be, for a long time, secret. A Chinese prose writer has observed that the unicorn, because of its own anomaly, will pass unnoticed. Our eyes see what they are accustomed to seeing. Tacitus did not perceive the Crucifixion, although his book recorded it.”(KF.)

Af netinu, 24. maí 2019

Það er orðið býsna vinsælt að hata bandaríska myndlistarmanninn Jeff Koons. Hér er ágæt grein honum til varnar.

Það virðist vera ráðlegt að fjárfesta í góðum listaverkum eftir konur. Samkvæmt þessari rannsókn eru konur markvisst undirverðlagðar á listmarkaðnum.

Fyrir um 50 árum síðan hurfu 180.000 hvalir af yfirborði jarðar. Kristján Loftsson var orðinn nógu gamall til að standa á bak við þetta skrítna mál leiðir en þessi forvitnilega grein leiðir í ljós að hann kom þar hvergi nálægt.

Skemmtileg grein um Mozart.

Hvernig á maður að gera erfiða hluti? Hér er góð nálgun.

Dyggir lesendur Leslistans vita að ég hef bara fjögur áhugamál (fjölskyldan mín telst ekki með sem áhugamál ef einhver var að pæla í því): myndlist, bækur, viðskipti og njósnir. Fannst gaman að lesa þennan ágæta lista yfir fimm bestu bækurnar um njósnir.

Við minntust á grein um daginn þar sem lausapenni kvartaði yfir því hversu erfitt það er að lifa á skrifum í tímarit. Hér er grein sem fer yfir þá sem græða mikinn pening á tímaritaskrifum.

Hér er fín grein sem fjallar um af hverju það skiptir máli hvernig við segjum hlutina.

Hér er árlegur listi Bill Gates fyrir bækur sem hann mælir með fyrir sumarfríið. (KF.)

Ég rakst á þessa yndislegu grein um lunda á Vísindavefnum. Ég vildi óska að til væru jafn yfirgripsmiklar og vel skrifaðar greinar um allt milli himins og jarðar á netinu – á íslensku.

Var Susan Sontag skrímsli?

Minnið er eldsneyti ímyndunaraflsins, og þar með skáldskaparins. Hér er grein sem fjallar einnig um minnisgáfu – en ekki reyndar manna heldur ísbreiðunnar. (SN.)


Fyrir augu og eyru:

The Intercept nefnist óháður fjölmiðill sem leggur sig í líma um að sinna dýpri rannsóknarblaðamennsku en flestir smáir fjölmiðlar hafa tök á að gera í dag. Hlaðvarpið þeirra nefnist Intercepted og ætti að falla þeim sem hafa ótæmandi áhuga á bandarískri pólitík, heimsmálum, Trump og samsæriskenningum prýðilega í geð. (SN.)

Ráðunautur Leslistans: Birnir Jón Sigurðsson

Ljósmyndari: Leifur Wilberg

Sverrir Norland: Kæri Birnir Jón Sigurðsson, hjartanlega velkominn í ráðuneyti Leslistans. Og gjörsovel, hér er ristað brauð með hunangi og tebolli, allt í lagi ef það fer mylsna á gólfið. Svo segirðu mér bara ef þú vilt að ég loki glugganum, það kemur stundum svolítill trekkur og ég vil ekki að það slái að fólki á meðan vígsluathöfnin í ráðuneytið fer fram.

Birnir Jón Sigurðsson: Takk fyrir það Sverrir, og kærar þakkir fyrir að innvígja mig. Endilega hafðu gluggann opinn, kuldinn er fínn og ferskt loft enn betra.

Ég geri það.

Meðan við hámum í okkur ristað brauð langar mig að inna þig oggulítið eftir fæðingarsögu smásagnasafnsins þíns, sem nefnist Strá og var að koma út á streymi sem bæði raf- og hljóðbók (til hamingju með það), um hvað ertu að skrifa, hefurðu alltaf skrifað, kom af sjálfu sér að skrifa smásögur?

Foreldrar mínir segja oft sögu af sjálfum mér þar sem ég er inntur eftir því hvað mig langi að vera þegar ég verð stór. Ég svara að ég ætli að verða geimrithöfundur. Þar hef ég blandað saman tveimur kostum sem mér þóttu spennandi, annarsvegar að skrifa sögur og hins vegar að fara út í geiminn. Ég hef alltaf átt erfitt með að velja mér hlutskipti, og er alltaf að skipta. Táningsárin fóru í að elta drauminn um atvinnufótboltamennsku, ég skrifaði smásögur í menntó, ætlaði svo að verða kvikmyndagerðarmaður, fór þaðan rakleiðis í leikhúsnám og gaf svo út glænýjar smásögur fyrir skemmstu. Í dag er ég hvað spenntastur fyrir að keppa í utandeildinni í fótbolta. Ég hef hinsvegar fjarlægst drauminn um geiminn, og orðið í raun heimakærari með árunum. Íslenska náttúran spilar stóra rullu í bókinni og svo heitir safnið líka eftir einni íslenskustu jurtinni, stráinu. Mér finnst Ísland vera gult strá.

Í stráinu er einhver einmanaleiki, það er hluti af heild en stingst eitt upp úr jörðinni og persónurnar í smásögunum eiga það margar sameiginlegt að vera einar. Ég fjalla svolítið um allt róf einmanaleikans, þar sem hann er þrúgandi og yfir í huggulegheitin.

Annars er bara komið auga á þessar útskýringar í baksýnisspeglinum. Þegar ég skrifaði sögurnar hafði ég engin fyrirframákveðin þemu sem mig langaði að dreypa á heldur lagði ég áherslu á að gera aðstæðurnar fyrir skrifin sem bestar. Ég mætti snemma á morgnana á bókasafn Kópavogs og markmiðið var að dvelja með andrúmsloftinu og reyna þannig að draga fram orðin. Allt annað var bannað, mér varð að leiðast. Þegar maður kemst yfir fyrstu leiðindagrindina án þess að hrasa inn í afþreyingu þá er yfirleitt hægt að komast í flæði.

En af hverju smásögur spyrðu, kom það af sjálfu sér? Ég hafði sett mér markmið um að setja mér lítil markmið. Ég hef margoft ætlað að gera risastór verk. Skáldsögur sem ná utanum heiminn, bíómyndir sem sprengja formið eða röð leikrita sem slær í gegn eftir dauða minn. Ég sá fyrir mér að geta klárað smásögu. Og það gerði ég, 6 sinnum, í þessu safni.

Áttu þér minningu, frá því að þú varst agnarlítill, af því að gömul manneskja segði þér sögu? Ef svo er, manstu um hvað sagan fjallaði og hvernig stemningin var, á hvaða tíma sólarhringsins þetta gerðist? Mæddu vindar á glugga, kom birtan frá rafljósi eða vaxkerti? Hvernig hljómaði rödd sögumannsins?

Ég og systir mín vorum að gista hjá ömmu og afa. Í árskógum 6, stóru blokkunum neðst í Breiðholtinu, á tólftu hæð. Við erum í litla herberginu inn af anddyrinu, þar sem ég og systir mín fáum að gista þegar við komum í heimsókn. Í þessu herbergi er gólfsíður horngluggi sem skagar út úr veggnum. Þar er hægt að standa og horfa til beggja átta, eða niður á jörðina fyrir neðan og líða eins og maður sé við það að detta. 12 hæðir er hátt uppi í himninum. Ef skýin hreyfast nógu hratt er maður á skipi. En á þessu tímapunkti stendur enginn í glugganum, það er myrkur úti, og jú, vindurinn hvín innum litla rifu. Amma er að reyna að svæfa mig með sögu, systir mín sofnaði alltaf langt á undan. Þetta er ljúf saga, um hund sem er voða góður. Líklega til þess að sefa mig fyrir myrkrinu. Ég var oft myrkfælinn en í þetta skiptið vildi ég aðeins meira aksjón, eitthvað fútt. Mér leiðist lullið og botna söguna “og svo kom stór úlfur og át hundinn.” Mér finnst viðbrögðin hjá ömmu ekki nægilega mikil þannig ég bæti við, með eins mikilli dramatískri áherslu og 5 ára drengur getur: “Hann var grimmur”. Ég sé að amma tekur fyrir munninn og kæfir skrítin hljóð. Vindurinn ýlfrar. “Amma” segi ég með eftirsjá yfir þessum agalegu áherslum “ekki vera hrædd”.

Síðar hef ég komist að því að þessi niðurkæfðu hljóð voru víst hláturrokur sem en ekki angistaróp.

Heldurðu að það henti okkur yngri kynslóðum (til að mynda okkur), sem alist hafa upp umkringdar sjónrænum miðlum, einkum kvikmyndum, betur að skrifa styttri sögur? Smásagan er svo náskyld kvikmyndaforminu, hefurðu skoðun á því?

Það er allt að breytast. Ég held að þessi upprisa smásögunnar sem er í gangi á Íslandi þessi árin sé nátengd nýjum athyglisháttum. Kvikmyndin er lík smásögunni í formi en ég held að fréttaveitan og litlu rauðu tilkynningarnar séu líklega stærsti þátturinn. Ég skrifaði BA-ritgerðina mína í Listaháskólanum um Athyglishagkerfið og hvernig athygli er að breytast. Stærstu fyrirtæki dagsins í dag áttuðu sig á því að þau geta gripið miklu stærri sneið af athyglisköku neytandans ef hún er skorin í marga litla bita. Fyrirtækin laumast svo í sem flestar ferðir að veisluborðinu.

Ég víla ekki fyrir mér að svara einum skilaboðum á meðan ég bíð eftir hraðsuðukatlinum en myndi hins vegar aldrei grípa í Önnu Kareninu þegar ég sit á klósettinu. Okkur finnst gott að geta klárað af disknum, við erum alin upp til þess. Við fjárfestum tíma okkar í bitanum, það er eins gott að skilja ekkert eftir. Þegar við skrollum í 10 mínútur í strætó erum við ekki að skrolla í tíu mínútur, við erum að klára að innbyrða hundrað og tíu upplýsingabita og komum út með hreinan disk. Anna Karenína er eins og páskaegg sem klárast ekki fyrr en í júní. Þetta beintengist inn í það sem ég sagði áðan, litlu markmiðin. Að klára er eftirsóttara en að dvelja. Ég held að ótti við slæma tímafjárfestingu komi sterkt inn í þetta. Tíminn og athyglin hefur aldrei verið verðmætari, ef þú byrjar á smásögu sem þú klárar ekki er minni skaði skeður en með skáldsögu. En kannski er ég að koma svartsýnt að þessu. Mér finnst smásagan líka æðisleg. Smásagan er lítill biti af persónu sem þú nartar. Bragðið er í fyrirrúmi en ekki magafyllin. Smásagan er eins og tapas á meðan skáldsagan er sunnudagslærið.

Áttu þér höfunda sem þú heldur sérstaklega upp á? Eða aðra listamenn?

Það eru tveir höfundar sem stökkva fyrst upp í hugann. Andri Snær Magnason og Kristín Eiríks. Ég virðist aðallega laðast að íslenskum höfundum, ég veit ekki hvers vegna, eða jú, ég veit það, þau skrifa á íslensku, ég elska íslensku. Þau eru gífurlega ólík þessi tvö, hugmyndirnar hans Andra festast utanámér en ég límist inn í sögurnar hennar Kristínar og get ekki hætt. Þau eiga bæði gjörsamlega frábær smásagnasöfn sem voru mikill innblástur fyrir Strá, Sofðu ást mín og Doris Deyr. Svo komu þrjú smásagnasöfn út í fyrra sem hafa að geyma geggjaðar sögur, Kláði; Ástin, Texas og Keisaramörgæsir. Út fyrir ritlistina eru sænsku kvikmyndagerðarmennirnir Ruben Östlund og Roy Anderson í miklu uppáhaldi. Reyndar sá ég Q&A með Roy Anderson á Spáni um daginn þar sem verið var að sýna Du levande. Hann mundi enga punkta, hitti ekki í míkrófóninn og fattaði ekki að hann var að klóra sér í pungnum fyrir framan fullan sal af fólki. En hann var ótrúlega spenntur fyrir nýju myndinni sinni.

Hvaða staður á jörðinni hefur dularfullt aðdráttarafl á þig?

Fögrufjöll við Langasjó. Þar er einhver djúpur kraftur. Hann smýgur inn í þig og kitlar þig þannig að allt verður fallegt. Ég get ekki lýst því miklu öðruvísi. Maður hlustar bara á þögnina, horfir yfir jökulinn og brosir.

Hvað felst að þínu mati í því að vera ungur Íslendingur árið 2019, ef eitthvað?

Er sú ristaða súrdeigsbrauðsneið, sem er tilvist okkar yngri kynslóða, smurð með næringarsnauðu viðbiti útflattrar alþjóðamenningar — Netflix, lággjaldaflugi, kaffihúsum sem öll líta eins út og selja avókadóbrauð, sömu samfélagsmiðlum, þykjustudjúpum þáttum á borð við Black Mirror, afþreyingarmenningu sem boðar einsleitni og leitast við að skapa keimlíka neytendur, sem selja má sömu vörurnar, jafnt í Kaliforníu, á Reyðarfirði og í Mexíkóborg — eða er enn til eitthvað sem kalla mætti þjóðmenningu?

Það sem ég á við: Ég held að menning sé alltaf bundin stað, lókal fyrirbæri, og henti illa til útflutnings eða túristavæðingar (og deyi raunar í slíkum árekstri) og það umhverfi, sem við búum í auknum mæli við, litist meira af afþreyingargildum (selja sem flestum) en sannri menningu (sem er, eða var einu sinni, spegill sjálfsmyndar). Menning (kúltúr) er ekki söluvara heldur verður til, í samfélagi manna, yfir langan tíma. Í dag virðast fyrirtæki og afþreyingarveitur hins vegar svolítið vera að taka yfir þetta hlutverk, og litlum kúltúr á borð við Ísland, sem stendur slíkum risum aldrei á sporði, stendur ógn af. Sjálfstæð hugsun er ekki í tísku heldur frekar stofnanavæðing tjáningar.

Það sem ég er að rembast við að færa í orð af veikum mætti: Er tilgerðarlegt að tala enn um Íslendinga? Er Íslendingur kannski að voða litlu leyti frábrugðinn Dana eða New York-búa? Hvað gerir Íslending að Íslendingi? Stuðningur við einhverja hljómsveit í Eurovision, óp af áhorfendapöllum á fótboltaleik, rifrildi á íslensku á Twitter? Harðfisksát eftir lotu í WorldClass eða spjall við franskan túrista í heita pottinum í Vesturbæjarlaug um hvað sundlaugarkúltúrinn okkar sé mikil snilld?

Jú það virðist sem brauð smurð með Chileskum avókadóum sé orðinn þjóðarréttur milli- og efristéttarinnar. Athyglin er orðinn mikilvægasti gjaldmiðillinn og það fyrirtæki sem beytir bestu brögðunum til að krækja í hana úr hinum ýmsustu símavösum sigrar í leiknum. Lággjaldaflugfélög eru undanskilin alþjóðlegum kvótum um losun og við friðum samviskuna með því að planta niður einni hríslu eða svo — ef við nennum að finna vefsíðu og slá inn kortanúmer — en getum ekki hugsað okkur að sleppa þessari „löngu“ helgarferð sem er löngu plönuð, af því að það er ódýrara að fljúga til austur Evrópu en að taka rútuna norður. Það er skyldufag eftir menntaskóla að fara í heimsreisu — ég þekki það sjálfur — og í einhverju tölfræðisamtali heyrði ég að 83% af þeim sem ákváðu að leggja leið sýna í bíó helgina 26–28 apríl sáu nýjustu Avengersmyndina. 17% sáu eitthvað annað sem var í boði í öllum bíóhúsum heimsins. Það er starbucks-bolli í Game of Thrones og samkomur í félagsheimili Neskaupsstaðar hafa aldrei verið færri. Allsherjar herjandi alþjóðavæðing.

Ég hef einmitt verið að hugsa um þennan Lókal-kúltúr sem þú talar um undanfarið. Nú er ég listamaður í startholunum. Er ennþá í flokknum „efnilegir“ og á sama tíma hefur spurningin „til hvers er ég að gera þetta“ aldrei verið jafn ákallandi og nú á tímum loftslagsbreytinga. Ég ólst upp við þá hugmynd að ég ætti að gera hvað sem ég vildi, og ég fór í frí til útlanda á hverju ári. Nú vakar á yfirborði heimsins þessi krafa um allsherjarendurskoðun á okkar gildum. Ég held að ég sé af síðustu kynslóðinni sem á að gera það sem hún vill. Næsta kynslóð á ekki að gera það, en hún þarf að finna tilgang í því að gera það sem jörðinni er fyrir bestu. Og þá spyr ég mig aftur, „til hvers er maður að þessu?“ og þá held ég að þessi lókal kúltúr sé eitt svar sem ég get haldið í. Ég er til í að reyna að búa til einhverja lókal stemningu. Ef eina menningin sem þú neytir er harðsoðin alþjóðamenning þá hættir þér til að verða sama um nærsamfélagið þitt. Ég held að lókal kúltúrinn geti hjálpað við að tengja þig við staðinn, næra jarðveginn fyrir ræturnar þínar. Ef nærsamfélagið bíður rótunum ekki neitt hættir að vera spennandi að vera þar og þá verður auðveldara að glepjast af gylliboðum um sólarstrendur og hamingju í útlöndum og við rætum okkur upp í skýið, í alþjóðamenninguna. Með því að kippa hamingjunni úr nærsamfélaginu er hægt að selja hugmyndina um að hún finnist einhversstaðar annarsstaðar. Ég hata flughafnir, ég hef komið í þær allar. Um leið og nærsamfélagið okkar verður flughöfn með Joe and the Juice, Subway og Te og kaffi, þá höfum við tapað í tengslaleiknum en verðum fyrir vikið hinn fullkomni neytandi, síeltandi leifturhitaðar og gerilsneyddar hugmyndir um hamingjuna bandandi næringarsveltum rótum um háloftin í von um eitthvað, bara eitthvað.

Við þurfum að hætta að fljúga, metafórískt og bókstaflega. Við þurfum að ræta okkur. Og lókallinn þarf að sinna þessum rótum, því ég nenni ekki að hanga í tölvunni í enn annarri flughöfn.

Geturðu lesið sem farþegi í bifreið án þess að fyllast flökurð?

Það hef ég aldrei getað, mínum einlæga unga Andrésar-andar-aðdáanda til mikillar ógleði. Þá sérstaklega á hlykkjóttum fjallavegum neyddist ég hér og þar til að kalla eftir stansi og maka vegkantinn fyrir tilstilli allt of spennandi Jóakims Aðalandarævintýra.

Hverjar eru kjöraðstæður þínar sem lesandi (í freyðibaði, á sólbekk á Tenerife, uppi í sófa undir flísteppi og svo framvegis)?

Ég oft reynt þetta rómantíska senaríó að sitja með bók í baði en án árangurs. Ég verð þreyttur í höndunum og sífellt hræddur um að bleyta blaðsíðurnar eða missa kyndilinn í kaf. Ég hugsa meira um vatnið en textann. Ég held að sumarbústaðasófi hljóti að teljast í uppáhaldi. Það er einhvernveginn betri kaffilyktin sem kemur í bústað, og tíminn er ekki fylltur af jafn miklum kröfum um afköst. Ég hef reynt að lesa úti en veðráttan á Íslandi er yfirleitt of breytileg til að vera í réttum fötum og á Spáni verð ég hræddur um að brenna. Nema í október síðastliðnum. Í sófa í sumarbústað eða á Spáni í október síðastliðnum.

Hvers konar bók, ef nokkra, langar þig til að skrifa næst? Og finnst þér þú vera þú þegar þú skrifar, eða breytistu í einhvern annan, jafnvel marga?

Það eru alltaf ýmsir draumar á sveimi. Ég er að reyna þessa dagana að hugsa ekki egósentrískt um næstu bók heldur um hugmyndirnar sjálfar. Ég á það á hættunni að hugsa um verðlaunaafhendingar og umfjallanir í blöðum um merkisskrif í stað þess að hugsa um skrifin sjálf. Jú, já, mér finnst ögn klisjukennt að segja það en ég breytist í einhvern annan þegar ég skrifa. En ég veit ekki hver það er. Er það einhver annar? Er það önnur útgáfa af mér? Er það nær mér? Það er eitthvað við það þegar maður kemst á flug sem er heillandi. Þegar maður er búinn að sitja í klukkutíma og kasta og svo bítur hugmyndin loks á pennann. Þá gleymir maður sér í 40 mínútur við það að skrifa þessi þúsund-tvöþúsund orð á blað á meðan maður dregur hugmyndina inn. Það er best meðan það endist en svo er líka einhver fullnægja sem fylgir því að bíta í uggann á nýskrifaðri hugmynd, halla sér aftur í stólnum, dæsa af ánægju með að eitthvað gerðist þann daginn. Þá er hægt að standa upp, ganga út í glugga og horfa spekingslegur yfir umhverfið og líða vel.

Til að gefa einhverskonar steypu í þetta svar (eitthvað concret) þá blundar í mér barnabók. Vonandi í ToveJansson-PhilipPullman-AstridLindgren-AndraSnæs-stíl.

Hvað er fegurðin og hefur hún praktískt gildi? Finnst þér fegurðarskyn okkar í samtímanum af háum kalíber eða vanrækjum við fegurðina í daglegu lífi okkar?

Hmm. Þessa þarf að melta. Praktískt gildi. Ég hef farið í Guðlaugu á Akranesi undanfarið, verið í grennd við Skagann og skroppið. Það er falleg laug við sandinn og sjóinn. Mér finnst huggulegt að vera í fallegu umhverfi og það veitir mér ánægju. Kannski er praktískt gildi fegurðar falið í því að hún verður velmetin dægradvöl. Ég nýt hverrar mínútu betur í fallegu umhverfi. Mér finnst tíma mínum vel varið ef ég verð fyrir fegurðarupplifun. Ég sé aldrei eftir neinu ef það er í fegurð. Kannski hefur hún praktískasta gildið af öllu því hún gildishækkar tímann? Ég get bara talað fyrir mig og að mörgu leiti vanræki ég fegurðina. Að mörgu leiti ekki. Ég fer alltof sjaldan út á morgnanna (fegurðin er mest úti, sjóndeildarhringurinn og svo framvegis). Á sama tíma á ég kött, rækta plöntur, les fagurbókmenntir. Þessi spurning, vanræki ég fegurðina, er mikilvæg. Því ætti maður ekki að alltaf að reyna að stækka fegurðarkökuna? Því það er praktískt, eins og góður eftirréttur kíttar hún í glufurnar í maganum. En fyrst við vorum að tala um alþjóðavæðingu: Við þurfum að passa okkur á því að gerilsneyða ekki fegurðina, hún er best lífræn.

Orð að sönnu, kæri Birnir. Allt er best lífrænt. Ég hef raunar dvalist síðustu þrjár vikurnar á bóndabýli hjá japönskum vini mínum, sem er bóndi og ræktar einmitt lífrænt grænmeti (fimmtíu ólíkar tegundir!) — og ég hef ekki borðað betri mat á ævi minni og sjálfsagt ekki heldur heilsusamlegri (og svo hjálpar að róta sjálfur í moldinni). Ég finn ótrúlega mikinn mun, líkamlega. Ég er vanur því að rumska stirður, með hálfgerðan magaverk, og dauðþyrstur eins og í eyðimörk — en hér vakna ég sprækur sem lækur klukkan fimm og stekk ólmur fram úr rúminu. Eiginlega þekki ég ekki lengur þennan mann sem þó er ég. Við erum það sem við borðum og andrúmsloftið sem við hölum inn um nasirnar. Og hér er maturinn hollur og loftið tært. Og svo er annað: enginn reynir að selja manni neitt. Engar auglýsingar, engar búðir. Yndislegt.

Það er þetta með fegurðarskynið: ég held að við mennirnir séum fagurkerar og okkur líði vel þegar við erum í fallegu umhverfi, höfum vandaða hluti fyrir augunum, sjáum að aðrir leggi alúð í hlutina. Er það ekki að lifa góðu lífi, að gera hlutina vel og tengjast umhverfi sínu? En það er alveg lygilegt hversu litla áherslu við leggjum í að hafa hlutina fallega. Til hvers að vera til ef það mætir afgangi? Einhvern veginn upphefja skyndibitakeðjur á borð við Joe & the Juice ekki slík gildi og ég óttast að þetta umhverfi dempi okkur og lempi. Síðkapítalisminn er það sem eftir stendur þegar öll gildi hafa verið þurrkuð út. Sá sem drekkur úr fallegum kaffibolla — og nýtur þess — er líklegri til að vera örlátur og gera gott en hinn sem hrærist í umhverfi sem gengur út á að selja okkur fjöldaframleitt ljótt drasl allar vökustundir (veit að þetta hljómar væmið en svona er þetta bara). Þú getur ekki ímyndað þér hvað ég var feginn að komast burt frá New York (þar sem ég bjó í nokkur ár). Ég veit satt að segja ekki hvert þetta stefnir og lenti meira að segja sjálfur í krísu, eins og þú lýsir aðeins, varðandi listsköpun og umhverfismál; til hvers að sitja einn í herbergi og búa til vandamál, búa til persónur, þegar svona mörg aðsteðjandi vandamál hreinlega dverga okkur sem einstaklinga? En… ef við hættum að trúa á listina og skrifa sögur — og þar kikkar praktískt gildi fegurðarinnar inn — til hvers að vera til? Og þá værum við kannski ekki einu sinni að pæla í þessu heldur bara í nettri sveiflu á Joe & the Juice.

Til hvers að vera til ef fegurðin mætir afgangi? Þetta er góð spurning og ég spyr í kjölfarið: Hvar er fegurðin? Ég er sammála þér í því að hún búi í alúðinni sem fólk leggur við hluti. Alúð skapar fegurð og þá spyr maður sig: Drepur fjöldaframleiðsla sjálfkrafa fegurðina? Hún finnst ekki í einnota umbúðum, umbúðir sem eru skapaðar hundruðum saman á hverri sekúndu, hverjar og einar með lágmarksvinnu og lágmarksalúð. Kemur fegurð með tíma? Glæný borvél er tilkomumikil en vél afa þíns býr yfir einhverskonar fegurð, handbrögðin sjást utaná henni, maður finnur fyrir snertingu við tíma. Það er auðvitað ekki samasemmerki milli alúðar og tíma annarsvegar og fegurðar hins vegar, það þarf að bæta einhverju óþekktu inn í uppskriftina í hvert sinn, en ég held að þessir tveir eiginleikar myndi grunninn að fegurðinni. Og skáldsögur búa svo sannarlega yfir hvoru tveggja. Það verður verðugt verkefni næstu árin að finna þessi tvö innihaldsefni í samfélaginu sem byggir allt á hraða og skilvirkni. Kannski er lykillinn að hægja á?

Vinur minn útskýrði fyrir mér um daginn hvers vegna auglýsingaskilti í umferðinni eru svona stór. Þegar við keyrum inn umferðaræðarnar á 90 kílómetra hraða á klukkustund þá minnkar allt í umhverfinu og því þurfa skiltin að vera stærri til að möguleiki sé að lesa á þau. Kannski er fegurðin í eðli sínu smávaxin. Kannski er hún lyng í hrauni sem hægt er að leggja andlitið á eins og kodda. Og kannski missum við af henni um leið og við leggjum hraðbraut gegnum hraunið, fyrir aukið flæði, og þjótum framhjá á 90 kílómetrum á klukkustund.