Allt efni

Leslisti #71, 28. júní 2019

Af netinu:

Ég hef svolítið gaman af syrpu Ölmu Mjallar, blaðamanns, um ævintýri Braga Páls Sigurðssonar og skrautlegrar áhafnar hans á siglingu frá Miðjarðarhafi til Íslandsstranda.

Viðar Hreinsson skrifar  um „bitcoinvirkjun á sílíkonfótum“.

BrainPickings er merkileg vefsíða: höfundur hennar, hinn búlgarska Maria Popova, talar nær einungis um áhugaverða hluti en alltaf á svo upphafinn hátt að útkoman verður stundum mjög skrítin. Samt ekki annað hægt en að dást að því hvernig rembingurinn er ræktaður af alúð og natni! (SN.)

Hvað getur köttur Schrödingers sagt um þrívíddarprentara á Mars? Hafið þið ekki alltaf velt þessu fyrir ykkur? Þetta er annars mjög góð grein sem fjallar um eðlisfræði upplýsinga.

Hvað gerum við með list illmenna og perra? Hef aldrei komist að niðurstöðu sjálfur en hér er ágætis yfirferð yfir þessar vangaveltur.

Hér mælir markaðsgúrúinn Seth Godin með fimm bókum um markaðssetningu. Allt nokkuð áhugaverðar bækur ef maður hefur áhuga á markaðssetningu á annað borð.

Í greininni hér fyrir ofan vísar Godin í grein eftir Kevin Kelly um hvernig eigi að ná árangri í stafrænu hagkerfi. Það sem er forvitnilegt við greinina er að hún var skrifuð árið 1997 og er enn býsna gagnleg.

Gleðifregnir úr Markaðnum í vikunni. Það virðist glæða í bóksölu á Íslandi.

Svo smá sorglegur Twitter þráður í lokinn til að þið farið ekki allt of kát inn í helgina. Hér segir einhver náungi frá ákvörðun Microsoft um að leggja niður rafbókadeild sína. (KF.)

 

Fyrir augu og eyru:

Hið ágæta hlaðvarp rithöfundarins Malcolm Gladwell, Revisionist History, er byrjað aftur. Fyrstu tveir þættirnir eru virkilega góðir. (KF.)

 

Bækur:

Ég varð áhugasamur um stóuspeki fyrir svona áratug en missti áhugann svo snögglega fyrir einhverju síðan þegar annar hver start-up sjomli í heiminum var farinn að vitna í Markús Árelíus á Twitter. Þessi almenni áhugi á stóuspekinni er engu að síður fagnaðarefni, enda praktísk og góð speki sem á erindi við alla. Þessi nýtilkomni almenni áhugi er að miklu leyti unga rithöfundinum Ryan Holiday að þakka sem ég vitna oft í á þessum vettvangi. Hann gefur meira segja út heilan fjölmiðil í kringum spekina, bækur og jafnvel dagatal til að hjálpa manni að sjá stóísku hliðina í lífinu. Ég sá nýlega að gömul bók eftir hann, sem fjallar með beinum og óbeinum hætti um stóuspeki, var á tilboði á Amazon og hlóð henni því niður á Kindilinn minn. Bókin heitir The Obstacle is the Way og fjallar um hvernig maður á ekki bara að komast yfir áskoranir heldur að nýta þær til að verða enn betra manneskja. Þetta hljómar eins og sjálfshjálparbók og er það kannski að einhverju leyti en mér finnst hún rista dýpra en það. Þetta eru í alvörunni gagnlegar hugleiðingar sem að hafa reynst mér vel síðustu vikur. (KF.)

Ein besta bók sem ég hef lesið lengi er Landmarks eftir hinn breska Robert MacFarlane. Fyrir þá sem hafa gaman af náttúrulýsingum, orðagrúski, hlýjum mannlýsingum. Bókin hverfist um hvernig við lýsum landslagi (hverjum kafla fylgir sérstakt orðasafn) og hvernig þverrandi hæfileikar okkar í þá veruna endurspegla síaukna fjarlægð okkar við hinn náttúrulega heim. Orð yfir landslag hverfa af praktískum ástæðum; fæst okkur þurfa að lýsa gönguleið yfir heiðarnar af mikilli nákvæmni dagsdaglega. (Nokkuð sem við Íslendingar ættum að þekja.) Í formála lýsir MacFarlane útkomu nýrrar útgáfu breskrar orðabókar handa börnum, Oxford Junior Dictionary; þar voru tekin út fjöldamörg orð, sem lýstu náttúru, og í staðinn sett inn orð úr poppmenningu og tölvutækni.

„The deletions included acorn, adder, ash, beech, bluebell, buttercup, catkin, conker, cowslip, cygnet, dandelion, fern, hazel, heather, heron, ivy, kingfisher, lark, mistletoe, nectar, newt, otter, pasture and willow. The words introduced to the new edition included attachment, block-graph, blog, broadband, bullet-point, celebrity, chatroom, committee, cut-and-paste, MP3 player and voice-mail.“

Orðin sem við notum endurspegla auðvitað daglegan veruleika okkar. Fíflum hefur verið skipt út fyrir viðhengi. Akarni hefur verið skipt út fyrir selebb. Eitthvað mjög niðurdrepandi við þetta – en uppörvandi hins vegar við þessa fínu bók MacFarlane. Mæli mikið með henni. (SN.)

 

Óskalistinn:

Stefán E. Stefánsson gefur út bók um ris og fall WowAir. Greinilega ekki drollað við hlutina á þeim bænum.

Dimma gefur út þrjár bækur með ljóðum þekktra breska ljóðskálda. Skáldin eru Lavinia Greenlaw, Simon Armitage, sem er nýskipað lárviðarskáld Bretlands, og írska skáldið Paul Muldoon, sem ritstýrði ljóðahluta The New Yorker um árabil. Íslenskar útgáfur ljóðanna gerðu engir aukvisar: Magnús Sigurðsson, Sigurbjörg Þrastardóttir, Sjón. Bækurnar koma út saman undir heitinu Bréf til Íslands / Letters to Iceland. Hver og ein ber sérstakt heiti: Paul Muldoon: Sjö ljóð. Sjón íslenskaði. Lavinia Greenlaw: Kennsl. Magnús Sigurðson íslenskaði. Simon Armitage: Þaðan sem við horfum. Sigurbjörg Þrastardóttir íslenskaði. (SN.)

Bækur, 21. júní 2019

Geoff Dyer var lengi vel (og er svo sem enn) í miklu uppáhaldi hjá mér. Hver bók eftir hann er ólík hinum fyrri. But Beautiful fjallar um djass og helstu örlagaræfla þeirrar tónlistarstefnu (mjög fín, ljóðræn og falleg); The Missing of the Somme fjallar um stríð og minnisvarða um stríðsátök, bæði í höfðinu á okkur og í landslaginu; The Ongoing Moment fjallar um ljósmyndun; Out of Sheer Rage (ein af mínum uppáhaldsbókum) er ritgerð um líf og störf hins breska H.D. Lawrence en fjallar þó aðallega um frestunaráráttu, óþol og wanderlust eða ferðaþrá – og endurspeglar þar með snilldarlega helstu karaktereinkenni H.D. Lawrence. Góður inngangsreitur að verkum Dyers væri kannski Otherwise Known as the Human Condition, safn bráðskemmtilegra ritgerða um allt milli himins og jarðar; og smásagna- og ritgerðarsafnið Yoga for People Who Can’t Be Bothered to Do It fær óhjákvæmilega verðlaun fyrir góðan titil. Loks hefur Dyer skrifað talsvert um kvikmyndir, meðal annars Zona: A Book about a Film about a Journey to a Room, og nú var að koma út ný bók, Broadsword Calling Danny Boy: On Where Eagles Dare (sem ég hef ekki lesið enn). Hér er hann í spjalli við Lili Anolik um nýju bókina, listina að skrifa um bíó og margt fleira.

Löng dvöl mín í Japan fékk mig svo til að rifja upp kynnin við June 30th, June 30th, ljóðabókina hans Richards Brautigan sem fjallar um Japansdvöl hans. June 30th, June 30th er, líkt og önnur verk Brautigans, í senn tregafull og fyndin. Brautigan er afar vel kynntur á Íslandi – furðu vel jafnvel – og nýlega komu t.d. út tvær þýðingar Þórðar Sævars Jónssonar á verkum eftir hann. Þá hefur Gyrðir Elíasson þýtt fjórar bækur eftir hann. (Hægt er að hala niður pdf-útgáfu af bókinni, og ýmsum öðrum verkum Brautigans, á vefsíðunni sem ég hlekkjaði við.)


Óskalistinn:

Heildarsafn ljóða Valdimars Tómassonar komið út. Spannar tímabilið 2007-2018. Guðmundur Andri Thorsson ritar formála.

Nýtt tölublað af Jóni á Bægisá, tímaritinu góða um þýðingar, hefur litið dagsins ljós.

Loks stórtíðindi! Væntanleg er á íslensku mikil öndvegisbók – Stílæfingar hins franska Raymonds Queneau (L’exercise du style á frummálinu). Í stuttum köflum lýsir höfundur afar hversdagslegu smáatviki í jarðlest – aftur og aftur en með ólíkum stílbrögðum og rödd hverju sinni. Rut Ingólfsdóttir gerir íslensku þýðinguna og það verður gaman að sjá afraksturinn; það er ekkert áhlaupaverk að snara þessari bók. (SN.)

Af netinu, 21. júní 2019

Ef einhver freistast til að bera saman uppgang fasista í Evrópu við upphaf 20. aldar við stöðu mála í dag þá er þetta holl lesning.

Við hvern væri hægt að ræða gáfulega um stjórnmál, eðlisfræði og Kim Kardashian? Jú, forseta Armeníu.

Þrátt fyrir fjölmenn mótmæli í Hong Kong er langt í að Kína verði lýðræðisríki – að minnsta kosti ef marka má þennan pistil.

Góðir rithöfundar eru ekki alltaf góðir í að skrifast á við lesendur.

Stephen Wolfram hugleiðir „deepfakes“. (KF.)

Hér rifjar Tímarit Máls & menningar um stórskemmtilegt viðtal sem Kristín Ómarsdóttir tók við Sigurlínu Bjarneyju Gísladóttur.

Innlit í vinnustofu Picassos í París meðan á hernámi nasista stóð. Glatt á hjalla!

Áhugaverðustu frambjóðendurnir í fyrirhuguðum forsetakosningum Bandaríkjanna eru konur af ýmsum uppruna. Kamala Harris er hörundsdökkur saksóknari, afar kalkúleraður ofurheili en líka töff og viðkunnanleg; Elizabeth Warren er lagaprófessor sem fullyrti að hún væri af frumbyggjaættum í Norður-Ameríku (sem var ekki vinsæl yfirlýsing); Tulsi Gabbard er frá Hawai, fyrrum hermaður, og kannski er sú mest spennandi af þessum þremur (hér í The New Yorker-prófílgrein frá 2017).

„Og þótt ég hafi verið ungur og passlega naívur var ég ekki svo vitlaus að vita ekki að þetta yrði hark, ekki bara þetta dæmigerða námsmannahark heldur hark miklu lengur en það. Ég gleymdi bara að gera ráð fyrir góðæri og hruni og síversnandi andverðleikasamfélagi og deyjandi fjölmiðlum og öllu því.“
Ásgeir H. Ingólfsson skrifar um heim sem gerður er úr gleri.

Við náum hátindi starfsferilsins um fimmtugt. Og svo er lífið bara ein salíbuna niður á við – eða hvað?

Hinn geðþekki og bljúgi Yves Chouinard, stofnandi Patagonia-útivistarbúðarinnar, er hér í spjalli við The Guardian. Hann – sem er múltímilljóner – segir að kapítalisminn sé að eyðileggja plánetuna. (SN.)


Fyrir augu og eyru:


Heimildarmynd Martins Scorsese um Rolling Thunder Revue-tónleikatúr Bobs Dylan og fjölda annarra vina hans og listamanna er komin út á Netflix. Magnað tímabil á ferli Dylans (krafturinn í flutningnum er rosalegur) en um leið fyllti áhorfið mig talsverðri depurð; ég horfi svo sjaldan á sjónvarp að mér líður alltaf eins og eftir illa ígrundað fyllerí eftir passífa setu, í bljúgri þögn áhorfandans, fyrir framan suðandi raftæki sem matar mig á skemmtiefni; slíkt er þungbært fyrir mann með skæðan athyglisbrest og djúpa andstyggð á áhorfsvæðingu athyglisgáfunnar. Plús að Dylan, svo sjarmerandi sem hann er þegar hann flytur lögin sín, virkar á köflum pínku kjánalegur og sömuleiðis listamennirnir í kringum hann; það er eins og heimildarmyndin eyðileggi einhverja dulúð og mystík og gæði tónleikatúrinn og tónlistarfólkið of hversdagslegu yfirbragði. Joan Baez kemur best út: virkar heilsteypt. Hef mjög blendnar tilfinningar gagnvart þessari heimildarmynd – sem þó er auðvitað skylduáhorf fyrir áhugafólk um þennan mikla listamann. (SN.)

Ken Burns, heimildarmyndagerðarmaðurinn frægi, er hér í skemmtilegu viðtali við tónlistarsnobbmiðilinn Pitchfork þar sem hann vegur og metur hvort handahófskenndir hlutir eru of- eða vanmetnir. Þetta eru oftast ekki djúp viðtöl en honum tekst að halda langar og forvitnilegar einræður um tjáningarfrelsi og kántrítónlist sem hafa setið í mér alla vikuna.

Rick Rubin er einn afkastamesti og áhugaverðasti tónlistarpródúsent vorra tíma. Hér er hann í löngu og djúpu viðtali þar sem hann ræðir opinskátt um tónlist, tónlistarsköpun og svo heilsufar sitt. (KF.)

Bækur, 14. júní 2019

Á ferðalagi er jafnan hollráð að verða sér úti um sýnisbók með smásögum frá viðkomandi landi. Þannig kynnist maður mörgum og ólíkum röddum sem mynda fjölbreyttan orðavefnað svo að úr verður innsýn í þankagang og siðvenjur viðkomandi lands. Eða það vonar maður í hið minnsta. Mér fannst allavega rakið að grípa með mér The Penguin Book of Japanese Short Stories í bókabúð í Kýótó um daginn og sé ekki eftir því. Að safninu ritar Haruki nokkur Murakami ágætan formála, og ritstjóri er einn þýðanda Murakami sjálfs yfir á ensku: Jay Rubin. Þarna fær lesandinn ágætis yfirlit um japanska smásagnagerð á tuttugustu öldinni. Sögunum er ekki raðað upp krónólógískt heldur bera flokkarnir yfirheiti á borð við „Japan og Vesturlönd“, „Konur og karlar“, „Náttúran og minnið“, „Nútímalíf og önnur vitleysa“, „Drungi“, „Hamfarir, bæði náttúrulegar og manngerðar“. Í safninu eiga sögur þekktir eldri japanskir höfundar á borð við Natsume Sōseki, Jun’ichirō Tanizaki og Nóbelsverðlaunahafinn Yasunari Kawabata (sem aldrei hefur heillað mig og gerir það ekki heldur hér) og einnig yngri, svo sem Banana Yoshimoto (sem hefur verið þýdd talsvert á íslensku) og áðurnefndur Murakami. Klikkuðustu söguna á líklega Yuten Sawanishi. Hún hefst svo: „Leggöngin voru fyrsti líkamshluti móður minnar sem breytist í sykur.“ Geri aðrir betur. Hér má lesa sögu Sawanishi, sem einnig hefur birst í Granta-tímaritinu.

Þá er ég með undir höndum aðra yndislega bók, Ritgerðir um iðjuleysi, enska þýðingu á þekktu verki búddamúnksins Kenkō, sem talið er að hafi ritað sínar stuttu hugleiðingar á bilinu 1330-1332, límt snifsin jafnóðum upp á vegg hjá sér og svo að endingu raðað þeim upp í bók. Hugleiðingar af þessum toga, þar sem höfundurinn veður óhikað úr einu í annað, eru mér einmitt að skapi. (Hér má lesa oggulítið sýnishorn úr bókinni.) Bókin geymir 243 örritgerðir og hefst á orðunum: „Hversu skrítin og vitskert tilfinning hellist ekki yfir mig þegar það rennur upp fyrir mér að ég hef eytt heilu dögunum í félagsskap þessarar blekbyttu, með ekkert betra að gera en að hripa handahófskennt niður hvaða vitleysu sem mér dettur í hug.“ Að einhverjum ástæðum finna þessi orð, rituð fyrir um 900 árum, hljómgrunn hjá þessum hér, auðmjúkum höfundi Leslistans. (SN.)


Óskalistinn:


Sé á heimasíðu NPR að verið er að endurútgefa æviminningar Françoise Gilot, fyrrverandi eiginkonu Pablo Picasso, sem heitir einfaldlega Life With Picasso. Ég hafði aldrei heyrt um þessa bók áður og hlakka til að kafa í hana við tækifæri.

Hvernig menning var til staðar í Þýskalandi Nasismans? Sá nýlega að út væri komin bók um einmitt þetta – Culture in Nazi Germany – sem lofar góðu.

Ungi bandaríski rithöfundurinn Ryan Holiday heldur úti mánaðarlegu fréttabréfi um bækurnar sem hann er að lesa hverju sinni. Fréttabréfið er beinn og óbeinn innblástur fyrir Leslistann og ég gríp yfirleitt eitthvað úr þessu áhugaverða bréfi hans. Sá að hann mælti í síðasta bréfi með skáldsögunni Theory of War eftir Joan Brady sem ég hef aldrei heyrt um en lítur vel út. (KF.)

Út er komin Frelsun heimsins eftir Kristínu Marju Baldursdóttur, safn greina og fyrirlestra. Ég fíla þannig bland í poka-bækur og hlakka til að næla mér í eintak þegar ég kem til Íslands í sumar. Á unglingsárunum las ég Mávahlátur og Hús úr húsi mér til mikillar ánægju; það er hins vegar skömm frá því að segja að Karitas án titils og Óreiða á striga hafa legið ólesnar á náttborðinu hjá mér óralengi. (Ég á reyndar ekki náttborð; ég tek bara svona til orða.)

Las grein um, og viðtal við, króatísku skáldkonuna Daša Drndić (ekki biðja mig um að reyna að bera fram þetta nafn) í The Paris Review. Fékk mig að langa að lesa bækurnar hennar, sem virðast reyndar vera algjört torf. En, eins og ofannefndur Thor frændi var vanur að segja, þá er það nokkurs virði þegar skáldverk eru flókin – kannski búa verðmæti og galdur skáldskaparins einmitt stundum í svita og puði lesandans.

Robert McFarlane sendir frá sér nýja bók, Underland, um launveraldirnar undir iljunum á okkur. Lofar góðu! (SN.)

Af netinu, 14. júní 2019

„Um daginn stóð ég í eldhúsinu hjá vini mínum, framkvæmdaglöðum og galvöskum náunga sem ekki hikar við að gera upp íbúðir, glíma útbíaður í smurolíu við bílvélar og rækta sitt eigið grænkál í garðinum hjá sér. Það gefur auga leið að slíkum þúsundþjalasmið hugnast sóun illa. Stoltur á svip rétti hann mér kaffibolla og bankaði svo létt með hnúunum í stálhurðina að uppþvottavélinni. Ég sá strax á látbragðinu – hvernig hann glotti út í annað, hallaði sér aftur að eldhússkenknum – að nú væri að hefjast lærdómsrík sögustund…“

Tilvitnuð orð koma úr grein eftir mig á léttu nótunum þar sem ég fjalla um hringrásarhagkerfið (og ber það saman við línulega hagkerfið sem við búum nú við). Hér er svo önnur þar sem ég rek sigurgöngu plastpokans á seinni hluta tuttugustu aldar. Báðar greinarnar birtust á nýrri fréttaveitu Klappa en þar birti ég um þessar mundir ýmis skrif um loftslags- og umhverfismál.  (SN.)

Holl áminning hér um að trúa ekki öllu því sem maður les í bókum.

Demókratar geta lært ýmislegt af Steve Bannon. Góð lesning fyrir áhugafólk um bandarísk stjórnmál.

Helgi Tómasson, ballettdansari, hefur alltaf verið mér ákveðin fyrirmynd. Hérer hann í spjalli við Moggann.

Rithöfundar eru duglegri í þéttbýli. Í hið minnsta ef marka má þessa rannsókn.

Ég hef talað fallega um bandaríska landafræðinginn Jared Diamond og bók hans Guns, Germs and Steel á þessum vettvangi. Gylfi Ólafsson, nýr Ráðnautur Leslistans, benti á nokkrar greinar á Twitter sem fara ófögrum orðum um nýjustu bók hans. Meðal annars þessi gagnrýnandi í dómi í New York Times

Svo hef ég líka mært Robert Caro og verk hans – var einmitt mjög hrifinn af nýjustu bók hans, Working, og hef alla jafna lesið góða dóma um þá bók. Fannst þess vegna forvitnilegt að lesa þessa gagnrýni í vinstriblaðinu ágæta Jacobin um bókina. Ég er ekki sammála henni en finnst alltaf mikilvægt að stíga reglulega út úr mínum skoðanahring.

Fínar ráðleggingar hér fyrir foreldra um skilvirkt uppeldi barna. (KF.)

Hér er nú aldeilis skemmtilegt plagg! Uppskrift af ritþingi um Thor Vilhjálmsson frá 2006. Ég var viðstaddur þingið, þá ungur maður með stóra drauma. Ekki spillir að Thor var í góðum félagsskap: stjórnandi var Halldór Guðmundsson bókmenntafræðingur og í hlutverki spyrla voru þeir Sigurður Pálsson rithöfundur og Ástráður Eysteinsson bókmenntafræðingur. Mæli með lestri.

Ég sagði frá því í síðasta Leslista að á Everest-tindi væri nú svo mikil örtröð fjallgöngugarpa að dæmi væru þess að mannmergðin leiddi til banaslysa. Þessi slysatúrismi gildir að sjálfsögðu ekki einungis um hæsta fjallstind á jörðinni: alltof mörg okkar vilja flakka um jarðarkringluna og taka sjálfur á sögufrægum stöðum með tilheyrandi álagsskemmdum. Túristarnir eru að skemma heiminn!

Yndisleg grein um tónlistarmanninn Don Cherry í The New York Review of Books. Cherry var leitandi listamaður og ómögulegt að fella hann inn í skýrar kategóríur eða þröngva upp á hann stimplum. Lestur endursögn ríkari.

Virginia Woolf skrifar hér bréf til ungs skálds og deilir ýmsum skrifráðleggingum. Birtist fyrst á því herrans ári 1932.

Ég hafði svolítið gaman af þessari lesningu um Madonnu. Sauðsvartur almúginn hefur auðvitað á henni ólíkar, og skiptar, skoðanir en í mínum huga er hún talsvert séní. Fyrsta platan hennar, og áran í kringum hana í upphafi níunda áratugarins (ívið sjúskaða og ögrandi New York-gellan), hlýtur að hitta beint í mark hjá öllum skyni gæddum verum.

Gunnar Dofri Ólafsson skrifar kjarnyrta og skemmtilega hugleiðingu um dúxa, fúxa og sannleikann. Hvenær á sannleikurinn á rétt á sér og hvenær má færa í stílinn? (SN.)


Fyrir augu og eyru:

Mjög flott umfjöllun í The Daily, hlaðvarpi The New York times. Spjótunum beint að Evrópu og einstök lönd tekin fyrir. Eru þjóðernissinnaðir flokkar að taka yfir í Evrópu? Er Evrópusambandið að liðast í sundur? Hver er yfirhöfuð framtíð Evrópu? Er rasismi að aukast eða vill fólk einungis vernda menningararf sinn (og er þessu tvennu ruglað saman í umfjölluninni)? Þátturinn um Frakkland, þar sem við kynnumst nokkrum úr hreyfingu gulu vestanna, fannst mér einkar áhugaverður og velheppnaður. (SN.)

Góðvinur Leslistans, Bubbi Morthens, tilkynnti á Twitter í gær að hann væri að byrja með nýtt hlaðvarp í næstu viku. Persónulega get ég varla beðið. (KF.)

Ráðunautur Leslistans: Gylfi Ólafsson

Velkominn í ráðuneyti Leslistans, Gylfi. Hann Sverrir sér yfirleitt um að bjóða í Ráðuneytið og er oftast með bakkelsi og kaffi á boðstólnum. Ég er ekki alveg jafn huggulegur og hann en vona engu að síður að það fari vel um þig. — KF

Takk fyrir að bjóða mér að vera ráðunautur. Á ég ekki að byrja að segja að ég er dyggur vikulegur lesandi fréttabréfsins ykkar. Þar kemst ég í margt bitastætt til að setja á leslistann minn.

Það gleður mig að heyra! Byrjum á byrjuninni: Hvað ertu að lesa þessa dagana?

Ég er með haug í gangi, enda nota ég fjóra mismunandi miðla til að graðga í mig lesefni. Á náttborðinu er ég með Í barndómi eftir Jakobínu Sigurðardóttur sem fjallar um æsku hennar á Hornströndum. Auk þess er ég með haug af stjórnunarbókum af bókasafninu (sem ég fjalla um fyrir neðan). Í eyrunum var ég að ljúka við ævisögur Gísla á Uppsölum eftir Ingibjörgu Reynisdóttur og Jónasar Hallgrímssonar eftir Pál Valsson á Storytel, og á Audible er ég að reyna að þræla mér í gegnum Becoming eftir Michelle Obama.

Þessa mánuðina er sorglega mikið af krabbameini í kringum mig, og til að hjálpa mér að takast á við það hef ég verið að endurlesa Mortality eftir Christopher Hitchens, bók sem hann skrifaði eftir að hann greindist með krabbamein og skildi við ókláraða þegar hann lést.

Svo er ég nýbúinn með Hnignun, hvaða hnignun eftir Axel Kristinsson. Sú bók er mikið tour de force þar sem hann fer á agaðan hátt í gegnum hina lífseigu mýtu um hnignun íslensks samfélags frá 1400 til 1800. Óháð tesunni er bókin yfirveguð yfirferð um krafta sem verkað hafa á þjóðina og lifnaðarhætti frá landnámi, og hvernig stjórnmálaskoðanir geta haft varanleg áhrif á söguskoðun okkar. Ég mæli sem sagt mjög með þessari bók og mun væntanlega reyna að lesa hana aftur kannski næsta sumar í von að tileinka mér betur efnið því mér fannst að það væru í henni gullkorn í nánast hverri einustu efnisgrein.

Ég les á netinu að þú ert menntaður í heilsuhagfræði — það er fag sem ég veit ósköp lítið um. Hvaða bók myndirðu mæla sérstaklega með fyrir þá sem vilja fræðast um heilbrigðismál/heilsuhagfræði?

Því miður hefur lítið verið skrifað um heilsuhagfræði með hinn svokallaða upplýsta almenning í huga. Nýlega kom út ágætis yfirlitsrit um íslenskt heilbrigðiskerfi eftir Ágúst Einarsson, og svo er hægt að benda á Holdafar eftir Tinnu Laufeyju Ásgeirsdóttur.

Á ensku bendi ég á bókina The Cost Disease eftir William Baumol, en eftir honum heitir einmitt hagfræðitilgátan sem skýrir af hverju þjónusta verður smám saman dýrari en vörur. Sú tilgáta skýrir af hverju heilbrigðiskerfið tekur alltaf stærri og stærri hluta þjóðarútgjalda. Önnur bók sem kom út á dögunum og ég hef ekki enn lesið er Why Are the Prices So Damn High eftir Helland og Taborrok, ókeypis í pdf-sniði.

Um heilbrigði og heilbrigðiskerfi almennt er flest sem bæði Atul Gawande og Ben Goldacre hafa skrifað gott, þó sá síðarnefndi fari stundum aðeins of langt í að ætla lyfjafyrirtækjum og vísindamönnum illan hug með heimsósómalýsingum. Af öðrum bókum mæli ég með Meistara allra meinaeftir Siddhartha Mukherjee, Do No Harm eftir Henry Marsh og The Immortal Life of Henrietta Lacks eftir Rebekku Skloot, allt áhugaverðar bækur og vel skrifaðar.

Þú ert for­stjóri Heil­brigðis­stofnunar Vest­fjarða, sem ætla má að sé nokkuð umfangsmikið og ábyrgðarríkt starf — hvernig finnurðu tíma til að lesa?

Það er nú svo að í stóru og ábyrgðarmiklu starfi getur maður aldrei komist yfir allt sem maður vill. Það er því hættulegur leikur að ætla að „klára“ vinnuna, því það mun ekki takast og skilur mann eftir útbrunninn innan ekki langs tíma.

Svo er það tæknin. Kindillinn kom fyrst og gerbreytti lestrinum og nú á síðustu misserum eru það þráðlausu heyrnartólin. Heimilisstörf og barnauppeldi gefa fjölmörg tækifæri til lestrar ef þetta tvennt er til staðar; þvottahús og eldhús henta vel fyrir hljóðbækur, hoppibelgurinn og róluvöllurinn fyrir kindilinn, og ýmisskonar hangs með ungum börnum gefur rými fyrir lestur á síðu og síðu. Svo eru bókasöfn góðir staðir til að eyða klukkutíma með börnunum eftir leikskóla.

Auk þess er það kannski einmitt í stóru og ábyrgðarmiklu starfi sem lestur verður mikilvægari. Fyrir því eru tvær ástæður. Í fyrra lagi er ég stöðugt að reyna að læra og lesa mér til um hvernig ég get orðið betri. Þar hef ég til dæmis spænt í gegnum bókaflokk Hauks Inga Jónassonar og Helga Þórs Ingasonar (Skipulagsfærni, Samskiptafærni, Stefnumótunarfærni, Gæðastjórun, Leiðtogafærni o.fl.) á síðustu mánuðum, auk ýmissa bandarískra bókmennta sem eru minna eftirminnilegar.

Í seinna lagi er mikilvægt að geta hætt í vinnunni. Oft eru stór og eða erfið mál til umfjöllunar og þá er hætt við að heilu kvöldin og næturnar fari í að hugsa um málið frá öllum hliðum fram og til baka. Ef maður fær ekki frí frá vinnunni heima — hvað þá þegar maður á að vera að sofa — þá brennur maður fljótt upp. Þá hefur lestur reynst mér gagnleg leið til að dreifa huganum.

Einhverjar vefsíður eða hlaðvörp sem þú sækir meira í en önnur?

Af íslensku hlaðvarpi hlusta ég á einkar gott hlaðvarp Landspítala þar sem ég var einmitt gestur í síðasta þætti, þegar Stefán og Ási umsjónarmenn komu í heimsókn hingað til Ísafjarðar.

Annað íslenskt sem ég mæli með er Hyldýpimagnaðri frásögn af mannskaðaveðri í Ísafjarðardjúpi 1968, Hismiðhlaðvarp um smábarnauppeldi og Skúla Mogensen, Ágætis byrjun um menningarsögu Íslands síðustu öldina og Mozart, misskilinn meistari um tónsnillinginn. Ég hlustaði svo á Þjóðhöfðingja Íslands á Storytel í lestri Veru Illugadóttur sjálfrar, og það var eins og sjálfstæð þáttaröð af hlaðvarpsþættinum hennar.

Ég hlusta töluvert á sænskt hlaðvarp. Nú þegar Lilla drevet hefur lokið göngu sinni er það Stormens utveckling, sem fjallar um stjórnmál og loftslagsmál í spéspegli. Spanarna og På Minuten hafa verið lengi verið á matseðlinum, sá fyrri er gamansöm tilraun til að spá fyrir um framtíðina, en sá seinni keppni í að segja furðusögur án þess að hika eða endurtaka sig.

Að síðustu langar mig að benda á nýtt hlaðvarp sem heitir Strong songs, þar sem Bandaríkjamaðurinn Kirk Hamilton fer í gegnum eitt vinsælt lag í einu og greinir út frá tónfræði og upptökutækni.

Eru einhverjir höfundar/bækur í sérstöku uppáhaldi hjá þér?

Af því sem ég hef ekki nefnt nú þegar langar mig að nefna hina bandarísku Mary Roach sem skrifar um bráðfyndnar og upplýsandi bækur um tengsl vísinda við hitt og þetta skrýtið og skemmtilegt. Bækur eins og Packing for MarsBonk: The Curious Coupling of Science and Sex, Gulp: Adventures on the Alimentary Canal og Grunt: the Curious Science of Humans at War.

Sækir þú meira í óskálduð verk (e. nonfiction) en skálduð verk?

Tvímælalaust. Heimildamyndir og heimildaþættir eru yfirleitt leiðinleg vegna þess að miðillinn hentar illa. Ég sæki því skáldskap í kvikmyndir og þætti en óskáldað í ritað eða lesið mál.

Einhverjar fleiri bækur sem þú vilt mæla með að lokum?

Já, það eru kannski fjórar sem ég myndi vilja nefna.

Ariasman eftir Tapio Koivukari fjallar á einstaklega manneskjulegan hátt um sanna sögu af fjöldamorði sem framið var á Böskum sem urðu veðurtepptir á Íslandi fyrir fjórum öldum.

Fátækt fólk eftir Tryggva Emilsson er fantavel skrifuð áminning um hvað stutt er síðan lífskjör voru hræðilega bág.

Um nútímamenningu eru það kannski Stofuhiti og Ást er þjófnaður, sem hvor á sinn hátt lýsa menningu á tölvuöld.

Aldeilis glæsilegt! Kærar þakkir fyrir gott spjall, Gylfi, og aragrúa góðra ábendinga. Við hlökkum til að kafa frekar í þær.

Bækur, 7. júní 2019

Í kjölfar þess að ég rakst á ofannefnt viðtal við Bruno Latour í Le Monde varð ég mér úti um tvær bækur eftir hann (á ensku svo ég gæti smeygt þeim inn í lesblysið): Facing Gaia: Eight Lectures on the New Climate Regime og Down to Earth: Politics in the New Climate Regime. Textar Latour eru krökkir af hugljómunum. Þær virðast oft augljósar en ná um leið að varpa ljósi á einföld sannindi með kristalskýrum hætti. Hér veltir hann fyrir sér alþjóðavæðingunni með hnífskörpum hætti.

„For 50 years, what is called “globalisatioon” has in fact consisted in two opposing phenomena that have been systematically confused.

Shifting from a local to a global viewpoint ought to mean multiplying viewpoints, registering a greater number of varieties, taking into account a larger number of beings, cultures, phenomena, organisms, and people.

Yet it seems as though what is meant by globalisations today is the exact opposite of such an increase. The term is used to mean that a single vision, entirely provincial, proposed by a few individuals, representing a very small number of interests, limited to a few measuring instruments, to a few standards and protocols, has been imposed on everyone and spread everywhere. It is hardly surprising that we don’t know whether to embrace globalization or, on the contrary, struggle against it.“
(Úr Down to Earth.)

Rauður þráður í gegnum báðar bækurnar er að alþjóðavæðingin gengur ekki upp af praktískum ástæðum: við þyrftum minnst fimm plánetur á borð við jörðina til að halda áfram á sömu braut. Heimurinn er að brenna upp, og við erum ekki að ganga í gegnum tímabundna loftslagskrísu heldur róttæka, og óafturkræfa, umbreytingu á náttúrulegum aðstæðum á jörðinni. (SN.)


Óskalistinn:

Ég rambaði nýlega á ansi skemmtilega síðu manns sem hefur glósað ítarlega allar þær bækur sem hann hefur lesið. Ég fann þessa síðu í gegnum bókaklúbbPatrick O’Shaughnessy sem heldur m.a. úti hlaðvarpinu Invest Like the Bestsem ég vísa oft til á þessum vettvangi. Þar mældi hann sérstaklega með bókinni The Path of Least Resistance sem fjallar í mjög stuttu og einfölduðu máli um hvernig þroska megi sköpunargáfuna. Náunginn sem heldur úti rafrænu bókaglósubókinni var einmitt búinn að glósa um þessa bók og vakti mikinn áhuga hjá mér fyrir þessari bók.

Tilvonandi ráðunautur Leslistans sendi okkur póst í vikunni og mældi sérstaklega með bókinni Hnignun, hvaða hnignun? sem kom út í fyrra og er eftir sagnfræðinginn Axel Kristinsson. Í henni eru færð rök fyrir því að hugmyndin um hnignun og niðurlægingu í sögu Íslands sé mýta sem búin var til í sjálfstæðisbaráttunni á 19. öld. Mér finnst hún virka alveg sérstaklega forvitnileg. (KF.)

Þórður Sævar Jónsson sendir frá sér aðra ljóðabók sína, Vellankötlu. (SN.)