Leslisti #71, 28. júní 2019

Af netinu:

Ég hef svolítið gaman af syrpu Ölmu Mjallar, blaðamanns, um ævintýri Braga Páls Sigurðssonar og skrautlegrar áhafnar hans á siglingu frá Miðjarðarhafi til Íslandsstranda.

Viðar Hreinsson skrifar  um „bitcoinvirkjun á sílíkonfótum“.

BrainPickings er merkileg vefsíða: höfundur hennar, hinn búlgarska Maria Popova, talar nær einungis um áhugaverða hluti en alltaf á svo upphafinn hátt að útkoman verður stundum mjög skrítin. Samt ekki annað hægt en að dást að því hvernig rembingurinn er ræktaður af alúð og natni! (SN.)

Hvað getur köttur Schrödingers sagt um þrívíddarprentara á Mars? Hafið þið ekki alltaf velt þessu fyrir ykkur? Þetta er annars mjög góð grein sem fjallar um eðlisfræði upplýsinga.

Hvað gerum við með list illmenna og perra? Hef aldrei komist að niðurstöðu sjálfur en hér er ágætis yfirferð yfir þessar vangaveltur.

Hér mælir markaðsgúrúinn Seth Godin með fimm bókum um markaðssetningu. Allt nokkuð áhugaverðar bækur ef maður hefur áhuga á markaðssetningu á annað borð.

Í greininni hér fyrir ofan vísar Godin í grein eftir Kevin Kelly um hvernig eigi að ná árangri í stafrænu hagkerfi. Það sem er forvitnilegt við greinina er að hún var skrifuð árið 1997 og er enn býsna gagnleg.

Gleðifregnir úr Markaðnum í vikunni. Það virðist glæða í bóksölu á Íslandi.

Svo smá sorglegur Twitter þráður í lokinn til að þið farið ekki allt of kát inn í helgina. Hér segir einhver náungi frá ákvörðun Microsoft um að leggja niður rafbókadeild sína. (KF.)

 

Fyrir augu og eyru:

Hið ágæta hlaðvarp rithöfundarins Malcolm Gladwell, Revisionist History, er byrjað aftur. Fyrstu tveir þættirnir eru virkilega góðir. (KF.)

 

Bækur:

Ég varð áhugasamur um stóuspeki fyrir svona áratug en missti áhugann svo snögglega fyrir einhverju síðan þegar annar hver start-up sjomli í heiminum var farinn að vitna í Markús Árelíus á Twitter. Þessi almenni áhugi á stóuspekinni er engu að síður fagnaðarefni, enda praktísk og góð speki sem á erindi við alla. Þessi nýtilkomni almenni áhugi er að miklu leyti unga rithöfundinum Ryan Holiday að þakka sem ég vitna oft í á þessum vettvangi. Hann gefur meira segja út heilan fjölmiðil í kringum spekina, bækur og jafnvel dagatal til að hjálpa manni að sjá stóísku hliðina í lífinu. Ég sá nýlega að gömul bók eftir hann, sem fjallar með beinum og óbeinum hætti um stóuspeki, var á tilboði á Amazon og hlóð henni því niður á Kindilinn minn. Bókin heitir The Obstacle is the Way og fjallar um hvernig maður á ekki bara að komast yfir áskoranir heldur að nýta þær til að verða enn betra manneskja. Þetta hljómar eins og sjálfshjálparbók og er það kannski að einhverju leyti en mér finnst hún rista dýpra en það. Þetta eru í alvörunni gagnlegar hugleiðingar sem að hafa reynst mér vel síðustu vikur. (KF.)

Ein besta bók sem ég hef lesið lengi er Landmarks eftir hinn breska Robert MacFarlane. Fyrir þá sem hafa gaman af náttúrulýsingum, orðagrúski, hlýjum mannlýsingum. Bókin hverfist um hvernig við lýsum landslagi (hverjum kafla fylgir sérstakt orðasafn) og hvernig þverrandi hæfileikar okkar í þá veruna endurspegla síaukna fjarlægð okkar við hinn náttúrulega heim. Orð yfir landslag hverfa af praktískum ástæðum; fæst okkur þurfa að lýsa gönguleið yfir heiðarnar af mikilli nákvæmni dagsdaglega. (Nokkuð sem við Íslendingar ættum að þekja.) Í formála lýsir MacFarlane útkomu nýrrar útgáfu breskrar orðabókar handa börnum, Oxford Junior Dictionary; þar voru tekin út fjöldamörg orð, sem lýstu náttúru, og í staðinn sett inn orð úr poppmenningu og tölvutækni.

„The deletions included acorn, adder, ash, beech, bluebell, buttercup, catkin, conker, cowslip, cygnet, dandelion, fern, hazel, heather, heron, ivy, kingfisher, lark, mistletoe, nectar, newt, otter, pasture and willow. The words introduced to the new edition included attachment, block-graph, blog, broadband, bullet-point, celebrity, chatroom, committee, cut-and-paste, MP3 player and voice-mail.“

Orðin sem við notum endurspegla auðvitað daglegan veruleika okkar. Fíflum hefur verið skipt út fyrir viðhengi. Akarni hefur verið skipt út fyrir selebb. Eitthvað mjög niðurdrepandi við þetta – en uppörvandi hins vegar við þessa fínu bók MacFarlane. Mæli mikið með henni. (SN.)

 

Óskalistinn:

Stefán E. Stefánsson gefur út bók um ris og fall WowAir. Greinilega ekki drollað við hlutina á þeim bænum.

Dimma gefur út þrjár bækur með ljóðum þekktra breska ljóðskálda. Skáldin eru Lavinia Greenlaw, Simon Armitage, sem er nýskipað lárviðarskáld Bretlands, og írska skáldið Paul Muldoon, sem ritstýrði ljóðahluta The New Yorker um árabil. Íslenskar útgáfur ljóðanna gerðu engir aukvisar: Magnús Sigurðsson, Sigurbjörg Þrastardóttir, Sjón. Bækurnar koma út saman undir heitinu Bréf til Íslands / Letters to Iceland. Hver og ein ber sérstakt heiti: Paul Muldoon: Sjö ljóð. Sjón íslenskaði. Lavinia Greenlaw: Kennsl. Magnús Sigurðson íslenskaði. Simon Armitage: Þaðan sem við horfum. Sigurbjörg Þrastardóttir íslenskaði. (SN.)

Bækur, 19. apríl 2019

Ég hef fylgst með og dáðst að því sem ævisagnarithöfundurinn Robert Caro hefur skrifað í langan tíma. Ég hef að vísu aðeins náð að klóra mig fram úr tæpum helmingi hinnar tröllauknu fyrstu bókar hans – The Power Broker – þar sem hann skrifar um ævi Robert Moses sem var líklega einn áhrifamesti maður í sögu New York borgar. Honum tókst að stýra og breyta nær öllu skipulagi borgarinnar án þess að hafa nokkurn tímann verið kjörinn í embætti. En bókin hans fjallar ekki bara um þennan mann, Robert Moses, heldur fjallar hún um völd – hvernig maður öðlast völd og hvernig valdamiklum mönnum tekst að stýra nær öllu í kringum þá. Caro er einnig þekktur fyrir ævisögu sína um Lyndon B. Johnson, bandaríkjaforseta. Fyrsta bindi þeirrar bókar kom út árið 1982 og nú er Caro að leggja lokahönd á fimmta og síðasta bindið, 83 ára gamall. Hann gaf svo út bók fyrir stuttu sem heitir einfaldlega Working og fjallar um hvernig hann hefur farið að því að skrifa þessa merku doðranta. Þetta er samansafn af ritgerðum eftir hann sem hafa margar hverjar verið birtar áður í merkum tímaritum en varpa í sameiningu áhugaverðu ljósi á agað vinnuferli hans, sem er í einu orði sagt aðdáunarvert. Dýptin í því sem hann skrifar er nefnilega engu öðru lík. Þó að talsvert sé liðið frá lestri mínum, get ég enn lokað augunum og séð fyrir mér lýsingar hans á því hvernig maður Robert Moses var á sínum yngri árum. Jafnvel aukapersónur í ævi hans koma stundum upp í huga minn eins og gamlir vinir eða ættingjar, slík er nákvæmnin í frásögninni!

Það sem vakti sérstakan áhuga minn í bókinni er hversu nákvæmlega Moses fer í að rannsaka hvern krók og kima af viðfangsefni sínu. Eitt dæmi sem hann nefnir er af Lyndon Johnson þegar hann starfaði sem þingmaður og átti þátt í því að tengja rafmagn í sinn gamla heimabæ – Hill Country í Texas. Það myndi duga flestum að minnast lauslega á að íbúar þar hefðu verið býsna ánægðir með þá breytingu en til að geta sagt almennilega frá því fluttist Caro þangað um tíma með konu sinni. Ekki nóg með heldur tók hann einnig viðtöl við aldurhnigna íbúa þessa svæðis sem mundu eftir því hvernig lífið var án rafmagns. Hann segir frá stritinu og öllum þeim erfiðleikum sem fólk glímdi við og hvernig rafmagnið breytti öllu í lífi þeirra. Hann segir frá þessu í ítrustu smáatriðum, ekki einungis til að lengja mál sitt heldur til að fá lesendur til að skilja hvernig ákvarðanir stjórnmálamanna hafa áhrif á venjulegt fólk. Hvað völd raunverulega þýða.

Mér fannst ein setning úr bókinni Working bregða mjög skýrri birtu á það hvers vegna hann sagði upp starfi sínu sem blaðamaður og ákvað að eyða restinni af lífi sínu í að skrifa bók um valdamikla embættismenn: „Underlying every one of my stories was the traditional belief that you’re in a democracy and the power in a democracy comes from being elected. Yet here was a man, Robert Moses, who had never been elected to anything, and he had enough power to turn around a whole state government in one day. And he’s had this power for more than forty years, and you, Bob Caro, who are supposed to be writing about political power and explaining it, you have no idea where he got this power. And, thinking about it later, I realized: and neither does anybody else.“ (KF.)

To Be a Machine eftir Mark O’Connell var lipurlega skrifuð – og ógnvekjandi. Þar tekur höfundur fyrir transhúmanisma, alþjóðlega hreyfingu fólks sem sterkust er í Kaliforníu, einkum Kísildalnum. Fylgjendur hennar vilja nota tæknina til að bæta og styrkja líkama sína (og okkar allra) og eins hugarstarfsemina og með tíð og tíma renna algjörlega saman við vélar. Þá er markmiðið að „lækna“ okkur af dauðanum. O’Connell er mjög skeftískur á allar þessar hugmyndir en skrifar engu að síður af hlýju og næmi um þá ótrúlega furðulega fíra (nær allt karlmenn) sem hér koma við sögu, og fléttar inn í frásögnina senum frá því að hann eignast sitt fyrsta barn og þær tæru og (spen)dýrslegu kenndir sem því fylgja. Er samræmanlegt að vera dýr og vél? Hafa kannski mörg okkar nú þegar breyst í sæborgir?

Fólk virðist hafa ansi skiptar skoðanir á Jonathan Franzen og ótrúlegt hversu margir nenna að hata hann opinskátt á internetinu. Mér finnst til marks um staðfestu hans sem rithöfundur hvað hann lætur það lítið bíta á sig – og kærkomin tilbreyting frá lækfíkninni. Nýjasta bók hans, The End of the End of the Earth, er ritgerðasafn og bara skrambi fínt. (Hann hefur áður sent frá sér tvö slík söfn, Farther Away og How to Be Alone, sem mér fundust einnig dáindisfín.) Í því nýjasta fléttar hann saman minningaskrifum, bókmenntapistlum og hugvekjum um loftslagið og tæknina – og tæpir þar einkum á þau áhrif sem hlýnun jarðar hefur á fuglalíf, en Franzen er fuglaskoðari af lífi og sál. „Það er erfitt að láta sér annt um dýr sem maður aldrei sér,“ ritar hann á einum stað og bendir á hversu margar tegundir týna nú tölu utan sjónar okkar. Og þegar fuglarnir deyja ekki óbeint af okkar völdum (vegna loftslagsbreytinga) eru þeir veiddir miskunnarlaust með önglum, blýkúlum og netum; í einni ritgerð fremja menn raunar svo gegndarlaus fjöldamorð á hinum fiðruðu frændum okkar að ég þurfti margoft að leggja bókina frá mér. Loks rekur Franzen í formála gildi og sögu „persónulegu esseyjunnar“ (ala Montaigne) og hnykkir á því hversu forheimskandi og slæm þróunin sé í hinum glóandi lófum okkar. Hressandi!

Loks las ég skáldsöguna Normal People eftir hina írsku Sally Rooney. Fyrri skáldsaga hennar, Conversation with Friends, hefur komið út á íslensku. Sú nýja lýsir því hvernig líf tveggja ungra manneskju úr sama írska smáþorpinu skarast yfir árabil (þar minnti sagan mig sumpart á One Day eftir David Nicholls). Rooney er ung að árum, fædd 1991, en tæknilega séð ógnarflinkur höfundur, og innsýn hennar í hugi persóna með eindæmum. Vel skrifuð bók – sem að vísu tórir ekkert svo sterkt í mér að lestri loknum, eflaust vegna þess að umfjöllunarefnin (haltu-mér-slepptu-mér ástarsamband, þroski ungs fólks við þröskuld fullorðinsára, líf á háskólakampusi, meint mikilvægi þess að vera vinsæll o.s.frv.) eru af svolítið kunnuglegum meiði. Mæli engu að síður með henni fyrir þá sem vilja sökkva sér í auðlæsilega og tilfinningaríka frásögn. (SN.)

Hlekkir, 19. apríl 2019

Um daginn hafði ég til umfjöllunar nýja bók um vísindaheimspekinginn fræga, Thomas Kuhn, eftir kvikmyndargerðarmanninn Errol Morris. Í bókinni er ekki beint farið fögrum orðum um þennan annars ágæta speking. Þessi grein kemur Kuhn til varnar.

Góður leslisti hér um fjölmiðla.

Fannst þessi grein ansi góð og forvitnileg. Í henni er fjallað um hvernig maður á að bera sig að við skrif á internetinu og áhrifamátt slíkra skrifa.

Hér er farið yfir sögu dýrasta listaverks heims – Salvator Mundi „eftir“ Leonardo da Vinci. Stórfurðuleg saga.

Hér er fín grein um Notre Dame brunann – sorglegustu frétt vikunnar.

Hver er galdurinn við að læra e-ð nýtt? Svarið er víst að finna hér.

Flott grein um fólk sem þú gætir kannast við. Stal henni úr þessu skemmtilega íslenska fréttabréfi sem ég hef áður mælt með á þessum vettvangi.

Hvað felst í raunverulegu ríkidæmi? Hér er góð grein sem fer í saumana á því. (KF.)

Á áttunda áratugnum upplifði blaðakona ein ástarævintýri með fjöldamorðingja – lifði til að segja söguna á bók en fékk eiginlega aldrei uppreist æru sjálf í kjölfarið. Grípandi frásögn.

Í Fallegasta kynslóðin er alltaf sú sem kemur næst er stuttur kafli þar sem við sögu kemur AirBNB-leigusali í Reykjavík sem komið hefur upp leynilegum myndavélum í leiguíbúðum sínum og liggur svo á njósnum um túristana. Ég rakst á þessa grein í vikunni og sá að slík hegðun er ekki aðeins vandamál í skáldsögum.

Eiríkur Örn Norðdahl skrifar um Great Apes eftir Will Self.

Víkingar voru víðförlari en margir halda, og aðlöguðust ólíkri menningu vítt og breitt um hnöttinn. (SN.)


Fyrir augu og eyru:

Í vikunni sá ég fyrir tilviljun tvö myndskeið á netinu, eitt af öðru, og af einhverjum ástæðum hafa þau marað í vitund minni síðan, hlið við hlið, sem kannski er ósanngjarnt enda um alls kostar óskylt efni að ræða. En hvað um það, nú er svo komið að ég get ekki hugsað um þau nema í beinum samanburði hvort við hitt.

Fyrra myndbandið var brot úr einhverjum íslenskum sjónvarpsþætti sem mér skilst að snúist um að sýna landsmönnum heimili fólks „fyrir og eftir breytingar“. (Ekki spyrja mig hvers vegna þetta myndskeið skaut upp kollinum í stafrænni hliðartilvist minni). Vel stætt par, MS og HBS, er að gera upp stærðarinnar sumarbústað við Þingvallarvatn. Um er að ræða feykistórt sumarhús, sem sjálfsagt er rúmbetra og vistlegra en aðalheimkynni 99% mannkyns, og ljóst strax frá upphafi að hér verður ekkert til sparað. Maður tekur ósjálfrátt, sem innlifaður sjónvarpsáhorfandi, að hugsa sér gott til glóðarinnar og hlakka til að sjá hvernig útkoman verður „eftir breytingar“. Svo er klippt á hárréttri stundu: Liðið hefur langur tími (fimm ár!) og stjórnandi þáttarins, sympatískur og hress orkubolti, leiðir okkur skrefléttur og brosandi á vit sannleikans. Framleiðendur þáttarins, reynsluboltar í faginu, læða undir tilfinningaþrunginni stemningstónlist til að tryggja að við, sem sitjum heima í stofu, séum rétt innstillt andlega. MS stendur hnakkakerrtur inni í stofu, sigursæll hershöfðingi að lokinni vel lukkaðri orrustu, og patar fjálglega með höndunum staddur á einhvers konar óskilgreindu svæði mitt á milli eldhúss og stofu. Takk! segir hann þegar þáttastjórnandinn óskar honum til hamingju með afraksturinn. Í framhaldinu spara þeir félagar ekki lýsingarorðin: fljótlega verður okkur ljóst að lyft hefur verið grettistaki í því skyni að gera sumarbústaðinn sem glæsilegastan. Nema hvað, örstuttu síðar renna á sjónvarpsaðdáandann tvær grímur. Myndavélin hnusar vítt og breitt af innviðum sumarhússins og bráðlega verður deginum ljósara að ósamræmi ríkir á milli hinnar andaktugu mælsku stjórnandans vaska og MS annars vegar og raunverulegs útlits bústaðarins hins vegar. Sannleikurinn hæfir okkur í andlitið eins og blaut tuska: Sumarhúsið er ekki fallegt. Það lítur út eins og svekkjandi og ópersónulegt hótel. Eins konar karakterlaust hylki utan um ekkert nema einn lúinn hund og nokkur óeftirtektarverð húsögn í gráum tónum. Áhorfendur heima í stofu, vítt og breitt um landið, gnísta tönnum af vonbrigðum. Þarna eru engar bækur. Hvorki málverk né borðleikir. Engin hljóðfæri – raunar engar nauðþurftir vitsmunavera. Þarna er í rauninni ekkert nema einhvers konar gylltur sjónauki sem starir út í tómið. Maður hálfpartinn óskar þess að þarna stæði frekar bara svolítið skóglendi, kannski fuglshreiður á grein? Og hversu mikið kostaði þessi stílhreini tómleiki? spyr áhorfandinn sig í andnauð. Þetta er fyrra myndbandið sem ég sá, og það hefur, af einhverjum ástæðum, sótt talsvert á huga minn.

Seinna myndskeiðið lýsti einnig heimkynnum en þó ekki sterkefnaðs mannfólks heldur rostunga. Vegna loftslagsbreytinga, sem hljótast af því hversu miklum koltvísýringi við mennirnir dælum út í andrúmsloftið til að standa straum af ósjálfbærum lífsstíl okkar, eru náttúruleg heimkynni rostunga í Kyrrahafinu við Rússlandsstrendur nú að hverfa. Hafísinn, fyrra búsvæði þeirra, bráðnar og kemur ekki aftur. Af þeim sökum flykkjast rostungarnir nú upp á strendur árlega og hírast þar í lygilegri mergð (sjón er sögu ríkari). Myndband þetta er upprunnið í þáttaröðinni One Planet og þarna ber fyrir augu okkar tuttugu kílómetra flæmi af rostungum, sem vísindamenn áætla að sé um ¾ af öllum Kyrrahafsstofni tegundarinnar. Vegna rýmisskorts á ströndinni klaufast margir rostunganna sífellt hærra upp á land, þeir feta sig stirðir um þverhnípta hamra – áhorfandinn heima í stofu sýpur hveljur. Meðalrostungurinn er um tonn að þyngd, klaufaleg vera, ekki náskyldur ættingi fjallageitarinnar. Þegar hungrið sverfur aftur að og rostungarnir hyggjast halda aftur niður að hafi í fæðuleit, hrapa margir þeirra fyrir björg og týna lífi. Sú sena er með þeim átakanlegri sem ég hef séð lengi. Einn af öðrum hrapa þessi stóru, fallegu dýr tugi metra niður í fjöruna og skella á grjóti og hnullungum. Rostungarnir eru algjörlega varnarlausir gagnvart þeim breytingum sem eru að ganga yfir jörðina og hafa glatað heimkynnum sínum.

Það var mjög skrítin reynsla að sjá þessi tvö myndbönd svona í röð – fyrst vel stæða parið sem var að gera upp sumarbústaðinn sinn; síðan rostungana sem tapað hafa heimkynnum sínum – en kannski er þetta einn af slembikröftum Internetsins: stundum tekst því að ljá hlutum, sem við fyrstu sýn virka algjörlega óskyldir, samhengi og skyldleika. (SN.)

Mér fannst þetta viðtal við bandaríska myndlistarmanninn George Condostórkostlegt. Ekki oft sem ég sé svona ótrúlega góð viðtöl við myndlistarmenn þar sem þeir kafa djúpt ofan í hvað býr að baki verka þeirra. Fékk alveg nýja sýn á hans verk sem mér þóttu andskoti góð fyrir.

Þorvaldur Helgason, góðvinur Leslistans, var í viðtali í hlaðvarpi Læknablaðsins þar sem hann fer yfir mjög svo persónulegan og forvitnilegan innblástur fyrir nýtútkominni ljóðabók sinni – Gangverki.

Hér langt og djúpt viðtal við breska rithöfundinn Ian McEwan á gáfumannamiðlinum Edge.

Michael Lewis (sem er stórkostlegur rithöfundur að mínu mati) var að byrja með nýtt hlaðvarp. Fyrstu þættirnir lofa góðu. (KF.)

Bækur, 15. mars 2019

Ég hef átt Sjálfsævisögu Benjamin Franklin í nokkuð mörg ár og reynt að lesa hana nokkrum sinnum án þess að komast almennilega inn í hana. Eintakið sem ég á geymir einnig úrval ritgerða eftir hann og það var ekki fyrr en ég byrjaði á öfugum enda bókarinnar sem ég fór fyrst að hafa gaman af henni. Þar er að finna ótrúlega skemmtilegt og fróðlegt samansafn af hugleiðingum þessa merka manns sem eru bæði gagnlegar og skemmtilegar. Það sem mér fannst persónulega skemmtilegast að lesa voru spakmæli sem hann birti undir dulnefninu Richard Saunders í almanakinu Poor Richard’s Almanack. Maður lærir heilmikið um sögu Bandaríkjanna af þessari bók og ég er vís til þess að grípa til hennar með reglulegu millibili á næstunni. (KF.)

Hvernig lifir maður í heimi þar sem allt er að deyja? David Wallace-Wells, sem ritað hefur svo ötullega um umhverfismál á síðustu árum, tekst að nokkru leyti á við þá spurningu í nýrri bók sinni, The Uninhabitable Earth: Life After Warming. Efnisins vegna er þetta ekki auðveld lesning, en þó er bókin aðgengileg og rituð á máli leikmanna. Wallace skirrist ekki við að orða óhugnanlegar staðreyndir á blákaldan hátt:
„We have already exited the state of environmental conditions that allowed the human animal to evolve in the first place, in an unsure and unplanned bet on just what that animal can endure. The climate system that raised us, and raised everything we know as human culture and civilisation, is now, like a parent, dead.“ (24)
Síðar í bókinni merkti ég einnig við þessar línur: „There is nothing to learn from global warming, because we do not have the time, or the distance, to contemplate its lessons; we are after all not merely telling the story but living it. […] One 2018 paper sketches the math in horrifying detal. In the journal Nature Climate Change, a team led by Drew Shindell tried to quantify the suffering that would be avoided if warming was kept to 1.5 degrees, rather than 2 degrees––in other words, how much additional suffering would result from just that additional half-degree of warming.“ Svarið: Mörg hundruð milljónir mannslífa. Hvað dóu aftur margir í helförinni? Fyrri heimsstyrjöldinni? Tölurnar blikna í samanburði. Það sem veitir manni von er vitundarvakningin meðal fólks, einkum hinna yngri, sem er að verða úti um allan heim. (SN.)


Óskalistinn:

Sá nýlega að það væri komin út ný íslensk þýðing á bókinni Lacci eftir ítalska rithöfundinn Domenico Starnone. Ég hafði til umfjöllunar í gömlum Leslistaenska þýðingu á þessari skemmtilegu bók. Mér fannst hún það góð að ég hefði ekkert á móti því að kafa í þessa nýju þýðingu eftir Höllu Kjartansdóttur. Svo heyri ég að Starnone sjálfur verður gestur bókmenntahátíðar. Gaman. (KF.)

LEXÍA er ný íslensk-frönsk orðabók, verkefni á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum í nánu samstarfi við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Þann fjórða apríl næstkomandi verður orðabókin kynnt sérstaklega fyrir frankófílum og öðrum áhugasömum í Alliance Française. „Ritstjóri og verkefnisstjóri LEXÍU, Rósa Elín Davíðsdóttir, kemur og talar um orðabókina og gefur nokkur sýnishorn úr henni ásamt því að spjalla almennt um þær áskoranir sem fylgja því að þýða á milli íslensku og frönsku,“ segir á síðu Alliance Française. Génial, alveg hreint. (SN.)

Bækur, 27. júlí 2018

Mig hefur lengi langað til að reykja að staðaldri. Enn hefur mér þó ekki lánast að temja mér slíkan ávana. Nú má reyndar eiginlega enginn reykja lengur, ekki einu sinni rithöfundar. Eflaust gerir það mannlífið fátæklegra. Rithöfundar eru auðvitað annálaðir keðjureykingamenn og ganga í gegnum ýmsar hremmingar við að losa sig við sígarettuna. Í „The Smoking Section“, ritgerð/smásögu úr When You Are Engulfed in Flames eftir David Sedaris, flyst David meira að segja til Japans í því skyni að reyna að hætta að reykja. Í My Documentseftir Alejandro Zambra er svipuð ritgerð/smásaga, sem nefnist í ensku þýðingunni „I Smoked Very Well“. Góðar sögur úr góðum bókum. Ég veit annars ekki hversu margir hafa ritað viðlíka kveðjubréf til sígarettunnar á íslensku. Mig rámar í að Sigurður Pálsson fjalli talsvert um reykingar sínar í Minnisbók. Á tímabili sat hann víst við og hamaðist við að klára leikrit og reykti þá þrjá pakka á dag. Þá hefur verið hressandi að setja endapunktinn og opna glugga.

Milli vinaheimsókna og sundferða í reykvísku fríi hef ég annars mest verið að fletta í mikilli uppáhaldsbók – C.P. Cavafy: Collected Poems í þýðingu Daniels Mendelsohn. Þetta eru bestu ensku þýðingar sem ég hef fundið á Cavafy – gaman væri að fá ábendingar frá áskrifendum ef þeir þekkja til íslenskra þýðinga á ljóðum gríska skáldsins? – og ekki spilla ýtarlegar skýringar þýðandans og frábær formáli. Í alla staði mjög flott útgáfa. Eitt áhrifamesta ljóð sem ég hef lesið er „Borgin“, hér í þýðingu Edmund Keely (mun síðri frammistaða en hjá Mendelsohn). Þarf nokkuð að yrkja fleiri ljóð?

Svo er ég hálfnaður gegnum skáldsöguna Eileen eftir Ottessu Mosfegh. Ung vinkona mín í útgáfubransanum í New York er forfallinn aðdáandi hinnar ungu Mosfegh og hefur mikið hvatt mig til að lesa hana. En ég er latur. Í vikunni greip ég þó loks Eileen, aðra skáldsögu Mosfegh, og er hálfnaður í gegnum hana – stórskemmtileg. Sagan gerist í ónefndum bandarískum smábæ, X-ville, árið 1964 og er í senn fyndin og nöturleg, drifin áfram af stórskemmtilegri fyrstu persónu-sögumannsrödd. (SN.)

Manstu eftir því þegar Hulk Hogan bar sigurorð af slúðurmiðlinum Gawker í miklum réttarhöldum, og svo þegar í ljós kom að tæknifjárfestirinn Peter Thiel hafði stutt við málaferli Hogan bak við tjöldin? Rosaleg frétt og jafnvel ennþá rosalegra hversu fáir miðlar lögðu í að rannsaka málið ýtarlega. Rithöfundurinn ungi Ryan Holiday, sem ég hef áður haft til umfjöllunar á þessum vettvangi, komst að því á síðasta ári að hann var í einstakri stöðu – þar sem hann var í beinu sambandi við bæði Peter Thiel og Nick Denton, stofnanda og eiganda Gawker. Hann ákvað að nýta sér stöðu sína og skrifaði bók um málið sem heitir Conspiracy og kom út fyrr á þessu ári. Ég er búinn að vera að lesa hana í vikunni og get varla lagt hana frá mér. Hún er bæði virkilega vel rannsökuð og fáránlega spennandi. Mér finnst á köflum ótrúlegt að þetta sé sönn saga – að Thiel hafi í alvörunni lagt á ráðin um að knésetja Gawker í næstum áratug! Það sem er líka frábært við bókina er hversu vandlega Holiday setur sig í spor beggja aðila. Hann fer yfir kosti og galla bæði Thiel og Denton og rekur líka listilega vel hvað þessir menn eiga sameiginlegt. Þetta er ein allra besta (nýja) bók sem ég hef lesið á árinu og ég hvet alla til að lesa hana.

Úr því að ég minntist á Peter Thiel þá má ég til með að minnast á einu bókina sem hann hefur gefið út, Zero to One, þar sem hann rekur heimspeki sína á bak við stofnun og rekstur fyrirtækja. Mér fannst hún bæði skemmtileg og lærdómsrík þegar ég las hana á sínum tíma. (KF.)

Nýlega kom út hjá Bjarti, í samvinnu við Opnu, í tveimur bindum verkið Norðlingabók, safn allra sagnaþátta Hannesar Péturssonar, í endurskoðaðri útgáfu. Af því tilefni seildist ég eftir eftirlætis-ljóðabók minni eftir skáldið, Fyrir kvölddyrum. Það er alveg kynngimögnuð bók – og hún mætti mín vegna koma út á hverju ári, um ókomna tíð. Hannes er að vanda kjarnyrtur, en slær drungalegri tón en oft áður. Svona yrkir hann í bók sem kemur út árið 2006:

Hugtækur er þessi garður
þó að haustbliknað falli
lauf og lauf
á lúðar yfirhafnir.

Í raun og veru
mjög viðkunnanlegt hrun.
 (SN.)