Ráðunautur Leslistans: Sigurlín Bjarney Gísladóttir

Sigurlín Bjarney Gísladóttir var að senda frá sér sína sjöundu ljóðabók,Undrarýmið, fallegt bókverk, ríkulega myndskreytt. Ég var svo heppinn að rekast á ljóðskáldið á förnum vegi og við áttum stutt spjall saman.

– Sverrir Norland

Kæra Sigurlín Bjarney, hjartanlega velkomin í ráðuneyti Leslistans og til hamingju með Undrarýmið, nýju ljóðabókina þína. Einstaklega falleg kápan og í stíl við ævintýralegt umhverfið hér í ráðuneytinu.

Kæri Sverrir! Takk fyrir gott boð.

Til að hefja leik: Einu hef ég verið að velta fyrir mér upp á síðkastið, ef ekki frá fæðingu — hvað er ljóð, veistu það?

Ég held að ljóð sé margt og eigi sér margar hliða, ljóðið býr einhvers staðar í björtu kjallaraherbergi með vinkonum sínum myndlist og tónlist og það er óttalegt ólíkindatól og neitar að láta skilgreina sig, um leið og maður hefur fest það niður í stól og gefið því skilgreiningu þá stekkur það upp með látum (eða laumast burt) og breytist í eitthvað annað. Í mínum huga er ljóðformið mest spennandi því þar er fullkomið frelsi og allt hægt, ljóð eru orð sem raðast saman á áður óvæntan hátt, umbreyta lesandanum ef móttökuskilyrðin eru til staðar, ljóðinu er alveg sama um viðtökur eða sölutölur eða vinsældir, það gerir það sem því sýnist og þess vegna er ekki annað hægt en að heillast gjörsamlega af því.

Já, kannski ljóðið sé einn síðasti útvörður frjálsrar og skapandi hugsunar — og uppreisnarinnar — í mannlegu samfélagi? Rokkið er dautt — en ljóðið lifir.

En manstu hvenær ljóðið smeygði sér fyrst inn í líf þitt, hvað varstu gömul, hvar varstu stödd?

Já, ljóðið er klárlega pattaralegur útvörður. Nei, ég man ekki hvenær nákvæmlega ljóðið læddist inn í taugakerfið, man að ég var byrjuð að fikta við ljóðagerð í 7. eða 8. bekk og þá helst gamankvæði um vinkonur mínar en svo tók alvaran fljótlega við, og fyrir há-alvarlegan ungling er gott að leita í ljóðin, þar er alveg jafn mikið pláss fyrir drama og hlátur. Var alltaf að skrifa hjá mér hugmyndir, ljóð og andvörp en hélt því fyrir mig. Gæti trúað að tónlist hafi haft mikil áhrif, lærði lengi á píanó.

Og áttu þér ljóðskáld sem fylgt hafa þér lengi, og þá hvernig og hvers vegna?

Þau eru nokkur ljóðskáldin sem hafa fylgt mér lengi, dettur helst í hug Sigurbjörgu Þrastardóttur og Óskar Árna Óskarsson en svo eru þarna líka Kristín Eiríksdóttir og Elísabet Jökulsdóttir og Kristín Ómarsdóttir. Þau eru öll svo frjó og búa til nýja rafleiðni í hausnum á mér, opna nýjar og gamlar (gleymdar) víddir. Féll fyrir nokkrum árum fyrir Tomas Tranströmer og svo er ég alltaf að hnjóta um eitthvað fallegt eftir Rilke.

Nýja bókin þín er skreytt afar fallegum og sérstæðum myndum, sem eru „birtar með góðfúslegu leyfi frá Hagströmer lækningasögubókasafninu, Karónlínsku stofnuninni í Stokkhólmi“. Hver var kveikjan að ljóðabókinni, ortirðu út frá myndunum?

Já, ég notaði myndirnar sem kveikjur eða stökkpall inn í skáldskapinn, ákvað síðan að leyfa kveikjunum að vera með í bókinni enda dáldið mergjaðar finnst mér. Mig grunar að úrvinnsla mynda og texta eigi sér stað á ólíkum svæðum í heilanum og þá kannski kannski myndast nýjar tengingar í því undrarými sem heilinn er þegar ljóðin eru lesin og myndirnar teknar inn á sama tíma. Skokk með tónlist í eyrunum er ein svakalegast ljóðakveikja sem ég þekki, nenni bara svo sjaldan að skokka að ljóðin koma seint og hægt.

Ráðunautur Leslistans: Guðrún Eva Mínervudóttir

Guðrún Eva Mínervudóttir ætti að vera lesendum að góðu kunn, hún hefur sent frá sér fjöldamargar bækur og á sér marga aðdáendur. Hún var vígð inn í ráðuneyti Leslistans undir skafheiðum, bláum himni nú í vikunni, og að því tilefni áttum við stutt og kjarnríkt spjall — um lestur, skrif og, síðast en ekki síst, sálina.

  • Sverrir Norland

Kæra Guðrún Eva, hjartanlega velkomin í ráðuneyti Leslistans. Mér datt í hug að við gætum stigið út á svalir og haft fyrir augunum útsýnið yfir hafið á meðan við röbbum saman, það örvar heilann að komast út í súrefnið. Og gjörsovel, heitur tebolli til að ylja sér á lófum og í kverkum.

Takk innilega, Sverrir.

Þú hófst rithöfundaferilinn með smásagnasafni, Á meðan hann horfir á þig ertu María Mey, og sendir nú á dögunum frá þér safn númer tvö,Ástin, Texas (frábær titill!). Hvernig finnst þér að skrifa smásögur í samanburði við skáldsögur, er mikill munur, ef nokkur, þar á? Hvernig mundirðu skilgreina smásöguformið (ef þú þá skilgreinir það yfirhöfuð)?

Smásögur eru svo spennandi, bæði aflestrar og að skrifa þær, vegna þess að í samanburði við skáldsöguna eru þær mikil ólíkindatól. Þú veist aldrei hvert þær ætla með þig. Það vandræðalega við skáldsagnaformið er að það er iðulega hægt að setja skáldsögu inn í formúluna: Aðalpersóna (stundum fleiri en ein) gengur í gegnum eitthvað dramatískt og lærir af því/breytist. Smásögur (í það minnsta af þeim toga sem ég kann helst að meta) snúast meira um það að höndla óræðan en samt raunverulegan sannleika í gegnum reynslu persónanna. Þær skilja þig eftir með þá tilfinningu að þú hafir upplifað eitthvað sem þú sem lesandi þarft sjálfur að leiða til lykta. Að loknum lestri verður smásaga hluti af manni með öðrum hætti en skáldsaga. Skáldsaga er meira eins og heill hlutur, aukalíffæri, kannski, sem þú lætur græða í þig. Smásaga getur verið eins og skinnágræðsla; aukaskinn sem bráðnar smám saman við það skinn sem fyrir er þar til mörkin mást út. Þetta á auðvitað aðeins við í þeim tilvikum sem skáldsaga eða smásaga hefur djúp áhrif á lesandann. Líkaminn á það til að hafna aukahlutum.

Þetta er frábærar, og virkilega áhugaverðar, skilgreiningar. Það höfðar til mín að hlutgera bókmenntaverk svona, skynja þau sem líffæri. Rímar líka við upplifun mína sem lesandi: mörg eftirlætisverk eru eins og framlengingar á heilanum í mér, geyma reynslusvið sem eru mér allt eins nærtæk og atburðir úr lífi mínu; þarna eru handleggir sem ég veifa, fótleggir sem ég dansa á, augu sem ég nota til að skoða veröldina…

Svo eru aðrir sem mundu fetta fingur út í skilgreininguna á skáldsögunni. Reka upp ramakvein og fullyrða að um einföldun sé að ræða. Vissulega sendir kunnugleg formúla aðalpersónuna í gegnum reynslu sem þroskar viðkomandi, breytir, eflir jafnvel; og ritstjórar og ritlistarkennarar hvetja sjálfsagt margir höfunda sína og nemendur sína til að sníða sögur á slíkan hátt. (Ég gerði það vísvitandi í annarri skáldsögunni minni, Fyrir allra augum, til að sanna fyrir mér að ég gæti það: sagan fylgir klassískri byggingu í þremur hlutum og persónan hefur tekið út lærdóm og þroskast undir lokin. Þetta gat ég!) Ég óttast samt stundum að þessi formúla beri vitsmunalegri leti og dvínandi hugarflugi okkar vitni; og að Hollywood-þroskasagan verði altæk, innprentuð svo freklega í vitund okkar að öðruvísi sögur orki ekki lengur á okkur.

Því þetta gildir engan veginn um allar skáldsögur, eða hvað? Margar þeirra bestu eru alveg sín eigin verk, fylgja engri formúlu, eru kannski frekar eins og ljóð (eða opnar smásögur). Jafnvel meistaraverkin: Anna Karenína, þar fremur titilpersónan sjálfsmorð og síðasti hluti verksins fylgir eftir afdrifum hálfgerðrar aukapersónu í verkinu. Þroskast einhver? Það er ógerningur að súmmera upp efni þeirra skáldsögu sem er sú besta sem ég hef lesið á þessari öld: 2666 eftir Roberto Bolano. Sama gildir um Infinite Jest eftir David Wallace (er það skáldsaga?) og stuttu skáldsögurnar hans Cesar Aira. Sjálfur leita ég alltaf að nýstárnlegum félagsskap þegar ég les bækur og laðast að skáldsögum sem kannski eru varla skáldsögur: Richard Brautigan, Hervé Guibert, José Saramago, Marguerite Duras, Chris Kraus …

Milan Kundera — þú afsakar allt þetta nafnatog, úff! — mundi ábyggilega skilgreina skáldsöguna, sérstaklega stórar skáldsögur frá 19. öld og byrjun þeirra 20., sem eins konar dótakassa þar sem allt er leyfilegt. (Skáldsögurnar hans eru líka dæmi um vinsæl verk, sem brjóta formúluna, og daðra við að vera ritgerðir.) Maður án eiginda eftir Robert Musil væri annað gott dæmi; hér má allt. Og svo önnur, nýlegri, sem fer í flokk með þeim bestu sem komið hafa út á síðustu áratugum: The Last Samurai eftir Helen DeWitt (það má þó kannski segja að þar þroskist persónurnar, ég veit það ekki). Íslenskt dæmi: Kristnihald undir jökli?

Getur verið að við séum vönkuð, að vitsmunaleg fimi okkar sé að dala? Að við séum latir lesendur sem vilja láta mata sig á því kunnuglega og að þessi vegna hafi smásagan, sem virðist vera í svolítilli sókn, svona hressandi áhrif á okkur? Að þar megi endurstokka reglurnar með hætti sem ekki leyfist lengur í skáldsögum? Útgefendur spyrja þegar höfundur kemur með handrit inn á forlag: Fyrir hvern er þetta? Það er hættulegt fyrir listgrein ef hún þarf að mata stirðnaðan neytendahóp með fyrirframgefnar kröfur. Því ég held nebbla að virkilega góð skáldsaga sé ekki fyrir neinn þegar hún kemur út — hún gerir eitthvað alveg nýtt og segir við lesendur:

Hér er ég, þú vissir ekki að þú þarfnaðist mín fyrr en ég kom óvænt inn í líf þitt …

Ó, já, takk innilega fyrir þessa fínstillingu. Vissulega hafa verið skrifaðar fjölmargar skáldsögur sem falla ekki nákvæmlega í formið. Og aðrar sem falla í formið en gera það svo vel að maður tekur ekki eftir því. Þegar ég gaf út mínar fyrstu bækur, á tíunda áratug síðustu aldar, var mikið rætt um póstmódernisma og það þótti sjálfsagt að skrifa óhefðbundnar skáldsögur. Það er helst á síðustu tuttugu árum eða svo sem mér finnst að góðar og gegnar vangaveltur um strúktúr hafi verið teknar full bókstaflega. Hér áður fyrr spáði fólk mikið í stíl en svo fór orðið plott að heyrast æ oftar í tengslum við fagurbókmenntir. Þetta hélst í hendur við vinsældir glæpasögunnar. Eins og fagurbókmenntir fengju allt í einu minnimáttarkennd gagnvart glæpasögunni. Sumir eru jafnvel viðkvæmir fyrir því að aðgreina með þessum hætti, en mér finnst sjálfsagt að greina á milli glæpasagna og fagurbókmennta því þar með er ekki verið að segja að eitt sé betra en annað. Við sækjumst eftir ólíkum hlutum í þessum ólíku tegundum skáldskapar.

Þessi krafa um hefðbundið plott er hvorki höfunda- né lesendavæn. Hún er mögulega markaðssetningavæn. En fyrst og fremst, held ég, byggð á þeim misskilningi að lesandinn sé svo Disney-væddur að hann þoli ekkert annað en formúlu af einhverjum toga. Það er ekki rétt. Lesendur eru stórkostlega vanmetnir og eiga betra skilið. Fyrst og fremst eiga þeir skilið fjölbreytni.

Sem höfundur tek ég ekkert af þessu nærri mér. Ég á í einföldu sambandi við skáldskapargyðjuna. Hún segir mér hvað hún vill, án þess þó að vera með dólg. Ég reyni að hlusta almennilega og hlýði síðan með bros á vör. En sem lesandi verð ég stundum fyrir vonbrigðum. Það gerist æ oftar að ég fæ í hendur það heitasta utan úr heimi, eitthvað sem ég hef áður lesið um og litist vel á. Við lesturinn breytist forvitni í hrifningu: Þvílíkur sagnaheimur! Þvílíkir hæfileikar! En svo kannski um eða eftir miðja bók fer einhver svona klunnaleg plott-vél í gang og þar með rofna töfrarnir. Þá segi ég við sjálfa mig til huggunar að þessi tiltekni höfundur hljóti að vera fæddur til að auðga heiminn með opnum smásögum eða óhefðbundnari skáldsögum en sé bara ekki almennilega búinn að gefa sér leyfi til þess ennþá.

Allt þetta sem ég er að segja er auðvitað ekki annað en mínar upplifanir og alls enginn algildur sannleikur. Ég hef engar sérstakar áhyggjur af stöðu skáldskaparins sem listgrein í nútímanum. Það er stöðugt verið að framleiða hugvíkkandi, vekjandi og dýpkandi skáldskap. Töfra sem rofna ekki. Þá er ekki endilega (en þó einnig!) að finna meðal þess sem mest er haldið að manni. Og á síðustu árum hef ég helst fundið þessa töfra í vissri tegund af smásögum en einnig í svokölluðum sannsögum (já, Karl Ove Knausgard) og hugrenningabókum á borð við þær sem Patti Smith er að skrifa (Just Kids, M-Train).

Einmitt, og þríleikurinn hennar Rachel Cusk, hann er frábær og skyldur verkum Knausgaards.

En hlustaðu nú: Ég heyrði þig einu sinni tala á höfundarkvöldi í Gunnarshúsi, að mig minnir, og þar nefndirðu að alltaf hefði legið vel fyrir þér að skrifa góðan stíl, en síður, í hið minnsta til að byrja með, að setja saman plott — skýran og samhangandi söguþráð. Þú skrifaðir fallegan texta sem átti til, ef þú passaðir þig ekki, að enda út í móa. Af þessum sökum hefðirðu tekið þig til og virkilega kafað í sagnagerð, strúktur, og snúið svo aftur að sagnagerðinni tvíefld, þá búin að læra tökin á því að byggja upp skáldsögur, eins og sannast á bókunum þínum. Er ég að búa þetta til, eða er þetta á sannleika byggt, ljóstraðirðu þessu upp þetta dimma vetrarkvöld í Gunnarshúsi, meðan snjóiðurnar þyrluðust um ljóskeilur götustauranna? Og hvað gerðirðu, nákvæmlega, þegar þú stúderaðir sögubygginguna, tókstu í sundur sígild meistaraverk bókmenntanna, kafla fyrir kafla, klipptir jafnvel í sundur bækur og hengdir upp á þvottasnúru til að fá heildaryfirlit, eða lastu leiðbeinandi verk um ritstörf, eða æsktir ráða hjá vitru fólki? Og hvað nú, plottarðu bækurnar þínar, skref fyrir skref, áður en þú skrifar þær? Ertu til í að veita Leslistanum örlitla innsýn í sköpunarstarfið hvað þetta snertir, eða er ég of nærgöngull, alltof nærgöngull?

Það er rétt að hér áður fyrr eltist ég fyrst og fremst við fegurð augnabliksins með fiðrildaháfinn á lofti og skrif mín báru þess merki. Fyrstu skáldsöguna skrifaði ég átján og nítján ára og hún var eiginlega 200 síðna prósaljóð. Hún kom aldrei út en var mér góður skóli og höfundarröddin tók að mótast. Það var ekki fyrr en tíu árum síðar, eða með Yosoy sem kom út 2005, að ég áttaði mig á að efnið sem ég var að vinna með hrópaði á strúktúr. Þar voru margar fyrirferðarmiklar persónur og hver og ein þeirra þurfti sinn söguboga. Allt þurfti síðan að falla saman saumlaust. Ég átti maraþonsamtöl við gáfaða vini, flest við Val Antonsson, Nýhíl ljóðskáld og heimspeking sem var lengi vel óformlegur ritstjóri minn. Ég las bækur um kvikmyndahandrit, vegna þess að þær voru svo skírar og skorinorðar að það var ekki nokkur leið að taka þær alveg hátíðlega (á blaðsíðu 50 skal vera vendipunktur númer eitt, hahaha). Frá og með Yosoy hafa skáldsögur mínar staðið undir nafni og haft grjótharðan strúktúr sem samt fellur þannig inn í landslagið að lesandinn á ekki að verða var við hann sem slíkan. Þær eru Skaparinn, Allt með kossi vekur, Englaryk og Skegg Raspútíns.

En ég myndi aldrei plotta bækurnar fyrirfram. Starf mitt felst fyrst og fremst í að þvælast sem minnst fyrir undirvitundinni. Eins og Stephen King (sem fyrirfram-plottar heldur ekki sínar bækur) lýsti því þá má líkja skáldsagnaskrifum við það að grafa upp risaeðlubeinagrind. Það væri fljótlegast að nota stórvirkar vinnuvélar, en þær leggja allt í rúst. Þess vegna er maður að potast þetta með teskeið og mjúkan bursta og láta heildina smám saman koma í ljós. Þá er samt betra að vita eitthvað um anatómíu forndýra og að sama skapi að hafa kynnt sér hvernig plott virkar.

Líkingin hans Stephen King um risaeðlur finnst mér sniðug og „spot on“. Nærtækari líking fyrir mig sem er af annarri kynslóð er samt niðurhal. Maður þarf að leyfa þessu að hlaðast niður í rólegheitum og það gerist helst þegar líkaminn er í slökunarástandi. Stundum vakna ég um miðjar nætur og átta mig á að andardrátturinn er eitthvað þvingaður. Þá leyfi ég mér að ofanda í smástund og eftir það hefst niðurhalið. Þetta er allt í andardrættinum, eins og jógarnir segja. Ég er eiginlega hætt að rjúka á fætur um miðjar nætur til reyna að skrifa allt niður. Eftir að niðurhalið kemur er innihaldið aðgengilegt, bara þegar hentar. Það að reyna að plotta eða skrifa áður en niðurhalið kemur er ekki til neins annars en að tefja fyrir. Þess vegna bíð ég bara róleg eftir að undirvitundin skili af sér einni og einni kjúku og stundum lærlegg. Eins og ég er innilega óþolinmóð manneskja. Minn heittelskaði þarf til dæmis stöðugt að minna mig á að leyfa bílnum að nema staðar áður en ég stekk út.

Hvað finnst þér um skáldsöguna almennt þessa dagana, er hún að syngja sitt síðasta eða einungis rétt að hefja flugið? Sumum virðist mjög í mun að lýsa því reglulega yfir að hún sé á dánarbeðinum — en þó þykist ég nokkuð viss um að hún muni koma í útför okkar beggja, rjóð í vöngum og í góðu formi, enda ekki svo ýkja gömul, bara nokkurra hundrað ára (og það er enginn aldur). Hvað finnst þér?

Skáldsagan er ekki að syngja sitt síðasta, heldur rétt að hefja flugið, eins og þú segir. Eða eru ekki fuglar himinsins einmitt beinir afkomendur risaeðlanna?

Jú!

Og svo er það smásagan: Áttu þér einhverja eftirlætis-smásagnahöfunda, innlenda, erlenda? Ef svo er, hvernig koma galdrarnir fram hjá þeim?

Ég á mér mjög marga eftirlætis smásagnahöfunda og það sem þeir eiga sameiginlegt er nánd og hægð. Þeir eru nærgöngulir við persónur sínar og sýna breyskleika þeirra í nærmynd en hætta ekki fyrr en við höfum eignast einhvers konar samúð og skilning. Vegna þess að reynsla persónanna er núna reynsla okkar líka. Vegna þess að höfundurinn hefur með nákvæmni og þolinmæði sett okkur í þeirra spor. Galdurinn felst líka í því að hafa söguna opna í báða enda án þess þó að segja of mikið eða of lítið. Lesandanum á helst að finnast fullkomlega eðlilegt að sagan endi þar sem hún endar, en án þess þó að vita nákvæmlega hvers vegna sögunni lýkur á akkúrat þessum stað.

En á hvað trúirðu, Guðrún Eva, hver ertu? Og hvers vegna gerðistu rithöfundur?

Nú fyrst geristu nærgöngull. Það er gott hjá þér! (Mér er alveg sama þótt fólk viti hvernig ég vinn. Það er bara tæknilegt atriði.)

Fyrst seinni spurningin og þú mátt velja svarið úr eftirfarandi möguleikum: a) Ég gerðist rithöfundur vegna þess að fyrsta skáldsagan byrjaði að hlaðast niður. b) Ég þráði að tengjast heiminum gegnum lestur og skrif. c) Mig langaði að vekja á mér athygli? d) Níutíu og fimm ára feneysk kona aumkaði sig yfir mig átján ára bjálfa á interrail ferðalagi og forðaði mér frá því að eyða nótt á síkisbakka. e) Eftir barns- og unglingsævi sem einkennist af stanslausum lestri er náttúrulegt viðbragð að byrja að skrifa, næstum sjálfsögð kurteisi, líkt og að svara þegar á mann er yrt.

Síðan seinni spurningin: Áðan sagði ég að þetta væri allt í andardrættinum og nú geng ég enn lengra: Ég er andi. Ég er ekki líkami með sál heldur sál íklædd líkama. Ég finn fyrir smá hræðslu í hvert sinn sem ég viðurkenni þetta vegna þess að fullt af fólki sem ég met mikils hefur ofnæmi fyrir lífsskoðunum á borð við þessa. En maður verður víst að standa og falla með því sem maður er. Auðvitað gæti ég haft rangt fyrir mér — sem er í góðu lagi, það er hin sjálfgefna áhætta sem maður tekur í hvert sinn sem maður leyfir sér að hafa skoðun — ég veit ekkert fyrir víst frekar en aðrir. En á endanum er þetta minn daglegi veruleiki og mín fyrirferðarmesta sjálfsmynd: Ég er sál.

Ráðunautur Leslistans: Þórarinn Eldjárn

Mynd: Þorsteinn Haraldsson. Tekin á túninu fyrir framan Menntaskólann í Reykjavík 22. ágúst 2009 á sextugsafmæli skáldsins.

Þórarinn Eldjárn, rithöfund, þarf vart að kynna fyrir landsmönnum, hvað þá einstaklega vel upplýstu samfélagi Leslistans. Við Þórarinn skrifuðumst á og hér gefur að líta afraksturinn.

– Sverrir Norland

Hjartans þakkir fyrir að ganga í ráðuneyti Leslistans, kæri Þórarinn Eldjárn, okkur er mikill styrkur að því að fá þig til liðs við okkur. Vonandi væsir ekki um þig í gula skeljastólnum frá Eames. Þú getur valið um ískalda Appelsín í gleri, gerjað greipte af krana eða togarakaffi á brúsa — og svo er Kári með fínar brauðbollur, skreyttar sesamfræjum, inni í ofninum. Rabarbarasulta frá ömmu (eins og þú getur í þig látið!).

Fyrsta spurning er blátt áfram, einföld og hnitmiðuð: Ertu að lesa eitthvað gott og skemmtilegt í augnablikinu sem þig langar að gauka að hinu fróðleiksfúsa samfélagi Leslistans?

Ég hef nú síðast verið að lesa endurminningar sænska rithöfundarins Torgnys (Þórgnýs) Lindgren (ekkert skyldur Astrid, nafnið er mjög algengt). Hann var fæddur 1938 uppi í Vesturbotni, lést 2017. Bókin kom fyrst út 2010 og heitir ósköp einfaldlega Minnen, þeas. Minningar.

Bókin fer nokkuð sérkennilega af stað þar sem hún byrjar á lýsingum á því hvernig höfundur hefur um langa hríð reynt að færast undan kröfum forleggjara sinna hjá Norstedts um að skrifa endurminningar. Vísar ætíð til þess að hann muni ekki neitt. Svarar kvabbi forleggjaranna með því að hann hafi haft lifibrauð af ímyndunum sínum, en…. „Að taka nú til við að kalla þær minningar væri allpínlegt.“

Þórgnýr sló í gegn 1982, minnir mig, með skáldsögunni Ormens väg på hälleberget. Mergjuð stutt saga skrifuð á norrlenskri mállýsku, þýdd á íslensku af Hannesi Sigfússyni og kölluð Naðran á klöppinni. Eins komu út amk. tvö smásagnakver hans í Syrtluseríu Mom, einnig í þýðingu Hannesar. Frábærar bækur.

Minningabókin líður áfram með stanslausum pælingum um eðli minnisins og minninganna kringum ýmis atvik og tímabil og lesningu í ævi höfundar, engan veginn í línulegri röð. Eins og fleiri Norrlendingar á hann sér rætur í sértrúarsöfnuðum og kynntist berklahælum ungur. Náði heilsu og varð kennari, lagði stund á heimspeki, einkum Schopenhauer og Nietzsche. Gætir þess og einnig kristinna pælinga mjög í verkum hans.

Áhugaverð fyrir Íslendinga er frásögn hans af því þegar hann er hér staddur og fær að hitta Halldór Laxness. Hefur áður sent honum bréf og farið mjög fögrum orðum um Kristnihaldið.

Hann er líka staddur hérlendis þegar fregnir berast af því að Olof Palme hafi verið myrtur (TL var eindreginn sósíaldemókrati). Þannig vill til að sænski sendiherrann hringir í hann þar sem hann er nýsofnaður á hótelherbergi. Sendiherrann hefur mörg orð um að hann þurfi að búa sig undir hræðilegar fréttir, spyr hvort hann sitji standi eða liggi, þannig að TL fer að halda að eitthvað hræðilegt hafi komið fyrir í fjölskyldunni. Þegar svo loks sendiherrann lætur hryllingsfréttina vaða: Olof Palme hefur verið myrtur svarar kratinn Þórgnýr spontant því svari sem hann segist gera ráð fyrir að varðveitt sé einhversstaðar í skjalasafni sænska utanríkisráðuneytisins: Gud ske lov att det bara var en sådan bagatell.

Þannig er að nokkrar línur úr nýjustu bók Péturs Gunnarssonar,Skriftum, hafa suðað í kollinum á mér síðan ég las bókina skömmu eftir að hún kom út um jólin 2016. Ég er ekki með hana við höndina, en ég man þetta ágætlega. Á 168. — 169. síðu er Pétur með tvo heimsþekkta Frakka í brennidepli, Jean-Paul Sartre og Michel Focault, áhrifaríka rithöfunda og svona „public intellectuals“ af þeirri tegund sem við Íslendingar höfum aldrei átt. (Eigum við bara gárunga?)

Og spurningin hjá Pétri er: Hvert er gildi bókmennta?

Koma þær, þegar öllu er á botninn hvolft, nokkru til leiðar? Undir lok ævi sinnar voru bæði Sartre og Focault nokkuð bölsýnir. Mennirnir komast af án bókmennta, slík var í raun niðurstaða þeirra. Allt hverfur og „allt fer“, svo ég vitni í nýlegan titil íslensks höfundar. Allt vort blekstrit er sjálfsagt aðeins ryk og hégómi, hugarleikfimi, snobb. Og ef ég skil Pétur rétt dregur hann af lestri verka þeirra Sartre og Focault þá niðurstöðu að þeir telji að bókmenntir (bæði þeirra og annarra) komi litlu til leiðar og að það — plús yfirvofandi dauða þeirra sjálfra — marki í raun eins konar heimsslit, endalok alls. Þeir deyja — og öllu lýkur. Bókmenntirnar fjara út. Allt fer.

Pétur er ekki endilega á sama máli, og segir:

Svona tala náttúrlega bara barnlausir menn […].

Þessi lína! Hún situr föst í kollinum á mér. Og ómar jafnvel stundum þegar ég les bók eftir barnlaust karlkyns séní (Já, svona tala náttúrlega bara barnlausir menn …).

Síðustu tvö árin hef ég varið meiri tíma í að ýta barnavagni um stræti en penna um pappír. Stundum sest ég niður, örþreyttur eftir að hafa eldað fyrir lítið barn, leikið við það, lesið fyrir það, skammað það, huggað það, skipt um bleyju á því, svæft það — og finnst eins og ég hafi ekkert að segja. Ég legg fingurna á lyklaborðið en hrekk skyndilega í kút við barnagrát — sem ómar einungis í kollinum á mér. Og mér finnst ég ekki hafa sama sjálfsálitið og ég hafði áður — þegar ég var barnlaus maður. Þetta er klisja, en um leið hljóta barnseignir að gjörbreyta lífssýn þeirra sem hafa að starfi að hugsa um veröldina og færa undur hennar og veruleika í orð.

Eitthvað hefur allavega breyst innra með mér. Stundum finnst mér næsta ómögulegt að taka öll hin barnlausu karlkyns séní alvarlega (sem er auðvitað fáránlegt!).

Og þá kem ég loks að spurningunni: Telurðu að barnlausir karlmenn geti skrifað sannar og merkilegar bókmenntir?

Jú, ætli það hljóti ekki að vera. Ekkert síður en barnlausar konur. En áreiðanlega vex samt blessun með barni hverju. Að nútímaáliti fékk ég sjálfur ekki langa reynslu af barnleysi, aðeins tæp 23 ár. Það þótti reyndar ekkert sérlega ungt á þeirri tíð (1972). Allir mínir föðurbetrungar hafa ekki gert neitt annað en að bæta mig og bæta gegnum tíðina, jafnt sem mann og höfund. (Þó vissulega sé ekki endilega samasemmerki milli þess að vera góður maður og góður höfundur.)

Ég er reyndar alveg viss um að margir góðir eldri karlhöfundar (þeas. miklu eldri en ég sem er ekki nema 69 ára), þó feður séu, sem aldrei hafa skipt á barni, sett í þvottavél eða eldað mat hefðu jafnvel orðið enn betri ef þeir hefðu ekki misst af þessari góðu reynslu.

Nú hefur þú sent frá þér fjöldamargar góðar barnabækur, sum klassísk verk í íslenskum bókmenntum. Telurðu að þú hefðir ort og skrifað fyrir börn í slíkum mæli ef þú værir barnlaus?

Nei það hefði ég áreiðanlega ekki gert. Hefði líklega þótt slíkt of barnalegt og allnokkur skömm minnar meintu hátimbruðu listamennsku.

Áttu þér eftirlætis-smásögu eða -smásagnahöfund?

Eftirlætin eru mörg. Spanna næstum allan Tsékov/Maupassant-skalann. Má ég svo nefna William Saroyan, John Cheever, Alice Munro, Janet Frame? Áðurnefndur Þórgnýr Lindgren kemur sterkur inn. Situr óþyrmilega í mér t.d. titilsagan í Fimmfingramöndlunni (eins og kverið heitir í þýðingu Hannesar Sigfússonar).

Ég las einu sinni smásögu eftir þig, endur fyrir löngu, en man ekki hvað hún heitir. Sagan (sem er alveg frábær) fjallar um par sem er í fríi (helgarferð?) til Parísar. Þar verður á vegi þeirra götulistamaður, teiknari sem hefur lifibrauð sitt af því að snara andlitum fólks á pappír gegn vægu gjaldi. Þau hjónakornin (kærustuparið?) slá til, og reka upp stór augu þegar afraksturinn blasir við þeim. Þau líta eitthvað svo kjánalega út. Er þetta virkilega sannferðug túlkun á þeim? Eða er listamaðurinn svona lélegur? Þau greiða honum í hálfgerðu fússi og hraða sér burt. Taka teikninguna með sér upp á hótelherbergi og eru nú, ef ég man rétt, byrjuð að hnakkrífast. Þau eru hlægilegt fólk; listamaðurinn sá beint í gegnum þau. Segjum að þau leggi teikninguna á skrifborðiðið við gluggann og láti hana vísa niður svo að þau þurfi ekki að hafa hana fyrir augunum (horfast í augu við sjálf sig). Eiginmaðurinn (kærastinn?) hrekkur svo upp af svefni um nóttina, kófsveittur. Vondar draumfarir. Í hálfgerðu óráði stjáklar hann fram úr rúminu, dregur fram teikninguna — og sér nú … að skopmyndin er fullkomin eftirmynd þeirra! Hann starir á unnustu sína (eiginkonu) í rúminu og sér að hún lítur alveg eins út í raunveruleikanum og á teikningunni. Afar raunsæ túlkun. Og ekki skánar ástandið þegar hann lítur í baðherbergisspegilinn. Svona líta þau út. Þau eru svona skopleg!

Ég man ekki hvenær ég las þessa sögu — fyrir mörgum árum — en ég hef síðan reynt að finna hana, án árangurs. Fletti upp í sagnaúrvalinu þínu einhvern tímann, einnig gömlum sagnakverum. Finn hana hvergi! Og því spyr ég blátt áfram: Varst það ekki örugglega þú sem skrifaðir þessa góðu sögu? Því ef svarið er nei hlýtur það að þýða að í raun og sannleika var það ég sem fitjaði upp á henni. Þá ætla ég að skrifa hana og gefa út. Gengstu við því að hafa skrifað hana?

Þetta mun vera saga sem nefnist „Í svip“. Hún birtist fyrst í smásagnasafninu Sérðu það sem ég sé (1998) og var endurprentuð í Sagnabelg (1999). (Hefur líka komið út á frönsku undir nafninu „Simples malentendus“). Í aðalatriðum er söguþráðurinn svona eins og þú lýsir honum nema hvað teikningarnar eru í alvöru vondar (að mati fyrirmyndanna amk.) og rándýrar að auki og tilkomnar af hálfgerðri nauðung. Þetta er það sem veldur ósætti hjónanna en þó tekst þeim að ákveða í sameiningu að rífa myndirnar í tætlur og sturta þeim niður um klósettið og ímynda sér í staðinn að þau hafi verið rænd. Maðurinn hrekkur svo upp af svefni um nóttina og sér ekki betur en konan hans sé orðin alveg eins og myndin í framan. Hann staulast skelfingu lostinn fram á klósett og þorir ekki að líta í spegilinn og lýkur þar sögunni … Þannig var nú það. Annars er ég ekki frá því að þín versjón sé betri en mín.

Í beinu framhaldi: Ég hef stundum heyrt mikil gáfnabúnt lýsa því yfir að smásagan sé fullkomasta bókmenntaformið og erfiðara að skrifa góðar smásögur en skáldsögur. Og einnig yfirlýsinguna: „Ég skrifaði langa bók í þetta skiptið því ég hafði ekki tíma til að skrifa stutta bók.“ Nú hænist þú svolítið að knöppum formum. Ertu sammála ofanfarandi fullyrðingum? Er eitthvað erfiðara að skrifa smásögu en skáldsögu?

Leiðslurnar í mér eru nú svo einfaldar að mér finnst miklu erfiðara að skrifa skáldsögu en smásögu. Af þeirri nauðaeinföldu ástæðu að skáldsögur eru lengri en smásögur.

Það þykir mér velt mælt — og tek undir. Og viðeigandi þar með að hafa þetta ekki lengra.

Velkominn í ráðuneytið!

Ráðunautur Leslistans: Þóra Hjörleifsdóttir

Sverrir Norland: Kæra Þóra, komdu blessuð og sæl, hjartanlega velkomin í ráðuneyti Leslistans — og til hamingju með nýju skáldsöguna þína, Kviku, ég hlakka til að lesa hana.

Hefurðu alltaf lesið skáldsögur og ef svo er, hvaða skáldsögur hafa haft mest áhrif á þig, er til svar við þeirri spurningu?

Þóra Hjörleifsdóttir: Heill og sæll kæri Sverrir og gaman að vera ráðunautur!

Ég hef alltaf lesið mikið, er sílesandi. Mér finnst samt agalegt hvað ég er gleymin á bækur, þær einhvern veginn maukast saman í einn graut í undirmeðvitundinni eftir að ég klára þær. Auðvitað standa samt einhverjar upp úr… Argóarflísin eftir Sjón var bók sem ég byrjaði bara aftur á þegar ég kláraði hana. Mér fannst magnað hvernig Sjón færði frásagnir úr grísku goðafræðinni yfir til einhvers miðaldra Íslendings að býsnast yfir etikettu á skipi á leiðinni frá Íslandi til Danmerkur. (Reyndar var ég líka rosa hrifin af Rökkurbýsnum og Skugga-Baldri, minnir að ég hafi líka tvílesið þær á beit). Ég er rosalega mikil áhugakona um goðafræði og ævintýri, þessar hversdagslegu, stórbrotnu og grótesku sögur sem útskýra afhverju við erum eins og við erum, hvernig hlutirnir urðu til og hvað skal varast. Ein bók sem ég verð að nefna sem er reyndar ekki skáldsaga sem hafði mikil áhrif á mig er Women Who Run With The Wolfes eftir Clarissu Pinkola Estés. Sú bók er svona Villikellinga-handbók sem snýr á þekkt ævintýri og setur þau í nýtt samhengi, algjör veisla.

Úlfabókin hefur einmitt verið á listanum hjá mér lengi. Læt orð þín orka sem ábrýningu um að verða mér loks úti um eintak. Fleira?

Það var líka mjög erftirminnileg upplifun að lesa Yosoy eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur, ég var tvítug á bakpokaferðalagi. Hún og Afleggjarinn eftir Auði Övu mörkuðu báðar eitthvað aha-augnablik á ferli mínum sem skáldsagnalesari.

Síðast þegar ég fór að hágráta yfir skáldsögu var þegar ég las Sæluvímu eftir Lily King sem kom út hjá Angústúru í fyrra. Og síðast þegar ég var ekki húsum hæf eftir lestur á skáldsögu var þegar ég las Ungfrú Ísland eftir Auði Övu, ég vil ekki spoila en vá hvað endirinn var tragískur og mikil negla á sama tíma!

Já, flottur endir — og kom mér á óvart, sá hann ekki fyrir.

En hvernig mundirðu skilgreina skáldsöguna, já, hvað er skáldsaga eiginlega?

Nú er ég enginn bókmenntafræðingur, eiginlega bara algjör leikkona þegar kemur að svona skilgreiningum.

Hver er að tala um bókmenntafræði? Við blásum á svoleiðis.

Skáldsaga er náttúrulega bara frekar löng skálduð saga, allavega 100 blaðsíður! Kvika er 134.

Það er skemmtilega létt og einföld skilgreining.

Margar skáldsögur taka fyrir uppáhalds hugðar- og umræðuefnið mitt: Ástir og örlög, líka annað uppáhalds umræðuefnið mitt: Fjölskyldur; tengsl, disfúnskjónir og hrá samskipti í trausti þess að það þurfi ansi mikið til að fólki verði vísað á dyr.

Skáldsagan er yfirleitt með annan fótinn í sameiginlegum reynsluheimi okkar lesenda en hinn í skálduðum heimi. Ég held að góð skáldsaga geti látið okkur líða eins og við séum minna ein, hún getur opnað á perspektív og samtöl sem við vissum ekki hvernig við áttum að bera okkur að við að eiga og sett samskipti okkar við fólk og umheiminn í stærra samhengi. Skáldsagan er míkróheimur sem getur skekið þunglamalegan umheiminn og minnt okkur á að hann er fjarri því að vera óhagganlegur.

Stórgóðar lýsingar — takk. Einmitt þessa stundina slær bókasafnið mitt reyndar ekki á þá tilfinningu að margt í umheiminum sé óhagganlegt: stór hluti þess dúsir, eftir siglingu yfir Atlantshafið, í pappakössum sem fylla upp í heilt herbergi. Að stórum hluta skáldsögur — og ég hagga þeim ekki, kemst varla inn í herbergið. Frústrerandi!

En þá leitar hugurinn annað: Hvernig stendur á því að svo fáar góðar skáldsögur hafa verið ritaðar um loftslagsbreytingarnar? Getur verið að í hugum nútímafólks einblíni góðar sögur á hið smáa og einkalega; nánar tilgreint það sem við, lesendur, getum auðveldlega endurspeglað okkur í (samanber fína upptalningu hjá þér að ofan — um fjölskyldur, ástir, disfúnksjónir) en megni síður að takast á við hið stóra sem smættar einstaklinginn niður í varla neitt, svo sem hnignun lífheildarinnar á jörðinni?

Og annað, slæði því með: finnst þér að rithöfundum beri skylda til að endurhugsa hvernig við lifum á jörðinni og reyna að miðla því í verkum sínum? Eða er hætt við að slíkur klyfjar bugi herðarnar og eyðileggi sögurnar?

Ég held að fólk sæki gjarnan í að lesa bækur sem það hefur einhvern tengiflöt við. Okkar kynslóð og þau sem á undan okkur komu gerum okkur engan veginn grein fyrir umfangi og afleiðingum loftslagsbreytinga. Ég er hrædd um að þeir fáu rithöfundar sem spreyta sig á að fjalla um þann vanda tali að einhverju leyti fyrir daufum eyrum en eru líka í hættu að blanda skáldsögunni við áróðurstexta. Ég lít ekki á hlutverk höfundarins að vera kennari eða samfélagslæknir en það er frábær bónus ef nýjar hugmyndir vakna hjá lesanda og óvæntar tengingar myndast. Um leið og höfundur er þeirrar trúar að hann muni leysa eða létta á loftslagsvandanum (eða einhverjum öðrum vanda) með skrifum sínum er ég hrædd um að útkoman sé alltaf dæmd til að vera léleg. Ég sem lesandi skáldsagna vil ekki láta mata mig eða mennta mig. Einnig held ég að loftslagsvandinn sé krísa sem einstaklingar og listamenn fái lítið ráðið við, það er ekki fyrr en iðnaður og ríkisstjórnir girði sig í brók og hætti að hugsa í þenslu að eitthvað lagist. Ég held áfram að draga úr vistspori mínu, endurvinna, nota taupoka og koma fram við náttúruna af virðingu en þegar dagur er að kveldi kominn þá er hin vestræna trú á hagvöxt og ósvífni stórfyrirtækja alltaf að fara að núlla út viðleitni mína, eins og staðan er í dag.

Er þá engin von fyrir loftlagsbókmenntir?

Jú jú, en ég held að áhugaverðustu skáldverkin hafi ekki afmarkaða og skýra verkun, heldur fjalli um hugðarefni skáldsins, sem tekur einhverja hugmynd eða tilfinningu, þreifar á henni og fer eins langt með hana og það getur. Það er alveg hægt að gera það í loftslagsmálum alveg eins og málefnum hjartans. En skáldið þarf bara að passa að sitja ekki í predikunarstól á meðan það skrifar.

Það er rétt — samt fíla ég reyndar þá sem þora að að setjast stundum í predikunarstólinn og ég held að góðar höfundar hafi öðru hverju efni á því (Dostojevskí fléttaði heilu ritgerðirnar inn í stóru skáldsögurnar sínar; James Baldwin predikar á sinn snilldarlega hátt um stöðu blökkumanna í Bandaríkjunum í sínum skáldsögum; þetta kemur upp í hugann einn, tveir og bingó; og sama gildir um nýlegan skáldsöguþríleik eftir Virginie Despentes, þar sem hún fjallar á ítarlegan hátt um auðhyggjuna sem allt gegnsýrir í dag — það er raunar einn helsti styrkur og galli verksins, hvernig hún fílósóferar um andlegt gjaldþrot Vesturlanda, enda vandmeðfarið viðfangsefni.)

En viltu deila með okkur, kæra Þóra, hvaða hugmynd sem þú varst að handleika þegar þú skrifaðir Kviku?

Í Samdrykkjunni eftir Plató var lýsing á ástarsamböndum áður en mannkynið fór að stunda kynlíf, mér mikill stökkpallur við skrif Kviku. Þessi lýsing er snemma í upprunaskýringu hans á ástinni, þegar Seifur var nýbúinn að kljúfa ferfættu og ferhentu mannverurnar í tvennt í refsingarskyni fyrir að ofmetnast og halda að þær gætu storkað guðunum. Þessar nýklofnu mannverur fóru þá hver að þrá hinn helminginn sinn, tengdar mannverur sem fundust héldu dauðahaldi um helftina sína og þorðu ekki að sleppa. Smám saman fór fólkið að veslast upp og deyja úr hungri og framtaksleysi. Seifur lét þá kynfæri framan á þær svo þær gætu fundið fyrir tímabundinni einingu og fullnægju svo þær gætu gengið til starfa sinna og haldið áfram að rækta akurinn og færa guðunum fórnir.

Þessi misheppnaða ástarprótótýpa, var ein tilfinning sem ég reyndi meðal annars að ná utan um í Kviku: Þegar þú telur þig hafa fundið manneskjuna sem er týndi helmingurinn þinn og vilt ekki sleppa af henni takinu. Þó samband ykkar sé kannski ekki beint frábært, þó allt gangi á afturfótunum og þó að þú sért eiginlega bara að leysast upp þá herðir þú bara takið og ferðast í spíral niður á við í átt að botninum.

Lestu á fleiri tungumálum en íslensku? Og hvað þá helst?

Já, ég les líka á ensku en eftir að ég fór að skrifa sæki ég helst í að lesa á íslensku og elska að lesa vel þýddar bækur, eins og t.d. Veröld sem var eftir Stefan Zweig í þýðingu Halldórs J. Jónssonar og Ingólfs Pálmasonar, sú bók er öll útkrotuð hjá mér. Og svo elska ég líka Ódysseifskviðu í þýðingu Sveinbjarnar Egilssonar. Fátt kemur mér meira til en góður orðaforði!

Já, þú hefur góðan smekk. (Mér finnst reyndar einmitt gott að lesa á öðrum tungumálum þegar ég er að skrifa, og þá helst tungumálum sem ég skil varla.)

En nóg um það, lestu líka ljóð?

Ég les mikið af ljóðum og þá jafnhendis á ensku og íslensku. Undanfarið hef ég marinerað mig í ljóðum Mary Oliver, en svo hef ég líka lesið og endurlesið Fræ sem frjóvga myrkrið eftir Evu Rún Snorradóttur, frábær bók. Einnig eru Sigurður Pálsson, Kristín Ómarsdóttir, Steinunn Sigurðardóttir og Nína Björk Árnadóttir með fastráðningu á ljóðahringsóli mínu.

Hver er uppáhaldsskáldsagnapersónan þín?

Lína langsokkur er náttúrulega bara best. Það er ekki klisja af því hún er best.

Ég heyrði í útvarpinu um daginn að hún væri í raun og veru ofurmennið sem Nietzsche lét sig dreyma um. Hún er óttalaus, hlær að kreddum og staðnaðri hugsun, sterkasta stelpa í heimi sem getur allt. Enginn toppar hana. Ég held líka mikið upp á Ódysseif, hann er klár og sniðugur en á sama tíma algjör vitleysingur. Hann er frumgerðin að frábærri skáldsagnapersónu að mínu mati: Ódysseifur leysir og skapar vandamál á víxl á meðan hann flækist með vinum sínum um hættulega og heillandi heima.

Mynd af Þóru: Sara Sig.

Ráðunautur Leslistans: Tyrfingur Tyrfingsson

Tyrfingur.SH

Tyrfingur er eitt þekktasta leikskáld þjóðarinnar, hefur meðal annars skrifað leikritin Bláskjár og Auglýsing ársins, og nú nýlega Kartöfluæturnar. Hann er búsettur í Amsterdam. Við skrifuðumst á yfir tveggja vikna skeið, ég sendi honum fyrst skeyti frá Mexíkó, síðar frá Parísarborg, og þó að við værum staddir fjarri fósturjörðinni bar hana oft á góma. Svör Tyrfings brugðust ekki væntingum. — Sverrir Norland

Kæri Tyrfingur, hjartans þakkir fyrir að ganga í ráðuneyti Leslistans. Eins og þú sérð þá er hér vítt til veggja, hátt til lofts, góður hljómur. Við skulum setjast hér á mitt sviðið, þú krækir hljóðnemanum í hálsmálið. Það þarf engum að koma á óvart að áskrifendur Leslistans fylla upp í sérhvert áhorfendasæti, en við hunsum græðgisleg augnatillit þeirra, einbeitum okkur að fyrirliggjandi verkefni dagsins — vígslunni í ráðuneytið.

Manstu eftir sterkri reynslu af skáldverki — í hvaða formi sem er — sem fékk þig til að skilja lífið, og skynja, á einhvern alveg nýjan hátt, helst þegar þú varst ennþá ungur og óharðnaður, blautur á bak við eyrun? Eða ertu 100% sjálfsprottinn höfundur?

Ég man að ég var í flugvél á leið til Flórída þegar mamma gaf mér Músina sem læðist eftir Guðberg Bergsson og að ég fór fyrst undir teppi og síðan inn á bað því að mér leið eins og ég væri orðinn glær og fólk sæi inn í mig og í gegnum mig. Eins og einhver hefði sest niður og skrifað bók um það hvernig ég hugsaði. Bókin læknaði mig af tegund af einmanakennd sem hefur aldrei komið aftur síðan. Og þegar ég kláraði bókina þá kom bara til mín: „Bíddu, má þetta?“ Og síðan þá hef ég alltaf heillast af listaverkum sem veita mér þá tilfinningu, svona smita mig af hugrekki sínu.

Svo eru það ekki síst sýningar sem kveiktu í mér. Koddamaðurinn eftir Martin McDonagh og Rambó 7 eftir Jón Atla í Þjóðleikhúsinu. Kvetch sem Stefán Jónsson setti up var alveg svona „bíddu, má þetta?“ sýning og síðan stuttu síðar byrja ég að lesa verk Söruh Kane. Bókin Edlhús eftir Banana Yoshimoto breytti líka öllu en ég veit samt aldrei hverju hún breytti. Ég var bara svona 18 eða 19 ára þegar ég sá fyrstu Thomas Ostermeier sýninguna mína í Schaubühne en þar er hann leikstjóri og leikhússtjóri. Og Vigdís Gríms var líka alltaf að lækna eitthvað í mér. En kóngurinn er og verður Jean Genet. Hann setur mann svona í „bíddu, má þetta“ gírinn en undir loks verksins er það eiginlega orðið að „nei, þetta ekki bara má, þetta verður af því að annars verður þú aldrei frjáls“.

Ég var í Manchester klúbbnum í Kópavogi þegar ég var átta ára. Klúbburinn var undir súð fyrir ofan bakarí einhvers staðar hjá Smiðjuvegi í Kópavogi og ég elskaði hann. Ég hafði engan áhuga á fótbolta en dýrkaði þessa glæsilegu iðnarmenn alla og sígó-ið og Thule dósirnar og hvernig þeir töluðu. Þeir nefnilega töluðu eiginlega ekki heldur bara hrópuðu eða muldruðu. Stæll á þeim. Ég hafði svipaðan áhuga á keilu í Mjódd, var oft þar með vinum mínum. Það var annar svona hliðarheimur. Maður þurfti að leigja keiluskó og var eitthvað að hnusa af þeim og svo voru þarna spilakassar og alltaf einhver keilumót. Þetta fannst mér æðislegt og hafði góð áhrif á mig.

Ég heyri höfundum oft hrósað fyrir einlægni. Einkum eru ungir höfundar bendlaðir við þetta hugtak. Stundum er einlægni jafnað saman við það þegar fólk er opinskátt um persónulega hagi sína, svo sem kynlífsvenjur, kvíðaköst eða eiturlyfjanotkun, fjármál eða félagslega hegðun, sjálfsefa, áhyggjur af framtíðinni og svo framvegis. Sem sagt: Einlægni er samofin, og jafnvel órjúfanleg, hinu einkalega — persónulega.

Annað dæmi: Kannski hlýst það af áralangri búsetu minni í Bandaríkjunum en það alsíðasta sem mig langar að heyra, þegar ég sný heim til Íslands, er einhver daufur endurómur af Atlanta-rappi sem krakkar í úthverfum Reykjavíkur hafa smyglað til landsins og baula yfir takta. Eins finnst mér ógnvænlegt þegar sömu krakkar — sem oftast eru á barnsaldri — hnoða saman byrjendalegum textum um djammið og uppskera samstundis hrós fyrir að „nota íslenskuna“ (eins og það eitt sér sé lofsvert). Auðvitað finnast undantekningar en mestanpartinn finnst mér þetta leiðinleg lágmenning. Börn að tala um óáhugaverða hluti á klaufalegan hátt. Einkum fer gauramenningin í taugarnar á mér. Karlrappari er einlægur með því að tala opinskátt um hvað hann sé mikill skíthæll. Og allur þessi kveðskapur um djammið (kannski eru fá yrkisefni ungum Reykvíkingum jafn nærtæk). En sem sagt: Orðið einlægni ber oft á góma í tengslum við þennan rappkveðskap íslenska ungmenna, og eins heyri ég börnin lýsa því yfir að þau séu einlæg (þegar þau rappa um líferni sitt sem t.d. menntskælingar).

En er þetta einlægni? Um daginn rakst ég á betri skilgreiningu á orðinu. Einlægni er fjarvera sjálfsins (e. absence of self-consciousness). Það finnst mér einmitt vera kjarni málsins. Það er fyrst þegar maður nær að ýta eigin áhyggjum og þráhyggjum út úr kollinum að maður nær að segja eitthvað satt — eitthvað einlægt. Alvöru. Unglingar og ungt fólk geta það að sjálfsögðu sjaldan — þau eru enn að finna út hver þau eru, og það er erfitt að slökkva á sjálfum sér ef maður veit ekki einu sinni hver maður er — og svo bætist við hið daglega skjáumhverfi okkar, allir einlægt skráðir inn undir nafni sem notendur í forritum. Það ýtir ekki beint undir fjarveru sjálfsins og sjálfhverfunnar. Hvað þá einlægni (að þurfa að safna lækum og hjörtum fyrir sínar einlægu yfirlýsingar).

Hvað finnst þér um þetta, hvað er einlægni? Þrífst hún í íslenskum samtímaskáldskap, á síðum bóka, á fjölum leikhúsanna, í íslenskri rapptónlist? Skiljum við hvað orðið þýðir? Dettur þér í hug einlægt bókmenntaverk? (Kannski Músin sem læðist — besta verk höfundar sem orkar sjaldan á mig sem einlægur í seinni tíð.)

Ég held að fólk rugli saman einlægni og væmni. Og gagnrýni og dómhörku (en það er annað mál). Einlægni er bara aðferð. Hún er kannski það að tjá sig án ásetnings, það er, án þess að ætla að ná einhverju fram. Það er ekki gott að hafa einlægni að markmiði.

Stundum er talað um einlægni og kaldhæðni sem andstæður en það er bull, þetta tvennt fer ákaflega vel saman, sérstaklega í leikhúsinu. Tjékov er einlægur og kaldhæðinn á sama tíma og fyrir vikið margræður. Þannig að maður þarf ekki að vera einlægur og svo þarf maður ekki að vera samkvæmur sjálfum sér í skáldskap eða eins og Walt Whitman lýsir í ljóðinu „Song of Myself“:

Do I contradict myself?
Very well then I contradict myself
(I am large, I contain multitudes).

Einlægur og kaldhæðinn á sama tíma.

En að baki allri einlægni og kaldhæðni og illsku og grimmd þarf að vera botnlaus ást. Ekki kærleikur heldur ást. Hrein ást án orða og tilfinningasemi. Og hún er auðvitað í öllum, svona að baki rembingi eða hvað sem maður kallar það. Hins vegar er það hlutverk áhorfandans eða lesandans að sjá ástina. Það er ekki höfundarins að sýna ástina, hann ætti frekar að reyna að fela hana ef eitthvað er. Að horfa í gegnum hrylling og sjá ástina honum að baki — það er ultimate kvíðalyfið.

Ég sé að margir heteró karlar og sumir hommar reyna að vera einlægir, setja upp svona einlægan svip og tala í einlægum tón og verða klígjulegir fyrir vikið. En ástæðan er samt sem áður skiljanleg. Þeir vilja líta út fyrir að vera hættulausir. Sumsé ekki hættulegir, það megi treysta þeim, ekki vondir heldur góðir vegna þess að þeir eru hræddir margir við myrkrið í sér. En það er auðvitað fátt óhuggulegra en dúllulegur strákur. Agalegt. En þeir eru að reyna að sannfæra sjálfan sig um að þeir séu ekki svona hrikalegir. Og þeir eru ekkert hrikalegir. Þeim bara líður þannig. Það er mikil sektarkennd í strákum. Sumir hafa kannski eitthvað potað í pjölluna á frænku sinni þegar þeir voru tíu ára og eru innst inni í rusli yfir því.

En ef ég ætti að nefna góðan íslenskan texta sem er einlægur þá myndi ég nefna höfundaverk Mikaels Torfasonar. Kannski af því að hann ætlar sér að vera heiðarlegur og þarf til þess að nota einlægni. Einlægni er því ekki markmið hjá Mikael heldur svona aukaafurð (e. byproduct).

Varðandi rappið. Ég veit ekkert um rapp en mér skilst að íslenskt rapp sé af frekar miklum gæðum. Mér finnst þeir einmitt ná því að vera einlægir og kaldhæðnir á sama tíma. En leikhúslistafólk hefur líka mikið umburðarlyndi gagnvart „vondum“ texta. Að baki mörgum af bestu sýningum sem ég hef séð liggja agalegir textar. Textar í mörgum ítölskum óperum eru skelfilegir (Tosca til dæmis). Librettóið af Tristan & Isolde á köflum mjög fallegt en aðallega heimskulegt. Ég finn yfirleitt fallegustu textana í 20. aldar óperum eins og (Ödipus eftir Enescu, Wozzeck eftir Alban Berg, Salóme eftir Strauss o.fl.)

Mér finnst íslenskt rapp kannski svolítið camp. Camp og þá meina ég skilgreininguna að camp sé þegar einhverjum mistekst að vera alvarlegur (e. failed seriousness). Og þau hafa hellings húmor fyrir sér. En textarnir hjá t.d. Rottweiler hundum voru mjög flottir og allt það gigg alveg til fyrirmyndar.

Ég, ólíkt þér, elska gauramenningu. Hún er erótísk og á hreyfingu. Síðustu ár hef ég fundið breytingu þar sem verið er að fella menningu homma inn í karlmennskuna — karlmenn eru að koma aftur saman með bromance og samtali um vináttu karla og bræðralag (mér finnst fólk ekki tala um annað). Síðan hefur verið góssentíð hjá mörgum hommum eftir Metoo þar sem heteró karlmenn hafa látið sig gossa í aðra herramenn í einhverri paranoju gagnvart kvenfólki. Þetta hefur verið veisla, sérstaklega fyrir kvenlegu strákana sem er oft strítt í hommaheimum. Og mínum gagnkynhneigðu karkyns vinum fjölgar og mér finnst karlmennskan vera að breytast og mildast.

En guð forði okkur frá væmninni!

Heyr, heyr. Ég strengdi þess áramótaheit að byrja aftur að borða kjöt. Hvers vegna? Meðal annars vegna þess að ég er orðinn svo þreyttur á þessari vegan-möndlumjólkur-ég-er-viðkvæmur-ungur-listamaður-í-stórborg-menningu sem virðist elta mig á röndum hvert sem ég er fer (New York, Reykjavík, París). Ofverndað hugsjónafólk breytir heiminum á kaffihúsum, með fartölvur, syplar haframjólkur-kaffi og maular kínóa. Ég held það sé vistvænna og áhugaverðara að borða það sem meikar sens á hverjum stað hverju sinni — og langa stundum í blóð. Hefurðu skoðun á því? Eiga allir listamenn að vera góðhjartaðar grænmetisætur? Eða ætti þá stundum að þyrsta í blóð?

Ég borða kjöt á hverjum einasta degi, stundum oft á dag. Það eykur serotóninframleiðslu og minnir mig á það að ég er, sama hvernig mér líður, efstur í fæðukeðjunni. Ofar hundum. Ofar dolphins.

Það er algengt að fólk rugli saman einstaklingsábyrgð og samfélagslegri ábyrgð. Samfélagið leysir stór vandamál. Ég leysi kannski eitthvað vandamál með teppið á stigaganginum. Ég sá einhvers staðar að nú er hægt að rækta steikina — það þarf sumsé ekki að drepa naut til þess að borða naut lengur. Svona nokkuð á háskólasamfélagið að græja með því að dæla peningum í vísindi sem minnka kjötframleiðslu. Og ég ætlast til þess. Því ég er bara einstaklingur, ekki heilt samfélag. Það er eiginlega botninn á einstaklingshyggjunni að gera sjálfan sig ábyrgan fyrir stöðu heimsins. „Það er svo mikil mengun að ég verð að flokka rusl og borða vegan“. Fólk fróar sér oft á því að taka ábyrgð á hlutum sem það ber enga ábyrgð á. Það beinir athyglinni frá þeim sjálfum og að öðrum.

Eitthvað hefur þetta líka að gera með forréttindi. Fólk er að reyna að minnka forréttindi sín, taka meira tillt til annarra. Dr. Cornel West, guðfræðingur sem lýsir sjálfur sér sem tjekóvskum, kristnum uppreisnarmanni, fékk ansi góða spurningu á fyrirlestri um daginn. Hvítur sláni spurði West hvernig maður gæti komist undan forréttindunum, hvernig maður skerðir eigin forréttindi? West var fljótur til svars. Maður gerir það ekki. Maður notar forréttindi sín til þess að beina hlutum áfram, í átt að hinu réttmæta. West marseraði við hlið Martin Luther King svo hann veit um hvað hann syngur. Ég tók þetta til mín.

En vegan fólkinu til varnar. Þarna hefur skapast samfélag sem vill heiminum gott og gagnrýnir ríkjandi kerfi. Eftir einhver árhundruð mun það þykja barbarískt að hafa borðað kjöt af lifandi skepnum. Hins vegar þurfa Íslendingar eins og annað lútherskt fólk alltaf að fara varlega. Trúarbrögðin sem samfélagið okkar byggir á sér eina aðalsögu. Hún er sú að Lúther neglir þarna á kaþólsku dyrnar einhverju plaggi og lýsir frati yfir kaþólska trú. Hann segir: „Þið haldið að þið séuð trúuð og góð, en þið eruð spillt og ógeðsleg, þið eruð bara svo siðlaus að þið sjáið það ekki“. Þetta er narratíva sem bergmálar gjarnan á íslandi: Þú heldur að þú sért góður gæi, en kemur í ljós að þú ert bara algjört ógeð. Og núna er fólk byrjað að beina þessari sögu inn á við: „Ég held að ég sé góður mömmustrákur, en innst inni er ég vondur“.

Ég tek stundum viðtöl við fólk þegar ég er að skrifa og mér brá rosalega í fyrra. Ég er að vinna verk núna, Helgi Þór rofnar, eftir að hafa talað við unga stráka. Og þeir lýsa þessu allir. Óttanum um að það komi í ljós að þeir séu ógeðsleg svín og allir fatti það. Og allir hræddir um að hafa óvart nauðgað.

Ég finn svo mikinn mun því ég hef búið í sex ár með kaþólikka. Og honum finnst allt svona bara uppnám og móðursýki. Hugsunin í kaþólskunni er stærri og hverfist um það að fólk geti fyrirgefið öðrum og sér. Eitt finnst mér segja svo mikið um þau trúarbrögð: Francis Bacon málaði stórkostlegar myndir af kardinálum sem líta út eins og djöfullinn. Málverkin eru óhugguleg og manni líður eins og kardinálinn á myndinni sé í raun og veru anti-kristur. Og maður spyr sig, hvers konar safn vogar að sýna mynd sem lætur kardinála líta út eins og andskotinn? Jú, listasafnið í Vatikaninu.

Í lútherskunni safnar maður upp synd og skömm — svona í einfölduðu máli. Hér í Amsterdam býr fólk við Kalvinisma sem er líka mótmælendatrú (hugsa sér að trúa á það að mótmæla öðrum trúarbrögðum). En hér hafa menn gert upp Kalvinismann betur og skynja hann í sér, sjá dómhörkuna sem bergmál af gömlum trúarbrögðum. Auðvitað er ég að einfalda og ég er hlynntur þjóðkirkjunni á Íslandi. Starfið er merkilegt og það veit allt fólk sem hefur gengið í gegnum sorg og leitað til kirkjunnar. Yngstu prestarnir gera held ég best. Og guðfræðin á Íslandi er ekki eins kreddufull og margt annað því að hún þarf alltaf að lifa með syndum kirkjunnar. Og það er kannski lykillinn hérna (margir hafa áður bent á þetta). Íslendingar elska sakleysi því Ísland er saklaus þjóð. Við kunnum ekki eins og t.d. Þjóðverjar að lifa með synd. Af því hlýst þessi botnlausa dómharka og hneykslunargirni. Það er alltaf verið að vernda sakleysið, hreinleikann eða sveindóminn/meydóminn.

Fólk skynjar líka landið núna alltaf utan frá. Ég hef aldrei séð í fréttum í Hollandi frétt um hvað einhver í útlöndum sagði um Holland. Venjulegir Íslendingar tala um ímynd landsins. Ég horfði um daginn á mjög góða vinkonu mína ljúga því upp í opið geðið á einhverjum Belga að: „Yes, I love elves, I talk to elves all the time.“ Hún var alveg einlæg.

Ég tala við álfa lon og don þegar ég er á Íslandi. Einu vitrænu íbúarnir þar og þó víðar væri leitað.

En nú er sólin að setjast. Himinninn er fjólublár. Öll Parísarborg er fjólublá! Fjólublá húsþök, er til nokkuð fallegra? Ég þurfti að gera hlé á skeytinu til þín til að stíga út á svalir og virða útsýnið fyrir mér í andakt. Heimurinn er ennþá magnaður. Og áðan, þegar ég sneri aftur heim í íbúð, heyrði ég í fuglum syngja svo glaðlega í portinu. Ég undra mig alltaf svo á því þegar ég heyri í dýrunum (öðrum dýrum en mannfólki) senda frá sér glaðleg og sterk hljóð. Ég held alltaf að þau séu öll horfin — útdauð. En nei, ekki enn! Ekki þetta fjólubláa fallega kvöld… Þau eru hér enn. Og ég elska þau.

Ég hef satt að segja verið svolítið þreyttur á list mannanna upp á síðkastið. Kannski bara séð of margar listasýningar, lesið of margar bækur, heyrt of mikið af tónlist. (Ég er svo gott sem hættur að hlusta á tónlist; þarfnast þagnarinnar.)

Býflugnabús-hugsunin: netið hefur frelsað marga en einnig helsað (sumar skoðanir eru bannaðar, fá ekki læk, fólk ritskoðar sig stöðugt o.s.frv. — ekki frjór jarðvegur fyrir list).

Sem sagt: Á vissan hátt lít ég svo á að við séum að ganga í gegnum vitsmunalega lægð á Vesturlöndum. Kannski er það bara bull. (Kannski er það bara ég sem er að ganga í gegnum vitsmunalega lægð.) Það er sannarlega nóg af gáfuðu, skapandi fólki úti um allt — en það er frekar umhverfið sem mér finnst ekki sérlega frjótt.

Hvað segir þú, hvaða höfundar vekja áhuga þinn þessa dagana, ef einhverjir eru? (Óháð miðli — bækur, leikhús, kvikmyndir, sjónvarp, útvarpsleikrit, tónlist, hvaðeina.) Lifum við fjörmikla tíma í vitsmunalífi og menningu? Langar þig að eggja hið fróðleiksþyrsta samfélags Leslistans til að kynna sér verk einhvers séní, sem gæti jafnvel vakið með okkur von, varpað birtu inn í framtíðina með hæfileikum sínum og innsæi?

Jú, margt flott í gangi í listum. Ég hef verið að lesa höfund sem heitir Vivian Gornick og er bandarískur bókmenntafræðingur og höfundur. Hún gefur rosalega mikið. Og ég var að klára syrpu þar sem ég las Jose Saramago, portúgalskan höfund, sem ég mæli með.

Síðan hef ég líka verið að lesa ritgerðir Gore Vidal, sem er nú reyndar dáinn. Hann segir um framúrstefnuleikhúsið: „Everything in the world is constantly changing, except the Avant Garde theater, which always remains exactly the same.“

Ég dýrka Rineke Dijkstra sem er hollenskur ljósmyndari, hún gefur svo mikið og sama má segja um aðra hollenska konu sem heitir Lily van der Stokker sem gerir myndlist sem hún kallar: „soft and cheesy“. Hér í Amsterdam er Ivo van Hove leikstjóri með sinn leikflokk Toneelgroep Amsterdam. Hann hefur unnið með sumum leikurum í yfir þrjátíu ár. Ég fylgist vel með þeim.

Þá eru nokkrir píanistar sem ég fylgist með og hljómsveitarstjórar sem ég reyni að heyra reglulega. Ég er hrifinn af þó nokkrum pólskum leikstjórum, þá kannski helst Krzysztof Warlikowski og fylgist með sviðsleikurum og -leikkonum ansi víða núorðið.

Ég bíð spenntur nýjustu bók Houellebecq og eftir að Ishiguro fékk Nóbelinn hef ég verið að lesa hann. Og svo mæli ég alltaf með leikritum Martin Crimp fyrir þá sem hann ekki þekkja.

Einu sinni, fyrir langa löngu, las ég viðtal við þig í einhverju dagblaði. Helvíti gott viðtal, minnir mig. Og þú sagðir svolítið sem hitti mig lóðbeint í höfuð- og hjartastað. Nefnilega um skrif — um hversu ómannlegt það væri að hjakka stöðugt í sama handritinu mánuðum ef ekki árum saman. „Spóla í eigin skít,“ ég man ekki hvernig þú orðaðir þetta, nákvæmlega. Bravó, hárrétt. Ritlistarkennarar og gáfnaljós í skrifbiblíum og á netinu predika ítrekað mikilvægi endurskrifa; fyrsta uppkast er aðeins grófur efniviður í næstu uppköst. Endurskrifa, endurskrifa. Ég vinn aldrei þannig og skil ekki hvað fólk á við. Maður sest niður og skrifar sögu. Voilá: hér er sagan komin. Þá segja leiðbeiningar: flott, nú áttu að endurskrifa. Hvernig þá? Ef ég byrja að endurskrifa söguna kemur bara út einhver önnur saga. Ég þoli ekki, og skil ekki, endurskrif. Mottóið hjá Cesar Aira, einum helsta andans bróður mínum (hef reyndar aldrei hitt hann) er flugið beint áfram (á spænsku, fuga hacia adelante): halda áfram að skrifa, ekki hjakka endalaust í sama textanum. Ég sæki mér styrk í hans aðferð (en skrifa reyndar sögur, ekki leikrit eins og þú). Hefurðu eitthvað að segja um þetta, hvernig er að skrifa leikrit, texta sem aðrir svo gæða lífi á sviði? Finnst þér gaman að endurskoða díalóg í tiltekinni senu þúsund sinnum, eða vinnurðu kannski alls ekki þannig?

Jú, það er ómannlegt að hjakka alltaf í sama handritinu en það neyðast leikskáld til að gera. En hins vegar má hjálpa sér með því að byrja ekkert að skrifa fyrr en maður er búinn að hugsa um verkið í marga mánuði eða ár. Þá er fyrsta uppkast mjög heillegt og ekki eins mikið hark og þegar maður vaknar einn góðan veðurdag og byrjar að skrifa upp úr þurru. Er einmitt í verkiinu Helgi Þór rofnar núna sem byrjaði bara sem skissa einn góðan veðurdag. Mikið helvíti. Henti því þrisvar. Mér finnst það samt það besta sem ég hef nokkurn tímann skrifað. Kannski af því að ég er búinn að velta hverjum einasta steini í heimi verksins. Og margir partar af mér komið að skriftunum. Það er klárað en ekki fullkomið (það eru andstæður). Og ég veit ekkert alveg hvað það þýðir en það fylgdi mér lengi og losaði mig við eitthvað. Ég vona að það eigi eftir að losa áhorfendur við eitthvað líka, ekki vitrænt heldur líkamlega. Þannig að ég skil við þetta verk í góðu.

Eitt finnst mér voðalega gaman sem höfundur og það er hvernig ég finn úthaldið aukast. Ég get setið lengur, farið oftar inn í verk, tekið meiri krítik frá dramatúrgum, leikstjórum og leikurum. Og ég er hættur að verða sár. Mikilvægt að muna að það er engin dygð að særast og móðgast.

Ég ákveð fyrirfram hvað gerist í leikriti, skrifa það í sundi. Og síðan hætti ég við allt saman og hvíli verkið og kem að því aftur seinna. Ég er samt aldrei að reyna að segja neitt með verkunum. Ég hef ekkert að segja. Giska svona eftir á: „Ég var kannski að meina þetta?“. Aðalatriðið er að ég gefi af mér í verkið eitthvað sem getur haft þýðingu fyrir annað fólk. Að textinn sé leið að merkingu, eða leið handan merkingar en ekki merkingin sjálf. Sjálfur fer ég svona úr einu í annað og finnst eitthvað en um leið og ég segi það upphátt verð ég ósammála því. Ég er til dæmis ósammála öllu sem ég hef sagt í þessu viðtali, og pínu svona þreyttur á mér og smá að vona að enginn lesi þetta.

Það lesa þetta mörg hundruð manns, kannski mörg þúsund. Því miður. En við erum ekki jafn þreytt á þér og þú (við þurfum ekki að vera þú).

Áhugavert samt: sjálfum finnst mér ég einmitt ekki vera ég þegar ég skrifa og tala — og skrifa og tala kannski einmitt til að fá hvíld frá sjálfum mér.

En afsakaðu þetta inngrip. Haltu áfram –

Svo safnar maður upp tækni. Það er til dæmis gott að taka rúnt á verkinu og taka út öll passíf svör. Orkan dvínar með passívri replikku.

Ég strögla líka svolítið við það að mér finnst ég búinn að koma öllu á blaðið en fólk skilur verkið ekki. Ég leyfi smá tíma að líða og sé að leikritið er fullt af hálfkláruðum hugsunum. Verkið er sumsé tilbúið í mér en er ekki komið yfir í Word-skjalið. Þá hef ég verið að skrifa í æsingi sem er bara flott. Þá þarf ég að fylla út í verkið en passa að tapa ekki æsingnum.

Og ég stútfylli verkin mín alltaf af einhverju klámi.

Hins vegar vinn ég ekki á hverjum degi. Ég tek rispur og langar pásur á milli þar sem ég tek bara nótur, fer í leikhús, bíó, óperu, á söfn og rífst við starfsfólkið í Vodafone um hulstur og annað. Tek inn til að geta gefið. Mér finnst þetta snúast um orkuflutning að það sé eitthvað á blaðinu sem leikari getur breytt í leiklist (núna er ég væminn). Og áhorfandi síðan þegið. Þannig á ég ekki í beinu sambandi við áhorfendur heldur við leikara.

Ég er ennþá svona að reyna að svara þessu sem ég sagði í þessu viðtali með að hjakka. Ég er bara ósammála mér. Ég lendi oft í þessu að fólk segir að ég hafi sagt eitthvað. Yfirleitt er það að ég sagði að einhver karlmaður liti út eins og lesbía en það er víst frávarp því ég er stundum svolítið lessulegur, sérstaklega þegar ég er nýkominn úr klippingu. Það er allt í lagi.

Ætli ég sé með þessu orðum ómeðvitað að reyna að sannfæra sjálfan mig um að verkið sé bara tilbúið, að ég megi slaka á. Slökum á.

Ráðunautur Leslistans: Jónas Reynir Gunnarsson

jónas

Jónas Reynir hefur mokað út góðum skáldverkum síðustu tvö árin og sendi nú síðast frá stórfína skáldsögu, Krossfiska (Partus Press: 2018). Ég sat fyrir um Jónas í dimmu húsasundi, stökk út úr fylgsni mínu þegar hann uggði ekki að sér og náði að leggja fyrir hann nokkrar spurningar. — Sverrir Norland

Kæri Jónas Reynir, vertu hjartanlega velkominn í ráðuneyti Leslistans.

Ég las fyrir jól nýju bókina þína, Krossfiska, aðra skáldsöguna sem þú sendir frá þér. Ég á mjög erfitt með að lýsa efni hennar í stuttu máli (og ætla ekki að reyna). Mér fannst eins og lýsingarnar á umhverfi aðalsöguhetjunnar endurspegluðu fyrst og síðast hugar- og tilfinningaástand hennar frekar en veruleikann (ef við gefum okkur að það orð hafi einhverja merkingu, veruleikinn) — en um leið er frásögnin afar myndræn og rennur mjög skýrlega fyrir hugskotssjónum lesandans, hálfvegis „eins og kvikmynd“. Svo mig langar að spyrja: Ertu mikill áhugamaður um kvikmyndir? Mundirðu segja að þú eigir þér frekar áhrifavalda sem starfa á sviði sjöundu listgreinarinnar (ég held að kvikmyndagerð sé stundum kölluð „sjöunda listgreinin“) en í bókmenntunum?

Kærar þakkir fyrir að bjóða mér!

Ég er sammála þér með að veruleikinn sé erfitt hugtak. Stundum er hægt að tala um hlutlæga eða huglæga frásögn, og þar finnst mér óhætt að setja Krossfiska í seinni flokkinn. Tilfinningalegt ástand söguhetju, og hvernig það er sett fram, skiptir þarna máli, og svo er það líka hugar- og tilfinningaástand lesandans, því þetta þarf ekki endilega að haldast í hendur. Til dæmis gæti hugarástand aðalpersónu bókar verið mjög jákvætt og höfundurinn notað öll möguleg frásagnartól til að draga upp þetta jákvæða ástand í textanum, í gegnum lýsingar og annað, en samt líður lesandanum óþægilega. Kannski vegna þess að hann býr yfir upplýsingum eða reynslu sem gefa honum forskot á persónuna, eða bara vegna þess að hann er nýbúinn að lesa kaflann á undan, sem vakti upp allt önnur áhrif sem hafa ennþá ekki fjarað út.

(Smá útúrdúr: Þetta með tvo kafla í röð sem vekja upp ólík áhrif minnir mig á frábæra heimildamynd sem heitir á ensku Fire at Sea og sameinar tvö ólík sögusvið: Annars vegar hversdagslíf tólf ára drengs, sem er stórkostlega fyndinn og sjarmerandi, á eyjunni Lampedusa, sem tilheyrir Sikiley, og hins vegar flóttafólk sem neyðist að hætta lífi sínu á leiðinni yfir Miðjarðarhafið fram hjá þessari eyju. Þessi blanda, og lágstemmd og yfirveguð kvikmyndagerðin gera myndina mjög áhrifaríka, ég mæli eindregið með henni.)

En semsagt, ég myndi segja að umhverfislýsingar og annað í bókinni eigi fyrst og fremst að búa til ákveðið hugar- og tilfinningaástand hjá þeim sem les, frekar en endilega að endurspegla innra ástand söguhetju. Það mætti nýta umhverfislýsingar mjög fínlega á þennan hátt — að þær endurspegluðu innra ástand hetjunnar, og um leið og lesandinn er farinn að skynja það, sér samkennd hans með öðru fólki (eða persónum í bókum) um afganginn. Sem dæmi, ef maður byrjaði með að hafa það að leiðarljósi að lýsingar héldust í hendur við innra ástand söguhetjunnar, og hætti því svo, eða skipti markvisst um nálgun í miðri bók (færi til dæmis yfir í mun hlutlægari lýsingar) væri samkennd lesandans ennþá virk og í fullri vinnu við að tengja við söguhetjuna, reyna að skilja hvernig henni líður og af hverju. Mér finnst þetta mjög áhugavert: Hvað sá sem les gengur í gegnum, hvenær reynir á þolinmæði og samkennd og hvort sá sem les bókina upplifi jafnvel að þessir jákvæðu eiginleikar eflist á meðan á lestrinum stendur. Til dæmis þegar lesandinn lendir í því að líka illa við sögupersónu eða að verkið veiti honum mótstöðu með einhverjum öðrum hætti. Þannig að aðgreiningin sem ég vildi gera er þessi: Að lýsingarnar geti dregið upp innra ástand söguhetju, en herrann sem textinn þjónar er fyrst og fremst sá sem er að lesa.

Það er spot on að tengja Krossfiska við kvikmyndir, því í upphafi ætlaði ég að gera þessa sögu að indie-kvikmynd sem ég myndi taka upp fyrir engan pening yfir nokkur ár með vinum mínum. Það var pælingin þegar ég skrifaði hugmyndina niður í fyrsta skiptið og hún spannaði bara tvö stílabókarblöð. Söguþráðurinn var ekki kominn nema í grófum dráttum, en tilfinningin, eða hugarástandið, sem verkið átti að búa til var orðið nógu skýrt til að ég gæti kallað þetta hugmynd. Svo breyttist verkið mjög fljótt í bók. Á upphafsstigum held ég að hugmyndirnar mínar séu bara hugmyndin um tilfinninguna sem verkið gæti búið til, frekar en endilega viðfangsefni þess, eða ákveðna list- eða bókmenntagrein (oft flakkar ein hugmynd á milli skáldsagna-, smásagna- og ljóðahandritaskjala, á meðan hún tekur á sig mynd). Svo eftir því sem hugarástandið, eða tilfinningin, sem verkinu er ætlað að búa til fer að skýrast, gerir verkið það líka, og þessi tvö fyrirbæri, verkið sjálft og tilfinningin sem verkið býr til, hafa gagnverkandi áhrif hvort á annað, mjakast áfram og loks verður eitthvað til.

Það er alveg óhætt að segja að ég eigi mér frekar áhrifavalda í kvikmyndum heldur en bókmenntum. Ég fékk áhuga á bókmenntum í gegnum kvikmyndir og finnst ég ennþá frekar illa lesinn. Að tala um áhrifavalda getur verið flókið, því yfirleitt er það algjör súpa hvað verður kveikja að verki, eða hefur áhrif á það, og svo getur eitthvað haft áhrif á mann í byrjun en algjörlega fjarað út þegar hugmyndin er farin að þróast. Byrjunin á einni Beethoven-sinfóníu sem ég rakst á hafði mikil áhrif á Krossfiska, allt frá byrjun ferlisins til loka. Hugarástandið sem tónlistin vakti upp í mér tengdist eitthvað áhrifunum sem ég vildi láta bókina búa til. Svefnhjólið eftir Gyrði Elíasson má líka nefna, eflaust Gangandi íkorna líka. Svo eru einhver málverk þarna líka og margt fleira, sumt sem er auðvelt að tengja við bókina og annað sem er líklega óljóst fyrir öllum nema mér. Mér finnst að Robert Bresson hljóti að hafa áhrif á mig, þótt ég viti ekki beinlínis hvernig. Alltaf þegar ég horfi á myndirnar hans finnst mér ég þurfa að hugsa allt upp á nýtt, nálgun mína við að búa eitthvað til. Snemma í ferlinu með Krossfiska hugsaði ég um Rainer Werner Fassbinder, hann er líka einn af mínum uppáhalds. Samt er ég heldur ekki viss um hvernig hann hefur áhrif á mig. Stundum er hann á einhverjum furðulegum landamærum húmors og ógnar og stundum er andrúmsloftið mjög nöturlegt. Mér dettur í hug þetta atriði hér.

En bara til að hnýta þessi tvö viðfangsefni saman, veruleika vs. huglægan veruleika og kvikmyndir, þá finnst mér við hæfi að grípa í leikstjórann Andrei Tarkovsky úr frábærri bók hans, Sculpting in Time. Hér tekur hann dæmi um atvik sem gerist í raunveruleikanum og vandamálið sem listamaðurinn stendur frammi fyrir þegar hann vill koma til skila þeim áhrifum sem hann varð fyrir:

You were walking along the street and your eyes met those of someone who went past you. There was something startling in his look, it gave you a feeling of apprehension. He influenced you psychologically, put you in a certain frame of mind.

If all you do is reproduce the conditions of that meeting with mechanical accuracy, dressing the actors and choosing the spot for shooting with documentary precision, you still won‘t achieve the same sensation from the film sequence as you had from the meeting itself. For when you filmed the scene of the meeting you ignored the psychological factor, your own mental state which caused the stranger‘s look to affect you with that particular emotion. And so for the stranger‘s look to startle the audience as it did you at the time, you have to prepare for it by building up a mood similar to your own at the moment of the actual meeting.

Þarna leynist sannarlega margt umhugsunarvert. Takk.

Sjálfur er ég með skæðan athyglisbrest sem lýsir sér einkum þannig að ég get ekki horft á sjónvarpsefni nema ég hafi, á einn eða annan hátt, verið sviptur ferðafrelsi mínu. Tilhugsun um að halda athygli við sjónvarpsþátt eða kvikmynd í tölvunni minni lengur en í átta mínútur er til dæmis afar fjarstæðukennd; ég tók mér minnst fimm pásur til að gera eitthvað annað einungis á meðan ég rembdist við að slá inn þessa spurningu til þín — spilaði á gítarinn, opnaði ísskápinn til að sækja mér meiri ost, dansaði við dóttur mína (hennar hugmynd), svaraði í símann (skakkt númer), skipti um sokka (þeir voru blautir, það er rigning úti). Mér finnst hins vegar mjög gaman að fara í bíó. Eina leiðin til að ég haldi athygli lengur en í tíu mínútur er ef ég er teymdur inn í sal, dyrunum lokað, ljósin slökkt. Þannig á þetta að vera, finnst mér: samverustund í draumnum, nokkrir inni í sal. Þegar ég bjó í París fyrir nokkrum árum og átti ekki barn fór ég oft í viku í bíó (geggjað að geta séð sígildar gamlar kvikmyndir fyrir 350 kall í bíósal). Hvernig finnst þér best að horfa á bíómyndir?

Mér finnst best að horfa á kvikmyndir á stórum skjá. Bíó er frábært. Einu sinni var á heimili mínu skjávarpi sem ég nýtti til hins ýtrasta til að horfa á myndir, stofan var eiginlega ekkert síðri en salur 4 í Bíó Paradís. Nú er ég bara með sjónvarp, og ég nenni aldrei að horfa af fartölvu. Ég glími sem betur fer ekki við þennan athyglisbrest varðandi það að horfa á myndir. Kannski byggði ég upp þol í kvikmyndafræðinni í Háskólanum þar sem ég sat gjarnan ósofinn inni í hlýjum og dimmum bíósal og þurfti að halda athygli yfir alls konar myndum sem nútímaáhorfanda gæti fundist erfiðar, í nokkra klukkutíma í senn. Ég finn til með þér.

Tja, ég ýki nú aðeins — og var kannski ekki nógu nákvæmur í orðavali. Ég á ekki í neinum vandræðum með að halda athygli við kvikmyndir í bíóhúsum (nema um sé að ræða nýlegar Hollywood-blokkböstera svo sem Sjóræningja Karíbahafsins eða síðustu Hringadrottinssögu-myndina; ég man enn hvað mig dreymdi meðan ég svaf í salnum) og ég hef setið í gegnum ólíklegustu verk án þess að mér leiðist, sjaldnast samt að mínu frumkvæði enda er ég frekar illa menntaður í góðri menningu, barnæska mín löðrandi í Arnold Schwarzenegger-myndum og Andrés Andar-syrpum (það hjálpaði í mínu tilviki að giftast inn í franska fjölskyldu; ég hefði til dæmis líklega ekki farið á fimm og hálfs tíma leiksýningu á kambódísku ef ástalíf mitt hefði þróast með öðrum hætti). En sem sagt: Vandinn tengist frekar kaótísku vinnulífi og foreldrahlutverkinu — allur „frítími“ hjá mér fer í lestur og skrif (samanber núna) plús að ég á ekki sjónvarp (ég þekki afar fáa undir fertugu sem eiga sjónvarpstæki; mér finnast sjónvörp núorðið skipa svolítið svipaðan sess og heimasími með snúru) og mér grútleiðist að horfa á meistaraverk kvikmyndasögunnar á litlum tölvuskjá og nota þá sama tæki og ég nota við vinnu yfir daginn. Það er eitthvað dapurlegt við að góna á sama tækið allar sínar vökustundir, jafnt í starfi sem leik; einu sinni reyndi ég að hysja upp um mig buxurnar og fjárfesti úti í New York í glæsilegum skjávarpa, en hann suðaði svo hátt og hitnaði svo mikið að ég heyrði ekki tal persónanna á skjánum og svo svitnaði ég eins og í gufubaði, og neyddist því að lokum til að selja hann aftur. Og því er niðurstaðan nú þessi — síðustu tvö árin, eða frá því að ég gerði veröldinni þann greiða að fjölga mér, hef ég einungis séð tvær kvikmyndir (báðar í bíó: Call Me by Your Name og The Old Man & the Gun, flottar) and that’s it. Frekar grátleg staðreynd. Ekki hjálpar til að í augnablikinu búum við fjölskyldan hvergi og verðum á faraldsfæti næstu mánuðina; og því sé ég ekki fyrir mér að sjá bíómynd aftur fyrr en … tja, árið 2021, ef ég er raunsær. En sem sagt: Mér finnast kvikmyndir deyja á tölvuskjánum (og athyglin).

Kannski er vandamálið eins og þú segir tölvan, því í henni fer athyglin oftar en ekki á flakk. Kannski er það að horfa á kvikmynd í tölvu eins og að elda inni á klósetti.

Já, það er ein besta samlíking sem ég hef heyrt hvað þetta snertir.

Ef fólk hefur áhuga á að horfa á kvikmyndir en á erfitt með að beita sig aga gæti hjálpað að læsa truflunarvalda eins og hljóðfæri, snjallsíma, fartölvu og ósjálfbjarga afkvæmi, inni í herbergi á meðan.

Hefurðu grátið í bíó, og ef svo er, hvaða mynd spilaðist á tjaldinu? (Játning til að brjóta ísinn: Ég hef grátið í bíó, oftar en einu sinni, en ég græt reyndar mjög mikið.)

Ég græt örugglega meira en flestir bældir karlmenn, en sjaldan á almannafæri. Ég grét t.d. ekki þegar ég fæddist. Ég fór á Konung ljónanna þegar ég var sjö ára og man að ég fékk kökk í hálsinn yfir henni. Ekki þó þegar [SPOILER ALERT] Múfasa dó, mér var alveg sama um hann, heldur þegar Tímon og Púmba voru leiðir yfir því að vinátta þeirra og Simba myndi enda. Ég táraðist yfir byrjuninni á Up, þá var ég orðinn fullorðinn. Ég horfði á Synecdoche, New York, einn heima hjá mér, kannski einu sinni á ári í þrjú ár, og hágrét. Ég horfði á hana aftur um daginn, þá var langt síðan ég sá hana síðast, en upplifði ekki það sama. Líklega hef ég alveg tæmt þann catharsis-brunn.

En ljóð, lestu líka ljóð?

Já, ég er til dæmis með á náttborðinu hjá mér núna Að lesa ský, frábærar ljóðaþýðingar Magnúsar Sigurðssonar sem komu út í fyrra. Ég er enn að fara í gegnum nokkur heildarsöfn skálda sem ég pantaði mér fyrir nokkru: Elizabeth Bishop, Fernando Pessoa, Jack Gilbert, Wisława Szymborska og Zbigniew Herbert. Það tekur sinn tíma og ekki hjálpar að ég fer gífurlega hægt í gegnum ljóðabækur. Ef ljóð hreyfir djúpt við mér þarf ég að loka bókinni og taka pásu, eins og bragðið sé enn í munninum og ég tími ekki að skemma það.

Ég veit að Sigurður Pálsson hafði mikil áhrif á þig sem höfund. Geturðu lýst hvernig, í hverju lá galdurinn hjá honum sem skáldi, manneskju?

Ég treysti mér alls ekki til að súmmera upp galdur nokkurs, hvað þá Sigurðar, en það er rétt að hann hafði mikil áhrif á mig. Hann kenndi mér að lesa og skrifa ljóð. Ég var áhugasamur og lærdómsfús nemandi og SP hafði þann frábæra eiginleika að geta alltaf mætt manni með metnaði og áhuga, og aukið hvorttveggja. Hann var ótrúlega hvetjandi kennari og upptendrunarmeistari. Hann var mjög gjafmildur á allt sem hann vissi um ljóðlist og skáldskap, það var ekki til í honum að halda einhverju út af fyrir sig. Það er ríkt í svo mörgum að hræðast að svipta hulunni af því hvað þeir eru að hugsa, hvað þeir hafa fundið út fyrir sjálfum sér, kannski vegna þess að þeir tími því ekki — þeim líður eins og þeir gefi frá sér eitthvað forskot — eða óttast að útskýringar sínar á einhverju jafn flóknu og listsköpun hljómi barnalegar eða ómerkilegar, eða jafnvel að þær séu í alvöru ómerkilegar, og þeir hrökkvi úr eigin dáleiðslu á sjálfum sér við að orða þær upphátt. Þannig var Siggi ekki og gjafmildi hans situr sterkt í mér. Það er uppörvandi viðhorf til lífsins sem ég held að sé hollt að temja sér.

Það gagnaðist Sigurði líka vel sem kennari hvað hann var með greinandi huga. Mér fannst vera svo ríkt í honum að vilja átta sig á virkni hluta, að skilja, og tólið sem hann hafði á valdi sínu til þess var ljóðlistin. Hann leiðbeindi mér með lokaverkefni í náminu og þegar við hittumst á fundum og hann var að ganga í gegnum krabbameinsmeðferð, var hann ennþá að greina fyrir sér reynsluna með ljóðlist, með myndlíkingum. Ég man eftir líkingunni hans með lyfjameðferðina — að lyfin væru eins og klaufskur danspartner á skólaballi sem þyrfti að sýna þolinmæði, og reyna bara að njóta tónlistarinnar. Mér virtist sem ljóðlistin væri fyrir honum lífsviðhorf, sem vildi svo heppilega til fyrir hann (og okkur) að er líka til sem starfsgrein. Þess vegna fannst mér hann miðla einhverju til okkar nemenda hans sem var langt umfram bókmenntir. Eða þá að þessi mörk sem gerð eru á milli lífsins og bókmennta eða lista séu alls ekki til. Ég er mjög glaður að hafa kynnst SP. Ég sakna hans og hugsa oft til hans.

Sama hér, ég fæ enn orku bara við að hugsa til hans. Hvernig bók langar þig að skrifa næst (ef nokkra?)

Það er of mikið sem mig langar til að skrifa. Ef þú sæir bara Dropboxið mitt, Sverrir.

Það kann að vekja hjá þér skelfingu — en ég  Dropboxið hjá þér. (Sem betur fer sérðu mitt samt ekki!)

Áttu þér eftirlætis-höfund eða bók?

Höllin eftir Kafka. Það væri margt hægt að segja bæði um hana og höfundinn. Mér finnst Kafka stundum vera eins og að skákmeistari að lýsa því hversu flóknir útreikningar og afleiðingar liggja að baki einfaldri hreyfingu taflmanns — nema hvað varðar mannleg samskipti. Þó að aðstæður persónanna geti verið furðulegar gera innsýn höfundarins í sálfræði og samskipti þær sannar. Þessar aðstæður bjóða þó líka upp á miklar túlkanir, fólk er sífellt að greina Kafka frá alls konar vinklum. Það getur verið gagnlegt og áhugavert, en við fyrsta lestur þessar bókar mæli ég með því að lesa hana án þess að reyna að átta sig á neinu, setja neitt í samhengi eða tengja við veruleikann utan bókarinnar. Bara njóta hennar eins og máltíðar, skynja frekar en skilja, það er að minnsta kosti þannig sem hún verkar á mig.

Lestu líka grafískar skáldsögur, myndasögur? (Ég dýrka sjálfur franska myndasöguhefð — þar sem höfundar skrifa teiknaðar sögur sem njóta alveg jafn mikillar virðingar og hefðbundnar skáldsögur — og dettur þetta í hug vegna þess sem við sögðum um samband þitt við kvikmyndir hér að ofan.)

Ekki mikið, en ég væri alveg til í að bæta úr því. Ég glugga stundum í grafískar skáldsögur í hillunum í Nexus og finn oft bækur sem vekja áhuga minn. Ég hef bara því miður, eða sem betur fer kannski, ekki efni á öllu sem mig langar í.

Ein besta íslenska bók síðustu ára sem ég hef lesið er reyndar grafísk skáldsaga. Það er Gombri eftir Elínu Eddu. Rödd textans og teiknistíllinn mætir manni skýrt frá byrjun, það er einhver einkennileg ró og teikningarnar einfaldar en ítarlegar, þó að það hljómi kannski eins og þversögn. Áferð söguheimsins verkar sterkt á mann, hún felst m.a. í litapallettu og þróun hennar í gegnum söguna, einföldum uppstillingum persóna við blæbrigðaríka bakgrunni, þöglum römmum o.fl.

En takturinn í samtölum, og framvindunni í heild, er kannski eitt það magnaðasta við bókina. Tilfinning fyrir tíma er mjög sérstök, til dæmis gæti komið heil blaðsíða með nokkra ramma sem sýnir persónu fara þegjandi um borð í bát, með völdum nærmyndum, eitthvað sem maður býst kannski ekki við, áður en maður fletti, að myndi taka svona mikið rými. Svo springur sagan einstöku sinnum út í tjáningarríkum opnum þar sem veruleikinn leysist upp. Við lestur þessa bókar finnur maður fyrir því að höfundurinn óttist ekki áhættur og hafi gífurlegt vald á frásögninni. Það er svo yndisleg tilfinning við að lesa bækur að geta treyst höfundi fullkomlega til að fara með sig á áhugaverða staði. Frábær bók.

Já, ég hef heyrt um hana áður en ekki lesið. Bæti úr því. Á hvaða tungumáli lestu helst (ef nokkru)?

Helst les ég bækur á tungumáli og þá íslensku. Ég hef einmitt verið að bölva mér fyrir að kunna ekki sænsku. Ég las þýðingu á bók eftir Söru Lidman, Sonur minn og ég, og varð mjög hrifinn, en því miður hafa ekki fleiri bækur eftir hana verið þýddar á íslensku. Ég leitaði þá til enskunnar og þar fann bara tvær bækur sem búið er að þýða. Ég var að byrja á annarri þeirra í fyrradag, sem heitir í þýðingunni The Rain Bird. Bókarhönnun og frágangur er skelfilegur á þessari útgáfu, sem ýtir undir þessa sjálfsbölvun mína fyrir að geta ekki lesið á frummálinu.

Gefurðu bækur?

Já, stundum geri ég það. Hjúskaparmiðlun milli fólks og bóka er skemmtileg. Ég er alltaf að reyna að mana mig til að gefa bara bækur úr bókahillunum mínum sem mig langar til að eiga sjálfur, bækur sem ég myndi sakna.

Áttu þér sterka minningu af því að uppgötva töfra frásagnarlistarinnar? Ef svo er, hvar varstu staddur, hvernig varstu klæddur, hver var lyktin, varstu einn eða með öðrum, glaður eða hræddur, barn, táningur, fullvaxta? Og á hvaða formi var sögunni miðlað, manstu það?

Þær eru margar. Alltaf þegar ég uppgötva nýjan höfund eða leikstjóra finnst mér ég verða fyrir einhverjum göldrum. Mamma hefur sagt mér sögu af því þegar hún las fyrir mig Tótu tætubusku þegar ég var lítill. Þegar hún kom að martraðarkaflanum, þar sem Tótu dreymir að foreldrar hennar komi inn í herbergið hennar og rífi öll leikföngin í tætlur, fylltist ég skelfingu og fór að gráta. Ég bað mömmu að lesa þessa bók fyrir mig aftur og aftur, og þegar hún reyndi að hlaupa yfir martröðina, til að skelfa mig ekki og eyðileggja ekki fyrir mér daginn, bannaði ég henni það og heimtaði þennan hrylling aftur, og fór aftur að grenja og varð skelfingu lostinn. Líklega segir það eitthvað um samband mitt við frásagnarlistina, að verða fyrir töfrunum trompar löngunina til að viðhalda andlegu jafnvægi.

Ráðunautur Leslistans: María Elísabet Bragadóttir

 

 

MaríaElísabet (1).png

María Elísabet Bragadóttir er heimspekingur og hefur birt skrif sín hér og þar, meðal annars Bakþanka í Fréttablaðinu. Eins les hún hálfsmánaðarlega smásögur og aðra texta í Morgunþættinum Múslí. Ég settist niður með henni fyrir hönd Leslistans og lagði fyrir hana nokkrar krefjandi spurningar.

-Sverrir Norland

Velkomin í ráðuneyti Leslistans, kæra María Elísabet, endilega fáðu þér sæti á þægilegum stað og mundu að hér má setja fætur upp á borð. Ég vona að þú drekkir kaffi og sért ekki með glútenóþol því ég var að taka nýbakaða kanilsnúða út úr ofninum.

Fyrsta spurning er einföld: Ertu að lesa eitthvað áhugavert, jafnvel skemmtilegt, þessa dagana, bók eða bækur sem þig langar að deila með samfélagi Leslistans?

Takk fyrir að bjóða mér, Sverrir. Kaffi er uppáhaldsorkudrykkurinn minn (ég vil helst þamba það brennheitt) og kanilsnúður er næstuppáhaldsmaturinn minn. Bara fullkomið!

Ég hef ekki undan við að lesa góðar bækur þessa dagana enda voru þetta frábær bókajól, svo margar góðar íslenskar sem ég las í einum rykk yfir hátíðirnar.

Í augnablikinu er ég annars að lesa Hefnd grasflatarinnar, nýþýtt smásagnasafn eftir Richard Brautigan. Þetta er í fyrsta skipti sem ég les eitthvað eftir hann og það var greinilega tími til kominn, yndislegur, djúpfyndinn.

Fyrir svefninn er ég svo með aðra nýþýdda bók, Saga tveggja borga eftir Charles Dickens. Hún er staðgott nesti fyrir ferðalag inn í draumalandið (viðeigandi að koma með rómantíska lýsingu þegar Dickens á í hlut). Ég hef elskað Dickens síðan ég var lítið og hræðilega tilfinningasamt barn. Komst nýlega að því að hann var víst skíthæll í lifanda lífi. Glataðar fréttir.

Í gær las ég Sálumessu eftir Gerði Kristnýju. Ég held að ljóðabækur þurfi að vera lesnar hægt og varlega. Mér finnst ég allavega ekki hafa lokið við ljóðabók þó ég lesi hana frá upphafi til enda einu sinni. Ef ljóðin eru góð les ég þau mjög oft.

Gaman að heyra með Brautigan. Þýðandinn, Þórður Sævar, gekk einmitt í ráðuneytið fyrir ekki svo löngu.

En nú stenst ég ekki mátið að spyrja: Skiptir máli, fyrir okkur sem lesum bækur, hvernig manneskjur höfundar þeirra voru? Breytir það einhverju fyrir upplifun okkar á verkum Dickens hvort hann var góð eða vond manneskja? (Og svo er raunar erfitt að fá afdráttarlaust úr því skorið, enda getur hann víst ekki lengur svarað fyrir sig, blessaður.) Hann var greinilega mikil manneskja — annars hefði hann varla getað samið annað eins höfundarverk — en kannski ekki barnanna bestur, að öllu leyti — mig minnir reyndar líka að hann hafi eignast alveg hreint heilan sæg af börnum. En sem sagt: Er æskilegt að listamenn séu englar? Er ekki hætt við því að sómasamt og prútt fólk, með flekklausa ferilskrá sem manneskjur, sé ekki endilega alltaf áhugaverðasta fólkið? Þurfa ekki að vera átök á milli engla og djöfla innra með listamanninum? (Ætti hann kannski að losa um öll slík átök í listsköpunni og spara þau í einkalífinu? Er það kollgátan?)

Kannski þekking á höfundi geti í tilvikum dýpkað lesturinn eða gert hann gagnrýnni og þá skipt máli og verið dýrmæt. Kannski er það óhjákvæmilegt að það hafi áhrif á lestur og tilfinningar lesandans? Að lesa er skapandi iðja. Tilfinningarík iðja.

Standa verk einhvern tímann óháð höfundum sínum? Stamandi manngúrka sem hefur aldrei yfirgefið botnlangann sem hún býr í getur skrifað ljóð á stærð við alheiminn (en hvað veit kona um næstu konu, kannski erum við allar á stærð við alheiminn) og ljóðið lifir hana í þokkabót (ég trúi stundum á líf eftir dauðann svo kannski er þetta ekki sannleikanum samkvæmt).

Þú spyrð hvort það sé æskilegt að listamenn séu englar. Ljóðræn spurning. Ég væri til í að lesa bók eftir engil. En við værum í vondum málum ef þú þyrftir að vera engill til að mega vera listamaður. Ég hef aldrei hitt engil.

Þú spyrð hvort það þurfi ekki að vera átök engla og djöfla innra með listamönnum.

Manneskjan er í eilífri mótsögn, svo ef átök engla og djöfla lýsa mótsögnum í innra lífi fólks held ég þú hittir naglann á höfuðið. Átökin eru til staðar hjá öllum alltaf, í einhverjum mæli. Ég veit samt ekki hvað gerir listamann áhugaverðan eða manneskju áhugaverða yfirhöfuð.

Þá held ég reyndar að það búi listamaður í öllum manneskjum. Og kannski erum við öll áhugaverð undir smásjá?

Mér finnst samt skipta höfuðmáli að reyna að vera almennileg manneskja. Hvort sem þú ert listamaður eða tannlæknir (kannski sérstaklega ef þú ert bæði, einhver óþægileg hugrenningartengsl þarna). Þess vegna er leitt að komast að því að Dickens hafi kannski ekki verið skemmtilegur við fólkið sitt milli þess sem hann skrifaði yndislegar bókmenntir.

Seinasta pælingin þín: (Ætti hann kannski að losa um öll slík átök í listsköpunni og spara þau í einkalífinu? Er það kollgátan?) Heldur pétur. Ef til mín kemur listamaður með kvalalosta en sömuleiðis hjarta sem er lítið óútsprungið blóm segi ég: Fremdu morðin í word skjali en ekki prófa þig áfram með alvöru fólk.

Já, sannarlega nóg af snillum sem fremja morð í Word-skjölum þessa dagana, sem skrifa glæpasögurnar sínar á snotrar fartölvur, syplandi flosmjúkt kaffi. Hvernig mundi slíkt fólk hegða sér ef það fengi ekki útrás í sakamálafléttunum sínum? Mér óar við svarinu.

En þá að að einhverju léttara: Á hvaða tungumáli lestu helst?

Mest á íslensku undanfarið, en alltaf ensku inná milli.

Áttu þér minningu af því að lesa sem barn, af því að uppgötva einhvern höfund eða bók sem orkaði sterkt á þig og hafði áhrif á þig sem manneskju, breytti þér jafnvel í skáld og fékk þig til að vilja skrifa?

Ég las mjög mikið sem barn, ég var alltaf andvaka og neyddist til að lesa svo nóttin liði hraðar. Allar bækur sem mér fannst skemmtilegar fengu mig til að vilja skrifa sjálf og ég gerði líka mikið af því. Erfitt að nefna bara einn höfund eða bók. Svo margar bækur eiga alveg sérstakan sess í hjarta mér. Börn eru fordómalausir lesendur og finna innblástur alls staðar.

Allt frá lýsingum á niðursoðnum mat hjá Enid Blyton til ævintýralegs hryllings í Abarat eftir Clive Barker hafði djúpstæð áhrif á mig. Svo las ég fullorðinsbækur samhliða barnabókunum, eins og flest börn, enda bannaðar bækur ekki til.

Lestu líka einhver skemmtileg/áhugaverð tímarit eða vefmiðla?

Nei, því miður ekki. Ég fékk einu sinni áskrift að mjög fínu bókmenntatímariti í afmælisgjöf, hún entist í hálft ár og það var gaman. Ég nota internetið bara í einhverja vitleysu.

Í hvaða stellingu finnst þér best að lesa — sitjandi, liggjandi, standandi á haus, hangandi niður úr loftinu eins og leðurblaka — og í hvers konar aðstæðum, svo sem í flugvél, á kaffihúsi, undir rúmi fyrrverandi kærasta, í fallhlíf, uppi í sófa, og hvernig ertu helst á svipinn á meðan þú lest, yggld, reið, hlæjandi, óttaslegin, gnístirðu tönnum?

Mér finnst best að lesa samanhringuð í sófanum mínum, eitt sælubros.

Ég myndi aldrei lesa undir rúmi fyrrverandi kærasta, með smáköflótt teppi yfir mér, við vasaljós með áföstum segli sem ég fann í náttborðsskúffunni hans. Hann myndi reka mig undan rúminu um leið og hann heyrði gnístranina.

Hefurðu grátið yfir bók? Ef svo er: Manstu hvenær það gerðist síðast, hvernig veðrið var, hvar þú varst stödd, jafnvel um hvaða bók var að ræða?

Ég hef oft grátið yfir bók. Mig minnir að ég hafi tárast í ljóðahorninu í Mál & menningu um daginn. Ég var að lesa ljóð eftir Gregory Orr. Það hefur örugglega verið dumbungur úti og 6 stiga hiti eins og allt árið um kring.

Nei, veistu, ég man núna — það var ekki dumbungur heldur hellidemba þegar ég var að lesa Greogory Orr (það hefur líka verið rigning allt árið um kring).

Þá er gott að skýla sér fyrir regninu undir góðri ljóðabók.

En áttu þér uppáhaldshöfund — eða er kannski hættulegt að eiga sér uppáhalds hitt og þetta?

Þetta er erfið og persónuleg spurning.

Eðli málsins samkvæmt detta mér strax í hug höfundar sem voru í uppáhaldi hjá mér þegar ég var barn og sérstaklega unglingur. Börn og unglingar eru þjálfuð í uppáhaldsspurningum, enda meira í því að spyrja hvort annað hvað sé í uppáhaldi frekar en hvort þau séu með mörg járn í eldinum. Fullorðnir virðast í minni æfingu þegar kemur að svona einlægum og erfiðum spurningum.

Við og við les ég bækur sem breyta heimsmynd minni og þá komast höfundarnir í uppáhald.

Í augnablikinu dettur mér Stefan Zweig í hug. Hann var yndislegur höfundur og hann var í uppáhaldi hjá ömmu minni sem benti mér á að lesa hann á sínum tíma. Þessa stundina vel ég hann. Þetta er svo gildishlaðin spurning og þá er eins gott að ákveða það bara út frá því hvernig þér líður á því andartaki og án þess að hugsa það til hlítar.