Af netinu, 21. júní 2019

Ef einhver freistast til að bera saman uppgang fasista í Evrópu við upphaf 20. aldar við stöðu mála í dag þá er þetta holl lesning.

Við hvern væri hægt að ræða gáfulega um stjórnmál, eðlisfræði og Kim Kardashian? Jú, forseta Armeníu.

Þrátt fyrir fjölmenn mótmæli í Hong Kong er langt í að Kína verði lýðræðisríki – að minnsta kosti ef marka má þennan pistil.

Góðir rithöfundar eru ekki alltaf góðir í að skrifast á við lesendur.

Stephen Wolfram hugleiðir „deepfakes“. (KF.)

Hér rifjar Tímarit Máls & menningar um stórskemmtilegt viðtal sem Kristín Ómarsdóttir tók við Sigurlínu Bjarneyju Gísladóttur.

Innlit í vinnustofu Picassos í París meðan á hernámi nasista stóð. Glatt á hjalla!

Áhugaverðustu frambjóðendurnir í fyrirhuguðum forsetakosningum Bandaríkjanna eru konur af ýmsum uppruna. Kamala Harris er hörundsdökkur saksóknari, afar kalkúleraður ofurheili en líka töff og viðkunnanleg; Elizabeth Warren er lagaprófessor sem fullyrti að hún væri af frumbyggjaættum í Norður-Ameríku (sem var ekki vinsæl yfirlýsing); Tulsi Gabbard er frá Hawai, fyrrum hermaður, og kannski er sú mest spennandi af þessum þremur (hér í The New Yorker-prófílgrein frá 2017).

„Og þótt ég hafi verið ungur og passlega naívur var ég ekki svo vitlaus að vita ekki að þetta yrði hark, ekki bara þetta dæmigerða námsmannahark heldur hark miklu lengur en það. Ég gleymdi bara að gera ráð fyrir góðæri og hruni og síversnandi andverðleikasamfélagi og deyjandi fjölmiðlum og öllu því.“
Ásgeir H. Ingólfsson skrifar um heim sem gerður er úr gleri.

Við náum hátindi starfsferilsins um fimmtugt. Og svo er lífið bara ein salíbuna niður á við – eða hvað?

Hinn geðþekki og bljúgi Yves Chouinard, stofnandi Patagonia-útivistarbúðarinnar, er hér í spjalli við The Guardian. Hann – sem er múltímilljóner – segir að kapítalisminn sé að eyðileggja plánetuna. (SN.)


Fyrir augu og eyru:


Heimildarmynd Martins Scorsese um Rolling Thunder Revue-tónleikatúr Bobs Dylan og fjölda annarra vina hans og listamanna er komin út á Netflix. Magnað tímabil á ferli Dylans (krafturinn í flutningnum er rosalegur) en um leið fyllti áhorfið mig talsverðri depurð; ég horfi svo sjaldan á sjónvarp að mér líður alltaf eins og eftir illa ígrundað fyllerí eftir passífa setu, í bljúgri þögn áhorfandans, fyrir framan suðandi raftæki sem matar mig á skemmtiefni; slíkt er þungbært fyrir mann með skæðan athyglisbrest og djúpa andstyggð á áhorfsvæðingu athyglisgáfunnar. Plús að Dylan, svo sjarmerandi sem hann er þegar hann flytur lögin sín, virkar á köflum pínku kjánalegur og sömuleiðis listamennirnir í kringum hann; það er eins og heimildarmyndin eyðileggi einhverja dulúð og mystík og gæði tónleikatúrinn og tónlistarfólkið of hversdagslegu yfirbragði. Joan Baez kemur best út: virkar heilsteypt. Hef mjög blendnar tilfinningar gagnvart þessari heimildarmynd – sem þó er auðvitað skylduáhorf fyrir áhugafólk um þennan mikla listamann. (SN.)

Ken Burns, heimildarmyndagerðarmaðurinn frægi, er hér í skemmtilegu viðtali við tónlistarsnobbmiðilinn Pitchfork þar sem hann vegur og metur hvort handahófskenndir hlutir eru of- eða vanmetnir. Þetta eru oftast ekki djúp viðtöl en honum tekst að halda langar og forvitnilegar einræður um tjáningarfrelsi og kántrítónlist sem hafa setið í mér alla vikuna.

Rick Rubin er einn afkastamesti og áhugaverðasti tónlistarpródúsent vorra tíma. Hér er hann í löngu og djúpu viðtali þar sem hann ræðir opinskátt um tónlist, tónlistarsköpun og svo heilsufar sitt. (KF.)

Af netinu, 14. júní 2019

„Um daginn stóð ég í eldhúsinu hjá vini mínum, framkvæmdaglöðum og galvöskum náunga sem ekki hikar við að gera upp íbúðir, glíma útbíaður í smurolíu við bílvélar og rækta sitt eigið grænkál í garðinum hjá sér. Það gefur auga leið að slíkum þúsundþjalasmið hugnast sóun illa. Stoltur á svip rétti hann mér kaffibolla og bankaði svo létt með hnúunum í stálhurðina að uppþvottavélinni. Ég sá strax á látbragðinu – hvernig hann glotti út í annað, hallaði sér aftur að eldhússkenknum – að nú væri að hefjast lærdómsrík sögustund…“

Tilvitnuð orð koma úr grein eftir mig á léttu nótunum þar sem ég fjalla um hringrásarhagkerfið (og ber það saman við línulega hagkerfið sem við búum nú við). Hér er svo önnur þar sem ég rek sigurgöngu plastpokans á seinni hluta tuttugustu aldar. Báðar greinarnar birtust á nýrri fréttaveitu Klappa en þar birti ég um þessar mundir ýmis skrif um loftslags- og umhverfismál.  (SN.)

Holl áminning hér um að trúa ekki öllu því sem maður les í bókum.

Demókratar geta lært ýmislegt af Steve Bannon. Góð lesning fyrir áhugafólk um bandarísk stjórnmál.

Helgi Tómasson, ballettdansari, hefur alltaf verið mér ákveðin fyrirmynd. Hérer hann í spjalli við Moggann.

Rithöfundar eru duglegri í þéttbýli. Í hið minnsta ef marka má þessa rannsókn.

Ég hef talað fallega um bandaríska landafræðinginn Jared Diamond og bók hans Guns, Germs and Steel á þessum vettvangi. Gylfi Ólafsson, nýr Ráðnautur Leslistans, benti á nokkrar greinar á Twitter sem fara ófögrum orðum um nýjustu bók hans. Meðal annars þessi gagnrýnandi í dómi í New York Times

Svo hef ég líka mært Robert Caro og verk hans – var einmitt mjög hrifinn af nýjustu bók hans, Working, og hef alla jafna lesið góða dóma um þá bók. Fannst þess vegna forvitnilegt að lesa þessa gagnrýni í vinstriblaðinu ágæta Jacobin um bókina. Ég er ekki sammála henni en finnst alltaf mikilvægt að stíga reglulega út úr mínum skoðanahring.

Fínar ráðleggingar hér fyrir foreldra um skilvirkt uppeldi barna. (KF.)

Hér er nú aldeilis skemmtilegt plagg! Uppskrift af ritþingi um Thor Vilhjálmsson frá 2006. Ég var viðstaddur þingið, þá ungur maður með stóra drauma. Ekki spillir að Thor var í góðum félagsskap: stjórnandi var Halldór Guðmundsson bókmenntafræðingur og í hlutverki spyrla voru þeir Sigurður Pálsson rithöfundur og Ástráður Eysteinsson bókmenntafræðingur. Mæli með lestri.

Ég sagði frá því í síðasta Leslista að á Everest-tindi væri nú svo mikil örtröð fjallgöngugarpa að dæmi væru þess að mannmergðin leiddi til banaslysa. Þessi slysatúrismi gildir að sjálfsögðu ekki einungis um hæsta fjallstind á jörðinni: alltof mörg okkar vilja flakka um jarðarkringluna og taka sjálfur á sögufrægum stöðum með tilheyrandi álagsskemmdum. Túristarnir eru að skemma heiminn!

Yndisleg grein um tónlistarmanninn Don Cherry í The New York Review of Books. Cherry var leitandi listamaður og ómögulegt að fella hann inn í skýrar kategóríur eða þröngva upp á hann stimplum. Lestur endursögn ríkari.

Virginia Woolf skrifar hér bréf til ungs skálds og deilir ýmsum skrifráðleggingum. Birtist fyrst á því herrans ári 1932.

Ég hafði svolítið gaman af þessari lesningu um Madonnu. Sauðsvartur almúginn hefur auðvitað á henni ólíkar, og skiptar, skoðanir en í mínum huga er hún talsvert séní. Fyrsta platan hennar, og áran í kringum hana í upphafi níunda áratugarins (ívið sjúskaða og ögrandi New York-gellan), hlýtur að hitta beint í mark hjá öllum skyni gæddum verum.

Gunnar Dofri Ólafsson skrifar kjarnyrta og skemmtilega hugleiðingu um dúxa, fúxa og sannleikann. Hvenær á sannleikurinn á rétt á sér og hvenær má færa í stílinn? (SN.)


Fyrir augu og eyru:

Mjög flott umfjöllun í The Daily, hlaðvarpi The New York times. Spjótunum beint að Evrópu og einstök lönd tekin fyrir. Eru þjóðernissinnaðir flokkar að taka yfir í Evrópu? Er Evrópusambandið að liðast í sundur? Hver er yfirhöfuð framtíð Evrópu? Er rasismi að aukast eða vill fólk einungis vernda menningararf sinn (og er þessu tvennu ruglað saman í umfjölluninni)? Þátturinn um Frakkland, þar sem við kynnumst nokkrum úr hreyfingu gulu vestanna, fannst mér einkar áhugaverður og velheppnaður. (SN.)

Góðvinur Leslistans, Bubbi Morthens, tilkynnti á Twitter í gær að hann væri að byrja með nýtt hlaðvarp í næstu viku. Persónulega get ég varla beðið. (KF.)

Af netinu, 7. júní 2019

„Ég myndi segja að allt sem ég geri mótist að einhverju leyti af manngerðri hamfarahlýnun. Ég hugsa um loftslagsbreytingar ábyggilega hundrað sinnum á dag, þær eru faktor í eiginlega öllu sem ég geri; hvernig ég ferðast, hvað ég kaupi mér, hvað ég borða og hvernig ég kýs að lifa lífinu.“

Ég spjallaði um loftslags- og umhverfismál við Hildi Knútsdóttur, fyrir fréttaveitu Klappa. (SN.)

Það hefur glatt mig mikið að sjá áhugaverðum íslenskum fréttabréfum fjölga. Við Leslistamenn viljum gjarnan að til verði ríkuleg flóra af slíkum bréfum. Vil sérstaklega benda á þrjú ný bréf sem ég hef tekið eftir. Í fyrsta lagi er það fréttabréfið hans Jökuls Sólbergs. Í því skrifar hann um „örflæði“ (e. micromobility) sem snýst í stuttu máli um léttari samgöngumáta á borð við rafknúin reiðhjól og hlaupahjól. Sverrir Bollason var að byrja með fréttabréf um borgarþróun, húsnæðismál og fasteignir sem lofar góðu og Tumi Ferrer með fréttabréf um kaffi og vín sem er einnig mjög forvitnilegt. Ef þið kannist við fleiri áhugaverð íslensk fréttabréf þá megið þið gjarnan láta okkur vita. Svo hvet ég alla til að stofna sitt eigið fréttabréf, það er stórskemmtilegt sport. Ágætt að láta vaða á vefsíðum á borð við Substack og sjá svo hvað gerist.

Stundum finnst mér ég vísa of oft í fjármálahugsuðinn Morgan Housel á þessum vettvangi en hann kemur alltaf á óvart með hverja negluna á eftir annarri. Hér fjallar hann um hvað maður getur lært af sögunni og hér veitir hann dóttur sinni, og okkur lesendum í leiðinni, ýmis góð fjármálaráð.

Hér er ansi góð greining á stöðu og tækifærum hlaðvarpsheimsins. Þetta er ört vaxandi og spennandi fjölmiðlaform sem á eflaust eftir að vaxa í mikilvægi.

Fyrsta uppkastið af öllu er drasl. Góð hvatningarorð fyrir rithöfunda.

Stórskemmtileg frásögn frá bandarískri geðlæknaráðstefnu. Fyndið og óhugnanlegt á sama tíma.

Sumarleg grein hérna um vísindin á bak við grillmat.

Grein um af hverju það skiptir máli fyrir alla að kunna að skrifa vel. Greininni er beint til hugbúnaðarverkfræðinga en á erindi við okkur flest.

Heimspekingur skrifar gegn þekkingu. Fersk nálgun. (KF.)

Ég veit ekki hvort þetta er kómískt eða tragískt (sennilega hvorttveggja?): Everest-fjall er nú svo vinsæl áskorun fyrir göngugarpa að suma daga er mannmergðin slík að það myndast biðröð eftir að komast efst á tindinn. Dæmi eru um að örtröðin hafi leitt til dauðaslysa.

Sue Halpern birti mjög skemmtilega lofgjörð um almenningsbókasöfn í The New York Review of Books. Þar vitnar hún meðal annars í bók, sem áður hefur borið á góma hér, The Library Book eftir Susan Orlean, og dregur eftirfarandi tilvitnun fram í dagsljósið: „The publicness of the public library is an increasingly rare commodity. It becomes harder all the time to think of places that welcome everyone and don’t charge any money for that warm embrace.“

Hér gefur að líta gagnvirka innsýn í líf og störf tólf skemmtikrafta í New York-borg; meðal annars dansara í jarðlestum, ballerínu, djasspíanista af gamla skólanum (minn uppáhalds) og latínótrymbils. Birtist í The New York Times. Svoldið skemmtilegt. 

Eitt það besta sem ég las í vikunni var viðtal við frönsku vitsmunaveruna Bruno Latour í Le Monde. Í brenndidepli einkum loftslagsbreytingar og staða mannsins í gjörbreyttum heimi.

Snorri Másson, blaðamaður, er óhræddur við að fremja stílkúnstir í þessari fjörugu grein um Þorstein Davíð Stefánsson, sem útskrifaðist nýlega af fornmáladeild Menntaskólans í Reykjavík með talsverðum bravúr.

Ný heimasíða fyrir hina áhugaverðu ritröð Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar.

Það er völlur á Elton John um þessar mundir. Út er komin kvikmynd byggð á ævi hans, Rocketman, og svo er sjálfsævisaga væntanleg. Popparinn stakk nýlega niður penna og útkoman birtist í The Guardian.

Mér finnst alltaf jafn furðulegt þegar ég heyri því haldið fram að enginn hafi tíma til að lesa. (Samt virðist öll heimsbyggðin hafa séð Game of Thrones – samtals 146 klukkustundir af sjónvarpsefni.) Hvað um það, nú hafa þrír snyrtilegir, ungir Þjóðverjar leyst þetta tímahraks-vandamál okkar og fitjað upp á forriti sem brýtur nonfiksjónbækur til mergjar og eimar þær niður í hnitmiðaðar ritgerðir. Í kynningarefni fyrir forritið hamra þeir á því að enginn hafi tíma til að lesa en allir hag af því. Hinir knáu Þýðverjar kveðast sannfærðir um að hið byltingarkennda forrit þeirra muni umbylta lestrarvenjum heimsbyggðarinnar. Framtíðin er sem sagt fólgin í því að lesendur greiði tæknifyrirtæki áskriftargjald fyrir að hjálpa sér við að lesa einfaldanir á bókum!

Gauti Kristmanns skrifar um „Nóbelsverðlaunaharmleikinn“. Áhugafólk um verðlaunaveitingar ætti svo að gleðjast yfir því að í ár verða veitt tvenn Nóbelsverðlaun fyrir glæsilega framgöngu í bókmenntum – fyrir 2018 og 2019.

Virkilega athyglisverð grein um Kína, stöðu rithöfunda og blaðamanna þar og andóf þeirra gegn síhertri kúgun ríkisvaldsins. (SN.)


Fyrir augu og eyru:


Fjárfestirinn og hugsuðurinn Naval Ravikant er hér í mjög löngu og djúpu spjalli við grínistann og hlaðvarpskónginn Joe Rogan. Hér er fyrst og fremst talað um hvernig maður á að verða ríkur og hamingjusamur.

Þegar ég lærði hagfræði á sínum tíma þá talaði ég oft um að ég lærði töluvert meira af hagfræðihlaðvarpinu Econtalk og hagfræðiblogginu Marginal Revolution en af kennslubókunum mínum. Fannst því alveg sérstaklega gaman að hlusta á Russ Roberts, stjórnanda Econtalk og Tyler Cowen, stjórnanda Marginal Revolution spjalla hér saman í hlaðvarpi hins síðarnefnda.

Í því spjalli minnist Russ Roberts á myndband sem hann var að framleiða um hvernig hægt er að misskilja gögn um tekjuójöfnuð. Hvet alla til að skoða þetta – stutt, fræðandi og skemmtilegt.

Hér er stórkostlega áhugavert spjall við Stephen Wolfram um hvað gerist þegar stór hluti af heimsbyggðinni getur farið að forrita. (KF.)

Af netinu, 31. maí 2019

Arnold Schwarzenegger er hér í frekar skemmtilegu viðtali við Financial Times.

Hér er fjallað um rökræðu á milli blaðamannanna Andrew Sullivan og Adam Gopnik sem hafa oft verið hlekkjaðir á þessum vettvangi. Til umræðu er ný bók eftir hinn síðarnefnda um frjálslynd viðhorf í heiminum og hnignandi mikilvægi þeirra.

Halldór Armand fjallar hér um hvað lítið fer fyrir erlendum fréttum í íslenskum fjölmiðlum og hvaða áhrif þessi erlendi fréttaskortur hefur á íslenskt samfélag. Djúpt og gott eins og svo oft hjá honum Dóra.

Kennslustund frá Ian Fleming í þrilleraskrifum.

Þessi maður vill drepast þegar hann er orðinn 75 ára og færir ansi góð rök fyrir afstöðu sinni.

Bókin sem forrit. Forvitnilegar pælingar hér á ferð fyrir bókelska tölvunörda.

Gamalt samtal hér við Murray Gell Mann, frægan eðlisfræðing sem lést nýlega. (KF.)

Ágætis yfirlitsgrein í The New Yorker um David Milch, hugmyndasmiðinn að baki NYPD Blue og höfund Deadwood-þáttanna. Greinilega snjall og víðlesinn náungi – sem nú þjáist af elliglöpum á alvarlegu stigi og talar opinskátt um þá reynslu sína.

Ég er ekki nógu vel að mér í vísindaskáldskap en finnst þó í síauknum mæli að góður samtímaskáldskapur hljóti að falla að einhverju leyti undir þá regnhlíf, eigi hann að endurspegla veröld okkar í dag. Hér velur Tom Hunter, framkvæmdastjóri Arthur C Clarke-verðlaunanna, bestu vísindaskáldsögur ársins 2019 fram til þessa.

Við nálgumst loftslagsvandann og hækkandi yfirborð sjávar með ólíkum hætti – sum okkar kaupa til dæmis skútu í útlöndum, heimili sem flýtur, og sigla henni, ásamt skrautlegri áhöfn, um höfin blá heim til Íslands.

Auður Ava í viðtali við Politiken. (Athugið að hlekkurinn virkar einungis fyrir áskrifendur.)

Frábær grein eftir Meehan Crist um líf og störf rithöfundarins merka Rachel Carson, höfundar Silent Spring og forkólfs í umhverfismálum á síðustu öld. Tilefnið er nýtt safnrit með úrvali verka hennar, gefið út af The Library of America. (SN.)


Fyrir augu og eyru:

Maðurinn sem ég vísaði á í hlekkjalistanum hér að ofan, þessi sem vildi deyja 75 ára, er hér í feykilega góðu samtali við Tyler Cowen í hlaðvarpinu hans góða. Maðurinn heitir Ezekiel Emanuel og er í senn læknir og stjórnmálafræðingur – mjög forvitnilegar pælingar um heilbrigðisþjónustu og lífið sjálft.

Bandaríski blaðamaðurinn David Epstein gaf nýlega út bókina Range: How Generalists Triumph in the Age of Speculation. Við fyrstu sýn hélt ég að þetta væri enn ein flugvallarbókin – teygð froða sem hefði frekar mátt vera tímaritsgrein – en tvö hlaðvarpssamtöl við höfundinn töldu mér hughvarf svo um munar. Annars vegar þetta og hins vegar þetta. (KF.)

Af netinu, 24. maí 2019

Það er orðið býsna vinsælt að hata bandaríska myndlistarmanninn Jeff Koons. Hér er ágæt grein honum til varnar.

Það virðist vera ráðlegt að fjárfesta í góðum listaverkum eftir konur. Samkvæmt þessari rannsókn eru konur markvisst undirverðlagðar á listmarkaðnum.

Fyrir um 50 árum síðan hurfu 180.000 hvalir af yfirborði jarðar. Kristján Loftsson var orðinn nógu gamall til að standa á bak við þetta skrítna mál leiðir en þessi forvitnilega grein leiðir í ljós að hann kom þar hvergi nálægt.

Skemmtileg grein um Mozart.

Hvernig á maður að gera erfiða hluti? Hér er góð nálgun.

Dyggir lesendur Leslistans vita að ég hef bara fjögur áhugamál (fjölskyldan mín telst ekki með sem áhugamál ef einhver var að pæla í því): myndlist, bækur, viðskipti og njósnir. Fannst gaman að lesa þennan ágæta lista yfir fimm bestu bækurnar um njósnir.

Við minntust á grein um daginn þar sem lausapenni kvartaði yfir því hversu erfitt það er að lifa á skrifum í tímarit. Hér er grein sem fer yfir þá sem græða mikinn pening á tímaritaskrifum.

Hér er fín grein sem fjallar um af hverju það skiptir máli hvernig við segjum hlutina.

Hér er árlegur listi Bill Gates fyrir bækur sem hann mælir með fyrir sumarfríið. (KF.)

Ég rakst á þessa yndislegu grein um lunda á Vísindavefnum. Ég vildi óska að til væru jafn yfirgripsmiklar og vel skrifaðar greinar um allt milli himins og jarðar á netinu – á íslensku.

Var Susan Sontag skrímsli?

Minnið er eldsneyti ímyndunaraflsins, og þar með skáldskaparins. Hér er grein sem fjallar einnig um minnisgáfu – en ekki reyndar manna heldur ísbreiðunnar. (SN.)


Fyrir augu og eyru:

The Intercept nefnist óháður fjölmiðill sem leggur sig í líma um að sinna dýpri rannsóknarblaðamennsku en flestir smáir fjölmiðlar hafa tök á að gera í dag. Hlaðvarpið þeirra nefnist Intercepted og ætti að falla þeim sem hafa ótæmandi áhuga á bandarískri pólitík, heimsmálum, Trump og samsæriskenningum prýðilega í geð. (SN.)

Af netinu, 17. maí 2019

Það er gott að vera klár – bara ekki of klár. Afburðagreind börn eiga oftar en ekki erfitt uppdráttar. Ákjósanleg er greindarvísitala er á bilinu 125-155 en fari maður mikið fyrir ofan það er hætt við að maður skeri sig um of úr, þyki vera furðufugl og eigi fyrir vikið undir högg að sækja félagslega. Hér má lesa um bölvun séníanna.

Chris Hughes, einn af stofnendum Facebook, vakti á dögunum mikla athygli fyrir grein sem hann birti í The New York Times. Þar heldur Hughes því fram að stærð og drottnun Facebook á sviði samfélagsmiðla – og mundu að Instagam og WhatsApp heyra undir Facebook – brjóti gegn lýðræðislegum hefðum í bandarísku samfélagi. Hann kveður Mark Zuckerberg orðinn alltof valdamikinn og telur að bandarísk stjórnvöld ættu að leysa fyrirtækið upp í smærri einingar.

Atli Bollason skrifaði grein um Ísrael, Palestínu og Hatara.

Tímarit Máls & Menningar hefur stofnað nýja vefsíðu. (SN.)

Ég hef verið að hugsa um þessa grein mjög mikið alla vikuna. Hún fjallar um hvernig (óskálduðum) bókum og fyrirlestrum mistekst oftast ætlunarverk sitt – að fræða lesendur/áheyrendur.

Hvernig hefur þessari konu tekist að skrifa 179 bækur á meðan hún hefur eignast níu börn?

Mjög djúp grein um hvernig hlutir breiðast út í gegnum net (e. network – erfitt að þýða þessi hugtök almennilega á íslensku). Hún er líka skemmtilega framsett – gagnvirk og fræðandi.

Þetta er besta grein um rusl sem ég hef lesið í langan tíma. (KF.)


Fyrir augu og eyru:

Fílaði þennan þátt með tónlistarkonunni Cat Power í Song Exploder-hlaðvarpinu. Hún er eitthvað svo svakalega mikill listamaður (á mjög heillandi hátt) og nær að tala um lagasmíðar á dýpri hátt en gengur og gerist. Hér kryfur hún tilurð eins síns þekktasta lags, „Woman“.

Virkilega fínt viðtal við myndlistarmanninn Mark Bradford í 60 mínútum. (KF.)

Af netinu, 10. maí 2019

Skemmtileg grein um Ólaf Elíasson og það hvers vegna hann er svona góður listamaður.

Góð grein um annan góðan listamann.

Hér skrifar bókagagnrýnandi og blaðamaður um hversu erfitt það er að hafa í sig og á með því að skrifa í dag.

Forvitnileg tölfræði um hátt hlutfall kvenna í íslenskum háskólum.

Mjög fyndin grein hér. Ljóðskáld viðurkennir að geta ekki svarað krossaspurningum um eigin ljóð.

Viðtal við Björk í New York Times.

Hvað eru skrif? Góð spurning.

Þvert á það sem margir halda þá ráða stórfyrirtæki ekki lögum og lofum í bandarískum stjórnmálum. Þessu heldur einn hlekkjaðasti greinarhöfundur Leslistans fram í góðri grein.

Aðalfundur Berkshire Hathaway – fjárfestingafélags öldunganna Warren Buffet og Charlie Munger – fór fram fyrir nokkrum dögum. Af því tilefni las ég aftur þessa grein um speki hins síðarnefnda. (KF.)

Virkilega flott umfjöllun, um hægan dauða verksmiðjubæjarins Lordstown í Bandaríkjunum. Sá má muna fífil sinn fegri.

Einu sinni hélt mannkynið að við gætum ekki rústað jörðina – hún væri einfaldlega of stór. Það var rangt. Nú vilja sumir færa stóriðnað til tunglsins. Við getum ekki rústað geiminn – hann er of stór, segja menn. Ætli okkur skjátlist?

Einu sinni, endur fyrir löngu, voru The Paris Review-viðtölin öll aðgengileg ókeypis á vefsíðunni þeirra. Þá las ég þau næstum öll, enda um frábært efni að ræða, og skemmtileg hvernig oft tekst að kjarna hugmyndir og persónu höfundanna á hnitmiðaðan hátt. Á hinum síðustu og verstu er vefsíðan læst öðrum en áskrifendum, en þau opna reglulega fyrir eitt og eitt gamalt og gott viðtal, nú síðast þetta hér, við séníið Iris Murdoch.

Bendi svo loks á Samráðsgáttina. Verkefnastjórn stjórnvalda um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun óskar eftir umsögnum um landsrýniskýrslu (e. Voluntary National Review) um innleiðingu Íslands á heimsmarkmiðunum. Sauðsvartur almúginn getur sent inn athugasemdir við staka kafla eða skýrsluna í heild – þar með talið þú. Gott til að dunda sér við þetta á síðkvöldum. (SN.)


Fyrir augu og eyru:

Hér er skrifað um Joni Mitchell og farið yfir feril hennar með því að spá í 33 lög eftir hana. Væri til í að sjá mun fleiri svona yfrlitsgreinar um listamenn. Einfalt en áhrifaríkt módel.

Myndi segja að þetta væri eitt besta viðtal sem ég hef hlustað á á árinu. Ég veit að allir eru komnir með leiða á Karl Ove Knausgård – en þetta viðtal er vel hlustunar virði hvort sem þú hatar hann eða elskar. (KF.)

David Wallace-Wells sendi frá sér eina umtöluðustu bók síðustu mánuða, The Uninhabitable Earth. Sú mynd, sem hann dregur upp af framtíðinni, er ekki björt og aðlaðandi. Hér er Wallace-Wells í ágætu spjalli við Longform-hlaðvarpið.

Og ef þú vilt enn fræðast um loftslagsbreytingarnar: BBC gaf nýlega út klukkustundarlanga heimildarmynd með Íslandsvininum David Attenborough, Climate Change – The Facts. Síðast þegar ég vissi hafði einhver réttsýnn jarðarbúi hnuplað henni af BBC-vefnum og lætt inn á YouTube svo að fólk úr öðrum heimshlutum en Bretlandseyjum gæti horft. (SN.)

Af netinu: 3. maí 2019

Hér er fjallað um fimm bækur sem varpa ljósi á klassískan uppruna verka Shakespeares. Mjög forvitnilegt.

Hvernig býr maður til 10.000 ára stofnanir? Gaman að einhver skuli spyrja svo stórra spurninga.

Í síðasta lista vísaði ég á ágæta grein þar sem talað var gegn hlaðvörpumHér er önnur svipuð grein þar sem greinarhöfundur finnur hljóðbókum allt til foráttu.

Það komst í fréttirnar fyrir ekki svo löngu að breski stjórnmálamaðurinn og heimspekingurinn Roger Scruton var rekinn úr Íhaldsflokknum eftir að hafa látið ósæmileg ummæli flakka í viðtali við New Statesman. Síðar kom í ljós að sá, sem tók viðtalið, hefði tekið það sem Scruton lét flakka í viðtalinu úr samhengi. Hér er farið ítarlega yfir þetta furðulega mál en niðurlag greinarinnar ratar, að mínu viti, beint í mark:
“Our world is replete with complex matters that need discussing. We need philosophers, thinkers and even politicians of courage to help us find our way through this. We live in the age of character assassination. What we now desperately need is a counter-revolution based on the importance of individuals over mobs, the primacy of truth over offence, and the necessity of free-thought over this bland, dumb and ill-conceived uniformity.”

Ég (Kári) skrifaði í Markaðinn í vikunni um áhættustýringu fyrirtækja, ef einhver lesandi Leslistans kynni að hafa áhuga á slíku.

Hér er listi yfir vanmetna hæfileika.

Góð greining hér á stöðu listmarkaðarins.

Hvað er hægt að læra af munkum um að starfa í stafrænum heimi? Heilmargt að mati höfundar þessarar greinar.

Hér er farið ítarlega yfir kvilla sem gæti verið rótin af fjölmörgum veikindum sem nútímamaðurinn glímir við.

Skemmtilegt viðtal við píanistann fræga Víking Ólafsson í Guardian um Bach plötuna sem hann gaf út fyrir ekki svo löngu síðan og hefur verið mærð á þessum vettvangi.
(KF.)

Françoise Sagan, höfundur Bonjour, tristesse, er hér í gömlu viðtali við The Paris Review.

Og hér er ansi langt og innilegt viðtal, nýtt af nálinni, við leikkonuna Anjelicu Huston.

Jim Bendell nefnist prófessor einn sem öðlaðist talsverða frægð fyrir að leiða að því rök að við, sem nú erum uppi á tímum loftslagsbreytinga og vistfræðilegs hruns í náttúrunni, þurfum að aðlaga okkur með djúpstæðum hætti, bæði vitsmunalega og veraldlega, að gjörbreyttum lífsskilyrðum á jörðinni (á ensku notar hann hugtakið deep adaptation). Fyrir skrif sín hefur Bendell hlotið bæði lof – meðal annars fyrir að tala á raunsæjan hátt um staðreyndir – og last. Gagnrýnisraddirnar, til að mynda þessi hér, herma að ef við einfaldlega föllumst á og sættum okkur við að hinn náttúrulegi heimur sé að tortímast – jafnvel nú þegar glataður – þá sé hætt við að björgunaraðgerðir og frekari tilraunir til að breyta lífsstíl okkar verði framkvæmdar með hangandi hendi og hálfum hug og fari þar með fyrir bí („Þetta er hvort sem er allt til einskis“) og þá er voðinn vís og útséð um að við, sem tegund, þraukum ekki mikið lengur. Enn sé tími til aðgerða. En hvað er bjartsýni og hvað er raunsæi? Verðum við ekki að trúa því að aðgerðir okkar hafi jákvæð áhrif? Ég hef áður imprað á frönskum bókum þar sem höfundarnir mæla á svipaða lund og Bendell og tala um eins konar hruninn heim: Comment tout peut s’effondrer (Hvernig allt getur hrunið) og Une autre fin du monde est possible; vivre l’effondrement (et pas seulement) (Önnur heimslok eru möguleg; að lifa hrunið (og rúmlega það)).) Eflaust lifum við á tímum hrunsins (og þá er ég ekki að tala um eitthvert smávægilegt bankahrun árið 2008 heldur miklu viðameiri hörmungar).

Í beinu framhaldi af þeirri glaðværu nótu: Höfundurinn og náttúruverndnarsinn Mark Boyle kveðst hafa lifað um þriggja ára skeið án þess að nota peninga, og nú býr hann utan nútímasamfélagsins á Írlandi án þess að nota neins konar nútímatækni. Sem sagt, mikill töffari. (Ég öfunda hann í hið minnsta af kjarkinum og því að láta slíkan draum rætast. Að komast burt, orti Sigfús Daðason; þessum manni virðist hafa tekist það.) Áður en Boyle tók af skarið starfaði hann í fjármálaheiminum,  og segist hafa óttast á þeim tíma að líða í gegnum ævina án þess að finna nokkurn tímann fyllilega til lífsins, eins og hálgerð vofa. Hér mælir Boyle, í fróðlegu spjalli, með fimm bókum sem fjalla á einn eða annan hátt um óbyggðir eða villta náttúru. Þeirra á meðal er The Road eftir Cormac McCarthy, sem til er í vandaðri íslenskri þýðingu Rúnars Helga Vignissonar. (SN.)


Fyrir augu og eyru:

Michael Lewis fjallar um Salvator Mundi – dýrasta málverk allra tíma – í nýja hlaðvarpinu sínu. Virkilega forvitnilegt.

Hér er skemmtilegt viðtal við Austen Allred, stofnanda Lambda School sem er nýstárleg leið fyrir fólk til að mennta sig. Skólinn er gjaldfrjáls í upphafi en síðan borga nemendur hluta af tekjum sínum að námi loknu ef þau ná að þéna meira en 50.000 dollara í árstekjur. Í viðtalinu ræðir hann bæði um skólann og stöðu menntunar á gervihnattaöld. Mjög forvitnilegt.

Þetta samtal er verulega gagnlegt ef þú hefur áhuga á að verða betri í mannlegum samskiptum. (KF.)

Skemmtilegt: Paul Holdengräber rabbar við portúgalska rithöfundinn António Lobo Antunes. Myndskreytt af Flash Rosenberg. (SN.)

Af netinu, 26. apríl 2019

Helvíti góð grein hér um samspil tækni og myndlistar.

Hvað á maður að lesa næst? Þetta er spurning sem allir lesendur Leslistans kannast við. Hér er að finna ansi gagnlega aðferð við val á næstu bók.

Hér er splunkunýtt viðtal við síunga fjárfestinn Warren Buffet.

Hlaðvörp virðast verða vinsælli með hverjum deginum og ég get allavega sagt fyrir mitt leyti að ég er mjög mikill aðdáandi þeirra. Fannst þess vegna hressandi að lesa þessa grein þar sem höfundur finnur hlaðvörpum allt til foráttu.

Áhugaverð nálgun á íþróttamennsku.

Fannst ekki nógu mikið talað um þessa fínu grein Árna Heimis Ingólfssonar um Passíusálma Hallgríms Péturssonar: „Það er hins vegar grundvallarmisskilningur á sálmakveðskap Hallgríms Péturssonar – og raunar á öllum íslenskum sálmakveðskap 17. og 18. aldar – að slíkir textar hafi verið ortir til upplestrar. Sálmar voru ávallt sungnir, hvort heldur var í kirkju eða innan veggja heimilisins. Tónlistin var ekki aukaatriði sem bætt var við eftir á heldur sjálfur grundvöllur kveðskaparins.

Penguin Random House var að kynna áhugaverða nýjung. Þau ætla að bjóða upp á svokallað reader loyalty program – þ.e. að dyggir lesendur bóka, sem gefnar eru út af útgáfufyrirtækinu, geti unnið sér inn fríar bækur. Ef einhver lesenda Leslistans eru bókaútgefendur (sem ég er nokkuð viss um) þá mega þeir endilega skoða þetta. (KF.)

Ágætis yfirlitsgrein um Guðmund Inga Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Hvernig væri að loka bara fangelsum? Ruth Wilson Gilmore hefur skýra skoðun á því: „There should be no jails. They do not accomplish what they pretend to accomplish.

Frábær hugleiðing frá Rebeccu Solnit, sem hefst, líkt og svo margt þessa dagana, á Íslandi. Hún fjallar meðal annars um ómótstæðilegt aðdráttarafl hetjunnar (s.s. Gretu Thunberg) og ber það saman við kraft fjöldans þegar við komum mörg saman og vinnum að sameiginlegu markmiði. Hvort er fýsilegra og vænlegra til langtímaárangurs, hetjudýrkun eða samstaða?
„The standard action movie narrative require one exceptional person in the foreground, which requires the rest of the characters to be on the spectrum from useless to clueless to wicked, plus a few moderately helpful auxiliary characters. There are not a lot of movies about magnificent collective action, something I noticed when I wrote about what actually happens in sudden catastrophes—fires, floods, heat waves, freak storms, the kind of calamity that we will see more and more as the age of climate change takes hold. Disaster movies begin with a sudden upset in the order of things—the tower becomes a towering inferno, the meteor heads toward earth, the earth shakes—and then smooths it all over with a kind of father-knows-best here-comes-a-hero plotline of rescuing helpless women and subduing vicious men. Patriarchal authority itself is shown as the solution to disasters, or a sort of drug to make us feel secure despite them.“

Anthony Burgess ljóstrar því upp, í gamalli grein sem The Times Literary Supplement endurbirti nýlega, hvernig hann skrifaði ævisögu sína um D.H. Lawrence og fjallar jafnframt um ævisagnaskrif almennt. „The importance of cultivating the memory if one is going to be a writer cannot be stressed too often.“ Orð að sönnu, og kannski þörf áminning fyrir okkur gleymnu gúgglarana. (SN.)


Fyrir augu og eyru:

Margaret Atwood er hér í skemmtilegu spjalli við Tyler Cowen, góðvin Leslistans.

Ég var að hlusta á þennan ágæta fyrirlestur um hvað vestræn tæknifyrirtæki gætu lært af tekjumódeli kínverskra tæknifyrirtækja. Það sem mér fannst sérstaklega áhugavert og vekur kannski einna helst áhuga lesenda Leslistans er það sem kemur fram á svona sirka mínútu 06:30. Þar er farið yfir fjölbreytilegt tekjumódel rafrænnar bókaútgáfu í Kína. Margt þarna sem rithöfundar og bókaútgefendur mættu skoða. (KF.)

Af netinu, 12. apríl 2019

Hér er fjallað um nýjan mælikvarða á þjóðarframleiðslu sem tekur tillit til stafrænna gæða.

Grein um söfnun bóka og „ógnina“ sem stafar af tiltektarmeistaranum Marie Kondo.

Eru bækur orðnar vinsæll „fylgihlutur“? Veit ekki hvað mér finnst um þessa þróun.

Hér er gömul en sígild tölfræðileg greining á frægð og frama Justin Timberlake.

Þegar Ray Dalio, stofnandi eins stærsta vogunarsjóðs heims, skrifar langa greinum að það þurfi að bylta kapítalismanum þá er vert að skoða það.

John Gray, góðvinur Leslistans, mælir hér með fimm bókum um trúleysi.

Þorgeir Þorgeirsson setur niður hugleiðingar sínar um August Strindberg, sænska höfundinn.

Hvernig nýtist stærðfræðin við varðveislu listaverka? Betur en ég hefði búist við.

Sá að Sjón, annar góðvinur Leslistans, tvítaði þessari áhugaverðu grein frá Guardian. Í henni er nokkuð hávært shout out á okkar eigin Árna Magnússon.

Flott grein í The New Yorker um mikilvægi „hægrar“ blaðamennsku.

Hvers konar list eru tölvuleikir? Eru tölvuleikir list? Hér er kafað í málið.

Besta ráðið til að auka framleiðni og ná árangri? Að gera ekkert. (KF.)