Bækur, 3. maí 2019

Eru hlutir ekki fallegir þegar útlit og notagildi fara saman? Í The Beauty of Everyday Things (þýðing úr japönsku) skilgreinir Soetsu Yanagi japanska hugtakið mingei – ekki auðvelt verk, líkt og gildir um svo mörg japönsk hugtök – svo að það nái yfir fallega og einfalda hluti sem tilheyra alþýðlegu handverki og hafa hagnýtt notagildi.
One essential feature should be that the objects honestly fulfil the practical purpose for which they were made. In contrast, look at the machine-made objects that inundate our lives in recent years, which have fallen victim to commercialism and the profit motive, usefulness shunted aside. Among these objects ostenisibly made for practical use, there are many that are nothing more than frauds and fakes, displaying no attempt at honest usability.
Þegar ég las fyrrfarandi orð varð mér hugsað til greinarkorns, sem ég birti um daginn á Stundinni, og fjallaði meðal annars um þáttinn „Heimsókn“, þar sem gægst er inn í heimkynni valinkunnra Íslendinga. Ég hafði ekki náð að færa í orð, almennilega, hvað sló mig við að renna hratt í gegnum nokkur myndskeið með leiftrum frá ólíkum heimilum – og hvers vegna ég kom sjaldan auga á nokkra fegurð – en nú get ég það. Útlit og notagildi ættu að fara saman; það hefur mér alltaf fundist. En við, í okkar útlitsmiðaða heimi, leggjum langmesta áherslu á hvernig hlutirnir líta út og hvernig við komum fyrir; oft er notagildið aukaatriði, og jafnvel hverfandi – ekkert. Og hvað verður þá um fegurðina? Hún gufar líka upp og eftir stendur ekkert nema grafhýsi. Þess vegna fyllist ég líka ævinlega hryggð þegar ég sé bækur sem fyrst og síðast eru stofustáss til útstillingar, ljósmyndadoðrantar á kaffiborði og svo framvegis; hlutir þarfnast þess að eiga sér tilveru og hlutverk, rétt eins og við mannfólkið, eigi fegurð þeirra (og okkar) að koma fram. Ég mæli með ofannefndri bók, sem er þýð og greið lesning og tekur fyrir fjöldamörg japönsk hugtök, sem flest, ef ekki öll, ættu að vera samfélagi Leslistans nokkuð framandi.

Það kom flatt upp á marga nú í vikunni þegar Ian McEwan, breskur rithöfundur, hlaut alþjóðleg bókmenntaverðlaun sem kennd eru við Halldór Laxness. McEwan er á bókatúr um Bandaríkin, til að kynna nýjustu skáldsögu sína, Machines Like Me, og gat því ekki veitt verðlaununum viðtöku; ófáa grunaði að hann hefði raunar aldrei heyrt Halldórs Laxness getið fyrr en honum hlotnaðist áðurnefnd vegsemd. En hvað um það, eflaust er hinum alþjóðlegu verðlaunum ætlað að auglýsa HKL og halda nafni hans á lofti utan landsteinanna, og er það ekki bara gott og blessað? McEwan finnst mér vera höfundur yfir meðallagi – skrítin blanda af reyfarahöfundi, vísindagrúskara og tólf vasaklúta-eldhússrómansaskáldi – og ég ákvað að gera heiðarlegu atlögu við áðurnefnda skáldsögu, Machines Like Me. Sú gerist í alternatífri útgáfu af níunda áratuginum á Englandi og fjallar um hálfgert dauðyfli sem, af heldur óljósum ástæðum, ákveður að spandera nýfengnum peningaarfi í glænýja tegund af vélmenni. Smám saman kviknar ástarþríhyrningur á milli okkar manns, konunnar í lífi hans (sem er líka mikið dauðyfli) og vélmennisins (almesta dauðyflið). Skrítin bók. Þunglamaleg og hæg, og það örlaði lítt á frumlegum pælingum um þó áleitið svið: samskipti manna við tæknina. Mig langaði að sökkva inn í söguna en hið lífræna/rafknúna tríó vakti bara einhvern veginn engan áhuga hjá mér; loks lagði ég bókina því frá mér guðslifandi feginn, þá aðeins hálfnaður gegnum hana. Mæli frekar með t.d. The Comfort of Strangers, annarri skáldsögunni McEwan, eða Friðþægingu, sem til er í íslenskun Rúnars Helgis Vignissonar (sem greinilega er iðinn við kolann og skýtur hér öðru sinni upp kollinum í Leslista #63). Kannski breytist skoðun mín á Vélmennum af mínu sauðahúsi ef ég í angist minni og örvæntingarfullri leit eftir hugarfóðri manna mig einn góðan veðurdag mig upp í að lesa seinni hálfleikinn… (SN.)


Óskalistinn:

Forlagið tilkynnti nýlega um sigurvegara í handritasamkeppni sinni „Nýjar raddir“. Sá sem hlaut verðlaunin þetta árið heitir Birnir Jón Sigurðsson fyrir smásagnasaafnið Strá sem hægt er að nálgast hér.

Why Culture Matters Most er bókartitill sem vekur strax áhuga minn. Bókin fjallar um menningu sem lím og drifkraft allra samfélaga. Mjög mikilvæg umræða að mínu mati. (KF.)

Bækur, 26. apríl 2019

Ég er hálfnaður gegnum tvær bækur. Önnur er Falter eftir Bill McKibben, aktívista og umhverfissinna sem ég vitna oft (og kannski vandræðalega oft) til. Sú nýjasta frá honum er læsileg og léttleikandi úttekt á loftslagsbaráttu síðustu áratuga og stöðunni í dag; fyrir þá sem eru á kafi í málefninu (tortímingunni og heimsendi) er hér kannski ekki að finna svo ýkja margar hugljómanir, en ég mæli sérstaklega með henni fyrir þá sem vilja lesa gott, en ekki of þungbært, yfirlitsrit. Þá er ég að lesa skáldsöguna Lost Children Archive eftir hina svimandi kláru Valeriu Luiselli frá Mexíku; það er höfundur með öflugt vinnsluminni í heilanum en einnig stórt hjarta. Þetta er fyrsta bókin sem hún ritar ekki á móðurmálinu, spænsku, heldur á ensku, og það gerir hún með miklum glæsibrag. Bókin lýsir ferðalagi fjölskyldu þvert yfir Bandaríkin, frá norðri til suðurs, og tekur sérstaklega fyrir straum innflytjenda frá Suður-Ameríku, einkum barna. Bygging verksins er um margt áhugaverð; notkun lista, ljósmynda, ólíkra radda og sjónarhorna. Það tók mig nokkrar síður að kveikja á perunni, en ég er óðum að komast á þá skoðun að hér sé um að ræða hálfgert meistaraverk, og stórt framfarastökk frá fyrstu skáldsögu Luiselli, Faces in the Crowd. Bók sem mætti alveg koma (og ég veit að það er óskhyggja) út á íslensku. (SN.)


Óskalistinn:

Ég sperri alltaf eyru þegar George Packer lætur að sér kveða (hann skrifaði hina frábæru The Unwinding; magnaða greiningu á bandarísku samfélagi 20. aldar) og nú var að koma frá honum nýtt verk: Our Man: Richard Holbrooke and the End of the American Century. Veit ekkert um hana en hyggst grennslast fyrir um málið.

Náttúruverndarsinni og Gaja-spekingurinn Barry Lopez, einna þekktastur fyrir Of Wolves and Men frá 1978, sendir frá sér stórt verk sem hefur, að sögn höfundar, verið í smíðum síðustu þrjátíu árin: Horizon. Þvílíkt langlundargeð!

Loks er komið út ritgerðasafnið White eftir Bret Easton Ellis. Þar leiðir kappinn, sem er auðvitað þekktastur í dag fyrir skáldsöguna American Psycho, lesendum fyrir sjónir hvað Bandaríkin eru siðferðilega gjaldþrota, menningarlega snautt og ógeðslegt samfélag. (SN.)

Bækur, 12. apríl 2019

Milan Kundera, sá ágæti og eitursnjalli höfundur, varð níræður um daginn. Ég get lesið ritgerðarsöfnin hans aftur og aftur, það eru fjársjóðskistur, eldsneyti fyrir frjóar hugleiðingar í allar áttir, og við Íslendingar njótum þeirrar gæfu að Friðrik Rafnsson hefur þýtt nær allar bækurnar hans. Í einu ritgerðasafninu – og nú man ég skyndilega ekki hverju þeirra, afsakið það; ég hef bækurnar ekki við höndina – lýsir Kundera innreið bílsins í evrópskar borgir í upphafi 20. aldarinnar. „Fólk mun aldrei sætta sig við hávaðann sem bílarnir valda!“ á einhver að hafa sagt. Mér varð hugsað til þessara orða þegar ég var staddur í Bologna nýlega, ítalskri borg sem í núverandi mynd er margra hundruð ára gömul: bílarnir pössuðu einhvern veginn ekki inn í aldið borgarlandslagið, göturnar eru þröngar og víða hvelfigöng fyrir gangandi vegfarendur sem eins og magna upp óhljóð bensínknúinna farartækja þegar þau hjóta hjá eftir akstursstrætunum. Og auðvitað lýjandi mengun yfir öllu. Ég átti, röskum hundrað árum eftir áðurtilgreinda athugasemd, satt að segja erfitt með að sætta mig við hávaðann.

Nú, í upphafi 21. aldarinnar, sækir á okkur önnur ágeng spurning og tengist öðruvísi en þó skyldum hávaða af andlegum toga, sem einnig hlýst af „tækniframförum“ (les: iðnvæðingu og kapítalisma): nefnilega stafrænu látunum sem við streymum, sjálfviljug, inn í hausinn á okkur frá morgni til kvölds. Við hugsum: einstaklingurinn sættir sig aldrei við þetta áreiti snjallsímanna til lengdar, fólk gerir uppreisn. En er það? Hvað um börnin sem fæðast inn í heim þar sem normið er að stroka út eigin dagdrauma, skapandi gauf og hugleiðingar, með efni sem kemur og hverfur, kemur og hverfur, sérhvert andartak, eftir farvegi stórfyrirtækis sem er óseðjandi sólgið í hug okkar og athygli? Til frekari áhnykkingar: ef við fæðumst inn í heim þar sem flestir hafa þegar breyst í sæborgir (samruna manns og vélar) og fáir harma eða mótmæla markvisst þeirri þróun, er auðvitað sennilegast að maðurinn, sem er félags- og hjarðvera, líti svo á að slíkt sé eðlilegt fyrirkomuleg og felli hegðun sína mótþróalaust þar undir.

Sherry Turkle, bandarískur höfundur, skrifar um eina afleiðingu slíkrar þróunar, sem er hnignun samtalsins, og þar með hluttekningarinnar og jafnvel vináttunnar, í bók sinni Reclaiming Conversation: The Power of Talk in a Digital Age. Samræður byggjast á því að þátttakendurnir, tveir eða fleiri, verji fyrst drjúgum tíma í einrúmi, hljóðri íhugun, svo þeir hafi eitthvað bitastætt fram að færa þegar samtalið hefst. En vanrækjum við þetta kannski í auknum mæli? Í tilraun nokkurri, sem Turkle lýsir í bókinni, voru þátttakendur látnir sitja einir og yfirgefnir við autt borð, án síma, bókar eða annarrar afþreyingar, með ekkert fyrir stafni nema möguleikann á að veita sér vægt rafstuð ef þeim fór að leiðast. Margir hófu að misbjóða líkama sínum (einkum karlmenn) eftir einungis sex mínútur! Turkle óttast að börn bíði seint bætur af sívaxandi vangetu okkar til að vera ein með sjálfum okkur eða jafnvel annarri manneskju án milligöngu raftækis: í skóla einum í New York hegði tólf ára krakkar sér til að mynda í auknum mæli eins og átta ára börn á leikvelli; þau skilji skólafélaga sína blákalt útundan og hafi ekki lengur þroska og/eða hæfieika til að setja sig í spor annars fólks. Ástæðan? Þau verji svo miklum tíma í sýndarveröld þar sem ekki þurfi að horfa í augun á öðru fólki, taka tillit til annarra í rauntíma. Ég veit ekki hvort ég deili þessari sýn, en ég skil áhyggjurnar.

Stefan Durand, franskur höfundur, skrifar hugleiðingu annars efnis, en horfir af skyldum sjónarhóli, í nýlegri bók sem nefnist 20.000 ans, ou la grandes histoire de la nature, verki sem fjallar um náttúrusögu Frakklands síðustu 20.000 árin. „Ekki er svo ýkja langt síðan,“ ritar Durand (hér í frjálslegri þýðingu minni), „að við ókum á hlýjum sumarnóttum inn í skordýraregn sem flattist út á framljósunum. Oft ókum við í gegnum heilt haf af fiðrildum. Lesendur í eldri kantinum fyllast angurværð þegar þeir rifja þetta upp; hinir yngstu yppta öxlum. Þeir eiga bágt með að ímynda sér slíka tíma. Hér tæpum við á því sem kalla hefur verið vistfræðigleymska (fr. l’amnésie écologique), sem er sérstakt hugtak yfir tilhneigingu sem þrykkt er djúpt inn í eðli okkar: við lítum ævinlega svo á að sá heimur, sem við fæðumst inn í, sé hinn upprunalegi og rétti, og endurspegli hlutlaust ástand veraldarinnar. Í augum hinna yngstu er heimurinn án skordýra, en í augum hinna eldri er hann uppfullur af skordýrum. Þannig höfum við, í rás kynslóðanna, gleymt ríkidæmi og gnótt hins villta lífs sem var allsráðandi í Frakklandi fyrir ekki svo löngu. […] Við erum komin langleiðina með að breyta landinu okkar í eyðimörk.“

Ekki þarf raunar að ferðast mikið um jörðina til að sjá hvernig lífrænt ríkidæmi hennar hefur verið máð út. Og kannski er ekki heldur ósennilegt að við gleymum smátt og smátt ríkidæmi og hugmyndagnótt fyrra menningarlífs – bókmenntirnar eru hér gott dæmi – og tökum að líta svo á að samræmd hegðun flestra manna, með atbeina raftækis sem fletur út fjölbreytni og staðlar óhjákvæmilega upplýsingamiðlun og samskipti, sé hinn rétti og upprunalegi heimur, hið hlutlausa ástand veraldarinnar.

Sjálfur hef ég, nær alla mína tíð, alið manninn í borgum. Á síðustu árum er þær þó teknar að þreyta mig í auknum mæli; ég sé því miður æ sjaldnar fegurðina nema í (kærkomnum) undantekningartilvikum, sem eru iðulega augnablik þar sem náttúra eða dýralíf nær, að því er virðist fyrir kraftaverk, að þrífast mitt í tortímingunni. (Um þetta skrifaði ég til dæmis í smásögunni „Hinir sönnu leyndardómar Parísarborgar“, smásögu úr Heimafólki, einni bókanna í bókaknippinu mínu.) Áður laðaði þéttbýlið mig að sér með loforði sínu um frjóa menningu, ríkulegt samneyti hugmynda; það segulmagn fjarar hins vegar út eftir því sem tæknin lempar í auknum mæli staðbundinn kúltúr og sjálfstæða, skapandi hugsun. Alþjóðahyggjan, og Internetið, er óhjákvæmilega illsamræmanlegt því sem við höfum fram til þessa kallað kúltúr: þessi öfl hampa hinu steríla og ýta undir einsleitni. Tyler Cowen viðrar hugleiðingar um þennan ósamræmanleika milli Internetsins og menningar í nýlegri grein: „Hraðsendingar Amazon, eða kaffihús sem líta eins út sama hvar þú ert niður kominn, eiga að stórum þræði rætur sínar í Internetinu,“ skrifar hann. „Ráðleggingar snjalls starfsmanns í hverfisbókabúðinni, eða sikileysk uppskrift sem engum tekst að leika eftir annars staðar, eru dæmi um kúltur.“

Kannski er engin flóttaleið undan hinu einhæfa og einfaldaða? Æ fleiri okkar eiga núorðið í fjarrænu túristasambandi við umhverfi sitt – og túrismi er kannski hin hreina andhverfa lókal menningar – og við látum eins og við getum flúið eitthvað annað þegar heimkynni okkar verða endanlega ónýt. Ég hef áður vísað í orð bandaríska skáldsins W.S. Merwins, sem lést nýlega, um endurtekna martröð hans úr æsku: mannkynið breytir smám saman allri jörðinni í borg, malbikar hvern einasta blett, og hvergi fyrirfinnst lengur skóglendi. Svona líður mér oft – og ekki nóg með að jörðin sé malbikuð heldur einnig heilarnir í okkur. Borgirnar taka á sig ásýnd antínáttúru, gegndarlauss ofbeldis gagnvart fegurðinni, og manneskjur breytast í antímanneskjur: notendur tækja, neytendur. Öll tjáning okkar er einfölduð niður í hnitmiðuð skilaboð markaðshyggju. Með öðrum orðum: allt verður eyðimörk.

Þetta er ógnvekjandi tilhugsun. Ég hef einnig áður imprað á grein sem Bill McKibben birti í The New Yorker í nóvember 2018, undir fyrirsögninni „Hvernig öfgar í veðurfari eru að smækka plánetuna“. Í grein sinni færði McKibben á hnitmiðaðan hátt í orð áhyggjur sem lengi höfðu sótt á mig – manns sem lifir vissulega svolítið fyrir ímyndunaraflið (þ.e. óendanleikann) – um hvernig jörðin er að verða einsleitari, litlausari, og kannski brátt ekki nema skugginn af sjálfri sér. Lífríkið er að skreppa saman. Hverjar verða afleiðingarnar af þeim aldauða sem við, mannkynið, erum að valda, bæði ytra og innra með okkur? Eða tökum við kannski ekki eftir neinu fyrir hávaða? (SN.)


Óskalistinn:

Bjartur hefur gefið út Íslenskar þjóðsögur – úrval, á fallegri bók. (SN.)

Sá að þýskur blaðamaður var að gefa út bók um íslenska myndlist. Hún lítur út fyrir að vera virkilega áhugaverð. (KF.)

 

Bækur, 5. apríl 2019

Kristín Ómarsdóttir er höfundur sem kann að byrja bækur: 

„Í heimi náttúrunnar greina menn sig frá trjám og blómum sem vaxa og dafna í hljóði og falla í þögn. En ef grannt er skoðað er vegur alls sem lifir kannski bara einn.“

Svo hefst Elskan mín ég dey. Og Hamingjan hjálpi mér I og II hefst á þessum línum:

Ég bý sjaldan um rúm. Ég vil ekki fersk sængurver. Í rúminu vil ég finna fyrir dögunum á undan. Fyrir tímanum. Ég vil ekki sterílíseruð rúm þar sem sængin og koddinn eru hrist á morgnana. Ég lifi ekki í ónotuðum heimi.

Aðalpersóna nýjustu bókar Kristínar, Flækingsins, sem hlaut afar góðar viðtökur þegar hún kom út árið 2015, lifir svo sannarlega ekki heldur í ónotuðum heimi; það er mállaus piltur sem á hvergi heima og hírist á jaðri samfélagsins. Ég var að hefja lesturinn og bókin grípur mann strax; ég hlakka til að halda áfram með hana á ferðalagi sem ég á fyrir höndum.

En hvernig endar maður bækur? Jú, í brjáluðu óveðri, eða að minnsta kosti í þykku þokumistri. Þannig skilur lesandinn við Kristmann Guðmundsson, söguhetju Sigurjóns Magnússonar í Borgum og eyðimerkum: skáldsöguum Kristmann Guðmundsson (Bjartur, 2003). Raunveruleg saga Kristmanns Guðmundssonar hefur mér löngum fundist heillandi og dularfull. Hann gat sér ungur skáldfrægð í Noregi, var dáður bæði af lesendum og gagnrýnendum, og þýddur á fjölda tungumála. En hvers vegna sneri hann aftur til fósturjarðarinnar? Og hvers vegna var svo mörgum áberandi Íslendingum þessa tíma svo mjög í nöp við Kristmann?

Það var ekkert nýtt að dylgjað væri um þann orðstír sem [Kristmann] hafði getið sér í útlöndum og honum borið á brýn að frægð hans þar væri tilbúningur einn – enda hefði hann að öðrum kosti aldrei snúið aftur. […] Já, hann furðaði sig satt að segja á því að sér skyldi stundum hafa orðið það á að svara getsökum ókunnugra um feril sinn í Noregi og brugðist allt að því kurteislega við ef hann var spurður hvað hann væri að vilja til Íslands í stað þess að vera þar um kyrrt. Skýringin sem hann gaf þá iðulega var sú að hann hefði aldrei átt annars staðar heima en á Íslandi, og það voru engin ósannindi því öllu flóknara var þetta ekki í huga hans.“ (Bls. 38.)

Saga Kristmanns er í senn glæsileg og sorgleg, hetjuleg og harmræn, og gerir Sigurjón henni góð skil í skáldsögunni. Til að mynda náði Kristmann aldrei sama flugi í skáldskapnum eftir að hann settist aftur að á Íslandi, og hlaust það hugsanlega af því að fjarlægðin við fósturjörðina hafði áður verið honum andlegt eldsneyti: 

Í Noregi var hann sá rithöfundur sem öðrum betur kunni að lýsa kjörum æskunnar og þar naut hann sinnar eigin æsku. Og eins var með heimþrána sem á vissan hátt hafði verið kveikjan að flestum skáldsögum hans meðan hann bjó þar – hann dreymdi á þeim tíma nær stöðugt um eylandið sitt fagra norður í höfum og það hafði hreint ekki verið svo lítils virði fyrir rithöfund að eiga sér slíkan yndisdraum. Nú þegar draumurinn var hins vegar orðinn að bláköldum veruleika virtist honum sem sér væru endanlega allar bjargir bannaðar. (Bls. 62.)

Þungamiðja Borga og eyðimarka eru ritdeilur og málaferli sem Kristmann stóð í gegn Thor Vilhjálmssyni, frænda mínum. Thor hafði ritað heita og innblásna grein í Þjóðviljann í kjölfar þess að Kristmanni hlotnuðust hæstu skáldalaun landsins, og kveðið slíka skáldlaunaveitingu jafngilda því að hrækja í andlitið á hverjum einasta raunverulegum listamanni Íslands og spræna yfir alla þjóðina. Menn kunnu að orða hlutina í þá daga! Getið þið ímyndað ykkur aðrar eins ritdeilur á okkar réttsýnu tímum?

En hvað um bækur Kristmanns sjálfs? Einna þekktust er auðvitað Livets morgen (1929), sem á íslensku nefnist Morgunn lífsins. Sú eina sem ég hef lesið er þó ekki eins þekkt. Árið 2012 stóð hið ágæta bókaforlag Lesstofan – sem maður vonar að láti brátt aftur til sín taka? – fyrir endurútgáfu á sérstæðu verki eftir Kristmann, Ferðinni til stjarnanna, sem upprunalega kom út árið 1959 undir höfundarnafninu Ingi Vítalín og nefnd hefur verið fyrsta íslenska vísindaskáldsagan. Í stórfínum formála að endurútgáfunni lýsir Ármann Jakobsson framvindu hennar svo: „Í Ferðinni til stjarnanna segir frá framhaldsskólakennaranum Inga Vítalín sem finnur hjá sér óstjórnlega þörf til að ganga á Esjuna. Hún reynist vera viðkomustaður lífvera á hærra vitundarstigi, frá jarðstjörnunni Laí. Ingi ferðast síðan með Laímönnum um geiminn, sækir heim ýmsa hnetti og samfélög og fréttir að samfélagi alheimsins stafi ógn af Jarðarbúum sem með grimmd sinni og vanþroska myrði og éti aðrar lífverur og fikti við kjarnorkuvopn og vígbúnað.“ Ég viðurkenni að mér fannst þetta allsérstæð bók – hún heillaði mig ekkert upp úr skónum – en ég hlakka hins vegar til að lesa einn daginn sjálfsævisögu Kristmanns, sem hann ritaði á Íslandi og kom út í fjórum bindum frá 1959-1962 (Ísold hin svarta, Dægrin blá, Loginn hvíti og Ísold hinn gullna), samtals rúmar 1.330 blaðsíður, takk fyrir.

Öllu knappari eru ljóðin í Brjálsemislækjum á fjöllum (Uppheimar: 2015), yndislegu safni ljóða eftir kínverska skáldið Po Chü-i (772-846) sem Vésteinn Lúðvíksson þýddi og tók saman. „Þjóðsagan segir að kínverska skáldið Po Chü-i hafi aldrei lokið svo ljóði – og var hann þó síyrkjandi alla sína daga – að hann læsi það ekki fyrir gamla vinnukonu og helst fleiri en eina. Ef í því reyndist eitthvað sem þær áttuðu sig ekki á, breytti hann því þar til þær voru með á nótunum.“ Það er lóðið: Einfalda, einfalda. Orðin eru tekin úr formála þýðandans að safninu, sem er ákaflega góður ferðafélagi og glæðir ýmis hugartundur: hefur þann eiginleika að fá þann sem les – að minnsta kosti ef það er ég sem les – til að byrja sjálfur að yrkja ljóð.

Síðasta ljóðið – sem nefnist einmitt „Síðasta ljóðið“ og var kannski hinsta ljóð skáldsins? – lýkur svo: Svo þegar þessu daglega gaufi er lokið / leggst ég á koddann og sofna með fésið í suður.

Loks hef ég lesið fyrir dóttur mína ógrynni af barnabókum. Konan mín sækir barnabókamessu í Bologna og við feðgin berumst um aldin stræti með fangið fullt af myndskreyttum gersemum sem hin iðna kona færir okkur. Meðal nýrra meistaraverka sem ég las í vikunni eru Clown eftir snillingin Quintin Blake (sem er, ásamt Joann Sfar og Tove Jansson, einn uppáhaldsteiknarinn minn) og La visite, frönsk þýðing á bók eftir japanska séníið Junko Nakamuro, sem er hreinn galdur. (SN.)

Ég hef verið að lesa Veislu í farangrinum eftir Ernest Hemingway í þýðingu Halldórs Laxness síðustu vikur og ég held að ég sé við það að detta á Hemingway vagninn eftir að hafa verið hálfgerður hater megnið af ævi minni. Ég er nokkuð viss um að ég hafi byrjað á þessum mótþróa þegar ég fékk úthlutaða Farewell to Arms (vinir mínir hafa stungið upp á þýðingunni Bless, bless handleggir sem mér finnst töluvert betri en Vopnin kvödd) í menntaskóla og tekið ákvörðun um að þola hann ekki sem rithöfund – líklega bara til að vera á móti frægum og þekktum rithöfundi sem flestir fíla. Bókin er falleg, forvitnileg og skemmtileg og það sama á eflaust við öll hans höfundarverk. Vildi að ég gæti slegið sautján ára sjálfan mig utanundir. (KF.)


Óskalistinn:

Kristinn Árnason gefur út ljóðabókina Regntímabilið, sem forpanta má hér. Útgáfuhóf miðvikudaginn 10. apríl kl. 20.30 í Mengi. Útgefendur lýsa bókinni svo: „Ljóðabókin er eins konar ljóðræn skýrsla um sérstakt tímabil í lífi manns. Bókin verður til úr ferðalagi höfundar gegnum ár sem einkenndust af óljósum sál-líkamlegum veikindum og innri umbrotum. Bókin er í senn ferðasaga, veikinda- og batasaga, eins konar umbrotasaga meðvitundar, í ljóðrænu formi. Andardráttur tímabils.“ (SN.)

Ég hef oft vísað á bloggið Farnam Street og hlaðvarpið The Knowledge Projectsem kanadíski viskubrunnurinn Shane Parrish heldur úti. Fannst mjög gaman að sjá að það væri væntanleg bók eftir hann í október um það sem hann kallar mental models, þ.e. hugræn líkön við ákvarðanatöku. Vildi að ég gæti þýtt þetta hugtak betur yfir á íslensku en kannski tekst mér það eftir að ég klára þessa bók.

Ég hef bæði mikinn áhuga á tölfræði og list og þess vegna vakti það áhuga minn að sjá að út væri komin bók sem ber titilinn The Art of Statistics. Bókin fjallar reyndar ekkert um list sýnist mér, en hún er engu að síður virkilega forvitnileg. (KF.)

Bækur, 29. mars 2019

Fyrsta ljóðabók Sigurbjargar Þrastardóttur, Hnattflug, er afar skemmtileg. Þar ferðast skáldið vítt og breitt um heiminn, um borgir, götur, fjöll, höf og aðra raunverulega staði, í myndrænum og hugmyndaríkum ljóðum. Upphafsorðin hljóða svo: „Systir mín átti upplýstan hnött rafmagnaðan grip og það er trúlega honum að kenna að ég hugsa mér stundum fimmþúsund vatta peru inni í jarðkúlunni þá verður hafið gegnsætt fjallgarðar logandi og örnefni vandlega letruð i litaðan svörðinn.“ Fyrri hlutinn er að mestu helgaður Íslandi en í þeim seinni rötum við út fyrir landsteinanna. Um helgina flýg ég til Bologna á Ítalíu, til að sækja þar barnabókaráðstefnu, og þá rifjast einmitt upp fyrir mér að þarna leynist ljóð helgað Bologna, litað skemmtilegum hryllihúmor: Himinninn yfir Bologna / er klofinn / af einum og hálfum turni / þann heila / hef ég klifið / í hitabylgju / og hugsað um / allar sjálfsvígstilraunir / veraldar / sá stutti / er aftur skakkur / meiðslin / taka mið af því / hvorum megin er stokkið. Takk fyrir það, Sigurbjörg – ég hlakka til að virða fyrir mér þessa merkilegu turna.

Amy Hempel, bandarískur smásagnahöfundur, skrifar um kollegu sína, Joy Williams, annar flinkan smásagnahöfund – sem er raunar einnig ágætur ritgerðasmiður, líkt og Hempel bendir á í greininni. Til umfjöllunar er esseyjusafnið Ill Nature: Rants and Reflections on Humanity and Other Animals. Þar bendir Williams til að mynda á hvernig við erum öll, beint eða óbeint, meðsek í útrýmingu dýralífsins (sem velmegunarværir neytendur), og nefnir til skýringar að stöðugt sé verið að reisa nýja símastaura í þúsundavís og að þeir verði milljónum söngfugla, sem fljúga í ógáti inn í línurnar, að aldurtila; þar með er hvert og eitt okkar samsekt í dauða þeirra, jafnvel þó að við séum ákafir dýravinir og sitjum kannski einmitt heima í stofu við að horfa á hugvekjandi heimildarmynd um ágæti og fegurð fugla og hversu illa mennirnir fari með þá. Báðar hafa þær stöllur, Hempel og Williams, gefið út vinsælar bækur með úrvali sagna sinna: Hempel The Collected Stories fyrir allmörgum árum (þá fann ég einu sinni í kiljubroti á stigaþrepi í Brooklyn og heillaðist ekkert sérstaklega af innihaldinu) og Williams hina frábæru en svolítið þungu The Visiting Privilegue, við afar góðan róm, árið 2015.

Í Þjáningarfrelsinu: Óreiðu hugsjóna og hagsjóna í heimi fjölmiðla eftir Auði Jónsdóttur, Báru Huld Beck og Steinunni Stefánsdóttur lýsa höfundarnir fjölmiðlaumhverfi samtímans á Íslandi og tæpa einnig á stöðunni á heimssviðinu. Ýmsir spekingar eru teknir tali, til að mynda fjöldamargir vísir karlar af miðjum aldri eða jafnvel visnir af elli, og mér finnst hálfgerður ljóður hversu mikið púður þeir setja í að rekja gamlar frægðarsögur af sjálfum sér; það áhugaverðasta við bókina er nefnilega að hún kafar aðeins, en þó aldrei af alveg fullnægjandi dýpt, í þann vitsmunalega öldudal sem íslensk samfélagsumræða og fjölmiðlar hírast í um þessar mundir, meðal vegna peningaskorts og (skiljanlegum) flótta úr blaðamannastéttinni, þar sem gnægð af yfirborðskenndu efni er framleidd í snarhasti, en ekkert tóm gefst lengur til ígrundaðri úrvinnslu og túlkunar. (Þá er menningarblaðamennska nær útdautt fyrirbæri, líkt og hinn frábæri menningarblaðamaður, Kristján Guðjónsson, bendir á í greinarstúf í bókinni.) Þetta er hið ágætasta yfirlitsrit um íslenskan fjölmiðlaheim á 20. öldinni og hvernig sá heimur hefur hrunið og þurrkast út á síðustu árum, sem bitnar tilfinnanlega á vitsmunalegri umræðu í samræðunni og gæðum ritaðs máls á íslensku. Því miður hillir ekki undir bjartari framtíð og því er þetta nokkuð deprímerandi lesning, svo maður segi það bara hreint út. RÚV er gegnumgangandi ljós í myrkrinu.

Ekki gerist það oft að maður lesi hvert einasta útgefna blaðsnifsi eftir höfund; í mínu tilviki gildir það þó um verk Davids Foster Wallace. Hann er í senn óþolandi og yndislegur höfundur, og saga hans bæði heillandi og tragísk. Á kjagstrúti í líkamsræktarstöð brenndi ég í nokkrum skorpum gegnum Conversations with David Foster Wallace – fyrirtak alveg hreint að lesa viðtalsbækur kófsveittur á ýmist kjagstrúti eða hlaupabretti – og hafði auðvitað gaman af því. Það hefur verið í tísku síðustu árin að gera grín að aðdáendum Davids Foster Wallace, einkum ungum karlmönnum sem rogast út um allar koppagrundir með hina tæplega 1.200 blaðsíðna Infinite Jest, og komast aldrei nema hundrað blaðsíður inn í verkið, en hampa henni frekar sem eins konar tískugrip, nota hana sem ábendingu til umheimsins um að þeir séu djúpar verur. En svo eru aðrir sem hafa einfaldlega lesið bækur Wallace og heillast af þeim. Í viðtölunum, sem líða, sameinuð á bókarformi, að einhverju leyti fyrir endurtekningar, er farið í saumana á lífi og hugðarefnum Wallace; uppeldi á heimili með bókhneigðum og brillíant foreldrum, heimspeki og stærðfræði, þunglyndi og grasreykingum, tennis, ofurnámsmannskomplexum, skyndilegri frægð sem hlotnaðist Wallace ungum eftir að annað tveggja lokaverkefna hans í Amherst College, skáldsagan The Broom of the System, var gefin út og vakti bæði athygli og góða dóma, drykkju og dvöl á geðspítala, peningaströggl, ritlistarkennslu, auglýsinga- og markaðsumhverfið sem dempar okkur hugsanlega svolítið tilfinningalega og gerir lítið úr mannlegri reisn, sjónvarpsglápi, internetinu – og svo framvegis. Mæli með þessu viðtalasafni fyrir djúpt sokkna aðdáendur. Þeir sem ekkert hafa lesið eftir Wallace ættu að byrja á bókinni A Supposedly Fun Thing I’ll Never Do Again: Essays and Argument, og helst vaða beint í titilritgerðina, sem er í miklu uppáhaldi (reyndar nokkur ár síðan ég las hana).

Og fyrst viðtalsbækur ber á góma: á fjörur mínar rataði Stríð og söngur: Sex skáld segja frá, ansi læsileg og fín bók sem Matthías Viðar Sæmundsson sendi frá sér árið 1985. Þar hafa orðið Guðrún Helgadóttir, Indriði G. Þorsteinsson, Matthías Johannessen, Álfrún Gunnlaugsdóttir, Thor Vilhjálmsson og Þorsteinn frá Hamri. „Tilgangur viðtals- eða samtalsbókar er að draga upp mynd af manneskju með sitt einstæða líf, sköpun, einmanaleika og samneyti,“þannig fylgir Mattías Viðar lesandanum úr hlaði, og gott ef honum ferst þetta ekki ágætlega úr hendi sjálfum. Ég hafði sérstaklega gaman af því að lesa kaflann um Thor Vilhjálms frænda minn, en ekki síður hlutann um Indriða G. Þorsteinsson, sem skrifaði t.d. 79 af stöðinni (sú kom nýverið út á ensku sem Cab 79, með formála eftir son skáldsins, Arnald Indriðason). Mig langar að leyfa Indriða að eiga hér lokaorðin (bls. 39): „Ég trúi lítt á manneskjuna. Eins gæti ég trúað á hest. Eða kind. Engu að síður er mér annt um náungann af því hann er maður eins og ég. […] Fánýtiskennd hefur ekki þjakað mig af því ég hef aldrei ímyndað mér að maðurinn væri annað en það sem hann er. Þróað rándýr sem étur frændur sína af stofni spendýra. Hann spáir í nágrenni sitt og þykist mikill af. En hann veit ekki neitt og er ekki guðdómlegur þótt hann telji sér trú um að svo sé. Allt líf mitt hefur mótast af þessu viðhorfi.“ (SN.)


Óskalistinn:

Það þykir ansi vinsælt að rakka niður kvikmyndagerðarmanninn Michael Bay sem er þekktur fyrir Transformers myndaflokkinn, Armageddon, The Rock og fleiri stórvirki. Sá að út væri komin bók sem lofsamar höfundaverk hans, sem mér fannst ansi hressandi að sjá.

Svo fannst mér frábært að sjá að einn af mínum uppáhalds hagfræðingum, Branko Milanovic, er að fara að gefa út nýja bók sem nefnist Capitalism, Alone. Af efnisyfirlitinu að dæma verður þetta mjög forvitnileg lesning. (KF.)

Bækur, 22. mars 2019

Ég treysti ekki heiminum, ég þurfti sífellt að búa hann tilskrifar Elísabet Kristín Jökulsdóttir í Heilræðum lásasmiðsins (JPV: 2007). Það er stórmerkileg og sterk bók. Minnti mig á mörg bókmenntaverk sem hlotið hafa lof og hylli á síðari árum í útlandinu: Chris Kraus (I Love Dick, Aliens & Anorexia), Maggie Nelson (The Red Parts, The Argonauts); og einnig frönsk átófiksjón skrif á borð við bækur Hervé Guibert (Le mausolée des amants, À l’ami qui ne m’a pas sauvé la vie). Íslenskar bókmenntir eru um margt frábærar, en einnig svolítið innræktaðar og einhæfar, og ég fór heljarstökk af gleði við að uppgötva bók í þessum anda: skáldaða sannsögu, sannsögulega skáldsögu, sem er – spennið beltin – vitsmunaleg og ögrandi á hátt sem er nær fáheyrður í íslenskri útgáfusögu síðustu áratuga. (Má segja svona? Æ, ég læt það bara gossa.) Mér varð hugsað til annars verks sem skautar á mörkum veruleika og skáldskapar hvað fagurfræði snertir: Bókasafn föður míns eftir Ragnar Helga Ólafsson, sem oft hefur borið á góma hér.
Hafið þið lesið Heilræði lásasmiðsins, kæru áskrifendur? Ef, ekki, ættuð þið að bæta úr því.
Svo er bókinni lýst á heimasíðu Forlagsins:
Elísabet og Algea kynntust þegar hún var á ferðalagi í New York. Hann bandarískur, hún íslensk; hann svartur, hún hvít; hann hattagerðarmaður og trommuleikari, hún skáld; hann stórborgarbúi, hún náttúrubarn. Þau eru ástfangin og eiga saman unaðsstundir; hann fylgir henni til Íslands og þau reyna að búa saman en bæði eiga erfitt með að skilja á milli ímyndunar og veruleika og það er margt sem truflar.“

Friðgeir Einarsson sýnir nú hinn bráðskemmtilega einleik Club Romantica í Borgarleikhúsinu. Friðgeir hefur einnig gefið út snarpar og hressilegar bækur á síðustu árum, smásagnasafnið Takk fyrir að láta mig vita og skáldsöguna Formaður húsfélagsins. Fyrir jól kom svo út þriðja bókin, annað smásagnasafn sem nefnist Ég hef séð svona áður, falleg bók með pálmatré á kápunni. Friðgeir hefur léttan og þjálan stíl, er lunkinn við að fiska út úr hversdeginum skemmtileg sjónarhorn og observasjónir og koma þeim með einföldum og hnitmiðuðum hætti á pappír. Sögurnar í safninu eru miseftirminnilegar, en maður les þær samt allar af góðri lyst því nærvera höfundarins er svo ljúf og ánægjuleg. Persónurnar standa oft í einhverju tilgangslausi brasi, eru ýmist túristar í bókstaflegri merkingu eða hálfgerðir ferðamenn í eigin lífi, og sumpartinn minnir estetík Friðgeirs mig á annan fyrirmyndar-höfund íslenskan; nefnilega Braga Ólafsson.


Óskalistinn:

This Is not Just a Painting, er titill nýrrar bókar sem ég sá auglýsta á einhverri bókmenntasíðu um daginn og vakti áhuga minn. Bókin snýst í kringum málverk eftir Poussin sem á endanum selst fyrir margar milljónir. Saga málverksins er rakin á meðan velt er vöngum yfir virði og verðmæti myndlistar. Veit ekki meira en þetta er nóg til að kveikja áhuga minn.

Skipulagsfræðingurinn bandaríski Charles Mahron heldur úti áhugaverðu verkefni sem kallast Strong Towns og snýst um að byggja upp kröftugt borgarskipulag sem er samfélögum til heilla – ekki bílastæðum. Ég tók einhvern tímann viðtal við hann fyrir Viðskiptablaðið og síðan þá höfum við verið tengdir á Linkedin. Gladdi mig að sjá að hann tilkynnti á dögunum nýja bók þar sem hann fer yfir speki Strong Towns verkefnisins. (KF.)

Haukur Már Helgason sendir frá sér í apríl næstkomandi bók með áhugaverðu heiti: Um þegnrétt tegundanna í íslenskri náttúru. Hlakka til að lesa hana.

Á svipuðum nótum: Fremdardýra- og hátternisfræðingurinn Frans de Waal var að senda frá sér nýja bók: Mama’s Last Hug. Áður sendi hann til að mynda frá sér hina fínu Are We Smart Enough to Know How Smart Animals Are? – og það er reyndar svoldið góð spurning. (SN.)

Bækur, 8. mars 2019

Las tvær stuttar skáldsögur í vikunni, eftir höfunda af ólíkum kynslóðum. Önnur var Millilending eftir Jónas Reyni Gunnarsson, höfund sem situr í öndvegissessi í ráðuneyti Leslistans. Þessi fyrsta skáldsaga hans hlaut mikið lof, og verðskuldað. (Mér finnst nýjasta skáldsaga hans, Krossfiskar, reyndar ennþá betri.) Hin bókin nefnist Sonnettan og er eftir Sigurjón Magnússon. Hugmyndin að baki þessari nóvellu er mjög svolítið áhugaverð og áleitin: Menntaskólakennarinn Tómas hrekst úr starfi í kjölfar þess að hafa álpast til að velja þekkta sonnettu eftir Snorra Hjartarson í kennsluhefti fyrir nemendur sína. Fljótlega heyrast raddir sem fullyrða að umræddur kveðskapur Snorra sé andstæður fjölmenningu á Íslandi („land, þjóð og tunga: þrenning sönn og ein“). Tómas situr fast við sinn keip, ljóðið sé sígilt í íslenskum bókmenntum 20. aldar og fásinna að skýla krökkum fyrir hugmyndaheimi fortíðarinnar, auk þess sem rasískir undirtónar kvæðisins spretti einungis af rangtúlkunum hjá hinni hroð- og hraðvirku siðgæðisvél samtímans. Sjálf sagan gerist svo á Spáni, þar sem Tómas og konan hans, Selma, eru í fríi. Það hriktir í hjónabandinu, og endir sögunnar er hádramatískur – allt að því móralskur í því hvernig sumar persónanna fá makleg málagjöld (og minnti mig þar frekar á rússneskar bókmenntir, segjum, Tolstoj eða Tsjekhóv, en flest önnur – og kaldhæðnari – samtímaverk). Þá staldrar maður við og spáir hvernig komið er fyrir íslenskunni þegar manni finnst það að vissu leyti ljóður á verki hversu vel það er ritað – það skapaði svolitla fjarlægð á persónur og söguefnið hversu tær og snurðulaus stíllinn er. En að öllu því sögðu, þá stökk ég til og varð mér þegar úti um fleiri bækur eftir Sigurjón Magnússon, og hlakka til að lesa þær. Þar á meðal leynist skáldsagan Borgir og eyðimerkur, sem segir frá Kristmanni Guðmundssyni, höfundinum sem gat sér ungur mikla skáldfrægð á Norðurlöndum en átti undir högg að sækja þegar hann sneri aftur heim til Íslands (stafaði það af öfund samlanda hans?). Vorið 1964 lenti hann svo, eins og frægt er, í málaferlum við ungan rithöfund, frænda minn Thor Vilhjámsson, sem veist hafði að honum í tímaritsgrein og úr spunnust miklar, og hatrammar, ritdeilur. Mér finnst Sigurjón heyja sér áhugaverð viðfangsefni og mun áreiðanlega rekast á sitthvað fleira bitastætt í verkum hans. (SN.)

Eftir að ég minntist á Michael Polanyi fyrir einhverjum Leslistum síðan fékk ég ágæta ábendingu frá Stefáni Snævarr sem tilkynnti mér að hann hefði skrifað um hann í bók sinni Kredda í kreppu. Það minnti mig á að hann sendi mér bók sína, Bókasafnið fyrir einhverju síðan og ég fór að lesa hana í vikunni. Þetta er forvitnileg blanda af fræðitextum og skáldskap sem er vel athygli verð fyrir áhugamenn um hvoru tveggja. Þakka Stefáni kærlega fyrir sendinguna.

Stefán benti mér einnig á að Hannes Hólmsteinn Gissurason hefði eitthvað skrifað um Polanyi og þegar ég gúgglaði mér til um það fann ég skemmtilegt viðtal sem HHG tók við heimspekinginn Karl Popper sem ég hef mikið dálæti á. Sama hvaða skoðanir maður kann að hafa á Hannesi þá er viðtalið býsna áhugavert. Vilji menn kynna sér verk Poppers og þora ekki alveg að kafa í hans þekktustu verk – doðrantana Logik der Forschung og Open Society and Its Enemies – þá mæli ég með ritgerðarsafninu Ský og klukkur sem Háskólaútgáfan gaf út fyrir tíu árum síðan. Það hefur að geyma valdar ritgerðir eftir Popper í þýðingu Gunnars Ragnarssonar, og eru þær ansi góðar.

Samstarfskona mín lánaði mér bókina Psychoanalyst Meets Marina Abramovic á dögunum. Eins og titillinn gefur til kynna snýst hún um viðtöl gjörningalistakonunnar frægu við sálfræðinginn Jeannette Fischer þar sem þær þræða sig í gegnum verk hennar líkt og um persónulegan fund hjá sálfræðingi væri að ræða. Hafi maður gaman af list Abromovic er þetta mjög fín bók. Ég er sjálfur á báðum áttum með hvort mér finnist hún vera frábær eða tilgerðarlegur listamaður og fannst þess vegna bókin vera einmitt þannig – frábær og tilgerðarleg á köflum. (KF.)


Óskalistinn:


Sigurlín Bjarney Gísladóttir gefur út nýja ljóðabók, Undrarýmið. Leslistinn fagnar því og hlakkar til að lesa.

Þá hefur Silja Aðalsteinsdóttir þýtt Áfram konur!, norska myndabók um kvenréttindabaráttu í aldanna rás, eftir rit­höf­und­inn Mörtu Breen og teikn­ar­ann Jenny Jor­dahl. Megi hún rata sem víðast. (SN.)