Bækur, 21. júní 2019

Geoff Dyer var lengi vel (og er svo sem enn) í miklu uppáhaldi hjá mér. Hver bók eftir hann er ólík hinum fyrri. But Beautiful fjallar um djass og helstu örlagaræfla þeirrar tónlistarstefnu (mjög fín, ljóðræn og falleg); The Missing of the Somme fjallar um stríð og minnisvarða um stríðsátök, bæði í höfðinu á okkur og í landslaginu; The Ongoing Moment fjallar um ljósmyndun; Out of Sheer Rage (ein af mínum uppáhaldsbókum) er ritgerð um líf og störf hins breska H.D. Lawrence en fjallar þó aðallega um frestunaráráttu, óþol og wanderlust eða ferðaþrá – og endurspeglar þar með snilldarlega helstu karaktereinkenni H.D. Lawrence. Góður inngangsreitur að verkum Dyers væri kannski Otherwise Known as the Human Condition, safn bráðskemmtilegra ritgerða um allt milli himins og jarðar; og smásagna- og ritgerðarsafnið Yoga for People Who Can’t Be Bothered to Do It fær óhjákvæmilega verðlaun fyrir góðan titil. Loks hefur Dyer skrifað talsvert um kvikmyndir, meðal annars Zona: A Book about a Film about a Journey to a Room, og nú var að koma út ný bók, Broadsword Calling Danny Boy: On Where Eagles Dare (sem ég hef ekki lesið enn). Hér er hann í spjalli við Lili Anolik um nýju bókina, listina að skrifa um bíó og margt fleira.

Löng dvöl mín í Japan fékk mig svo til að rifja upp kynnin við June 30th, June 30th, ljóðabókina hans Richards Brautigan sem fjallar um Japansdvöl hans. June 30th, June 30th er, líkt og önnur verk Brautigans, í senn tregafull og fyndin. Brautigan er afar vel kynntur á Íslandi – furðu vel jafnvel – og nýlega komu t.d. út tvær þýðingar Þórðar Sævars Jónssonar á verkum eftir hann. Þá hefur Gyrðir Elíasson þýtt fjórar bækur eftir hann. (Hægt er að hala niður pdf-útgáfu af bókinni, og ýmsum öðrum verkum Brautigans, á vefsíðunni sem ég hlekkjaði við.)


Óskalistinn:

Heildarsafn ljóða Valdimars Tómassonar komið út. Spannar tímabilið 2007-2018. Guðmundur Andri Thorsson ritar formála.

Nýtt tölublað af Jóni á Bægisá, tímaritinu góða um þýðingar, hefur litið dagsins ljós.

Loks stórtíðindi! Væntanleg er á íslensku mikil öndvegisbók – Stílæfingar hins franska Raymonds Queneau (L’exercise du style á frummálinu). Í stuttum köflum lýsir höfundur afar hversdagslegu smáatviki í jarðlest – aftur og aftur en með ólíkum stílbrögðum og rödd hverju sinni. Rut Ingólfsdóttir gerir íslensku þýðinguna og það verður gaman að sjá afraksturinn; það er ekkert áhlaupaverk að snara þessari bók. (SN.)

Bækur, 14. júní 2019

Á ferðalagi er jafnan hollráð að verða sér úti um sýnisbók með smásögum frá viðkomandi landi. Þannig kynnist maður mörgum og ólíkum röddum sem mynda fjölbreyttan orðavefnað svo að úr verður innsýn í þankagang og siðvenjur viðkomandi lands. Eða það vonar maður í hið minnsta. Mér fannst allavega rakið að grípa með mér The Penguin Book of Japanese Short Stories í bókabúð í Kýótó um daginn og sé ekki eftir því. Að safninu ritar Haruki nokkur Murakami ágætan formála, og ritstjóri er einn þýðanda Murakami sjálfs yfir á ensku: Jay Rubin. Þarna fær lesandinn ágætis yfirlit um japanska smásagnagerð á tuttugustu öldinni. Sögunum er ekki raðað upp krónólógískt heldur bera flokkarnir yfirheiti á borð við „Japan og Vesturlönd“, „Konur og karlar“, „Náttúran og minnið“, „Nútímalíf og önnur vitleysa“, „Drungi“, „Hamfarir, bæði náttúrulegar og manngerðar“. Í safninu eiga sögur þekktir eldri japanskir höfundar á borð við Natsume Sōseki, Jun’ichirō Tanizaki og Nóbelsverðlaunahafinn Yasunari Kawabata (sem aldrei hefur heillað mig og gerir það ekki heldur hér) og einnig yngri, svo sem Banana Yoshimoto (sem hefur verið þýdd talsvert á íslensku) og áðurnefndur Murakami. Klikkuðustu söguna á líklega Yuten Sawanishi. Hún hefst svo: „Leggöngin voru fyrsti líkamshluti móður minnar sem breytist í sykur.“ Geri aðrir betur. Hér má lesa sögu Sawanishi, sem einnig hefur birst í Granta-tímaritinu.

Þá er ég með undir höndum aðra yndislega bók, Ritgerðir um iðjuleysi, enska þýðingu á þekktu verki búddamúnksins Kenkō, sem talið er að hafi ritað sínar stuttu hugleiðingar á bilinu 1330-1332, límt snifsin jafnóðum upp á vegg hjá sér og svo að endingu raðað þeim upp í bók. Hugleiðingar af þessum toga, þar sem höfundurinn veður óhikað úr einu í annað, eru mér einmitt að skapi. (Hér má lesa oggulítið sýnishorn úr bókinni.) Bókin geymir 243 örritgerðir og hefst á orðunum: „Hversu skrítin og vitskert tilfinning hellist ekki yfir mig þegar það rennur upp fyrir mér að ég hef eytt heilu dögunum í félagsskap þessarar blekbyttu, með ekkert betra að gera en að hripa handahófskennt niður hvaða vitleysu sem mér dettur í hug.“ Að einhverjum ástæðum finna þessi orð, rituð fyrir um 900 árum, hljómgrunn hjá þessum hér, auðmjúkum höfundi Leslistans. (SN.)


Óskalistinn:


Sé á heimasíðu NPR að verið er að endurútgefa æviminningar Françoise Gilot, fyrrverandi eiginkonu Pablo Picasso, sem heitir einfaldlega Life With Picasso. Ég hafði aldrei heyrt um þessa bók áður og hlakka til að kafa í hana við tækifæri.

Hvernig menning var til staðar í Þýskalandi Nasismans? Sá nýlega að út væri komin bók um einmitt þetta – Culture in Nazi Germany – sem lofar góðu.

Ungi bandaríski rithöfundurinn Ryan Holiday heldur úti mánaðarlegu fréttabréfi um bækurnar sem hann er að lesa hverju sinni. Fréttabréfið er beinn og óbeinn innblástur fyrir Leslistann og ég gríp yfirleitt eitthvað úr þessu áhugaverða bréfi hans. Sá að hann mælti í síðasta bréfi með skáldsögunni Theory of War eftir Joan Brady sem ég hef aldrei heyrt um en lítur vel út. (KF.)

Út er komin Frelsun heimsins eftir Kristínu Marju Baldursdóttur, safn greina og fyrirlestra. Ég fíla þannig bland í poka-bækur og hlakka til að næla mér í eintak þegar ég kem til Íslands í sumar. Á unglingsárunum las ég Mávahlátur og Hús úr húsi mér til mikillar ánægju; það er hins vegar skömm frá því að segja að Karitas án titils og Óreiða á striga hafa legið ólesnar á náttborðinu hjá mér óralengi. (Ég á reyndar ekki náttborð; ég tek bara svona til orða.)

Las grein um, og viðtal við, króatísku skáldkonuna Daša Drndić (ekki biðja mig um að reyna að bera fram þetta nafn) í The Paris Review. Fékk mig að langa að lesa bækurnar hennar, sem virðast reyndar vera algjört torf. En, eins og ofannefndur Thor frændi var vanur að segja, þá er það nokkurs virði þegar skáldverk eru flókin – kannski búa verðmæti og galdur skáldskaparins einmitt stundum í svita og puði lesandans.

Robert McFarlane sendir frá sér nýja bók, Underland, um launveraldirnar undir iljunum á okkur. Lofar góðu! (SN.)

Bækur, 7. júní 2019

Í kjölfar þess að ég rakst á ofannefnt viðtal við Bruno Latour í Le Monde varð ég mér úti um tvær bækur eftir hann (á ensku svo ég gæti smeygt þeim inn í lesblysið): Facing Gaia: Eight Lectures on the New Climate Regime og Down to Earth: Politics in the New Climate Regime. Textar Latour eru krökkir af hugljómunum. Þær virðast oft augljósar en ná um leið að varpa ljósi á einföld sannindi með kristalskýrum hætti. Hér veltir hann fyrir sér alþjóðavæðingunni með hnífskörpum hætti.

„For 50 years, what is called “globalisatioon” has in fact consisted in two opposing phenomena that have been systematically confused.

Shifting from a local to a global viewpoint ought to mean multiplying viewpoints, registering a greater number of varieties, taking into account a larger number of beings, cultures, phenomena, organisms, and people.

Yet it seems as though what is meant by globalisations today is the exact opposite of such an increase. The term is used to mean that a single vision, entirely provincial, proposed by a few individuals, representing a very small number of interests, limited to a few measuring instruments, to a few standards and protocols, has been imposed on everyone and spread everywhere. It is hardly surprising that we don’t know whether to embrace globalization or, on the contrary, struggle against it.“
(Úr Down to Earth.)

Rauður þráður í gegnum báðar bækurnar er að alþjóðavæðingin gengur ekki upp af praktískum ástæðum: við þyrftum minnst fimm plánetur á borð við jörðina til að halda áfram á sömu braut. Heimurinn er að brenna upp, og við erum ekki að ganga í gegnum tímabundna loftslagskrísu heldur róttæka, og óafturkræfa, umbreytingu á náttúrulegum aðstæðum á jörðinni. (SN.)


Óskalistinn:

Ég rambaði nýlega á ansi skemmtilega síðu manns sem hefur glósað ítarlega allar þær bækur sem hann hefur lesið. Ég fann þessa síðu í gegnum bókaklúbbPatrick O’Shaughnessy sem heldur m.a. úti hlaðvarpinu Invest Like the Bestsem ég vísa oft til á þessum vettvangi. Þar mældi hann sérstaklega með bókinni The Path of Least Resistance sem fjallar í mjög stuttu og einfölduðu máli um hvernig þroska megi sköpunargáfuna. Náunginn sem heldur úti rafrænu bókaglósubókinni var einmitt búinn að glósa um þessa bók og vakti mikinn áhuga hjá mér fyrir þessari bók.

Tilvonandi ráðunautur Leslistans sendi okkur póst í vikunni og mældi sérstaklega með bókinni Hnignun, hvaða hnignun? sem kom út í fyrra og er eftir sagnfræðinginn Axel Kristinsson. Í henni eru færð rök fyrir því að hugmyndin um hnignun og niðurlægingu í sögu Íslands sé mýta sem búin var til í sjálfstæðisbaráttunni á 19. öld. Mér finnst hún virka alveg sérstaklega forvitnileg. (KF.)

Þórður Sævar Jónsson sendir frá sér aðra ljóðabók sína, Vellankötlu. (SN.)

Bækur, 31. maí 2019

Ég hef haft gaman af bókum Alberto Manguel, sem skrifar nær alfarið um bækur, lestur, bókasöfn og svo framvegis. Í Packing My Library lýsir hann, í hnitmiðaðri og læsilegri frásögn, því þegar fyrir honum lá að pakka niður bókasafninu sínu, 35.000 bindum, hvorki meira né minna, sem stóðu í stórri hlöðu í litlu þorpi í Frakklandi. Tilefnið var fyrirhugaðir búsetuflutningar í litla íbúð á Manhattan. Verkið er hugleiðing um samband bóka og lesenda, bóka og safnara, reglu og óreiðu, minnis og lesturs, og ekki síst gildis hinna áþreifanlegu hluta – svo sem texta sem við getum snert með fingrunum, pappírsins sem myndar (eða myndaði áður) umgjörð um líf okkar.

Ég las Capitalist Realism: Is There No Alternative? í kjölfar þess að ég rambaði á fína umfjöllun um höfundinn, Mark Fisher, eftir Jenny Turner, í The London Review of Books. Í bókinni sýnir Fisher meðal annars fram á hvernig undirgefni okkar við síðkapítalismann hefur hreiðrað um sig sem, að því er virðist, eini valkostur okkar í samfélagsgerð nútímans og stuðlar að kvíða, þunglyndi og vanlíðan hjá milljónum, þar af einkum hjá ungu fólki, til að mynda nemendum Fishers (sem starfaði sem kennari meðfram ritstörfum). Strikaði undir ansi margar línur í þessari (og mun lesa meira eftir Fisher). Hann hélt lengi úti merkri bloggsíðu, k-punk. (SN.)

Bækur, 24. maí 2019

Var Tolstoy mesti og besti rithöfundur allra tíma? Hugsanlega. Ég er að lesa þriðju stóru skáldsöguna hans, sem í enskri þýðingu Anthony Briggs nefnist Resurrection, en gæti – líkt og þýðandi bendir sjálfur á í formála – eins borið sama titil og ein þekktasta skáldsaga kollega Tolstoys og samlanda: Glæpur & refsingUpprisa er mögnuð bók og ég skil ekki hvers vegna ég hef aldrei lesið hana fyrr. Ætti maður kannski einungis að lesa rússneskar 19. aldar bókmenntir? Ungur maður á stuttan ástarfund með ungri konu og yfirgefur hana svo í leikfléttu sem ekki er beint til fyrirmyndar. Átta árum síðar er okkar maður skipaður í kviðdóm til að dæma í máli fyrrnefndrar konu. Upp úr dúrnum kemur að skömmu eftir ástarfundi þeirra (og þungun konunnar) seig á ógæfuhliðina hjá henni og síðustu árin hefur hún starfað sem vændiskona í alræmdu gleðihúsi. Nú hefur hún verið sökuð um bæði rán og morð (saklaus). Ungi maðurinn, mikill nautnaseggur, landeigandi og gleðigosi sem tilheyrir forréttindastétt (ólíkt konunni) kennir í brjósti um hana og ákveður að bæta ráð sitt og reyna að forða henni frá dæmdri refsingu (áralangri erfiðisvinnu í Síberíu) með því að giftast henni. Margir hafa borið Tolstoy á brýn að vera of predikandi og siðvandur í framsetningu sinni á söguefninu – bókmenntapáfar hafa ýmist hafið verkið til skýjanna eða traðkað það niður í svaðið – en mér finnst hann hitta á hárréttan tón enn sem komið er. (Búinn með þriðjung og get ekki beðið eftir að komast í framhaldið.) Tolstoy gaf Upprisu út undir lok ritferilsins og hún hefur jafnan fallið í skuggann af hinum stóru skáldsögunum hans, Önnu Karenínu og Stríð & friði. Kannski engin furða, enda er þar um að ræða tvær þekktustu og lofuðustu skáldsögur allra tíma. En jafnvel aukaafurðir Tolstoys skara auðvitað fram úr bestu verkum flestra annarra höfunda. (SN.)

Ég hef eina lesreglu sem ég held alltaf í heiðri. Hún er að ef maður er einhvern tímann í vafa um hvað maður á að lesa næst – þá les maður smá Borges. Ég vissi ekkert hvað ég átti að lesa í vikunni þannig að ég greip í enska þýðingu á verkum hans sem nefnist A Personal Anthology og er úrval verka eftir hann sem hann valdi sjálfur – á víst að vera svona persónulegt Best of Borges. Þar eru smásögur, ljóð og ritgerðir eftir hann sem eru að sjálfsögðu allar frábærar en ég mæli með því að kíkja á þær ágætu íslensku þýðingar sem eru til á verkum hans ef maður hefur ekki kynnt sér hann áður. Ég rak sérstaklega augun í eina ritgerð eftir hann sem ég held ég hafi ekki lesið áður; á ensku nefnist hún The Modesty of History (á spænsku El pudor de la historia) en ég veit ekki til þess að hún hafi verið þýdd á íslensku. Íslendingar koma hins vegar við sögu í þessari ágætu ritgerð sem fjallar um söguna og hvernig helstu viðburðir sögunnar eru mun smærri í sniðum en margir kynnu að halda. Hér er ágætis bútur úr ritgerðinni (þ.e. enska þýðingin): “I have suspected that history, real history, is more modest and that its essential dates may be, for a long time, secret. A Chinese prose writer has observed that the unicorn, because of its own anomaly, will pass unnoticed. Our eyes see what they are accustomed to seeing. Tacitus did not perceive the Crucifixion, although his book recorded it.”(KF.)

Bækur, 17. maí 2019

Gagnrýnandi The London Review of Books er sammála mér í því að nýjasta skáldsaga Ians McEwan, handhafa alþjóðlegu Halldórs Laxness-verðlaunanna í bókmenntum, sé vindhögg. Ekki svo sem í frásögur færandi nema fyrir að ég rak augun í að greinarhöfundur vitnar í aðra bók, Murmur eftir Will Eaves, sem fjallar einnig um gervigreind og teflir fram sömu sögufrægu persónu og kemur fyrir í Machines Like Me eftir McEwan, enska stærðfræðingnum Alan Turing (1912 – 1954). Turing er aukapersóna í verki McEwans en í aðalhlutverki í hjá Eaves. Og Murmur er raunar frábær bók. Ég las hana fyrir nokkrum vikum í kjölfar þess að ég kynntist Eaves á Cúirt-bókmenntahátíðinni á Írlandi. Ljóðræn og falleg skáldsaga, sem hefur að útgangspunkti þegar Turing var handtekinn fyrir að svala holdlegum fýsnum sínum með ungum karlmanni, og var í kjölfarið dæmdur til þeirrar refsingar að vera geldur með lyfjagjöf; í sögunni taka honum að vaxa brjóst, sem auðvitað er ansi háðuleg refsing fyrir karlmenn sem ekki sækist eftir slíkri breytingu á líkama sínum. Afar sérstök og ljóðræn skáldsaga sem tekur á margvíslegum hugmyndum um eðlisfræði og sjálfsmynd, greind og mannleg samskipti. (SN.)

Flestir eiga í erfiðleikum með að skilja og meta samtímalist. Ég hef oft gert tilraunir til að fá fólk til að kunna að meta slíka list og mistekst það í flestum tilvikum. Þegar ég byrjaði að vinna á Viðskiptablaðinu á sínum tíma gerði ég nokkrar heiðarlegar tilraunir til að „mennta“ lesendur um gildi samtímalistar en komst svo á endanum að því að fólk þarf helst að vera opið fyrir listinni fyrirfram til að þessi menntun skili einhverjum árangri. Í vikunni las ég í annað sinn eina bestu bók sem ég hef lesið um samtímalist og áttaði mig á því að hún er að öllum líkindum ein besta „útskýring“ sem ég hef lesið á samtímalist og gildi hennar. Bókin heitir Seeing is Forgetting the Name of the Thing One Seesog fjallar um ævi og störf bandaríska myndlistarmannsins Robert Irwin. Í bókinni segir hann frá því hvernig hann byrjar að vinna sig hægt og bítandi úr abstrakt listinni í að vinna með liti og form og meira svæðisbundin verk. Mér finnst mjög verðmætt að fá svona djúpa innsýn inn í hugarheim myndlistarmanna. Eðli málsins samkvæmt er nær ómögulegt að færa þennan hugarheim í orð, enda ætti myndlist í flestum tilvikum að tala sínu máli „handan orða“. En í örfáum tilvikum er hægt að ræða myndlistina ítarlega og vel og ég held að ég hafi aldrei séð það jafn vel gert og í þessari bók. Mæli mikið með henni ef þú, lesandi góður, hefur áhuga á samtímalist eða vilt skilja hana betur. (KF.)


Óskalistinn:

Ég hef löngum haldið því fram að við mennirnir séu einungis lítilfjörlegar framlengingar á hinum sönnu konungum og drottningum jarðar – trjánum. Þau skapa lífsskilyrði okkar og á greinum þeirra vex safarík fæða. Þau boða stillingu og speki, ró og jarðtengingu. Og niður úr þeim klifruðum við löngu áður en við tókum að brytja þau niður. Út er komin á íslensku Bók um tré eftir Wojciech Grajkowski. Myndskreytir er Piotr Socha. Tré skoðuð út frá margvíslegum sjónarhornum. Lofar góðu.

Bráðskemmtileg grein um breska höfundinn Samuel Johnson (1709 – 1784), ærslabelg og djúpskyggnt gáfnaljón, nautnasegg og félagsveru, ólíkindatól og fjölhæfan skríbent. Kveikjan að því að Freya Johnston stakk niður penna og ritaði stúf um þennan keika átjándu aldar höfund er heljarmikið samsláttarrit með úrvali af skrifum Johnson, heilar 1344 blaðsíður að lengd, sem var að koma út.

Una útgáfuhús fylgir endurútgáfu Undir fána lýðveldisins eftir með tveimur nýjum verkum, annars vegar smásagnasafninu Það er alltaf eitthvað, þar sem tólf höfundar sitja í samsæti, og svo er fyrirhuguð útgáfa á Beðið eftir barbörunum, skáldsögu J.M. Coetzee sem lesin var í útvarpið árið 1894 undir heitinu Við bíðum, í íslenskri þýðingu Sigurlínu Davíðsdóttur, en hefur ekki komið út á bókarformi áður.

Þá er komin út skáldsagan Bjargfæri eftir argentíska höfundinn Samöntu Schweblin í þýðingu Jóns Halls Stefánsson. Hlakka mikið til að lesa hana. (SN.)

Bækur, 10. maí 2019

Hef verið að lesa bókina The Great Reframing eftir listmarkaðsbloggarann Tim Schneider síðustu daga. Bókin fjallar um þau áhrif sem tæknibreytingar hafa á listmarkaðinn og er í senn gott yfirlit fyrir þá sem hafa áhuga á myndlist og þá sem hafa áhuga á tækni. Mér finnst hann líka varpa ansi góðu ljósi á stöðu listmarkaðarins í dag. Kjarni bókarinnar fjallar um þá þversögn að tækniframfarir síðustu ára hafa það markmið að gera allt eins aðgengilegt og gegnsætt og mögulegt er á meðan listmarkaðurinn er í eðli sínu eins ógagnsær og óaðgengilegur og hugsast getur. Þegar þessir heimar koma saman gerist óhjákvæmilega eitthvað furðulegt. Hér er góð athugasemd um þennan forvitnilega bransa:
“As the iconic postwar gallerist Leo Castelli explained in 1966:   Why should anyone want to buy a Cézanne for $800,000? What’s a little Cézanne house in the middle of a landscape? Why should it have value? Because it’s a myth. We make myths about politics, we make myths about everything. I have to deal with myths from 10 a.m. to 6 p.m. every day… My responsibility is the myth-making of myth material—which handled properly and imaginatively, is the job of a dealer—and I have to go at it completely. One just can’t prudently build up a myth.” (KF.)


Óskalistinn:

Dyr opnast, kímerubók eftir Hermann Stefánsson, er komin út. Hér má lesa stutt viðtal við höfundinn. (SN.)

Socrates in Love er titill sem myndi líklega aldrei vekja áhuga minn ef ekki væri fyrir það eitt að Nassim Taleb, uppáhalds hugsuðurinn minn, mældi með þessari nýútkomnu bók á Twitter um daginn. Svo þegar ég kynni mér hana nánar þá sé ég að hún er býsna áhugaverð. Í stuttu máli fjallar hún Sókrates og uppruna hans.

Miðstöð íslenskra bókmennta tilkynnti á dögunum úthlutun þýðingarstyrkja. Margar spennandi bækur væntanlegar á þeim lista. (KF.)

 

Bækur, 3. maí 2019

Eru hlutir ekki fallegir þegar útlit og notagildi fara saman? Í The Beauty of Everyday Things (þýðing úr japönsku) skilgreinir Soetsu Yanagi japanska hugtakið mingei – ekki auðvelt verk, líkt og gildir um svo mörg japönsk hugtök – svo að það nái yfir fallega og einfalda hluti sem tilheyra alþýðlegu handverki og hafa hagnýtt notagildi.
One essential feature should be that the objects honestly fulfil the practical purpose for which they were made. In contrast, look at the machine-made objects that inundate our lives in recent years, which have fallen victim to commercialism and the profit motive, usefulness shunted aside. Among these objects ostenisibly made for practical use, there are many that are nothing more than frauds and fakes, displaying no attempt at honest usability.
Þegar ég las fyrrfarandi orð varð mér hugsað til greinarkorns, sem ég birti um daginn á Stundinni, og fjallaði meðal annars um þáttinn „Heimsókn“, þar sem gægst er inn í heimkynni valinkunnra Íslendinga. Ég hafði ekki náð að færa í orð, almennilega, hvað sló mig við að renna hratt í gegnum nokkur myndskeið með leiftrum frá ólíkum heimilum – og hvers vegna ég kom sjaldan auga á nokkra fegurð – en nú get ég það. Útlit og notagildi ættu að fara saman; það hefur mér alltaf fundist. En við, í okkar útlitsmiðaða heimi, leggjum langmesta áherslu á hvernig hlutirnir líta út og hvernig við komum fyrir; oft er notagildið aukaatriði, og jafnvel hverfandi – ekkert. Og hvað verður þá um fegurðina? Hún gufar líka upp og eftir stendur ekkert nema grafhýsi. Þess vegna fyllist ég líka ævinlega hryggð þegar ég sé bækur sem fyrst og síðast eru stofustáss til útstillingar, ljósmyndadoðrantar á kaffiborði og svo framvegis; hlutir þarfnast þess að eiga sér tilveru og hlutverk, rétt eins og við mannfólkið, eigi fegurð þeirra (og okkar) að koma fram. Ég mæli með ofannefndri bók, sem er þýð og greið lesning og tekur fyrir fjöldamörg japönsk hugtök, sem flest, ef ekki öll, ættu að vera samfélagi Leslistans nokkuð framandi.

Það kom flatt upp á marga nú í vikunni þegar Ian McEwan, breskur rithöfundur, hlaut alþjóðleg bókmenntaverðlaun sem kennd eru við Halldór Laxness. McEwan er á bókatúr um Bandaríkin, til að kynna nýjustu skáldsögu sína, Machines Like Me, og gat því ekki veitt verðlaununum viðtöku; ófáa grunaði að hann hefði raunar aldrei heyrt Halldórs Laxness getið fyrr en honum hlotnaðist áðurnefnd vegsemd. En hvað um það, eflaust er hinum alþjóðlegu verðlaunum ætlað að auglýsa HKL og halda nafni hans á lofti utan landsteinanna, og er það ekki bara gott og blessað? McEwan finnst mér vera höfundur yfir meðallagi – skrítin blanda af reyfarahöfundi, vísindagrúskara og tólf vasaklúta-eldhússrómansaskáldi – og ég ákvað að gera heiðarlegu atlögu við áðurnefnda skáldsögu, Machines Like Me. Sú gerist í alternatífri útgáfu af níunda áratuginum á Englandi og fjallar um hálfgert dauðyfli sem, af heldur óljósum ástæðum, ákveður að spandera nýfengnum peningaarfi í glænýja tegund af vélmenni. Smám saman kviknar ástarþríhyrningur á milli okkar manns, konunnar í lífi hans (sem er líka mikið dauðyfli) og vélmennisins (almesta dauðyflið). Skrítin bók. Þunglamaleg og hæg, og það örlaði lítt á frumlegum pælingum um þó áleitið svið: samskipti manna við tæknina. Mig langaði að sökkva inn í söguna en hið lífræna/rafknúna tríó vakti bara einhvern veginn engan áhuga hjá mér; loks lagði ég bókina því frá mér guðslifandi feginn, þá aðeins hálfnaður gegnum hana. Mæli frekar með t.d. The Comfort of Strangers, annarri skáldsögunni McEwan, eða Friðþægingu, sem til er í íslenskun Rúnars Helgis Vignissonar (sem greinilega er iðinn við kolann og skýtur hér öðru sinni upp kollinum í Leslista #63). Kannski breytist skoðun mín á Vélmennum af mínu sauðahúsi ef ég í angist minni og örvæntingarfullri leit eftir hugarfóðri manna mig einn góðan veðurdag mig upp í að lesa seinni hálfleikinn… (SN.)


Óskalistinn:

Forlagið tilkynnti nýlega um sigurvegara í handritasamkeppni sinni „Nýjar raddir“. Sá sem hlaut verðlaunin þetta árið heitir Birnir Jón Sigurðsson fyrir smásagnasaafnið Strá sem hægt er að nálgast hér.

Why Culture Matters Most er bókartitill sem vekur strax áhuga minn. Bókin fjallar um menningu sem lím og drifkraft allra samfélaga. Mjög mikilvæg umræða að mínu mati. (KF.)

Bækur, 26. apríl 2019

Ég er hálfnaður gegnum tvær bækur. Önnur er Falter eftir Bill McKibben, aktívista og umhverfissinna sem ég vitna oft (og kannski vandræðalega oft) til. Sú nýjasta frá honum er læsileg og léttleikandi úttekt á loftslagsbaráttu síðustu áratuga og stöðunni í dag; fyrir þá sem eru á kafi í málefninu (tortímingunni og heimsendi) er hér kannski ekki að finna svo ýkja margar hugljómanir, en ég mæli sérstaklega með henni fyrir þá sem vilja lesa gott, en ekki of þungbært, yfirlitsrit. Þá er ég að lesa skáldsöguna Lost Children Archive eftir hina svimandi kláru Valeriu Luiselli frá Mexíku; það er höfundur með öflugt vinnsluminni í heilanum en einnig stórt hjarta. Þetta er fyrsta bókin sem hún ritar ekki á móðurmálinu, spænsku, heldur á ensku, og það gerir hún með miklum glæsibrag. Bókin lýsir ferðalagi fjölskyldu þvert yfir Bandaríkin, frá norðri til suðurs, og tekur sérstaklega fyrir straum innflytjenda frá Suður-Ameríku, einkum barna. Bygging verksins er um margt áhugaverð; notkun lista, ljósmynda, ólíkra radda og sjónarhorna. Það tók mig nokkrar síður að kveikja á perunni, en ég er óðum að komast á þá skoðun að hér sé um að ræða hálfgert meistaraverk, og stórt framfarastökk frá fyrstu skáldsögu Luiselli, Faces in the Crowd. Bók sem mætti alveg koma (og ég veit að það er óskhyggja) út á íslensku. (SN.)


Óskalistinn:

Ég sperri alltaf eyru þegar George Packer lætur að sér kveða (hann skrifaði hina frábæru The Unwinding; magnaða greiningu á bandarísku samfélagi 20. aldar) og nú var að koma frá honum nýtt verk: Our Man: Richard Holbrooke and the End of the American Century. Veit ekkert um hana en hyggst grennslast fyrir um málið.

Náttúruverndarsinni og Gaja-spekingurinn Barry Lopez, einna þekktastur fyrir Of Wolves and Men frá 1978, sendir frá sér stórt verk sem hefur, að sögn höfundar, verið í smíðum síðustu þrjátíu árin: Horizon. Þvílíkt langlundargeð!

Loks er komið út ritgerðasafnið White eftir Bret Easton Ellis. Þar leiðir kappinn, sem er auðvitað þekktastur í dag fyrir skáldsöguna American Psycho, lesendum fyrir sjónir hvað Bandaríkin eru siðferðilega gjaldþrota, menningarlega snautt og ógeðslegt samfélag. (SN.)

Bækur, 12. apríl 2019

Milan Kundera, sá ágæti og eitursnjalli höfundur, varð níræður um daginn. Ég get lesið ritgerðarsöfnin hans aftur og aftur, það eru fjársjóðskistur, eldsneyti fyrir frjóar hugleiðingar í allar áttir, og við Íslendingar njótum þeirrar gæfu að Friðrik Rafnsson hefur þýtt nær allar bækurnar hans. Í einu ritgerðasafninu – og nú man ég skyndilega ekki hverju þeirra, afsakið það; ég hef bækurnar ekki við höndina – lýsir Kundera innreið bílsins í evrópskar borgir í upphafi 20. aldarinnar. „Fólk mun aldrei sætta sig við hávaðann sem bílarnir valda!“ á einhver að hafa sagt. Mér varð hugsað til þessara orða þegar ég var staddur í Bologna nýlega, ítalskri borg sem í núverandi mynd er margra hundruð ára gömul: bílarnir pössuðu einhvern veginn ekki inn í aldið borgarlandslagið, göturnar eru þröngar og víða hvelfigöng fyrir gangandi vegfarendur sem eins og magna upp óhljóð bensínknúinna farartækja þegar þau hjóta hjá eftir akstursstrætunum. Og auðvitað lýjandi mengun yfir öllu. Ég átti, röskum hundrað árum eftir áðurtilgreinda athugasemd, satt að segja erfitt með að sætta mig við hávaðann.

Nú, í upphafi 21. aldarinnar, sækir á okkur önnur ágeng spurning og tengist öðruvísi en þó skyldum hávaða af andlegum toga, sem einnig hlýst af „tækniframförum“ (les: iðnvæðingu og kapítalisma): nefnilega stafrænu látunum sem við streymum, sjálfviljug, inn í hausinn á okkur frá morgni til kvölds. Við hugsum: einstaklingurinn sættir sig aldrei við þetta áreiti snjallsímanna til lengdar, fólk gerir uppreisn. En er það? Hvað um börnin sem fæðast inn í heim þar sem normið er að stroka út eigin dagdrauma, skapandi gauf og hugleiðingar, með efni sem kemur og hverfur, kemur og hverfur, sérhvert andartak, eftir farvegi stórfyrirtækis sem er óseðjandi sólgið í hug okkar og athygli? Til frekari áhnykkingar: ef við fæðumst inn í heim þar sem flestir hafa þegar breyst í sæborgir (samruna manns og vélar) og fáir harma eða mótmæla markvisst þeirri þróun, er auðvitað sennilegast að maðurinn, sem er félags- og hjarðvera, líti svo á að slíkt sé eðlilegt fyrirkomuleg og felli hegðun sína mótþróalaust þar undir.

Sherry Turkle, bandarískur höfundur, skrifar um eina afleiðingu slíkrar þróunar, sem er hnignun samtalsins, og þar með hluttekningarinnar og jafnvel vináttunnar, í bók sinni Reclaiming Conversation: The Power of Talk in a Digital Age. Samræður byggjast á því að þátttakendurnir, tveir eða fleiri, verji fyrst drjúgum tíma í einrúmi, hljóðri íhugun, svo þeir hafi eitthvað bitastætt fram að færa þegar samtalið hefst. En vanrækjum við þetta kannski í auknum mæli? Í tilraun nokkurri, sem Turkle lýsir í bókinni, voru þátttakendur látnir sitja einir og yfirgefnir við autt borð, án síma, bókar eða annarrar afþreyingar, með ekkert fyrir stafni nema möguleikann á að veita sér vægt rafstuð ef þeim fór að leiðast. Margir hófu að misbjóða líkama sínum (einkum karlmenn) eftir einungis sex mínútur! Turkle óttast að börn bíði seint bætur af sívaxandi vangetu okkar til að vera ein með sjálfum okkur eða jafnvel annarri manneskju án milligöngu raftækis: í skóla einum í New York hegði tólf ára krakkar sér til að mynda í auknum mæli eins og átta ára börn á leikvelli; þau skilji skólafélaga sína blákalt útundan og hafi ekki lengur þroska og/eða hæfieika til að setja sig í spor annars fólks. Ástæðan? Þau verji svo miklum tíma í sýndarveröld þar sem ekki þurfi að horfa í augun á öðru fólki, taka tillit til annarra í rauntíma. Ég veit ekki hvort ég deili þessari sýn, en ég skil áhyggjurnar.

Stefan Durand, franskur höfundur, skrifar hugleiðingu annars efnis, en horfir af skyldum sjónarhóli, í nýlegri bók sem nefnist 20.000 ans, ou la grandes histoire de la nature, verki sem fjallar um náttúrusögu Frakklands síðustu 20.000 árin. „Ekki er svo ýkja langt síðan,“ ritar Durand (hér í frjálslegri þýðingu minni), „að við ókum á hlýjum sumarnóttum inn í skordýraregn sem flattist út á framljósunum. Oft ókum við í gegnum heilt haf af fiðrildum. Lesendur í eldri kantinum fyllast angurværð þegar þeir rifja þetta upp; hinir yngstu yppta öxlum. Þeir eiga bágt með að ímynda sér slíka tíma. Hér tæpum við á því sem kalla hefur verið vistfræðigleymska (fr. l’amnésie écologique), sem er sérstakt hugtak yfir tilhneigingu sem þrykkt er djúpt inn í eðli okkar: við lítum ævinlega svo á að sá heimur, sem við fæðumst inn í, sé hinn upprunalegi og rétti, og endurspegli hlutlaust ástand veraldarinnar. Í augum hinna yngstu er heimurinn án skordýra, en í augum hinna eldri er hann uppfullur af skordýrum. Þannig höfum við, í rás kynslóðanna, gleymt ríkidæmi og gnótt hins villta lífs sem var allsráðandi í Frakklandi fyrir ekki svo löngu. […] Við erum komin langleiðina með að breyta landinu okkar í eyðimörk.“

Ekki þarf raunar að ferðast mikið um jörðina til að sjá hvernig lífrænt ríkidæmi hennar hefur verið máð út. Og kannski er ekki heldur ósennilegt að við gleymum smátt og smátt ríkidæmi og hugmyndagnótt fyrra menningarlífs – bókmenntirnar eru hér gott dæmi – og tökum að líta svo á að samræmd hegðun flestra manna, með atbeina raftækis sem fletur út fjölbreytni og staðlar óhjákvæmilega upplýsingamiðlun og samskipti, sé hinn rétti og upprunalegi heimur, hið hlutlausa ástand veraldarinnar.

Sjálfur hef ég, nær alla mína tíð, alið manninn í borgum. Á síðustu árum er þær þó teknar að þreyta mig í auknum mæli; ég sé því miður æ sjaldnar fegurðina nema í (kærkomnum) undantekningartilvikum, sem eru iðulega augnablik þar sem náttúra eða dýralíf nær, að því er virðist fyrir kraftaverk, að þrífast mitt í tortímingunni. (Um þetta skrifaði ég til dæmis í smásögunni „Hinir sönnu leyndardómar Parísarborgar“, smásögu úr Heimafólki, einni bókanna í bókaknippinu mínu.) Áður laðaði þéttbýlið mig að sér með loforði sínu um frjóa menningu, ríkulegt samneyti hugmynda; það segulmagn fjarar hins vegar út eftir því sem tæknin lempar í auknum mæli staðbundinn kúltúr og sjálfstæða, skapandi hugsun. Alþjóðahyggjan, og Internetið, er óhjákvæmilega illsamræmanlegt því sem við höfum fram til þessa kallað kúltúr: þessi öfl hampa hinu steríla og ýta undir einsleitni. Tyler Cowen viðrar hugleiðingar um þennan ósamræmanleika milli Internetsins og menningar í nýlegri grein: „Hraðsendingar Amazon, eða kaffihús sem líta eins út sama hvar þú ert niður kominn, eiga að stórum þræði rætur sínar í Internetinu,“ skrifar hann. „Ráðleggingar snjalls starfsmanns í hverfisbókabúðinni, eða sikileysk uppskrift sem engum tekst að leika eftir annars staðar, eru dæmi um kúltur.“

Kannski er engin flóttaleið undan hinu einhæfa og einfaldaða? Æ fleiri okkar eiga núorðið í fjarrænu túristasambandi við umhverfi sitt – og túrismi er kannski hin hreina andhverfa lókal menningar – og við látum eins og við getum flúið eitthvað annað þegar heimkynni okkar verða endanlega ónýt. Ég hef áður vísað í orð bandaríska skáldsins W.S. Merwins, sem lést nýlega, um endurtekna martröð hans úr æsku: mannkynið breytir smám saman allri jörðinni í borg, malbikar hvern einasta blett, og hvergi fyrirfinnst lengur skóglendi. Svona líður mér oft – og ekki nóg með að jörðin sé malbikuð heldur einnig heilarnir í okkur. Borgirnar taka á sig ásýnd antínáttúru, gegndarlauss ofbeldis gagnvart fegurðinni, og manneskjur breytast í antímanneskjur: notendur tækja, neytendur. Öll tjáning okkar er einfölduð niður í hnitmiðuð skilaboð markaðshyggju. Með öðrum orðum: allt verður eyðimörk.

Þetta er ógnvekjandi tilhugsun. Ég hef einnig áður imprað á grein sem Bill McKibben birti í The New Yorker í nóvember 2018, undir fyrirsögninni „Hvernig öfgar í veðurfari eru að smækka plánetuna“. Í grein sinni færði McKibben á hnitmiðaðan hátt í orð áhyggjur sem lengi höfðu sótt á mig – manns sem lifir vissulega svolítið fyrir ímyndunaraflið (þ.e. óendanleikann) – um hvernig jörðin er að verða einsleitari, litlausari, og kannski brátt ekki nema skugginn af sjálfri sér. Lífríkið er að skreppa saman. Hverjar verða afleiðingarnar af þeim aldauða sem við, mannkynið, erum að valda, bæði ytra og innra með okkur? Eða tökum við kannski ekki eftir neinu fyrir hávaða? (SN.)


Óskalistinn:

Bjartur hefur gefið út Íslenskar þjóðsögur – úrval, á fallegri bók. (SN.)

Sá að þýskur blaðamaður var að gefa út bók um íslenska myndlist. Hún lítur út fyrir að vera virkilega áhugaverð. (KF.)