Bækur

César Aira er einn eftirlætishöfunda minna. Núna í vikunni kom út nýjasta enska þýðingin á verki eftir hann, The Linden Tree. Bækurnar hans eru stuttar, innan við hundrað síður. Þær eru kallaðar skáldsögur, en hvað er skáldsaga? Ég las The Linden Tree í einum rykk með bros á vör; þó er þetta kannski ekki besti upphafsreiturinn að verkum hans. Ég get hæglega mælt með öðrum; í sérstöku eftirlæti eru til dæmis The Musical Brain, The Conversations, The Literary Conference, The Miracle Cures of Dr. Aira, An Episode in the Life of the Landscape Painter, Ghosts … Einhver líkti því að lesa Aira við að setja eftirlætishljómsveitina sína á shuffle og hlusta svo bara handahófskennt út í bláinn, sem er nokkuð nærri lagi. Maður getur eiginlega opnað af handahófi hvaða bók sem er eftir hann og tekið að lesa hvar sem er; og því kannski óviðeigandi að leita að góðum upphafsreit. Aira er hæglátur og dreyminn maður, hafði lengi í sig og á með þýðingum af ensku og frönsku yfir á spænsku, en hefur núorðið gefið út fleiri en hundrað bækur í heimalandi sínu, Argentínu, og er í hávegum hafður. Ég get því miður aðeins lesið þau verk hans sem komið hafa út á ensku (hér er listi og stutt æviágrip: hin frábæra New Directions gefur þær út í mjög fallegum útgáfum) og frönsku. Ég vona að Aira fái bráðum Nóbelsverðlaunin, það væri verðskuldað. Þá hoppa ég hæð mína í loft upp af fögnuði og rek höfuðið í þakloftið líkt og Siggi Páls kvaðst hafa gert þegar hann fregnaði að Patrick Modiano hefði hlotið þau. Það er eitthvað fallegt við tilhugsunina um fullorðna karlmenn sem hoppa af gleði yfir því að aðrir fái verðlaun fyrir að skrifa góðar sögur. Hér útskýrir Aira fyrir okkur hvers vegna bókmenntirnar eru æðsta listgreinin.

Og þá yfir í eitthvað allt annað: Af einhverjum ástæðum las ég í vikunni grafísku skáldsöguna Tamara Drewe eftir hina bresku Posy Simmonds. Ég held að konan mín hafi tekið þessa bók á bókasafninu, að minnsta kosti liggur hún hér fyrir framan mig, lesin. Hvaða bók er þetta eiginlega? Og hver er Posy Simmonds? Þetta er sápuóperuleg saga, lauslega byggð á Far from the Madding Crowd eftir Thomas Hardy (sem ég hef ekki lesið). Sagan gerist á notalegu sveitasetri; þangað koma rithöfundar til að skrifa í kyrrðinni, en hver og einn hefur sinn djöful að draga. Og allir verða bálskotnir í titilpersónunni, Tamöru Drewe. Í lýsingunni á bókarflipa segir að Posy Simmonds sé „dáðasti myndasöguhöfundur Breta“. Ekki veit ég hvort það sé satt; ég hafði aldrei heyrt um hana. Og þó … skyndilega rifjast upp fyrir mér að hún er einnig höfundur verksins Gemma Bovary; það er viðeigandi að ég rakst einu sinni á þá bók í sveitahúsi í Frakklandi og las hana þar, í eplailmi. Mundi það bara núna. Ég man samt eiginlega ekkert eftir þeirri upplifun (þ.e. efnisinntaki bókarinnar) og ég er eiginlega líka strax búin að gleyma hinni sem ég las þó bara í gær eða fyrradag. En ég hef sem sagt yfir ævina lesið tvær bækur eftir þessa Posy Simmonds. Ljær það mig yfirbragði kynþokka og dulúðar? Ég sé það núna þegar ég gúgla „Tamara Drewe“ (ég ætti að vera löngu farinn að sofa þar sem ég held í ferðalag eldsnemma í fyrramálið) að þessu meistaraverki hefur verið breytt í kvikmynd. Mæli alveg með þessu.

Og enn yfir í eitthvað allt annað: Fyrir nokkrum árum kom út bókin Skáldið og ástin: Halldór Laxness, bréf til Ingu 1927-1939. Mér varð hugsað til þessa bréfasafns núna í vikunni, á afmæli skáldsins. Reglulega eru settar fram vangaveltur um hvort ungt fólk sé enn að glugga í verk hans. Seilist sautján ára stúlka í frístundagír eftir Sölku Völku? Rabba fjórtán ára drengir í Kringlunni um hin yndislegu upphafsorð Heimsljóss? Ég hef varla búið á Íslandi „síðan ég var krakki“, eins og mig minnir að Halldór lýsi einhvers staðar yfir, og veit því ekki svarið. En ég hef blaðað reglulega í þessu furðulega bréfasafni síðustu árin og haft gaman af því. Hvers vegna er svona skrítin bók gefin út? Sum bréfin eru dásamlega klúðursleg. Skáldið lýsir gagngeru frati á börn og fjölskyldulíf. Auðvitað! Hann fullyrðir að hann þurfi að beina allri orku sinni að andlegum hugðarefnum sínum. Sem betur fer! Hann þeytist um Rússland í þeirri viðleitni að bjarga verkalýðnum frá glötun. Ja, því hver ætti annars að standa í slíku stappi? Hann hamast við að koma bókum sínum til útgáfu vítt og breitt um jarðarkringluna og það kraumar einhver geggjuð orka að baki bréfunum sem lýsa öllu þessu havaríi, ákefð sem manni finnst réttlætanleg og fögur í upphafi 20. aldar en væri einhvern veginn algjörlega óhugsandi í dag (þegar mannkynið slefar upp í 8 milljarða og allt er á heljarþröm – maður yrði bara settur á ofvirknilyf). Þetta er stórskemmtileg bók. Hún er stundum dálítið endurtekningasöm, til dæmis krökk af ófrumlegum ástaryfirlýsingum, sjálfsvorkunn og röfli. En er það ekki bara fínt? Elsku Halldór Laxness. Án hans væri veröldin fátæklegri staður. (SN.)

Ég birti alls ekki allt sem ég les hér á Leslistanum. Stundum lendi ég hreinlega í því að lesa leiðinlegar bækur en stundum les ég líka bækur sem mig grunar einhvern veginn að falli ekki kramið hjá áskrifendum. (Þetta er samt pottþétt einhver vitleysa í mér – ég á bara að skrifa um það sem mér finnst skemmtilegt og lesendur geta bara skautað yfir það ef þeim leiðist.) Hið síðarnefnda gildir um bók sem ég las um daginn og skildi heilmikið eftir sig. Bókin heitir The Effective Executive og er eftir austurríska stjórnendarágjafann Peter Drucker. Hún kom út árið 1967 og fjallar, eins og titillinn gefur til kynna, um hvernig stjórnendur geta verið skilvirkir í starfi sínu. Það sem gerir það hins vegar að verkum að bókin stenst tímans tönn (flestar bækur af sama toga verða úreldar á nokkrum mánuðum) er sú að hún veitir hverjum þeim sem starfar í þekkingargeiranum frábærar leiðir til að skipuleggja sig og skila af sér betri afköstum (hvernig sem maður mælir það svosem). Lærdómur bókarinnar á þess vegna ekki bara við um stjórnendur, heldur hvern þann sem notar kollinn á sér til að skapa sér tekjur. Mæli mikið með henni.

Fyrir nokkrum dögum fann ég eldgamla útgáfu af þekktustu verkum skoska rithöfundarins Robert Louis Stevenson í bókahillum foreldra minna. Bókin var í eigu afa míns og var gefin út árið 1941. Þeir sem eru jafn miklir bókapervertar og ég þekkja eflaust þessa frábæru lykt sem finna má af bókum sem eru áratugagamlar. Ég gæti þess vegna skrifað heila bók um þessi einstöku litbrigði lykta – hvernig ætli lyktin sé af Gutenberg biblíunni? Eða af Snorra Eddu? Geymum þessar lyktarpælingar samt í bili. Verk Stevenson eru mjög þekkt en hann er líklega frægastur fyrir bækurnar Treasure Island og The Strange Case of Dr. Jekyll and Mr. Hyde. Það var síðarnefnda bókin sem vakti áhuga minn og er ég búinn að kafa í hana síðustu daga. Þvílík saga! Þrátt fyrir að bókin sé svo fræg að hún jaðrar við að vera klisja þá er sagan bæði ógnvænleg og stórskemmtileg. Ég held að það sé öllum hollt að kafa í svona sögur, sem hafa verið endursagðar og kvikmyndaðar svo oft að uppruninn gleymist næstum. Fyrir nokkrum árum fann ég t.d. allar sögurnar um Sherlock Holmes í bókahillum foreldra minna (sem rýrna jafnt og þétt með árunum af mínum völdum). Þetta eru alveg fáránlega skemmtilegar bækur og mun áhugaverðari en þeir sjónvarpsþættir og kvikmyndir sem hafa sprottið upp úr þeim. (KF.)

Hjá Dimmu var svo að koma út glæný þýðing á skáldsögu eftir Jon Fosse. Fosse skrifar, líkt og fyrrnefndur César Aira, skáldsögur sem eru af afar tempraðri lengd, innan við hundrað síður. Það finnst mér mátulegt. Stuttar bækur, mjög gott. Hér má lesa enskar þýðingar á örtextum eftir Fosse, brotum úr bernsku hans. (SN.)