Leslisti #71, 28. júní 2019

Af netinu:

Ég hef svolítið gaman af syrpu Ölmu Mjallar, blaðamanns, um ævintýri Braga Páls Sigurðssonar og skrautlegrar áhafnar hans á siglingu frá Miðjarðarhafi til Íslandsstranda.

Viðar Hreinsson skrifar  um „bitcoinvirkjun á sílíkonfótum“.

BrainPickings er merkileg vefsíða: höfundur hennar, hinn búlgarska Maria Popova, talar nær einungis um áhugaverða hluti en alltaf á svo upphafinn hátt að útkoman verður stundum mjög skrítin. Samt ekki annað hægt en að dást að því hvernig rembingurinn er ræktaður af alúð og natni! (SN.)

Hvað getur köttur Schrödingers sagt um þrívíddarprentara á Mars? Hafið þið ekki alltaf velt þessu fyrir ykkur? Þetta er annars mjög góð grein sem fjallar um eðlisfræði upplýsinga.

Hvað gerum við með list illmenna og perra? Hef aldrei komist að niðurstöðu sjálfur en hér er ágætis yfirferð yfir þessar vangaveltur.

Hér mælir markaðsgúrúinn Seth Godin með fimm bókum um markaðssetningu. Allt nokkuð áhugaverðar bækur ef maður hefur áhuga á markaðssetningu á annað borð.

Í greininni hér fyrir ofan vísar Godin í grein eftir Kevin Kelly um hvernig eigi að ná árangri í stafrænu hagkerfi. Það sem er forvitnilegt við greinina er að hún var skrifuð árið 1997 og er enn býsna gagnleg.

Gleðifregnir úr Markaðnum í vikunni. Það virðist glæða í bóksölu á Íslandi.

Svo smá sorglegur Twitter þráður í lokinn til að þið farið ekki allt of kát inn í helgina. Hér segir einhver náungi frá ákvörðun Microsoft um að leggja niður rafbókadeild sína. (KF.)

 

Fyrir augu og eyru:

Hið ágæta hlaðvarp rithöfundarins Malcolm Gladwell, Revisionist History, er byrjað aftur. Fyrstu tveir þættirnir eru virkilega góðir. (KF.)

 

Bækur:

Ég varð áhugasamur um stóuspeki fyrir svona áratug en missti áhugann svo snögglega fyrir einhverju síðan þegar annar hver start-up sjomli í heiminum var farinn að vitna í Markús Árelíus á Twitter. Þessi almenni áhugi á stóuspekinni er engu að síður fagnaðarefni, enda praktísk og góð speki sem á erindi við alla. Þessi nýtilkomni almenni áhugi er að miklu leyti unga rithöfundinum Ryan Holiday að þakka sem ég vitna oft í á þessum vettvangi. Hann gefur meira segja út heilan fjölmiðil í kringum spekina, bækur og jafnvel dagatal til að hjálpa manni að sjá stóísku hliðina í lífinu. Ég sá nýlega að gömul bók eftir hann, sem fjallar með beinum og óbeinum hætti um stóuspeki, var á tilboði á Amazon og hlóð henni því niður á Kindilinn minn. Bókin heitir The Obstacle is the Way og fjallar um hvernig maður á ekki bara að komast yfir áskoranir heldur að nýta þær til að verða enn betra manneskja. Þetta hljómar eins og sjálfshjálparbók og er það kannski að einhverju leyti en mér finnst hún rista dýpra en það. Þetta eru í alvörunni gagnlegar hugleiðingar sem að hafa reynst mér vel síðustu vikur. (KF.)

Ein besta bók sem ég hef lesið lengi er Landmarks eftir hinn breska Robert MacFarlane. Fyrir þá sem hafa gaman af náttúrulýsingum, orðagrúski, hlýjum mannlýsingum. Bókin hverfist um hvernig við lýsum landslagi (hverjum kafla fylgir sérstakt orðasafn) og hvernig þverrandi hæfileikar okkar í þá veruna endurspegla síaukna fjarlægð okkar við hinn náttúrulega heim. Orð yfir landslag hverfa af praktískum ástæðum; fæst okkur þurfa að lýsa gönguleið yfir heiðarnar af mikilli nákvæmni dagsdaglega. (Nokkuð sem við Íslendingar ættum að þekja.) Í formála lýsir MacFarlane útkomu nýrrar útgáfu breskrar orðabókar handa börnum, Oxford Junior Dictionary; þar voru tekin út fjöldamörg orð, sem lýstu náttúru, og í staðinn sett inn orð úr poppmenningu og tölvutækni.

„The deletions included acorn, adder, ash, beech, bluebell, buttercup, catkin, conker, cowslip, cygnet, dandelion, fern, hazel, heather, heron, ivy, kingfisher, lark, mistletoe, nectar, newt, otter, pasture and willow. The words introduced to the new edition included attachment, block-graph, blog, broadband, bullet-point, celebrity, chatroom, committee, cut-and-paste, MP3 player and voice-mail.“

Orðin sem við notum endurspegla auðvitað daglegan veruleika okkar. Fíflum hefur verið skipt út fyrir viðhengi. Akarni hefur verið skipt út fyrir selebb. Eitthvað mjög niðurdrepandi við þetta – en uppörvandi hins vegar við þessa fínu bók MacFarlane. Mæli mikið með henni. (SN.)

 

Óskalistinn:

Stefán E. Stefánsson gefur út bók um ris og fall WowAir. Greinilega ekki drollað við hlutina á þeim bænum.

Dimma gefur út þrjár bækur með ljóðum þekktra breska ljóðskálda. Skáldin eru Lavinia Greenlaw, Simon Armitage, sem er nýskipað lárviðarskáld Bretlands, og írska skáldið Paul Muldoon, sem ritstýrði ljóðahluta The New Yorker um árabil. Íslenskar útgáfur ljóðanna gerðu engir aukvisar: Magnús Sigurðsson, Sigurbjörg Þrastardóttir, Sjón. Bækurnar koma út saman undir heitinu Bréf til Íslands / Letters to Iceland. Hver og ein ber sérstakt heiti: Paul Muldoon: Sjö ljóð. Sjón íslenskaði. Lavinia Greenlaw: Kennsl. Magnús Sigurðson íslenskaði. Simon Armitage: Þaðan sem við horfum. Sigurbjörg Þrastardóttir íslenskaði. (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s