Bækur, 21. júní 2019

Geoff Dyer var lengi vel (og er svo sem enn) í miklu uppáhaldi hjá mér. Hver bók eftir hann er ólík hinum fyrri. But Beautiful fjallar um djass og helstu örlagaræfla þeirrar tónlistarstefnu (mjög fín, ljóðræn og falleg); The Missing of the Somme fjallar um stríð og minnisvarða um stríðsátök, bæði í höfðinu á okkur og í landslaginu; The Ongoing Moment fjallar um ljósmyndun; Out of Sheer Rage (ein af mínum uppáhaldsbókum) er ritgerð um líf og störf hins breska H.D. Lawrence en fjallar þó aðallega um frestunaráráttu, óþol og wanderlust eða ferðaþrá – og endurspeglar þar með snilldarlega helstu karaktereinkenni H.D. Lawrence. Góður inngangsreitur að verkum Dyers væri kannski Otherwise Known as the Human Condition, safn bráðskemmtilegra ritgerða um allt milli himins og jarðar; og smásagna- og ritgerðarsafnið Yoga for People Who Can’t Be Bothered to Do It fær óhjákvæmilega verðlaun fyrir góðan titil. Loks hefur Dyer skrifað talsvert um kvikmyndir, meðal annars Zona: A Book about a Film about a Journey to a Room, og nú var að koma út ný bók, Broadsword Calling Danny Boy: On Where Eagles Dare (sem ég hef ekki lesið enn). Hér er hann í spjalli við Lili Anolik um nýju bókina, listina að skrifa um bíó og margt fleira.

Löng dvöl mín í Japan fékk mig svo til að rifja upp kynnin við June 30th, June 30th, ljóðabókina hans Richards Brautigan sem fjallar um Japansdvöl hans. June 30th, June 30th er, líkt og önnur verk Brautigans, í senn tregafull og fyndin. Brautigan er afar vel kynntur á Íslandi – furðu vel jafnvel – og nýlega komu t.d. út tvær þýðingar Þórðar Sævars Jónssonar á verkum eftir hann. Þá hefur Gyrðir Elíasson þýtt fjórar bækur eftir hann. (Hægt er að hala niður pdf-útgáfu af bókinni, og ýmsum öðrum verkum Brautigans, á vefsíðunni sem ég hlekkjaði við.)


Óskalistinn:

Heildarsafn ljóða Valdimars Tómassonar komið út. Spannar tímabilið 2007-2018. Guðmundur Andri Thorsson ritar formála.

Nýtt tölublað af Jóni á Bægisá, tímaritinu góða um þýðingar, hefur litið dagsins ljós.

Loks stórtíðindi! Væntanleg er á íslensku mikil öndvegisbók – Stílæfingar hins franska Raymonds Queneau (L’exercise du style á frummálinu). Í stuttum köflum lýsir höfundur afar hversdagslegu smáatviki í jarðlest – aftur og aftur en með ólíkum stílbrögðum og rödd hverju sinni. Rut Ingólfsdóttir gerir íslensku þýðinguna og það verður gaman að sjá afraksturinn; það er ekkert áhlaupaverk að snara þessari bók. (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s