Bækur, 14. júní 2019

Á ferðalagi er jafnan hollráð að verða sér úti um sýnisbók með smásögum frá viðkomandi landi. Þannig kynnist maður mörgum og ólíkum röddum sem mynda fjölbreyttan orðavefnað svo að úr verður innsýn í þankagang og siðvenjur viðkomandi lands. Eða það vonar maður í hið minnsta. Mér fannst allavega rakið að grípa með mér The Penguin Book of Japanese Short Stories í bókabúð í Kýótó um daginn og sé ekki eftir því. Að safninu ritar Haruki nokkur Murakami ágætan formála, og ritstjóri er einn þýðanda Murakami sjálfs yfir á ensku: Jay Rubin. Þarna fær lesandinn ágætis yfirlit um japanska smásagnagerð á tuttugustu öldinni. Sögunum er ekki raðað upp krónólógískt heldur bera flokkarnir yfirheiti á borð við „Japan og Vesturlönd“, „Konur og karlar“, „Náttúran og minnið“, „Nútímalíf og önnur vitleysa“, „Drungi“, „Hamfarir, bæði náttúrulegar og manngerðar“. Í safninu eiga sögur þekktir eldri japanskir höfundar á borð við Natsume Sōseki, Jun’ichirō Tanizaki og Nóbelsverðlaunahafinn Yasunari Kawabata (sem aldrei hefur heillað mig og gerir það ekki heldur hér) og einnig yngri, svo sem Banana Yoshimoto (sem hefur verið þýdd talsvert á íslensku) og áðurnefndur Murakami. Klikkuðustu söguna á líklega Yuten Sawanishi. Hún hefst svo: „Leggöngin voru fyrsti líkamshluti móður minnar sem breytist í sykur.“ Geri aðrir betur. Hér má lesa sögu Sawanishi, sem einnig hefur birst í Granta-tímaritinu.

Þá er ég með undir höndum aðra yndislega bók, Ritgerðir um iðjuleysi, enska þýðingu á þekktu verki búddamúnksins Kenkō, sem talið er að hafi ritað sínar stuttu hugleiðingar á bilinu 1330-1332, límt snifsin jafnóðum upp á vegg hjá sér og svo að endingu raðað þeim upp í bók. Hugleiðingar af þessum toga, þar sem höfundurinn veður óhikað úr einu í annað, eru mér einmitt að skapi. (Hér má lesa oggulítið sýnishorn úr bókinni.) Bókin geymir 243 örritgerðir og hefst á orðunum: „Hversu skrítin og vitskert tilfinning hellist ekki yfir mig þegar það rennur upp fyrir mér að ég hef eytt heilu dögunum í félagsskap þessarar blekbyttu, með ekkert betra að gera en að hripa handahófskennt niður hvaða vitleysu sem mér dettur í hug.“ Að einhverjum ástæðum finna þessi orð, rituð fyrir um 900 árum, hljómgrunn hjá þessum hér, auðmjúkum höfundi Leslistans. (SN.)


Óskalistinn:


Sé á heimasíðu NPR að verið er að endurútgefa æviminningar Françoise Gilot, fyrrverandi eiginkonu Pablo Picasso, sem heitir einfaldlega Life With Picasso. Ég hafði aldrei heyrt um þessa bók áður og hlakka til að kafa í hana við tækifæri.

Hvernig menning var til staðar í Þýskalandi Nasismans? Sá nýlega að út væri komin bók um einmitt þetta – Culture in Nazi Germany – sem lofar góðu.

Ungi bandaríski rithöfundurinn Ryan Holiday heldur úti mánaðarlegu fréttabréfi um bækurnar sem hann er að lesa hverju sinni. Fréttabréfið er beinn og óbeinn innblástur fyrir Leslistann og ég gríp yfirleitt eitthvað úr þessu áhugaverða bréfi hans. Sá að hann mælti í síðasta bréfi með skáldsögunni Theory of War eftir Joan Brady sem ég hef aldrei heyrt um en lítur vel út. (KF.)

Út er komin Frelsun heimsins eftir Kristínu Marju Baldursdóttur, safn greina og fyrirlestra. Ég fíla þannig bland í poka-bækur og hlakka til að næla mér í eintak þegar ég kem til Íslands í sumar. Á unglingsárunum las ég Mávahlátur og Hús úr húsi mér til mikillar ánægju; það er hins vegar skömm frá því að segja að Karitas án titils og Óreiða á striga hafa legið ólesnar á náttborðinu hjá mér óralengi. (Ég á reyndar ekki náttborð; ég tek bara svona til orða.)

Las grein um, og viðtal við, króatísku skáldkonuna Daša Drndić (ekki biðja mig um að reyna að bera fram þetta nafn) í The Paris Review. Fékk mig að langa að lesa bækurnar hennar, sem virðast reyndar vera algjört torf. En, eins og ofannefndur Thor frændi var vanur að segja, þá er það nokkurs virði þegar skáldverk eru flókin – kannski búa verðmæti og galdur skáldskaparins einmitt stundum í svita og puði lesandans.

Robert McFarlane sendir frá sér nýja bók, Underland, um launveraldirnar undir iljunum á okkur. Lofar góðu! (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s