Af netinu, 14. júní 2019

„Um daginn stóð ég í eldhúsinu hjá vini mínum, framkvæmdaglöðum og galvöskum náunga sem ekki hikar við að gera upp íbúðir, glíma útbíaður í smurolíu við bílvélar og rækta sitt eigið grænkál í garðinum hjá sér. Það gefur auga leið að slíkum þúsundþjalasmið hugnast sóun illa. Stoltur á svip rétti hann mér kaffibolla og bankaði svo létt með hnúunum í stálhurðina að uppþvottavélinni. Ég sá strax á látbragðinu – hvernig hann glotti út í annað, hallaði sér aftur að eldhússkenknum – að nú væri að hefjast lærdómsrík sögustund…“

Tilvitnuð orð koma úr grein eftir mig á léttu nótunum þar sem ég fjalla um hringrásarhagkerfið (og ber það saman við línulega hagkerfið sem við búum nú við). Hér er svo önnur þar sem ég rek sigurgöngu plastpokans á seinni hluta tuttugustu aldar. Báðar greinarnar birtust á nýrri fréttaveitu Klappa en þar birti ég um þessar mundir ýmis skrif um loftslags- og umhverfismál.  (SN.)

Holl áminning hér um að trúa ekki öllu því sem maður les í bókum.

Demókratar geta lært ýmislegt af Steve Bannon. Góð lesning fyrir áhugafólk um bandarísk stjórnmál.

Helgi Tómasson, ballettdansari, hefur alltaf verið mér ákveðin fyrirmynd. Hérer hann í spjalli við Moggann.

Rithöfundar eru duglegri í þéttbýli. Í hið minnsta ef marka má þessa rannsókn.

Ég hef talað fallega um bandaríska landafræðinginn Jared Diamond og bók hans Guns, Germs and Steel á þessum vettvangi. Gylfi Ólafsson, nýr Ráðnautur Leslistans, benti á nokkrar greinar á Twitter sem fara ófögrum orðum um nýjustu bók hans. Meðal annars þessi gagnrýnandi í dómi í New York Times

Svo hef ég líka mært Robert Caro og verk hans – var einmitt mjög hrifinn af nýjustu bók hans, Working, og hef alla jafna lesið góða dóma um þá bók. Fannst þess vegna forvitnilegt að lesa þessa gagnrýni í vinstriblaðinu ágæta Jacobin um bókina. Ég er ekki sammála henni en finnst alltaf mikilvægt að stíga reglulega út úr mínum skoðanahring.

Fínar ráðleggingar hér fyrir foreldra um skilvirkt uppeldi barna. (KF.)

Hér er nú aldeilis skemmtilegt plagg! Uppskrift af ritþingi um Thor Vilhjálmsson frá 2006. Ég var viðstaddur þingið, þá ungur maður með stóra drauma. Ekki spillir að Thor var í góðum félagsskap: stjórnandi var Halldór Guðmundsson bókmenntafræðingur og í hlutverki spyrla voru þeir Sigurður Pálsson rithöfundur og Ástráður Eysteinsson bókmenntafræðingur. Mæli með lestri.

Ég sagði frá því í síðasta Leslista að á Everest-tindi væri nú svo mikil örtröð fjallgöngugarpa að dæmi væru þess að mannmergðin leiddi til banaslysa. Þessi slysatúrismi gildir að sjálfsögðu ekki einungis um hæsta fjallstind á jörðinni: alltof mörg okkar vilja flakka um jarðarkringluna og taka sjálfur á sögufrægum stöðum með tilheyrandi álagsskemmdum. Túristarnir eru að skemma heiminn!

Yndisleg grein um tónlistarmanninn Don Cherry í The New York Review of Books. Cherry var leitandi listamaður og ómögulegt að fella hann inn í skýrar kategóríur eða þröngva upp á hann stimplum. Lestur endursögn ríkari.

Virginia Woolf skrifar hér bréf til ungs skálds og deilir ýmsum skrifráðleggingum. Birtist fyrst á því herrans ári 1932.

Ég hafði svolítið gaman af þessari lesningu um Madonnu. Sauðsvartur almúginn hefur auðvitað á henni ólíkar, og skiptar, skoðanir en í mínum huga er hún talsvert séní. Fyrsta platan hennar, og áran í kringum hana í upphafi níunda áratugarins (ívið sjúskaða og ögrandi New York-gellan), hlýtur að hitta beint í mark hjá öllum skyni gæddum verum.

Gunnar Dofri Ólafsson skrifar kjarnyrta og skemmtilega hugleiðingu um dúxa, fúxa og sannleikann. Hvenær á sannleikurinn á rétt á sér og hvenær má færa í stílinn? (SN.)


Fyrir augu og eyru:

Mjög flott umfjöllun í The Daily, hlaðvarpi The New York times. Spjótunum beint að Evrópu og einstök lönd tekin fyrir. Eru þjóðernissinnaðir flokkar að taka yfir í Evrópu? Er Evrópusambandið að liðast í sundur? Hver er yfirhöfuð framtíð Evrópu? Er rasismi að aukast eða vill fólk einungis vernda menningararf sinn (og er þessu tvennu ruglað saman í umfjölluninni)? Þátturinn um Frakkland, þar sem við kynnumst nokkrum úr hreyfingu gulu vestanna, fannst mér einkar áhugaverður og velheppnaður. (SN.)

Góðvinur Leslistans, Bubbi Morthens, tilkynnti á Twitter í gær að hann væri að byrja með nýtt hlaðvarp í næstu viku. Persónulega get ég varla beðið. (KF.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s