Af netinu, 7. júní 2019

„Ég myndi segja að allt sem ég geri mótist að einhverju leyti af manngerðri hamfarahlýnun. Ég hugsa um loftslagsbreytingar ábyggilega hundrað sinnum á dag, þær eru faktor í eiginlega öllu sem ég geri; hvernig ég ferðast, hvað ég kaupi mér, hvað ég borða og hvernig ég kýs að lifa lífinu.“

Ég spjallaði um loftslags- og umhverfismál við Hildi Knútsdóttur, fyrir fréttaveitu Klappa. (SN.)

Það hefur glatt mig mikið að sjá áhugaverðum íslenskum fréttabréfum fjölga. Við Leslistamenn viljum gjarnan að til verði ríkuleg flóra af slíkum bréfum. Vil sérstaklega benda á þrjú ný bréf sem ég hef tekið eftir. Í fyrsta lagi er það fréttabréfið hans Jökuls Sólbergs. Í því skrifar hann um „örflæði“ (e. micromobility) sem snýst í stuttu máli um léttari samgöngumáta á borð við rafknúin reiðhjól og hlaupahjól. Sverrir Bollason var að byrja með fréttabréf um borgarþróun, húsnæðismál og fasteignir sem lofar góðu og Tumi Ferrer með fréttabréf um kaffi og vín sem er einnig mjög forvitnilegt. Ef þið kannist við fleiri áhugaverð íslensk fréttabréf þá megið þið gjarnan láta okkur vita. Svo hvet ég alla til að stofna sitt eigið fréttabréf, það er stórskemmtilegt sport. Ágætt að láta vaða á vefsíðum á borð við Substack og sjá svo hvað gerist.

Stundum finnst mér ég vísa of oft í fjármálahugsuðinn Morgan Housel á þessum vettvangi en hann kemur alltaf á óvart með hverja negluna á eftir annarri. Hér fjallar hann um hvað maður getur lært af sögunni og hér veitir hann dóttur sinni, og okkur lesendum í leiðinni, ýmis góð fjármálaráð.

Hér er ansi góð greining á stöðu og tækifærum hlaðvarpsheimsins. Þetta er ört vaxandi og spennandi fjölmiðlaform sem á eflaust eftir að vaxa í mikilvægi.

Fyrsta uppkastið af öllu er drasl. Góð hvatningarorð fyrir rithöfunda.

Stórskemmtileg frásögn frá bandarískri geðlæknaráðstefnu. Fyndið og óhugnanlegt á sama tíma.

Sumarleg grein hérna um vísindin á bak við grillmat.

Grein um af hverju það skiptir máli fyrir alla að kunna að skrifa vel. Greininni er beint til hugbúnaðarverkfræðinga en á erindi við okkur flest.

Heimspekingur skrifar gegn þekkingu. Fersk nálgun. (KF.)

Ég veit ekki hvort þetta er kómískt eða tragískt (sennilega hvorttveggja?): Everest-fjall er nú svo vinsæl áskorun fyrir göngugarpa að suma daga er mannmergðin slík að það myndast biðröð eftir að komast efst á tindinn. Dæmi eru um að örtröðin hafi leitt til dauðaslysa.

Sue Halpern birti mjög skemmtilega lofgjörð um almenningsbókasöfn í The New York Review of Books. Þar vitnar hún meðal annars í bók, sem áður hefur borið á góma hér, The Library Book eftir Susan Orlean, og dregur eftirfarandi tilvitnun fram í dagsljósið: „The publicness of the public library is an increasingly rare commodity. It becomes harder all the time to think of places that welcome everyone and don’t charge any money for that warm embrace.“

Hér gefur að líta gagnvirka innsýn í líf og störf tólf skemmtikrafta í New York-borg; meðal annars dansara í jarðlestum, ballerínu, djasspíanista af gamla skólanum (minn uppáhalds) og latínótrymbils. Birtist í The New York Times. Svoldið skemmtilegt. 

Eitt það besta sem ég las í vikunni var viðtal við frönsku vitsmunaveruna Bruno Latour í Le Monde. Í brenndidepli einkum loftslagsbreytingar og staða mannsins í gjörbreyttum heimi.

Snorri Másson, blaðamaður, er óhræddur við að fremja stílkúnstir í þessari fjörugu grein um Þorstein Davíð Stefánsson, sem útskrifaðist nýlega af fornmáladeild Menntaskólans í Reykjavík með talsverðum bravúr.

Ný heimasíða fyrir hina áhugaverðu ritröð Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar.

Það er völlur á Elton John um þessar mundir. Út er komin kvikmynd byggð á ævi hans, Rocketman, og svo er sjálfsævisaga væntanleg. Popparinn stakk nýlega niður penna og útkoman birtist í The Guardian.

Mér finnst alltaf jafn furðulegt þegar ég heyri því haldið fram að enginn hafi tíma til að lesa. (Samt virðist öll heimsbyggðin hafa séð Game of Thrones – samtals 146 klukkustundir af sjónvarpsefni.) Hvað um það, nú hafa þrír snyrtilegir, ungir Þjóðverjar leyst þetta tímahraks-vandamál okkar og fitjað upp á forriti sem brýtur nonfiksjónbækur til mergjar og eimar þær niður í hnitmiðaðar ritgerðir. Í kynningarefni fyrir forritið hamra þeir á því að enginn hafi tíma til að lesa en allir hag af því. Hinir knáu Þýðverjar kveðast sannfærðir um að hið byltingarkennda forrit þeirra muni umbylta lestrarvenjum heimsbyggðarinnar. Framtíðin er sem sagt fólgin í því að lesendur greiði tæknifyrirtæki áskriftargjald fyrir að hjálpa sér við að lesa einfaldanir á bókum!

Gauti Kristmanns skrifar um „Nóbelsverðlaunaharmleikinn“. Áhugafólk um verðlaunaveitingar ætti svo að gleðjast yfir því að í ár verða veitt tvenn Nóbelsverðlaun fyrir glæsilega framgöngu í bókmenntum – fyrir 2018 og 2019.

Virkilega athyglisverð grein um Kína, stöðu rithöfunda og blaðamanna þar og andóf þeirra gegn síhertri kúgun ríkisvaldsins. (SN.)


Fyrir augu og eyru:


Fjárfestirinn og hugsuðurinn Naval Ravikant er hér í mjög löngu og djúpu spjalli við grínistann og hlaðvarpskónginn Joe Rogan. Hér er fyrst og fremst talað um hvernig maður á að verða ríkur og hamingjusamur.

Þegar ég lærði hagfræði á sínum tíma þá talaði ég oft um að ég lærði töluvert meira af hagfræðihlaðvarpinu Econtalk og hagfræðiblogginu Marginal Revolution en af kennslubókunum mínum. Fannst því alveg sérstaklega gaman að hlusta á Russ Roberts, stjórnanda Econtalk og Tyler Cowen, stjórnanda Marginal Revolution spjalla hér saman í hlaðvarpi hins síðarnefnda.

Í því spjalli minnist Russ Roberts á myndband sem hann var að framleiða um hvernig hægt er að misskilja gögn um tekjuójöfnuð. Hvet alla til að skoða þetta – stutt, fræðandi og skemmtilegt.

Hér er stórkostlega áhugavert spjall við Stephen Wolfram um hvað gerist þegar stór hluti af heimsbyggðinni getur farið að forrita. (KF.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s