Ráðuneyti Leslistans: Ritstjórn Skandala

Skandali nefnist flunkunýtt (and)menningartímarit sem kemur út á pappír og dafnar einnig á alnetinu. Af því tilefni ginnti ég ritstjórn tímaritsins í nokkuð langt og kaótískt spjall með atbeina tækninnar þvert á heimsálfur. Við ræddum tímaritið en impruðum einnig á ýmsu öðru: The Bloodhound Gang, djöflum og dýrlingum, skopparakúltúr, fótsveppum og svo auðvitað góðum bókum og annarri miðlun hugsunar. — Sverrir Norland

Sverrir Norland: Sælt góða Skandafólk, mig langaði að byrja á því að inna ykkur eftir því hvað Skandali er? Bráðum kemur út fyrsta tölublað; við hverju má íslensk þjóð búast?

Ægir: Skandali er ýmislegt. Þetta er blað. En líka hugsjón, samfélag, verkefni í þróun og mótun, bráðum heimasíða. Mest af öllu er Skandali einskonar leið til að sannreyna þá kenningu að það sé fullt af skapandi fólki í landinu sem er að sinna sínum verkefnum hver í sínu horni og kannski ekki að koma sér á framfæri sem skyldi (eða einfaldlega tala saman). Við róum í raun staurblind á þessi mið. Ekkert okkar í ritstjórn hefur neina alvöru reynslu af svona útgáfu, eða mikið viðskiptavit, eða erum sérstaklega úthverf. Við erum að vinna með kenninguna að um leið og þú byggir eitthvað hljóti fólk að koma að skoða það, að þetta bara reddist. Að því sögðu þá hafa viðbrögðin verið góð og við erum bjartsýn á þetta fyrsta tölublað. Það kemur út fyrir mánaðarlok (ef áætlanir standast!) og ég fullyrði að þetta verður ekkert sorp. Við fengum mun meira efni en hægt væri að birta í einu blaði og sátum því uppi með það lúxusvandamál að þurfa að velja og hafna. Blaðið verður samt troðið og 100% öruggt að allir ættu að geta fundið eitthvað að sínu skapi á þessum síðum, enda áhersla lögð á fjölbreyttni og tilraunastarf. Þjóðin ætti því að fara á klósettið tímanlega, slökkva á PC-filternum og þurrka af lesgleraugunum.

Aldís: Skandali er opinn vettvangur fyrir alla sem vilja tjá sig með einhverju formi, um nokkurnveginn hvað sem er. Blaðið, og kollektívið sem slíkt er einfaldlega tækifæri fyrir skapandi einstaklinga til að birta verk sín á auðveldan máta og með krafti fjöldans.

SN: Hver eruð þið, nákvæmlega, væruð þið til í að flétta af ykkur hulunni? Hvað leiddi ykkur saman annað en ást á hinu háleita og næm móttökuskilyrði gagnvart fegurðinni?

Ægir: Ég er heimspekingur að mennt og lundafari, sagnfræðimenntaður að auki, og ljóðskáld. Svona allsherjarnörd með engin arðbær áhugamál. Ég hafði að vísu mínar efasemdir þegar þessi hugmynd um að gefa út bókmenntatímarit kom fyrst til, einmitt vegna hagkvæmni sjónarmiða, en fífldrifska og hugsjónarmennska náði fljótt yfirhöndinni. Svo er ég líka með leiðigjarnt blæti fyrir því að taka að mér fleiri verkefni en ég réttilega ræð við hverja stundina, þannig að vafalaust er þetta angi af því meiði.

Oddný: Ég játa að ég er líka heimspekingur að mennt og lundarfari. Anton og Ægir fengu hugmyndina að stofna tímarit og buðu mér að vera með. Ég vissi að verkefnið yrði krefjandi en gat ekki staðist áskorunina. Ég stefni á að vinna við heimspekina og vil nýta öll tækifæri til að finna farveg hennar í hinu og þessu.

Aldís: Við Ægir höfðum vitað af hvoröðru í nokkurn tíma þegar við kynntumst loksins almennilega í kringum 2016. Það var um það leiti þegar Ægir gekk til liðs við Fríyrkjuna sem á þeim tíma var starfandi ljóðakollektív sem hélt regluleg ljóðakvöld og gaf út þrjár bækur á árunum 2014–2016. Ég sá um umbrotið á seinni tveimur bókunum og sat í ritstjórn þriðju útgáfunnar.

Á þessum árum höfum við Ægir reglulega sent hvortöðru texta til rýningar og reynt að styðja við hvort annað með ýmsu móti, Ægir hefur komið mér í umbrot á hinum ýmsu verkefnum sem hann hefur verið viðloðandi líkt og tímariti Heimspekideildar HÍ; Byltíng, og svo sá ég um umbrotið á fyrstu ljóðabókinni hans ‘Ódýrir endahnútar’.

SN: Hæ, Ægir, hæ, Oddný.

Karitas M. Bjarkadóttir er svo áskrifendum Leslistans að góðu kunn: hún var vígð inn í ráðuneytið fyrir skemmstu. Hæ, Karitas, hvernig hefurðu það í dag?

Karitas: Ég hef það voða fínt! Gaman að fá að koma aftur!

SN: Gott að fá þig. Og hver ert þú, Tanja, á hvaða hillu siturðu í lífinu og hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Tanja: Ég er svona alt-mulig-manneskja og sit á mörgum hillum, vasast í hinu þessu og virðist aldrei geta sinnt færri en fimm verkefnum í einu. Í augnablikinu er ég íslensku- og ritlistarnemi, rithöfundur í vinnslu, bókaútgefandi, bókasafnsstarfsmaður og björgunarkona. Hvað uppáhaldsmatinn varðar get ég ómögulega gefið ákveðið svar. Kannski mexíkósk súpa eða grænmetisborgari eða súkkulaðiís frá Oatly. Eða pasta með rauðu pestói eða marókóskur baunapottréttur með apríkósum og möndlum.

SN: Bókaútgefandi og björgunarkona er svolítið góð blanda og kannski sami hluturinn. Takk fyrir kynninguna, Tanja.

Og sæll og blessaður, Anton , ert þú jafn heimspekilega sinnaður og samherjar þínir hér að ofan og hvort ertu meira fyrir lífið í sveitinni eða borginni?

Anton: Ég er einmitt að læra heimspeki líka, en þá ekki búinn að ákveða hvað ég ætla að vera þegar ég verð stór. Kannski rafvirki, fer það ekki vel með heimspeki? Annars er ég alfarið fyrir borgina og hef aldrei skilið þetta sveitablæti í sumum, en ég kann svo sem að meta útsýnið þegar ég tek rúnt upp á skipaskaga. Stundum fer ég jafnvel lengra og þá vil ég helst ekki keyra svo ég sé frjáls til að stara út um gluggann. En borgin er minn staður þó svo að það geti vel breyst. Nú er ég nýfluttur í vesturbæinn og eftir heila tvo daga get ég fullyrt að hér er best að vera. Áfram KR! (samt ekki).

SN: Halló, kæra Aldís, hver ert þú — í stuttu eða löngu máli — og manstu eftir jólanótt þar sem þú vaktir og last fram undir morgun, allt úti í smákökumylsnu? Eða hefurðu alltaf verið ákaflega kvöldsvæf manneskja?

Aldís: Sæll Sverrir og ég afsaka sein svör að minni hálfu, ég er stödd erlendis og mikið um að vera hjá mér þessa dagana. Ég hef engar sérlegar minningar af jólalestri en ég hinsvegar man mjög vel eftir fyrstu hljómflutningsgræjunum sem ég fékk um jól, þá 10 ára gömul, helst man ég þetta því þegar ég setti græjurnar í samband og kveikti á útvarpinu var lagið „The Bad Touch“ með Bloodhound gang í gangi; ég kann allann textann enn utanað.

SN: Engar minningar af lestri! Svei mér þá. En heyrðu: Ég á líka minningu af Bloodhound Gang. Ég er svo gamall að þegar ég var í grunnskóla sátu jafnaldrar mínir klukkustundum saman við útvarpstækið (ekki ég — of kúl eða utan við mig) og biðu eftir að vinsælustu lögin yrðu spiluð… og ýttu svo á Record og tóku þau upp á KASSETTU. Ég man að ein bekkjarsystir mín gómaði einmitt „The Bad Touch“ með þessum hætti. Og ekki bara það, heldur mætti hún með kassettuna í matreiðslutíma daginn eftir. Það var power move á þeim tíma. (Þetta var, félagslega, ein sterkasti einstaklingur Hlíðaskóla á þeim tíma og mjög taktískt að leyfa okkur að njóta Bloodhound Gang meðan við hömuðumst í matreiðslustofunni, öll klædd í hvítar svuntur.) Á einhverjum tímapunkti fékk ég það hlutverk, útataður í hveiti, að spila þetta merka framlag The Bloodhound Gang fyrir viðstadda í (á að giska) tólfta skipti í röð. Ég ætlaði að ýta á Play en ýtti óvart á Record og tók sem sagt yfir byrjunina á laginu. Fattaði þetta ekki fyrr en ég hafði eyðilagt fyrstu tuttugu sekúndurnar afþví. Stórslys. Matreiðslukennarinn varð þess vís að ég hafði gert axarskaft (bekkjarsystir mín hafði sem betur fer skroppið á klósettið) og ljóstraði því ekki upp hver sökudólgurinn hefði verið. Bekkjarsystir mín sneri aftur og táraðist af frústrasjón þegar hún fattaði hvað gerst hafði. Enn þann dag í dag veit hún ekki að ég bar ábyrgð á þessu.

En allavega, lestur, Aldís?

Aldís: Já, hvað lestur varðar þá skammast ég mín að viðurkenna það að ég les ekki nærri því jafn mikið og mig langar til, vegna þessa setti ég mér mjög einfalt markmið um 17 ára aldurinn: Að lesa bara “meistaraverk” (og handritin hans Ægis, aka: meistaraverk). Ég hef staðið við þetta markmið og yfir árin náð að vinna á mörgum af helstu meistaraverkum ritsögunnar.

SN: Úff, meistaraverk. Hljómar í senn æðislega og mjög þreytandi. Ég tek ofan fyrir þér.

Og svo síðast en ekki síst: stígðu keikur og heill inn í ráðuneytið, kæri Jón Magnús, hver er uppáhalds-líkamsræktin þín og hvort ertu meira fyrir te eða kaffi? Hverjir eru draumar þínar um framtíð Skandala — og framtíð þína sem einstaklings?

Jón Magnús: Hallú! Ég hef aldrei komist upp á lagið með kaffi og er því vart gjaldgengur í mannlegu samfélagi, hvað þá í skáldasamfélagi. Nema kannski í Englandi. Þar gæti ég sötrað mitt te í skömm. Þegar ég er ekki að arka um Þingholtin í mínum sjö mílna skóm eða veltast um sullsveittur með hálfnöktum karlmönnum þá er ég að vörka axlirnar með því að halda uppi byrðum heimsins. Cue fiðla. Eða fótsveppur. Framtíð Skandala flýgur og fellur með viðtökum lesenda svo ég ætla að leyfa spádómskúlunni að kúra undir sínu fjólubláa flaueli þar til fyrsta tölublað er komið út. Draumurinn væri samt auðvitað Nína. Vonandi á ég mér ekki framtíð sem einstaklingur. Þrái samveru.

SN: Nú langar mig að skjóta á ykkur nokkrum spurningum og þær mynda hlaðborð, fyrstur kemur, fyrstur fær (að svara). Þið megið endilega rífast og vera ósammála og eins svara sömu spurningunni tvívegis, þrívegis o.s.frv.

Fyrsta spurningin er alltof löng (ég virðist eiga það til að spyrja spurninga sem eru lengri en svör viðmælanda en ég skammst mín ekkert fyrir það) og svolítið klaufalega orðuð af minni hálfu en ég læt bara vaða:

Það loðir svolítið við samtímann, þar sem allir eru sítengdir og mögulegt er að slátra orðspori fólks á nokkrum klukkustundum í gapastokki internetsins, að ólíkar skoðanir fá ekki að mætast og skarast með tilheyrandi neistaflugi á gefandi hátt. Þess í stað lokast fólk af í loftlitlum bergmálshellum og þær skoðanir, sem fá mest læk, heyrast hæst. (En marglækaðar skoðanir/yfirlýsingar eru óhjákvæmilega oft svolítið óhugaverðar og klénar enda bókað að þær eru fyrirséðar og „réttar“ — annars fengju þær ekki svona mörg læk. Eða hvað?) Allavega, kannski er þessi súmmering mín bara klisja og bull? Ég held í hið minnsta að eitthvað sé til í henni…

Og ef svo er, þá óttast ég að þetta umhverfi ógni svolítið listsköpun. Við erum hætt að geta aðskilið sköpunarverk fólks frá persónu þess; ef leikstjóri kvikmyndar er staðinn að því að vera karlremba má ekki lengur fíla bíómyndirnar hans, jafnvel þó að leikstjórinn hafi til að mynda alist upp í allt öðru umhverfi en samtímans, fyrir fimmtíu árum, og óhjákvæmilega litast af því. Við trúum ekki á fyrirgefninguna, aðeins fordæminguna.

Og ekki nóg með það, eins þurfum við að passa okkur sérstaklega á því hvað við fílum, sem einstaklingar. Mér skilst að nú sé vafasamt að fíla listaverk nema þau hafi verið búin til af óflekkuðum einstaklingum. Það má til dæmis ekki lengur hlusta á Michael Jackson. Woody Allen hefur verið settur út af sakramentinu (hann hafði mikil áhrif á mig þegar ég var unglingur — bíómyndirnar hans. Og mér finnst erfitt að mega ekki lengur viðurkenna það.)

Eins má ekki lengur hlusta á Morrissey, sem lýsti nýlega yfir stuðningi við einhver öfgahægrisinnuð öfl. Það hefur hins vegar aldrei vafist fyrir mér hvort Morrissey er hálfviti eða ekki. Hann er hálfviti. (Reyndar hef ég aldrei hitt hann og því tæpt af mér að tefla fram öðrum eins sleggudómi.) Að því sögðu, þá var The Smiths ein uppáhaldshljómsveitin mín þegar ég hlustaði enn skipulega á tónlist. Plús að einmitt vegna þess að Morrissey er svolítill hálfviti finnst mér hann áhugaverður listamaður og áhugaverðari en þeir sem eru skotheldir, siðferðilega, og viðhalda geðþekkri birtingarmynd í fjölmiðlum. Morrissey er mannafæla, hefur tilhneigingu til þunglyndis, les mikið af bókum, lýsti einu sinni kóngafólki Englands sem „despicable people“ (sem mér fannst æðislegt) og nú vekur hann máls á því, með kannski svolítið klaufalegum hætti, að honum sé annt um menningu fæðingarlands síns. En það má ekki lengur; alþjóðlega gæskuhyggjan bannar slíkt og kallar það rasisma og þjóðernishyggju.

Sjálfur hef ég ekki gáfur til að mynda mér skýrar skoðanir á jafn stórum málefnum og næ ekki að súmmera upp þessar hugmyndir nema á afar yfirborðskenndan og flatan hátt. Ég er utangátta, lifi á vissan hátt fyrir utan líðandi stundu og hef, meðal annars af þeim sökum, aldrei sett samasemmerki á milli persónu listamanns og verka hans. Um leið er ég þó ekki svo skyni skroppinn að ég átti mig ekki á því að t.Ægird. hvítir karlmenn hafa löngum haft miklu greiðari aðgang að kapítali til að framleiða listaverk en t.d. flestar konur og ýmsir minnihlutahópar (þetta er þó aðeins að breytast til hins betra).

En sem sagt… Mér leikur hugur á að heyra hvaða skoðun þið hafið á þessu:

Oddný: Ég held að ég tali fyrir alla þegar ég segi að sambærilegar vangaveltur um tengsl listamanns við verk sín, sem og tengsl einstaklingsins við ímynd sína á opinberum vettvangi séu uppspretta vonar okkar um að Skandali geti þjónað sem vettvangur fyrir persónulegri tengsl milli listamanna og listunnenda. Skilin milli þessarra hópa þurfa ef til vill ekki að vera jafn skarplega dregin og í raun tíðkast. Satt að segja stendur mér á sama hvort fólk metur listaverk út frá siðfræðilegum-, — pólítískum eða einhverjum öðrum sjónarmiðum, svo lengi sem það telur aðra ekki verða að gera slíkt hið sama. Þetta eru mikilvægar spurningar sem verða ekki útkljáðar í eitt skipti fyrir öll og ættu því frekar að verða uppspretta að góðum samræðum. Við viljum hvetja fólk til þess að ræða eigin list og annarra, hvers vegna hún er list. Við erum öll svo ólík, kannski ef fleiri muna það búa fleiri til list. Ég vil allavega að meiri áhersla sé lögð á að fólk finni út hvað þeim finnist flott með því að búa það til, en að menn þurfi fyrst að að verða ´listunnendur’ til þess að yfirhöfuð mega reyna.

Aldís: Ég tæplega meika þetta umræðuefni og þó er það rauður þráður í flestum verkum mínum og eitthvað sem ég hef gríðarlegan áhuga á, sér í lagi á Íslandi þar sem við erum svo agnarsmá þjóð að ómögulegt er að fela sig í fámenninu. Skýrt og nýlegt dæmi um það er t.d. Ný-uppgvötaður “leyniaðgangur” leikarans Þóris Sæmundar á twitter, þar sem hann var undir nafninu @BoringGylfiSig. Hvað er langt síðan að málið með hann var í loftinu? Hverjum er ekki sama þó maðurinn haldi uppi einhverjum twitter aðgangi í leyni, fær maðurinn bara aldrei að vera í friði héðan af með nokkurn skapaðan hlut? Það er spurning. Er efnið sem hann deilir sem @BoringGylfiSig raunverulegur hugarheimur hans, eða bara eitthvað sem honum finnst fyndið? Nú ef honum finnst eitthvað fyndið, hversu mikið segir það um hans innstu hugarfylgsni?

Íslenskir bergmálsklefar eru mjög athyglisvert fyrirbæri og í litlu samfélagi er það algjör broddur að setja óheflaðar skoðanir sínar á netið, hvað þá að vaða út í ánna sem tröll. Til þess þarf eitthvað sem ég sjálf skilgreini ekki sem hugrekki, heldur klárt “don’t-give-a-fuck” viðhorf. Enda er ég persónulega bönnuð frá öllum íslenskum feminista-grúppum sem ég hef fundið (ég tek það fram að ég er 100% feminisi, ég einfaldlega berst gegn bergmálsklefum) og er þekkt sem tröll á mörgum af stærri grúppum þjóðarinnar og er gjarnan sökuð um að vera gervi-prófíll.

Mikið af minni myndlist er ekki bara gríðarlega persónuleg heldur hefur beina skírskotun og styðst jafnvel við myndefni úr mínu persónulega lífi, ég vinn með sjálfa mig, mínar upplifanir og hugarheim að mestu leyti. Ég get ekki séð hvernig sköpun ætti að koma annarsstaðar frá en úr eigin hugarheimi og ætti því með einhverju móti teljast sem einskonar speglun af listamanninum.
Það er þó ekki þar með sagt að dæma eigi listamanninn út frá verkum hans/hennar því eins og ég segi, þau eru speglun en ekki frummynd, stundum af listamanninum sjálfum, stundum af einhverju sem grípur áhuga hans/hennar. Hvað grípur áhuga okkar skilgreinir okkur ekki sem manneskjur, sögur munu alltaf bara vera sögur og myndir segja kannski meira en 1000 orð en mynd er þó bara stundarbrot. 1000 orð tekin úr samhengi.

Við veltum okkur of mikið upp úr syndum og sorgum annarra. Þær koma mér ekki við.

Tanja: Ég skil þá sem sniðganga verk listafólks sem hefur á einn eða annan hátt brotið af sér en ég skil líka þá sem gera það ekki, hef fengið ágætis rök fyrir hvoru tveggja. Sjálfri hefur mér ekki tekist að taka afstöðu til málsins, ég er þarna einhvers staðar fljótandi mitt á milli, kannski af því að mér finnst heimurinn ekki vera jafn svartur og hvítur og margir vilja meina að hann sé.

SN: Má maður t.d. fíla listaverk eftir skrímsli? Eftir einhvern sem er „vondur“?

Ægir: Fólk getur verið gott eða vont (þó það sé yfirleitt frekar hvorki né), en listaverk eru bara góð eða slæm. Vont fólk getur og hefur skapað góð listaverk og það er ekkert að því að fíla slíkt. Til dæmis eru landslagsmálverk Hitlers alveg frambærileg, ef kannski ekki framúrskarandi, en í það minnsta myndi ég ekki setja persónu skaparans fyrir mig þegar ég met gildi listaverka.

Aldís: Það segir mér enginn að allt í einu sé American Beauty orðin að slæmri mynd.

Það sagði mér maður um daginn að John Wayne Gacy hefði málað trúðamyndir. Sú umræða spratt út frá því að ég er með nokkrar slíkar uppi á vegg hjá mér. Þó ekki eftir hann. En semsagt, svo fylgdi sögunni að það væri maður nokkur sem ætti eina slíka. Geymdi hana í gestaherberginu. Svo fór það eftir skemmtilegheitum gestanna hvort höfundasaga málverksins fylgdi með áður en þau færu að sofa. Já það má. Það MÁ allt.

SN: Getur verið að dýrlingar séu ekki alltaf neitt mjög áhugaverðir?

Ægir: Margir svokallaðir dýrlingar eru reyndar ekkert sérlega áhugaverðir, í það minnsta ekki sem listamenn. Fyrir mér er það frekar einmitt persónueinkenni slíkra einstaklinga sem ég set fyrir mig þegar ég met list, frekar en einkenni þeirra sem fólk gæti kallað “illa”.

Í sambandi við listamenn og hvað má og hvað ekki sat ég einu sinni með fjölskyldu þar sem aldursbilið var 80 ár að horfa á íslenskt uppistand í sjónvarpinu og það var hlegið jafn mikið á báðum endum. Þar myndi ég segja að viðkomandi væri orðinn svo „safe” í sínu gríni að jaðrar við dýrling. Virkar það? Já. Er það mikil list? Neinei ekkert svo.

SN: Eru dýrlingar miklu áhugaverðari en djöflar?

Ægir: Veit ekki með það, en Bukowski er klárlega áhugaverðari en Evelyn Waugh.

SN: Hah! Er það samt? Ég á fimmtíu bækur eftir Bukowski (án gríns: ég var heltekinn af honum á táningsárunum) en dró einmitt út úr hillu af algjörri rælni á japönsku gistiheimili í gær bók eftir Evelyn Waugh og stakk niður í tösku. Hlakka til að lesa hana, ætlaði að gera það í næstu viku.

Aldís: Persónulega tel ég dýrlinga vera grunna falsguði, og djöfla flóknari, raunverulegri og betri að öllu leyti.

SN: … eða nei, þessi bók er ekki eftir Evelyn Waugh heldur Eudora Welty.The Optimist’s Daughter. Vúps. Afsakið ruglingin (og frammíköllin). Og já, kannski erum við öll djöflar?

Hvað finnst þér, Tanja?

Tanja: Það allra, allra áhugaverðasta eru djöfullegir dýrlingar.

SN: Já, þurfa listamenn ekki einmitt að geyma í sér öfgar og ólíka póla — bæði skrímsli og dýrling, illsku og gæsku, greddu og yfirvegun — til að geta endurspeglað heiminn?

Ægir: Öfgar sannarlega hjálpa við að skapa áhugaverð sjónarhorn á heiminn. Sönn snilligáfa þarf mögulega að búa yfir öllu en okkur hinum dugir stundum greddan til þess eins að skapa eitthvað allnokkuð sniðugt.

Við geymum öll í okkur allt ofantalið. Fer allt eftir sjónarhorni. Persónulega tel ég engan illan, sama hversu illt athæfið. Að valda öðrum skaða er alltaf byggt á ótta og vanlíðan. Stundum hættulegri heimsku. Að vinna úr skaða er flóknara. List getur dýpkað eða sundrast sjálf vegna ólíkra póla. Ginnungagap und alles.

SN: Þarf maður að vera pólítískt kórréttur til að hljóta brautargengi a) í heiminum í dag, b) hjá Skandala?

Ægir: a) Nei, en það hefur oft hjálpað, þó ekki endilega þessa stundina (sbr. Trump og co). b) Klárlega ekki.

SN: Á eitthvert ykkar sér eftirlætis-ljóðabók? Jafnvel ljóðlínu?

Ægir: Ég á mér nokkrar eftirlætis ljóðabækur. Fremstar meðal jafningja í íslensku deildinni eru Ræflatestamentið og Veggfóðraður óendanleiki eftir Ísak Harðarson. Í enskunni, Howl and Other Poems eftir Ginsberg. Ég á þrjár ljóðlínur sem eru nógu uppáhalds til að vera flúraðar á húð mína. Tvær þeirra eru „These fragments I have shored against my ruins“ úr The Wasteland T.S. Eliots og „Though lovers be lost love shall not“ úr And Death Shall Have No Dominion eftir Dylan Thomas. Þriðja línan er leyndó.

Jón Magnús: Dead MC Scrolls eftir Saul Williams. Brill stöff. Svo þykir mér fyrsta ljóðabók Halldórs Halldórssonar (Dóra DNA) með því betra. Alveg ótrúlega sönn og sár.

Tanja: Ein af fyrstu þremur bókum Einars Más. Man þó ekki hver þeirra og get ekki komist að því þar sem ég gaf hana frá mér í tilraun til mínímalísks lífstíls (mistök sé ég núna). Uppáhalds ljóðlínu, nei, held ekki. En uppáhalds ljóð, það er einhvers staðar í uppáhalds bókinni. Eitthvað um hagfræði og kartöflur og guð ef mig misminnir ekki.

Aldís: Úrvalsrit Gríms Thomsen er í miklu uppáhaldi hjá mér og Skólaljóðin fylgja mér yfirleitt flest sem ég fer. Ég er mjög hrifin af öllu eftir ísak Harðar og Jóhannes úr Kötlum. Svo finnst mér vert að nefna bók Ásgeirs H. Ingólfssonar, Framtíðin. Að lokum nefni ég Alþingisrímur sem er mjög áhugaverður ljóðabálkur (sér í lagi sjöundu rímu, Bakkusarríma).

SN: Hvor tilfinningin er betri: a) að ná augnsambandi við manneskju á skemmtistað og skynja gagnkvæma hrifningu og hugsanlegt hjónaband í framtíðinni, b) að ljúka við síðustu blaðsíðuna í framúrskarandi skáldsögu og finna þessa stóru, hlýju, alltumvefjandi tilfinningu gagntaka sig þegar allt kemur heim og saman í frásögninni?

Jón Magnús: Að láta hverjum degi nægja sína þjáningu er líka nokkuð magnað.

Tanja: Er það ekki sama tilfinningin?

Aldís: Er það eitthvað sem fólk er að upplifa?

SN: Já, ég hef það eftir áreiðanlegum boðleiðum, Aldís, að þetta sé mjög algengt.

En hvert ykkar er að lesa snilldarbók þessa dagana og vill gauka ábendingu að fróðleiksfúsu samfélagi Leslistans?

Ægir: Ég hef eiginlega ekki haft tíma til að lesa undanfarið. Er nýbyrjaður á Heimsljósi, sem er síðasta stóra Laxness bókin sem ég átti alltaf eftir. En þar sem ég sit hér í rúminu og horfi á bókahilluna dettur mér í hug að ég mæli aldrei nóg með smásögum J.G. Ballards, heildarsafn smásagna hans er ein besta bók sem þú getur eignast.

Tanja: Ég var að ljúka við Skegg Raspútíns eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur, setti hana beinustu leið í Við mælum með hilluna á bókasafninu. Svo verð ég að nefna Karitas án titils og Óreiðu á striga eftir Kristínu Mörju Baldursdóttur þó ég sé ekki að lesa þær. Magnaðar bækur. Ættu að vera skyldulesning.

Jón Magnús: Var að klára Kalak eftir Kim Leine. Svakaleg sjálfsævisaga þar sem heiðarleikinn blívur og ekkert verður samt.

Annars mæli ég heilshugar með The Amazing Adventures of Cavalier and Clay. Stórkostleg Pulitzer bók. Svo auðvitað One Day.

SN: Já, þær tvær eru góðar. Næsti?

Aldís: Ég er að klára síðustu tvo kaflana í bókinni The Spiders House eftir Paul Bowles (meistaraverk). Ég keypti hana á ferðalagi um Marokkó, nánar tiltekið í Tangier þar sem bókin er skrifuð, og hef ekki náð að klára hana. Bowles var staddur í Marokkó á mjög viðkvæmum tíma (1952–54) og skrif hans tóku mikinn lit af ástandinu. Hann rembist við að skrifa skáldsögu og byggja bókina ekki á sjálfum sér en þrátt fyrir það fjallar bókin um rithöfund, búsettan í Marokkó á þessum erfiða umbrotstíma. Bara forkaflinn frá Bowles er ótrúlega merkilegur.

SN: Hvert er áhugaverðasta hlaðvarp samtímans og hvers vegna? (Eða á maður kannski ekki að hlusta á hlaðvarp?)

Ægir: History in the Bible og Literature and History. Allir eiga að kunna skil á bókmenntaarfi vestrænnar menningar og þá sérstaklega Biblíunni, sérstaklega trúleysingjar einsog ég. Og allir mættu hlusta meira á útvarp.

Jón Magnús: Maður á svo hundrað prósent að öllu leyti að hlusta á hlaðvarp. Jafnvel horfa á það. Ég er ákafur talsmaður þess og ég sver, í alvörunni, að einn daginn mun ég gera það. Þetta er einn af mínum stóru draumum, að ég muni bara einn daginn smella og fara að hlusta því mig langar mjög til þess. Enn hefur þó ekkert gerst í þeim efnum þrátt fyrir endalausar ábendingar fólks sem ég met mikils. Skileggi.

Tanja: Er nýlega farin að hlusta á hlaðvörp, kunni ekki að meta þau fyrr en ég fann Normið. Ég get ekki farið að fullyrða að það sé áhugaverðasta hlaðvarp samtímans þar sem ég hef ekki hlustað á nema þrjú önnur en það er klárlega áhugavert. Skemmtilegt. Fyndið. Gott fyrir drifkraftinn og sálina.

SN: Já, þú trúir sem sagt á sálina, Tanja? Mikið gleður það mig að heyra.

Hvaða bók ætti að vera skyldulesning í a) grunnskóla, b) menntaskóla svo að krakkar og unglingar fatti hvað skáldskapur getur verið mikill snilld, að bækur eru í raun frumafl lífsins? Ég veit að krakkar eru þyrstir í að lesa eitthvað hresst sem þeir tengja við, en ég óttast að slíkt efni sé ekki alltaf borið á borð fyrir þá í kennslustofum landsins.

Aldís: The Razor’s Edge eftir W. Somerset Maugham ætti að vera skyldulesning í kringum 16–17 ára aldurinn og jafnframan alla sem einhverntíman upplifa lífskrísu, óvissu um sjálfa sig og stefnuleysi.

Jón Magnús: a) Falskur fugl, b) Fear and Loathing In Las Vegas.

Tanja: Ég veit ekki með grunnskólann en myndi segja Karitas án titils og Óreiða á striga fyrir menntaskólann, bara af því að það eru uppáhalds uppáhalds bækurnar mínar. Á sama tíma held ég samt að það sé of persónubundið hvað hrærir í fólki til að hægt sé að nefna bara tvær bækur. Það sem kveikir áhugann, kveikir skilninginn á snilldinni, hjá einum gerir það ekki hjá öðrum og þriðja og það sem kveikir það hjá öðrum og þriðja gerir það ekki hjá fjórða og fimmta.

SN: Er mikilvægt fyrir ritstjórn (and)menningartímarits að ganga einungis í jökkum eða annars konar yfirhöfnum með vösum sem rúma minnst eina bók? Eða eiga meðlimir ritstjórnar alltaf að vera með hliðartösku?

Ægir: Ég hef reyndar tekið uppá því í seinni tíð að ganga oft með hliðartösku, en það er aðallega því ég skipti úr minnstu bókunum í þessar aðeins stærri sem rúmast illa í vösum jafnvel á bestu frökkum. En annars eru krakkarnir allir farnir að hripa bara á símana sína, ég bekenni það ekki.

Aldís: Ég er alltaf með tvær litlar veraldir í vösunum á gallajakkanum sem ég geng hvað oftast í, stundum leynist þar bók, en því miður oftast bara eitthver vitleysa sem skilur eftir lítið pláss fyrir jafnvel litla kilju.

Jón Magnús: Einu sinni var ég skoppari og aðeins skoppari. Svo þroskaðist ég lengra (sorrí rapp) en í þá daga voru buxurnar svo baggy að það komst hæglega fyrir ein A5 í rassvasann til skrifa. Nú eða skrifta. Ég á þær allar ennþá (eins og raunar hvern snepil sem hef párað á) og loks verða þær gefnar út að mér látnum og fólk mun híja og hæja og skilja betur hvaðan ég kem.

Tanja: Vil helst ekki ganga um með neitt nema sjálfa mig.

SN: Almennilegt.

En hver er að ykkar mati besti íslenski höfundur 16. aldar? Nei, bara djók — myndarlegasti íslenski höfundur 16. aldar? Nei, líka djók. Spurningin er í raun þessi: Hvaða íslenski 16. aldar höfundur hefur haft djúpstæðust áhrif á ykkur sem hugsandi verur og einstaklinga?

Nei, nei, ég er að rugla. Það sem mig langar að vita er þetta:

Ein sterkasta minning mín frá því þegar ég bjó í París fyrir mörgum árum var að mæta í partí til vinkonu minnar og taka eftir því að fólk mætti með vín eða bjór að gjöf — og bækur. Einn gaur gaf vinkonu minni skáldsögu eftir W.G. Sebald og hún sagði bara, mjög hversdagslega: Geðveikt, takk!

Þetta hafði ég aldrei séð gerast á Íslandi. Mig grunar að margir gestgjafar í íslenskum partíum hefði kýlt mig ef ég hefði gefið þeim bók eftir þýskan rithöfund.

Eins tíðkaðist aldrei, þegar ég var yngri, að fólk mætti með vínflöskur og legði í púkk. Að allir deildu öllu. Þvert á móti: það ríkti eins konar andhverfuástand örlætisins. Fólk öskraði úr stofunni inn í eldhús: „Þetta er bjórinn minn!“ ef maður opnaði ísskápinn og renndi augunum yfir innihaldið. Eða þá að hinir slægustu földu vodkaflöskuna sína í fatahenginu svo að fulli, vandræðalegi vinurinn kláraði hana ekki líkt og helgina áður.

Haldið þið að menningin á Íslandi hafi batnað að þessu leyti? Gefa upprennandi vitsmunaverur í Reykjavík gestgjöfum sínum í partíum núorðið bókmenntir? Og deila menn núorðið með sér víninu?

Ægir: Mér er aldrei boðið í partý lengur því ég er vandræðalegi gaurinn sem klárar alltaf áfengi hinna 😦

SN: Leitt að heyra en þú getur sjálfum þér um kennt, Ægir.

Tanja: Það telst til tíðinda ef ég fer í partí, er yfirleitt farin að sofa áður en þau byrja. En í þau fáu skipti sem ég hef ákveðið að vaka fram eftir fyrir partístand hef ég aldrei orðið vitni að því að gestgjafinn fái bækur, eða bara gjafir yfir höfuð. Víninu er aftur á móti bróðurlega deilt, hef aldrei heyrt neinn hrópa „Þetta er bjórinn minn!“. Þó oft „Viltu sopa?“.

Aldís: Ég er nýkomin heim frá langri dvöl í Barcelona og hef ekki hætt að tala um hvað þetta er æðislegur partur af menningunni þar og algjörlega það sem heillaði mig mest við lífið úti. Hægt og rólega er þetta að breytast hér heima og það er munur á þessum málum á milli hópa. Ég hef reyndar bæði gefið og fengið að gjöf bækur í partíum hér heima, en íslendingar eru oftast nokkuð nískir á vínið nema viðkomandi eigi nægan pening, hópurinn hafi keypt saman eða sé vanur að deila almennt mikið. Nú eða ef einstaklingur er markvisst að tæma vínskápinn eins og ég t.d. gerði áður en ég fór út.

Jón Magnús: Einu sinni gaf ég gömlum vini tölusett eintak af ljóðabók Dags Sigurðssonar, Níðstöng hin meiri, á góðri sumbl stundu. Djöfull svíður það enn. Ætli ég hafi ekki líka skenkt honum bjór, helvítinu á honum.

SN: Haldið þið að í kringum Skandala sé að þéttast saman hópur höfunda, líkt og einu sinni gerðist í kringum Nýhil og Nykur (ef þið munið eftir þessum fyrirbærum), eða jafnvel Birting, svo að farið sé lengra aftur í tíma? Nýlegra dæmi, þó að aðeins öðrum toga, væru Meðgönguljóð. Deilið þið, sem hópur, einhverjum fagurfræðilegum útgangspunktum? Eða sameinist þið bara í glundroðanum og sköpunargleðinni?

Ægir: Það er aðeins of snemmt að svara þessari spurningu svo vel sé (og já, ég er nógu gamall til að muna eftir þessu öllu, nema kannski Birting). En ég vil gjarnan sjá þá þróun eiga sér stað. Vandinn er að við sem núna myndum hópinn deilum ekkert endilega fagurfræðilegum útgangspunktum, eða, það hefur ekki verið farið sérstaklega náið í það mál. Þetta stendur til bóta og markmiðið er að skerpa mjög á hugmyndafræði blaðsins í aðdraganda næsta tölublaðs. Þá vonandi sjáum við betur hvar við stöndum nákvæmlega og hvaða breytingar þurfa að eiga sér stað svo við getum skapað okkur sérstöðu. Hingað til hefur þetta verið fremur kaótískt, og ég vil raunar gjarnan halda því þannig að einhverju leyti, en að því sögðu sé ég æ meira hvað þarf að bæta í þessum efnum til þess að þetta verði ekki endasleppt verkefni.

Aldís: Ég virkilega vona að það verði til þess að myndist einhverskonar net, já.

Tanja: Ég segi eins og Aldís, ég vona að einhvers konar net verði til í kringum þetta. Finnst algjör óþarfi að allir innan þess deili fagurfræðilegum útgangspunktum, eiginlega þætti mér það verra. Ef allir eru alltaf á sömu blaðsíðu held ég að sköpunargleðin myndi staðna.

SN: Tek undir það — ég vona að við séum sem öll á gjörólíkum blaðsíðum. Af nógu er líka að taka.

Takk kærlega fyrir spjallið, kæri Skandali, og gangi ykkurvel. Ég hlakka til að fá fyrsta tölublaðið í hendurnar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s