Ráðunautur Leslistans: Birnir Jón Sigurðsson

Ljósmyndari: Leifur Wilberg

Sverrir Norland: Kæri Birnir Jón Sigurðsson, hjartanlega velkominn í ráðuneyti Leslistans. Og gjörsovel, hér er ristað brauð með hunangi og tebolli, allt í lagi ef það fer mylsna á gólfið. Svo segirðu mér bara ef þú vilt að ég loki glugganum, það kemur stundum svolítill trekkur og ég vil ekki að það slái að fólki á meðan vígsluathöfnin í ráðuneytið fer fram.

Birnir Jón Sigurðsson: Takk fyrir það Sverrir, og kærar þakkir fyrir að innvígja mig. Endilega hafðu gluggann opinn, kuldinn er fínn og ferskt loft enn betra.

Ég geri það.

Meðan við hámum í okkur ristað brauð langar mig að inna þig oggulítið eftir fæðingarsögu smásagnasafnsins þíns, sem nefnist Strá og var að koma út á streymi sem bæði raf- og hljóðbók (til hamingju með það), um hvað ertu að skrifa, hefurðu alltaf skrifað, kom af sjálfu sér að skrifa smásögur?

Foreldrar mínir segja oft sögu af sjálfum mér þar sem ég er inntur eftir því hvað mig langi að vera þegar ég verð stór. Ég svara að ég ætli að verða geimrithöfundur. Þar hef ég blandað saman tveimur kostum sem mér þóttu spennandi, annarsvegar að skrifa sögur og hins vegar að fara út í geiminn. Ég hef alltaf átt erfitt með að velja mér hlutskipti, og er alltaf að skipta. Táningsárin fóru í að elta drauminn um atvinnufótboltamennsku, ég skrifaði smásögur í menntó, ætlaði svo að verða kvikmyndagerðarmaður, fór þaðan rakleiðis í leikhúsnám og gaf svo út glænýjar smásögur fyrir skemmstu. Í dag er ég hvað spenntastur fyrir að keppa í utandeildinni í fótbolta. Ég hef hinsvegar fjarlægst drauminn um geiminn, og orðið í raun heimakærari með árunum. Íslenska náttúran spilar stóra rullu í bókinni og svo heitir safnið líka eftir einni íslenskustu jurtinni, stráinu. Mér finnst Ísland vera gult strá.

Í stráinu er einhver einmanaleiki, það er hluti af heild en stingst eitt upp úr jörðinni og persónurnar í smásögunum eiga það margar sameiginlegt að vera einar. Ég fjalla svolítið um allt róf einmanaleikans, þar sem hann er þrúgandi og yfir í huggulegheitin.

Annars er bara komið auga á þessar útskýringar í baksýnisspeglinum. Þegar ég skrifaði sögurnar hafði ég engin fyrirframákveðin þemu sem mig langaði að dreypa á heldur lagði ég áherslu á að gera aðstæðurnar fyrir skrifin sem bestar. Ég mætti snemma á morgnana á bókasafn Kópavogs og markmiðið var að dvelja með andrúmsloftinu og reyna þannig að draga fram orðin. Allt annað var bannað, mér varð að leiðast. Þegar maður kemst yfir fyrstu leiðindagrindina án þess að hrasa inn í afþreyingu þá er yfirleitt hægt að komast í flæði.

En af hverju smásögur spyrðu, kom það af sjálfu sér? Ég hafði sett mér markmið um að setja mér lítil markmið. Ég hef margoft ætlað að gera risastór verk. Skáldsögur sem ná utanum heiminn, bíómyndir sem sprengja formið eða röð leikrita sem slær í gegn eftir dauða minn. Ég sá fyrir mér að geta klárað smásögu. Og það gerði ég, 6 sinnum, í þessu safni.

Áttu þér minningu, frá því að þú varst agnarlítill, af því að gömul manneskja segði þér sögu? Ef svo er, manstu um hvað sagan fjallaði og hvernig stemningin var, á hvaða tíma sólarhringsins þetta gerðist? Mæddu vindar á glugga, kom birtan frá rafljósi eða vaxkerti? Hvernig hljómaði rödd sögumannsins?

Ég og systir mín vorum að gista hjá ömmu og afa. Í árskógum 6, stóru blokkunum neðst í Breiðholtinu, á tólftu hæð. Við erum í litla herberginu inn af anddyrinu, þar sem ég og systir mín fáum að gista þegar við komum í heimsókn. Í þessu herbergi er gólfsíður horngluggi sem skagar út úr veggnum. Þar er hægt að standa og horfa til beggja átta, eða niður á jörðina fyrir neðan og líða eins og maður sé við það að detta. 12 hæðir er hátt uppi í himninum. Ef skýin hreyfast nógu hratt er maður á skipi. En á þessu tímapunkti stendur enginn í glugganum, það er myrkur úti, og jú, vindurinn hvín innum litla rifu. Amma er að reyna að svæfa mig með sögu, systir mín sofnaði alltaf langt á undan. Þetta er ljúf saga, um hund sem er voða góður. Líklega til þess að sefa mig fyrir myrkrinu. Ég var oft myrkfælinn en í þetta skiptið vildi ég aðeins meira aksjón, eitthvað fútt. Mér leiðist lullið og botna söguna “og svo kom stór úlfur og át hundinn.” Mér finnst viðbrögðin hjá ömmu ekki nægilega mikil þannig ég bæti við, með eins mikilli dramatískri áherslu og 5 ára drengur getur: “Hann var grimmur”. Ég sé að amma tekur fyrir munninn og kæfir skrítin hljóð. Vindurinn ýlfrar. “Amma” segi ég með eftirsjá yfir þessum agalegu áherslum “ekki vera hrædd”.

Síðar hef ég komist að því að þessi niðurkæfðu hljóð voru víst hláturrokur sem en ekki angistaróp.

Heldurðu að það henti okkur yngri kynslóðum (til að mynda okkur), sem alist hafa upp umkringdar sjónrænum miðlum, einkum kvikmyndum, betur að skrifa styttri sögur? Smásagan er svo náskyld kvikmyndaforminu, hefurðu skoðun á því?

Það er allt að breytast. Ég held að þessi upprisa smásögunnar sem er í gangi á Íslandi þessi árin sé nátengd nýjum athyglisháttum. Kvikmyndin er lík smásögunni í formi en ég held að fréttaveitan og litlu rauðu tilkynningarnar séu líklega stærsti þátturinn. Ég skrifaði BA-ritgerðina mína í Listaháskólanum um Athyglishagkerfið og hvernig athygli er að breytast. Stærstu fyrirtæki dagsins í dag áttuðu sig á því að þau geta gripið miklu stærri sneið af athyglisköku neytandans ef hún er skorin í marga litla bita. Fyrirtækin laumast svo í sem flestar ferðir að veisluborðinu.

Ég víla ekki fyrir mér að svara einum skilaboðum á meðan ég bíð eftir hraðsuðukatlinum en myndi hins vegar aldrei grípa í Önnu Kareninu þegar ég sit á klósettinu. Okkur finnst gott að geta klárað af disknum, við erum alin upp til þess. Við fjárfestum tíma okkar í bitanum, það er eins gott að skilja ekkert eftir. Þegar við skrollum í 10 mínútur í strætó erum við ekki að skrolla í tíu mínútur, við erum að klára að innbyrða hundrað og tíu upplýsingabita og komum út með hreinan disk. Anna Karenína er eins og páskaegg sem klárast ekki fyrr en í júní. Þetta beintengist inn í það sem ég sagði áðan, litlu markmiðin. Að klára er eftirsóttara en að dvelja. Ég held að ótti við slæma tímafjárfestingu komi sterkt inn í þetta. Tíminn og athyglin hefur aldrei verið verðmætari, ef þú byrjar á smásögu sem þú klárar ekki er minni skaði skeður en með skáldsögu. En kannski er ég að koma svartsýnt að þessu. Mér finnst smásagan líka æðisleg. Smásagan er lítill biti af persónu sem þú nartar. Bragðið er í fyrirrúmi en ekki magafyllin. Smásagan er eins og tapas á meðan skáldsagan er sunnudagslærið.

Áttu þér höfunda sem þú heldur sérstaklega upp á? Eða aðra listamenn?

Það eru tveir höfundar sem stökkva fyrst upp í hugann. Andri Snær Magnason og Kristín Eiríks. Ég virðist aðallega laðast að íslenskum höfundum, ég veit ekki hvers vegna, eða jú, ég veit það, þau skrifa á íslensku, ég elska íslensku. Þau eru gífurlega ólík þessi tvö, hugmyndirnar hans Andra festast utanámér en ég límist inn í sögurnar hennar Kristínar og get ekki hætt. Þau eiga bæði gjörsamlega frábær smásagnasöfn sem voru mikill innblástur fyrir Strá, Sofðu ást mín og Doris Deyr. Svo komu þrjú smásagnasöfn út í fyrra sem hafa að geyma geggjaðar sögur, Kláði; Ástin, Texas og Keisaramörgæsir. Út fyrir ritlistina eru sænsku kvikmyndagerðarmennirnir Ruben Östlund og Roy Anderson í miklu uppáhaldi. Reyndar sá ég Q&A með Roy Anderson á Spáni um daginn þar sem verið var að sýna Du levande. Hann mundi enga punkta, hitti ekki í míkrófóninn og fattaði ekki að hann var að klóra sér í pungnum fyrir framan fullan sal af fólki. En hann var ótrúlega spenntur fyrir nýju myndinni sinni.

Hvaða staður á jörðinni hefur dularfullt aðdráttarafl á þig?

Fögrufjöll við Langasjó. Þar er einhver djúpur kraftur. Hann smýgur inn í þig og kitlar þig þannig að allt verður fallegt. Ég get ekki lýst því miklu öðruvísi. Maður hlustar bara á þögnina, horfir yfir jökulinn og brosir.

Hvað felst að þínu mati í því að vera ungur Íslendingur árið 2019, ef eitthvað?

Er sú ristaða súrdeigsbrauðsneið, sem er tilvist okkar yngri kynslóða, smurð með næringarsnauðu viðbiti útflattrar alþjóðamenningar — Netflix, lággjaldaflugi, kaffihúsum sem öll líta eins út og selja avókadóbrauð, sömu samfélagsmiðlum, þykjustudjúpum þáttum á borð við Black Mirror, afþreyingarmenningu sem boðar einsleitni og leitast við að skapa keimlíka neytendur, sem selja má sömu vörurnar, jafnt í Kaliforníu, á Reyðarfirði og í Mexíkóborg — eða er enn til eitthvað sem kalla mætti þjóðmenningu?

Það sem ég á við: Ég held að menning sé alltaf bundin stað, lókal fyrirbæri, og henti illa til útflutnings eða túristavæðingar (og deyi raunar í slíkum árekstri) og það umhverfi, sem við búum í auknum mæli við, litist meira af afþreyingargildum (selja sem flestum) en sannri menningu (sem er, eða var einu sinni, spegill sjálfsmyndar). Menning (kúltúr) er ekki söluvara heldur verður til, í samfélagi manna, yfir langan tíma. Í dag virðast fyrirtæki og afþreyingarveitur hins vegar svolítið vera að taka yfir þetta hlutverk, og litlum kúltúr á borð við Ísland, sem stendur slíkum risum aldrei á sporði, stendur ógn af. Sjálfstæð hugsun er ekki í tísku heldur frekar stofnanavæðing tjáningar.

Það sem ég er að rembast við að færa í orð af veikum mætti: Er tilgerðarlegt að tala enn um Íslendinga? Er Íslendingur kannski að voða litlu leyti frábrugðinn Dana eða New York-búa? Hvað gerir Íslending að Íslendingi? Stuðningur við einhverja hljómsveit í Eurovision, óp af áhorfendapöllum á fótboltaleik, rifrildi á íslensku á Twitter? Harðfisksát eftir lotu í WorldClass eða spjall við franskan túrista í heita pottinum í Vesturbæjarlaug um hvað sundlaugarkúltúrinn okkar sé mikil snilld?

Jú það virðist sem brauð smurð með Chileskum avókadóum sé orðinn þjóðarréttur milli- og efristéttarinnar. Athyglin er orðinn mikilvægasti gjaldmiðillinn og það fyrirtæki sem beytir bestu brögðunum til að krækja í hana úr hinum ýmsustu símavösum sigrar í leiknum. Lággjaldaflugfélög eru undanskilin alþjóðlegum kvótum um losun og við friðum samviskuna með því að planta niður einni hríslu eða svo — ef við nennum að finna vefsíðu og slá inn kortanúmer — en getum ekki hugsað okkur að sleppa þessari „löngu“ helgarferð sem er löngu plönuð, af því að það er ódýrara að fljúga til austur Evrópu en að taka rútuna norður. Það er skyldufag eftir menntaskóla að fara í heimsreisu — ég þekki það sjálfur — og í einhverju tölfræðisamtali heyrði ég að 83% af þeim sem ákváðu að leggja leið sýna í bíó helgina 26–28 apríl sáu nýjustu Avengersmyndina. 17% sáu eitthvað annað sem var í boði í öllum bíóhúsum heimsins. Það er starbucks-bolli í Game of Thrones og samkomur í félagsheimili Neskaupsstaðar hafa aldrei verið færri. Allsherjar herjandi alþjóðavæðing.

Ég hef einmitt verið að hugsa um þennan Lókal-kúltúr sem þú talar um undanfarið. Nú er ég listamaður í startholunum. Er ennþá í flokknum „efnilegir“ og á sama tíma hefur spurningin „til hvers er ég að gera þetta“ aldrei verið jafn ákallandi og nú á tímum loftslagsbreytinga. Ég ólst upp við þá hugmynd að ég ætti að gera hvað sem ég vildi, og ég fór í frí til útlanda á hverju ári. Nú vakar á yfirborði heimsins þessi krafa um allsherjarendurskoðun á okkar gildum. Ég held að ég sé af síðustu kynslóðinni sem á að gera það sem hún vill. Næsta kynslóð á ekki að gera það, en hún þarf að finna tilgang í því að gera það sem jörðinni er fyrir bestu. Og þá spyr ég mig aftur, „til hvers er maður að þessu?“ og þá held ég að þessi lókal kúltúr sé eitt svar sem ég get haldið í. Ég er til í að reyna að búa til einhverja lókal stemningu. Ef eina menningin sem þú neytir er harðsoðin alþjóðamenning þá hættir þér til að verða sama um nærsamfélagið þitt. Ég held að lókal kúltúrinn geti hjálpað við að tengja þig við staðinn, næra jarðveginn fyrir ræturnar þínar. Ef nærsamfélagið bíður rótunum ekki neitt hættir að vera spennandi að vera þar og þá verður auðveldara að glepjast af gylliboðum um sólarstrendur og hamingju í útlöndum og við rætum okkur upp í skýið, í alþjóðamenninguna. Með því að kippa hamingjunni úr nærsamfélaginu er hægt að selja hugmyndina um að hún finnist einhversstaðar annarsstaðar. Ég hata flughafnir, ég hef komið í þær allar. Um leið og nærsamfélagið okkar verður flughöfn með Joe and the Juice, Subway og Te og kaffi, þá höfum við tapað í tengslaleiknum en verðum fyrir vikið hinn fullkomni neytandi, síeltandi leifturhitaðar og gerilsneyddar hugmyndir um hamingjuna bandandi næringarsveltum rótum um háloftin í von um eitthvað, bara eitthvað.

Við þurfum að hætta að fljúga, metafórískt og bókstaflega. Við þurfum að ræta okkur. Og lókallinn þarf að sinna þessum rótum, því ég nenni ekki að hanga í tölvunni í enn annarri flughöfn.

Geturðu lesið sem farþegi í bifreið án þess að fyllast flökurð?

Það hef ég aldrei getað, mínum einlæga unga Andrésar-andar-aðdáanda til mikillar ógleði. Þá sérstaklega á hlykkjóttum fjallavegum neyddist ég hér og þar til að kalla eftir stansi og maka vegkantinn fyrir tilstilli allt of spennandi Jóakims Aðalandarævintýra.

Hverjar eru kjöraðstæður þínar sem lesandi (í freyðibaði, á sólbekk á Tenerife, uppi í sófa undir flísteppi og svo framvegis)?

Ég oft reynt þetta rómantíska senaríó að sitja með bók í baði en án árangurs. Ég verð þreyttur í höndunum og sífellt hræddur um að bleyta blaðsíðurnar eða missa kyndilinn í kaf. Ég hugsa meira um vatnið en textann. Ég held að sumarbústaðasófi hljóti að teljast í uppáhaldi. Það er einhvernveginn betri kaffilyktin sem kemur í bústað, og tíminn er ekki fylltur af jafn miklum kröfum um afköst. Ég hef reynt að lesa úti en veðráttan á Íslandi er yfirleitt of breytileg til að vera í réttum fötum og á Spáni verð ég hræddur um að brenna. Nema í október síðastliðnum. Í sófa í sumarbústað eða á Spáni í október síðastliðnum.

Hvers konar bók, ef nokkra, langar þig til að skrifa næst? Og finnst þér þú vera þú þegar þú skrifar, eða breytistu í einhvern annan, jafnvel marga?

Það eru alltaf ýmsir draumar á sveimi. Ég er að reyna þessa dagana að hugsa ekki egósentrískt um næstu bók heldur um hugmyndirnar sjálfar. Ég á það á hættunni að hugsa um verðlaunaafhendingar og umfjallanir í blöðum um merkisskrif í stað þess að hugsa um skrifin sjálf. Jú, já, mér finnst ögn klisjukennt að segja það en ég breytist í einhvern annan þegar ég skrifa. En ég veit ekki hver það er. Er það einhver annar? Er það önnur útgáfa af mér? Er það nær mér? Það er eitthvað við það þegar maður kemst á flug sem er heillandi. Þegar maður er búinn að sitja í klukkutíma og kasta og svo bítur hugmyndin loks á pennann. Þá gleymir maður sér í 40 mínútur við það að skrifa þessi þúsund-tvöþúsund orð á blað á meðan maður dregur hugmyndina inn. Það er best meðan það endist en svo er líka einhver fullnægja sem fylgir því að bíta í uggann á nýskrifaðri hugmynd, halla sér aftur í stólnum, dæsa af ánægju með að eitthvað gerðist þann daginn. Þá er hægt að standa upp, ganga út í glugga og horfa spekingslegur yfir umhverfið og líða vel.

Til að gefa einhverskonar steypu í þetta svar (eitthvað concret) þá blundar í mér barnabók. Vonandi í ToveJansson-PhilipPullman-AstridLindgren-AndraSnæs-stíl.

Hvað er fegurðin og hefur hún praktískt gildi? Finnst þér fegurðarskyn okkar í samtímanum af háum kalíber eða vanrækjum við fegurðina í daglegu lífi okkar?

Hmm. Þessa þarf að melta. Praktískt gildi. Ég hef farið í Guðlaugu á Akranesi undanfarið, verið í grennd við Skagann og skroppið. Það er falleg laug við sandinn og sjóinn. Mér finnst huggulegt að vera í fallegu umhverfi og það veitir mér ánægju. Kannski er praktískt gildi fegurðar falið í því að hún verður velmetin dægradvöl. Ég nýt hverrar mínútu betur í fallegu umhverfi. Mér finnst tíma mínum vel varið ef ég verð fyrir fegurðarupplifun. Ég sé aldrei eftir neinu ef það er í fegurð. Kannski hefur hún praktískasta gildið af öllu því hún gildishækkar tímann? Ég get bara talað fyrir mig og að mörgu leiti vanræki ég fegurðina. Að mörgu leiti ekki. Ég fer alltof sjaldan út á morgnanna (fegurðin er mest úti, sjóndeildarhringurinn og svo framvegis). Á sama tíma á ég kött, rækta plöntur, les fagurbókmenntir. Þessi spurning, vanræki ég fegurðina, er mikilvæg. Því ætti maður ekki að alltaf að reyna að stækka fegurðarkökuna? Því það er praktískt, eins og góður eftirréttur kíttar hún í glufurnar í maganum. En fyrst við vorum að tala um alþjóðavæðingu: Við þurfum að passa okkur á því að gerilsneyða ekki fegurðina, hún er best lífræn.

Orð að sönnu, kæri Birnir. Allt er best lífrænt. Ég hef raunar dvalist síðustu þrjár vikurnar á bóndabýli hjá japönskum vini mínum, sem er bóndi og ræktar einmitt lífrænt grænmeti (fimmtíu ólíkar tegundir!) — og ég hef ekki borðað betri mat á ævi minni og sjálfsagt ekki heldur heilsusamlegri (og svo hjálpar að róta sjálfur í moldinni). Ég finn ótrúlega mikinn mun, líkamlega. Ég er vanur því að rumska stirður, með hálfgerðan magaverk, og dauðþyrstur eins og í eyðimörk — en hér vakna ég sprækur sem lækur klukkan fimm og stekk ólmur fram úr rúminu. Eiginlega þekki ég ekki lengur þennan mann sem þó er ég. Við erum það sem við borðum og andrúmsloftið sem við hölum inn um nasirnar. Og hér er maturinn hollur og loftið tært. Og svo er annað: enginn reynir að selja manni neitt. Engar auglýsingar, engar búðir. Yndislegt.

Það er þetta með fegurðarskynið: ég held að við mennirnir séum fagurkerar og okkur líði vel þegar við erum í fallegu umhverfi, höfum vandaða hluti fyrir augunum, sjáum að aðrir leggi alúð í hlutina. Er það ekki að lifa góðu lífi, að gera hlutina vel og tengjast umhverfi sínu? En það er alveg lygilegt hversu litla áherslu við leggjum í að hafa hlutina fallega. Til hvers að vera til ef það mætir afgangi? Einhvern veginn upphefja skyndibitakeðjur á borð við Joe & the Juice ekki slík gildi og ég óttast að þetta umhverfi dempi okkur og lempi. Síðkapítalisminn er það sem eftir stendur þegar öll gildi hafa verið þurrkuð út. Sá sem drekkur úr fallegum kaffibolla — og nýtur þess — er líklegri til að vera örlátur og gera gott en hinn sem hrærist í umhverfi sem gengur út á að selja okkur fjöldaframleitt ljótt drasl allar vökustundir (veit að þetta hljómar væmið en svona er þetta bara). Þú getur ekki ímyndað þér hvað ég var feginn að komast burt frá New York (þar sem ég bjó í nokkur ár). Ég veit satt að segja ekki hvert þetta stefnir og lenti meira að segja sjálfur í krísu, eins og þú lýsir aðeins, varðandi listsköpun og umhverfismál; til hvers að sitja einn í herbergi og búa til vandamál, búa til persónur, þegar svona mörg aðsteðjandi vandamál hreinlega dverga okkur sem einstaklinga? En… ef við hættum að trúa á listina og skrifa sögur — og þar kikkar praktískt gildi fegurðarinnar inn — til hvers að vera til? Og þá værum við kannski ekki einu sinni að pæla í þessu heldur bara í nettri sveiflu á Joe & the Juice.

Til hvers að vera til ef fegurðin mætir afgangi? Þetta er góð spurning og ég spyr í kjölfarið: Hvar er fegurðin? Ég er sammála þér í því að hún búi í alúðinni sem fólk leggur við hluti. Alúð skapar fegurð og þá spyr maður sig: Drepur fjöldaframleiðsla sjálfkrafa fegurðina? Hún finnst ekki í einnota umbúðum, umbúðir sem eru skapaðar hundruðum saman á hverri sekúndu, hverjar og einar með lágmarksvinnu og lágmarksalúð. Kemur fegurð með tíma? Glæný borvél er tilkomumikil en vél afa þíns býr yfir einhverskonar fegurð, handbrögðin sjást utaná henni, maður finnur fyrir snertingu við tíma. Það er auðvitað ekki samasemmerki milli alúðar og tíma annarsvegar og fegurðar hins vegar, það þarf að bæta einhverju óþekktu inn í uppskriftina í hvert sinn, en ég held að þessir tveir eiginleikar myndi grunninn að fegurðinni. Og skáldsögur búa svo sannarlega yfir hvoru tveggja. Það verður verðugt verkefni næstu árin að finna þessi tvö innihaldsefni í samfélaginu sem byggir allt á hraða og skilvirkni. Kannski er lykillinn að hægja á?

Vinur minn útskýrði fyrir mér um daginn hvers vegna auglýsingaskilti í umferðinni eru svona stór. Þegar við keyrum inn umferðaræðarnar á 90 kílómetra hraða á klukkustund þá minnkar allt í umhverfinu og því þurfa skiltin að vera stærri til að möguleiki sé að lesa á þau. Kannski er fegurðin í eðli sínu smávaxin. Kannski er hún lyng í hrauni sem hægt er að leggja andlitið á eins og kodda. Og kannski missum við af henni um leið og við leggjum hraðbraut gegnum hraunið, fyrir aukið flæði, og þjótum framhjá á 90 kílómetrum á klukkustund.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s