Ráðunautur Leslistans: Hermann Stefánsson

IMG-20190426-WA0001 (1).jpg

Hermann Stefánsson ásamt argentíska höfundinum Samöntu Schweblin. Nýlega kom út á íslensku skáldsaga hennar Bjargfæri, í þýðingu Jóns Halls Stefánsson, bróður Hermanns.

Fyrsta bók Hermanns Stefánssonar kom út árið 2003, Sjónhverfingar hét hún, skáldfræðirit, og árið eftir fylgdi smásagnasafnið Níu þjófalyklar. Síðan þá hefur Hermann sent frá sér fjölda bóka, ljóð, skáldsögur, minningaskrif, meðal annars hina frábæru Spennustöðin — stílabók(Tunglið: 2014), kostulega glæpasögu, Hælið (1005 tímaritröð: 2013), skáldsöguna Leiðina út í heim (Sæmundur: 2015), þar sem höfundur snýr upp á barnasöguna Palli var einn í heiminum, og Bjargræði (Sæmundur: 2016), um kraftaskáldið Látra-Björgu. Þá hefur Hermann þýtt verk erlendra höfunda, meðal annars Juan José Millás, Manuel Rivas og Zizou Corder, og þýðing hans á Fásinnu eftir Horacio Castellanos Moya er sérdeilis vel heppnuð. Ég tók Hermann tali í tilefni af útgáfu flunkunýrrar bókar eftir hann, Dyr opnast, sem er kímerubók.

  • Sverrir Norland

Sverrir Norland: Kæri Hermann Stefánsson, vertu velkominn í ráðuneyti Leslistans og hjartans hamingjuóskir með nýju bókina þína, Dyr opnast. Hvaða dyr eru það sem hér opnast okkur?

Hermann Stefánsson: Takk fyrir hamingjuóskirnar. Auðvitað vonar maður að dyr opnist að einhverjum nýjum sannleika hverju sinni með bækur en getur ekki vitað það.

Já, ég held að það sé mikilvægt að opna sem flestar dyr og helst glugga líka. (Hver var það aftur sem sagði að það væri einkenni á greindum og skýrum mannshuga að geta hýst tvær öndverðar skoðanir samtímis?)

Fyrsta skrefið í vígsluathöfninni er jafnan sáraeinfalt og svohljóðandi: Ertu að lesa eitthvað bitastætt í augnablikinu, og ef svo er, í hverju leynist sá galdur?

Ég er með ansi margar bækur opnar eins og endranær en er kannski ekki alveg á góðum lestrarfasa þessa dagana, hef verið eitthvað svo upptekinn. Eina af þessum bókum er ég búinn að treina mér lengi að lesa. Það er bók sem er í algeru uppáhaldi hjá mér, bara bókin mín, hreinlega: Meistarinn og Margaríta eftir Mikhaíl Búlgakov í þýðingu Ingibjargar Haraldsdóttur. Ég hef hreinlega ekki þorað að lesa hana aftur af ótta við að eyðileggja fyrstu lestrarupplifunina með þeirri nýju, sem verði ekki eins góð, ekki eins mikil hugljómun. Ég þóttist einhvern veginn muna hana svo vel, ég gæti bara flett upp á hvaða blaðsíðu sem er í kollinum og þyrfti ekki að endurlesa. Maður les heldur aldrei sömu bókina tvisvar, annar lestur er alltaf öðruvísi. Eiginlega óttaðist ég mest af öllu að mér myndi hreinlega þykja þessi bók sem ég hef dýrkað svo lengi barasta léleg. Hrifnæmi mitt væri bara farið. Þessar áhyggjur reyndust blessunarlega ástæðulausar. Mér finnst Meistarinn og Margarítaenn stórkostleg bók. Að vísu hafði ég í minninu bætt við hana einu atriði eða ýkt það upp en ég er viss um að ég finn það aftur þegar ég fletti upp í bókinni að lestri loknum. Svo furða ég mig einhvern veginn svolítið á hvað ég sjálfur, eða bara allir, hafa verið opnir og læsir á bækur. Núna hef ég meiri tilhneigingu til að flokka hana sem erfiða og tilraunakennda bók. Á sínum tíma fannst mér hún hreinn skemmtilestur, furður og dásemdir út í gegn. Auðvitað breytist orðaforði tungunnar hratt, það gæti verið skýringin. Bókin var skrifuð á Stalínstímanum og kom ekki út fyrr en 1966 aldarfjórðungi eftir dauða höfundarins, og þá fyrst í ritskoðaðri útgáfu. Eða er ég kominn út í aðra spurningu? Myndirðu spyrja mig um efni bókarinnar og galdur hennar?

Já, efni bókarinnar? Það er nú sjálfsagt ýmsum lesendum kunnugt. Sjálfum fannst mér Meistarinn & margaríta frábær þegar ég las hana á unglingsárunum, „hreinn skemmtilestur“ og enn glórir sterkt af minningunni. Mig grunar að hún haldi velli hjá hinum fínt stilltari vitsmunaverum þjóðarinnar, einnig þeim yngri. Ég hef ekki endurlesið hana (geri það einn daginn). Nefnd skáldsaga Búlgakovs hefur greinilega reynst mörgum af okkar frumlegri rithöfundum gott veganesti; þér og hér er annað dæmi.

En hvernig barn varstu, Hermann? Varstu yfirhöfuð einhvern tímann barn?

Ég veit ekki til þess að ég hafi nokkru sinni hætt að vera barn. Alla vega ætti það að vera manns helsta takmark í lífinu, að glata ekki barninu í sjálfum sér. Það er mitt mottó og hefur alltaf verið. En ég var rólegt og blítt barn og frekar feimið. Það þurfti lítið að hafa fyrir mér. Ég mælti varla orð af vörum fyrstu fimm ár ævi minnar en byrjaði þá að tala og var altalandi. Hafði bara ekki fundist ástæða til að blanda mér í umræðuna fram að því. Enda er tungumálið svo sem stórhættulegt og best að segja sem minnst. Líklega var ég svolítið melankólískt barn því ég kynntist dauðanum snemma, eins og svo sem margir. Ég las mikið sem barn. En ég var líka fjörugur og ærslabelgur. Ég átti góða vini. Besta vinkona mín alveg frá eins árs aldri var Halldóra Geirharðsdóttir leikkona sem bjó við hliðina á mér og og fór með mér í gegnum alla skólagönguna alveg frá leikskóla, sú vinátta helst enn. Það var mikið fjör í götunni, líflegir útileikir og mikil sköpunargleði í ímyndunarleikjum. Það var líka samheldni í krökkunum og árið sem Sverrir Guðjónsson söngvari var kennarinn okkar var það besta. Ég las það annars í Meistaranum og Margarítu að fólk breyttist ekki, væri alltaf eins. Ég las líka þar að ragmennskan væri versti lösturinn. Sem barn var í mér blanda af feimni og fífldirfsku. Ætli ég sé ekki þannig ennþá.

Bækurnar þínar eru ólíkar eins og þær eru margar. Er það meðvitað? Heillastu af höfundum sem eru ólíkindatól og leita helst á nýjar slóðir með hverju verki?

Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki neitt í neinu þegar fólk segir að ég sé ólíkindatól. Ég kvarta ekkert yfir því en sjálfur upplifi ég mig ekki þannig og geri ekkert til að vera ólíkindatól, mér vitanlega. Er þetta ekki bara annað orð yfir húmor? Húmor er auðvitað dauðans alvara eins og einhver sagði. Ég upplifi mig sem hreinskilinn og blátt áfram, einlægan og stundum kannski óþægilega gefinn fyrir að segja satt og stríða fólki, það er bara í ættinni. En maður ræður sem sé ekki yfir upplifun annarra á sér. Né heldur á bókum sínum. Ég er sammála þér að bækur mínar séu ólíkar. Sumir segja að þær séu „hermannskar“ og það má alveg, ég verð ekkert fúll, en mér finnst sjálfum að þær séu gerólíkar, þótt eflaust megi sjá ættarmót með þeim. Ef þær eru ólíkar felst það einfaldlega í því að ég kann ekki að skrifa bækur. Eða með öðrum orðum: Ég held að það sé ekki hægt að kunna að skrifa bækur vegna þess að það er sín aðferðin við hverja þeirra og þá þarf alltaf að byrja upp á nýtt. Læra nýja aðferð. Ég var á Iceland Writers Retreat hennar Elizu Reid í ár og enski rithöfundurinnn Sarah Moss lagði til þá aðferð sína við skáldsagnaritun að skrifa fyrst skáldsögu, henda henni svo (og tæma ruslið) og byrja alveg upp á nýtt á sömu skáldsögu, eftir minni. Þetta er frábær aðferð sem ég blóðöfunda hana af. Ég hef aldrei gengið svona langt þótt ég hendi miklu, ég geymi alltaf einhver öryggisafrit þótt ég sé komin að næstu drögum. Ég væri til í að prófa þetta. En annars er það svo að mér finnst ég þurfa að leita á nýjar slóðir með hverju verki, eins og þú segir — og stundum er maður lengi að komast út úr eigin bók, ég er fyrst núna að komast almennilega út úr skáldsögu minni Bjargræði, með nýrri bók, sem mér finnst sjálfum að sé gerólík henni. Ég henti ofboðslega miklu, alltof miklu, en svo bætti ég mörgu af því við aftur og meiru til því að það þýðir ekki að editera lífsmarkið úr bók.

Nei, það er auðvelt að editera allt líf úr list, við þurfum líka subbuskap, óreiðu og annmarka.

En heldurðu kannski, Hermann, að heimurinn yrði betri staður ef bækur hyrfu og öll samskipti færu fram í gegnum lítið rafbox sama stórfyrirtækisins með atbeina eins og sama forrits sama stórfyrirtækis? Heldurðu að slík þróun hafi örvandi áhrif á listsköpun, tjáningu og einstaklingshugsun?

Hvað meinarðu með „ef“? Erum við ekki komin á þennan stað? Og nei, ég finn það best á sjálfum mér að hugsunin breytist. Ég hætti á Facebook fyrir nokkrum mánuðum, enn eitt skiptið. Stefni ekki þangað aftur. Ég ætla ekki að vera með neitt svartagallsraus en ég held að það þurfi að taka það alvarlega sem margt bendir til, að félagsmiðlar séu varasamir fyrir margvíða hugsun, breyti einbeitingunni, hindri ýmislegt sem gott er, séu jafnvel hættulegir bæði lýðræði og skapandi hugsun, enda þótt þeir séu til margra hluta nytsamlegir og umfram allt: Skemmtilegir (annars væri enginn á þeim).

Stórskemmtilegir — og fá mig reglulega til að rifja upp hina ágætuAmusing Ourselves to Death eftir Neil Postman.

En hvaða ljóðskáld hæfir þig alltaf í hjartastað?

Þorsteinn frá Hamri. Síðustu ár hef ég í rólegheitum verið að þýða argentínska stórskáldið Alejöndru Pizarnik. Hún er svona uppgötvun löngu síðar, það bar lítið á henni meðan hún lifði (til 1972) en nú er hún á allra vörum í hinum spænskumælandi heimi. Reynar hæfir hún mig mjög í hjartastað og ég get ekki verið við þessar þýðingar lengi í einu, hún er svo biksvört. Bandarískur útgefandi hennar sagði mér að þeir sem hefðu spreytt sig hefðu hver og einn einasti næstum þurft frá að hverfa vegna þungbærra hugsana, sjálfsvígshugsana. Ráðlagður dagskammtur er sem sé ekki mikill og mér liggur ekkert á.

Ertu sammála því að vélin í gangvirki skáldskaparins sé minnið og því mikilvægt að höfundar reiði sig ekki um of á minnishækjur við skrifin, svo sem sítengingu við netið, og geti flögrað frjálsir um eigin huga með allri þeirri frelsandi gleymsku og glöpum sem jafnan ríða mannshöfði? Eru rangfærslur og misskilningur jafnvel skáldskapnum nauðsynlegt fóður?

Minnið er auðvitað kolómöguleg vél og þarf alls kyns hækjur. Það má sjá Wikipediu stað nokkuð víða og sú heimildavinna er einhvern veginn öðruvísi en heimildavinna með bókum, þetta verður gagnsærra. Maður sér þetta líka í sjónvarpsefni; ég hef verið að horfa á þá frábæru þætti Elementary á Netflix og stundum er neyðarlegt hvernig litlir fróðleiksmolar koma augljóslega beint af netinu, í gegnum handritshöfundinn og í munninn á Sherlock Holmes sem á að hafa þetta allt í kollinum. Ég held að það sé vert að skrifa með penna og nota minniskompur alla vega að einhverju leyti við skáldskaparskrif. Samband líkamans við textann verður allt annað þegar skrifað er með penna, það er líkamlegur verknaður að skrifa með penna og sá verknaður hefur líka annað samband við minnið en skrif á tölvu með aðstoð netsins.

Þú hefur löngum laðast að spænskum bókmenntum, ekki satt? Hvað finnurðu þar?

Sumt af því sem ég er hrifnastur af í spænskum bókmenntum eru hreinræktaðar héraðsbókmenntir frá Galisíu. Þaðan var stutt til Parísar í heimsmenninguna en fyrir var allskonar furðumenning, nornamenning, galdrar, þjóðlegir kenjar. Blandan af módernisma og þessu er svo ofboðslega fín. Margt af því sem ég er hrifnastur af er frá Suður-Ameríku, oftast kannski Argentínu þar sem var ótrúlegur suðupottur á síðustu öld. Það nýjasta er nýútkomin bók eftir Samöntu Schweblin sem heitir Bjargfæri (titillinn minnir mjög á bók eftir mig, Bjargræði, en hann er þýðandans, Jóns Halls bróður míns, sem fékk góðfúslegt leyfi hjá mér einfaldlega vegna þess að þetta var besta lausnin á merkingu titils á frummáli). Ég ataðist töluvert í að fá þessa bók útgefna, það vildi þannig til að við bræður fengum samtímis þá hugmynd að þýða hana án þess að vita af hugmynd hins. Ég vék eins og yngri bróður sæmir. Samanta kom á bókmenntahátíð og við héldum sameiginlegt útgáfupartý, með brúðuleikhúsi, upplestri og ekki síst Megasi og hljómsveit, mér fannst þetta algerlega frábært útgáfuteiti. En Samanta Schweblin er eiginlega eitthvert alstærsta nafnið í bókmenntum hins spænskumælandi heims í dag. Þetta er ansi svört bók. Hún hefur einstakt lag á hinu ósagða. Gefur mátulega litlar upplýsingar — það verður ansi hrollvekjandi, nístir mann. Kannski er þetta einmitt svipuð blanda af nútímaskáldskap og þjóðlegum kenjum og heillar mig við galisískan héraðsmódernisma. Í það minnsta finnst mér Samanta Schweblin vera eitt af því merkilegasta sem er að gerast í bókmenntum heimsins í dag.

Hvaða lykt fyllir þig fortíðarþrá og hvers vegna? Fyllir einhver þefur þig alveg sérstakri skelfingu?

Lyktin af tartalettum er góð. Þá langar mig til ömmu minnar sem hafði þær um jólin. Sama má segja um steikta rauðsprettu. Stundum finn ég ávæning af ofboðslega megnri og sérstakri lykt sem barst úr lestinni á loðnuskipi lengst norður í höfum sem ég var háseti á eftir að loðnan var orðin dragúldin. Hún fyllir mig dálítilli skelfingu vegna þess að hvort tveggja kviknaði í skipinu svo það næstum sprakk og svo var það næstum sokkið. Loks varð það vélarvana. Stundum berst þessi lykt með vindinum. Ég veit ekki hvaðan.

Ertu ánægður með nýju bókina þína? Hvernig vonastu til að henni verði tekið?

Já, ég held að ég sé bara ansi ánægður með hana. Ég vonast auðvitað til að henni verði tekið vel og ég hef fengið mjög góð viðbrögð. Það er kannski alltaf hætta í samtímanum að fréttapunktur yfirtaki viðtökur á bók, ég hef verið spurður mikið út í einn textann, „Vitaverðir rjúfa þögnina“. Það er marglaga texti, ekki einvíður. Það verða stundum til miklar umræður um bók sem fólk hefur ekki lesið. Það er kannski ekki það vitrænasta en ég er ekkert að kvarta.

Hefur fólk í litlu samfélagi eins og Íslandi tilhneigingu til að hampa bragðdaufu en samþykktu miðjumoði, t.d. í bókmenntum — verkum sem þeim, sem hrósinu útdeilir, stendur sjálfum lítil ógn af — og forðast að draga það sem raunverulega sker sig úr, er bitastætt og dýrmætt, um of fram í dagsljósið, af ótta við að slík aðgerð kynni að afhjúpa viðkomandi (þann sem hrósar) sem einmitt en einn meginstraumsfiskinn, jafnvel einungis pósufiman loddara?

Transgressívar bókmenntir eru kannski ekki beinlínis í algleymingi á Íslandi í dag. Þá er öruggast að hampa því sem ekki ögrar nema mátulega mikið, því sem ýtir á réttu takkana. Eftir að kommúnisminn féll fögnuðu menn ákaflega, meðal annars vegna þess að nú væri ritskoðun bókmennta úr sögunni, þeirrar sem sópaði m.a. Meistaranum og Margarítu út af sviðinu. Á þeim tíma tók ég svolítið viðtal við Álfrúnu Gunnlaugsdóttur (sem aldrei birtist). Hún varaði við því strax þá að menn skyldu kannski ekki fagna um of og ekki gerast of hróðugir, það væri ekki öruggt að kapítalisminn reyndist ekki jafn harður eða harðari húsbóndi þegar upp væri staðið, þótt hann notaði allt aðrar aðferðir og væri ísmeygilegri. Annars var ég fyrst núna að koma mér að því að lesa Ég er sofandi hurð eftir Sjón og er ansi hrifinn. Ritskoðunin sigrar sannarlega ekki alltaf.

Ég rak mig á það, þegar ég var að fara yfir útgáfulistann þinn, að ég virðist oftar en ekki hafa lesið verk þín í flugferð: Ég gleypti Hælið í mig í flugi til Frakklands, þýðingu þína á Fásinnu eftir Horacio Castellanos Moya las ég í flugvél á leiðinni til Íslands (og fannst ég hafa himin höndum tekið) og Bjargræði las ég einu sinni á leiðinni heim til New York. Ætli þetta sé tilviljun? Nýtur maður verka þinna best í háloftunum?

Og ætti ég að þjást af flugskömm? Eigum við öll að skammast okkar sem mest, sem oftast?

Það heitir „flugviskubit“, er það ekki? Ég er ekki sannfærður um að flugviskubitið muni vera það sem sigrar loftslagsvandann. Það fá ekki nógu margir nógu mikið flugviskubit. Að flokka plast? Er það mikið meira en örlítið viðleitni eða í versta falli friðþæging smáborgarans? Það eina sem getur spornað við vandanum eru stórfelldar stjórnvaldsaðgerðir. Mér er til efs að framtíðin beri annað í skauti sér en kvóta á flug. Í ljósi þess að stjórnvöld heimsins hafa ekki veitt miklu fé í að finna upp rafmagnsflugvélar. Nú mótmæla börn fyrir utan Alþingi á föstudögum. Vel að merkja fyrir utan Alþingi, ekki á bensínstöðvum eða flugvöllum. Hvað merkir það? Hlýtur það ekki að fela í sér beiðni um sterkt ríkisvald? Á loftslagsráðstefnum kemur alltaf upp það vandræðalega andartak þegar einhver bendir á að Kína hefur tekið forystuna í loftslagsmálum. Kína er alræðisríki. Grenndarkynning í lýðræðisríki felur í sér samtal og samráð við haghafa og allt það. Grenndarkynning í Kína felur í sér að yfirvöld segja plastpokaframleiðandanum bara að nú sé hann hættur þeirri framleiðslu. Ef hann ekki hlýðir því er hann bara settur í fangelsi eða skotinn. Það er mjög effektív grenndarkynning að skjóta fólk. Í norrænu þingunum er núna rætt um að gefa umhverfisráðherrum miklu meira vald en áður hefur verið, kannski ekki alræðisvald en vald til að taka fram fyrir hendurnar á öðrum ráðherrum þegar eitthvað liggur fyrir sem eykur loftslagsvandann. Auðvitað má fólk hafa flugskömm, ég tala nú ekki um þegar það flýgur mörgum sinnum á ári til þess eins að taka þátt í ráðstefnum um loftslagsvandann — og það jafnvel á einkaþotum — og sér ekkert athugavert við þetta, óskar sér bara hjartanlega til hamingju með hugsjónastarfið. En flugviskubitið leysir ekki vandann. Sjálfur flýg ég reyndar sáralítið en kannast vel við hvað það er gott að lesa í flugvél, það stafar ekki síst af því að þá er slökkt á netinu. En ég vona að það sé hægt að njóta bóka minna á jörðu niðri líka, að þær feli kannski í sér eitthvert flugtak sjálfar.

Já, það er gott að lesa í flugvél — en best er reyndar að lesa í lest. Og ég vona að lesendur hafi notið þess að þræða sig í gegnum þetta spjall okkar, kæri Hermann (og hafi jafnvel gert það í lest) og svo óska ég þér alls hins besta. Hjartanlega velkominn í ráðuneytið.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s