Bækur, 17. maí 2019

Gagnrýnandi The London Review of Books er sammála mér í því að nýjasta skáldsaga Ians McEwan, handhafa alþjóðlegu Halldórs Laxness-verðlaunanna í bókmenntum, sé vindhögg. Ekki svo sem í frásögur færandi nema fyrir að ég rak augun í að greinarhöfundur vitnar í aðra bók, Murmur eftir Will Eaves, sem fjallar einnig um gervigreind og teflir fram sömu sögufrægu persónu og kemur fyrir í Machines Like Me eftir McEwan, enska stærðfræðingnum Alan Turing (1912 – 1954). Turing er aukapersóna í verki McEwans en í aðalhlutverki í hjá Eaves. Og Murmur er raunar frábær bók. Ég las hana fyrir nokkrum vikum í kjölfar þess að ég kynntist Eaves á Cúirt-bókmenntahátíðinni á Írlandi. Ljóðræn og falleg skáldsaga, sem hefur að útgangspunkti þegar Turing var handtekinn fyrir að svala holdlegum fýsnum sínum með ungum karlmanni, og var í kjölfarið dæmdur til þeirrar refsingar að vera geldur með lyfjagjöf; í sögunni taka honum að vaxa brjóst, sem auðvitað er ansi háðuleg refsing fyrir karlmenn sem ekki sækist eftir slíkri breytingu á líkama sínum. Afar sérstök og ljóðræn skáldsaga sem tekur á margvíslegum hugmyndum um eðlisfræði og sjálfsmynd, greind og mannleg samskipti. (SN.)

Flestir eiga í erfiðleikum með að skilja og meta samtímalist. Ég hef oft gert tilraunir til að fá fólk til að kunna að meta slíka list og mistekst það í flestum tilvikum. Þegar ég byrjaði að vinna á Viðskiptablaðinu á sínum tíma gerði ég nokkrar heiðarlegar tilraunir til að „mennta“ lesendur um gildi samtímalistar en komst svo á endanum að því að fólk þarf helst að vera opið fyrir listinni fyrirfram til að þessi menntun skili einhverjum árangri. Í vikunni las ég í annað sinn eina bestu bók sem ég hef lesið um samtímalist og áttaði mig á því að hún er að öllum líkindum ein besta „útskýring“ sem ég hef lesið á samtímalist og gildi hennar. Bókin heitir Seeing is Forgetting the Name of the Thing One Seesog fjallar um ævi og störf bandaríska myndlistarmannsins Robert Irwin. Í bókinni segir hann frá því hvernig hann byrjar að vinna sig hægt og bítandi úr abstrakt listinni í að vinna með liti og form og meira svæðisbundin verk. Mér finnst mjög verðmætt að fá svona djúpa innsýn inn í hugarheim myndlistarmanna. Eðli málsins samkvæmt er nær ómögulegt að færa þennan hugarheim í orð, enda ætti myndlist í flestum tilvikum að tala sínu máli „handan orða“. En í örfáum tilvikum er hægt að ræða myndlistina ítarlega og vel og ég held að ég hafi aldrei séð það jafn vel gert og í þessari bók. Mæli mikið með henni ef þú, lesandi góður, hefur áhuga á samtímalist eða vilt skilja hana betur. (KF.)


Óskalistinn:

Ég hef löngum haldið því fram að við mennirnir séu einungis lítilfjörlegar framlengingar á hinum sönnu konungum og drottningum jarðar – trjánum. Þau skapa lífsskilyrði okkar og á greinum þeirra vex safarík fæða. Þau boða stillingu og speki, ró og jarðtengingu. Og niður úr þeim klifruðum við löngu áður en við tókum að brytja þau niður. Út er komin á íslensku Bók um tré eftir Wojciech Grajkowski. Myndskreytir er Piotr Socha. Tré skoðuð út frá margvíslegum sjónarhornum. Lofar góðu.

Bráðskemmtileg grein um breska höfundinn Samuel Johnson (1709 – 1784), ærslabelg og djúpskyggnt gáfnaljón, nautnasegg og félagsveru, ólíkindatól og fjölhæfan skríbent. Kveikjan að því að Freya Johnston stakk niður penna og ritaði stúf um þennan keika átjándu aldar höfund er heljarmikið samsláttarrit með úrvali af skrifum Johnson, heilar 1344 blaðsíður að lengd, sem var að koma út.

Una útgáfuhús fylgir endurútgáfu Undir fána lýðveldisins eftir með tveimur nýjum verkum, annars vegar smásagnasafninu Það er alltaf eitthvað, þar sem tólf höfundar sitja í samsæti, og svo er fyrirhuguð útgáfa á Beðið eftir barbörunum, skáldsögu J.M. Coetzee sem lesin var í útvarpið árið 1894 undir heitinu Við bíðum, í íslenskri þýðingu Sigurlínu Davíðsdóttur, en hefur ekki komið út á bókarformi áður.

Þá er komin út skáldsagan Bjargfæri eftir argentíska höfundinn Samöntu Schweblin í þýðingu Jóns Halls Stefánsson. Hlakka mikið til að lesa hana. (SN.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s