Ráðunautur Leslistans: Kristinn Árnason

Kristinn Árnason er mörgum gáfum gæddur; ein þeirra skín skært í greiðu aðgengi hans að skáldskaparæðinni: ljóðinu. Nýlega gaf hann út falleg verk, Regntímabilið, sem hér má panta beint frá býli. Við Kristinn tókum okkur á víxl stuttar pásur frá fjörugu barnauppeldi og alls kyns daglegu amstri og skiptumst á hugleiðingum um lífið, listina og austræna speki. Það er einhver yfirvegaður og eftirsóknarverður tónn í rödd Kristins, kærkomið og þarft mótvægi við háreysti

– Sverrir Norland

Sverrir Norland: Kæri Kristinn, hjartanlega velkominn í ráðuneyti Leslistans og innilegustu hamingjuóskir með nýju ljóðabókina þína,Regntímabilið.

Til að hefja leik: Mér þætti vænt um það ef þú uppfræddir okkur aðeins um bókina?

Kristinn Árnason: Bókin er sprottin úr nokkurra ára tímabili í lífi mínu sem einkenndist af líkamlegum veikindum og í raun upplausn í sálarlífinu. Ég varð alvarlega veikur árið 2008, þegar ég var 27 ára og starfaði í útrásarteymi í íslenskum banka sem stefndi í þrot. Ég lét af störfum sumarið fyrir hrun því ég var farinn að þjást af alvarlegum sjóntruflunum, alls konar óútskýrðum verkjum og þrekleysi, höfuðverkjum og meltingarvandræðum, og svo framvegis. Og við tók þetta einkennilega tímabil umbrota sem bókin talar úr og fær heitið Regntímabilið. Aftast í bókinni er smáljóð eða textabútur sem ber þennan titil og smám saman varð það að viðeigandi nafni á bókina og þetta tímabil.

Þetta er ferðasaga en að forminu til er þetta ljóðabók. Skýringin á greininum í undirtitlinum, þ.e. „Ljóðabókin“, er sú að bókin á sér systurverk í lengra formi ferðasögu eða eins konar sjálfsögu. Það er annars lítið um tilraunir með form í bókinni sjálfri, ljóðin eru í ólíkum og frjálsum formum. Helsta formtilraun verksins er í raun upplýst með greininum í undirtitlinum.

Hvaða ljóðskáld, eða aðrir höfundar, eru í uppáhaldi hjá þér? Voru einhverjir þeirra þér til halds og stuðnings við skrif Regntímabilsins?

Um miðbik þessa tímabils, árin 2010 til 2012, bjó ég í Stokkhólmi. Ég var enn ómögulegur í augunum og líkamanum og varði tíma mínum m.a. í að ganga máttfarinn og verkjaður milli garða og kaffihúsa borgarinnar, sat inni í kirkjum og undir trjám og reyndi að hætta að hugsa. Ég var að vinna að einhvers konar núllstillingu, heilsunnar vegna. Og í Stokkhólmi er mikið af stórum trjám sem voru alltaf nálæg á ferðum mínum um borgina. Ég fór að gefa þeim mikinn gaum og á þessum tíma lærði ég loksins að horfa á tré. Að horfa á falleg tré er auðvitað eins konar ljóðalestur. Trén voru á bylgjulengd sem átti við kyrrðina sem var byrjuð að gera vart við sig innra með mér í bland við allan óróann. Ætli lauftrén í Skandinavíu séu því ekki bara þau skáld sem höfðu mest áhrif á mig við gerð þessarar bókar, ég myndi giska á það.

Annars varð ég mér líka út um ljóðabækur ýmissa mannlegri skálda eftir því sem augun tóku að róast aðeins og samband mitt við trén batnaði. Heilsan tók að sýna fyrstu merki um afar varfærnislegan viðsnúning og ljóð voru heppileg fyrir augun því þau eru oft frekar stutt! Ég dvaldi lengi við ljóðasöfn súfískra miðaldaskálda á borð við Kabir og Rumi, sem mér fannst hressandi og í þeim heimspekilega anda sem mér fannst skynsamlegur á þessum tíma. Eftir því sem á leið á fór ég svo að geta lesið meira og þá varð ég til dæmis mjög hrifinn af ljóðunum sem Fernando Pessoa skildi eftir sig undir öðrum nöfnum, og las Pablo Neruda og Juan Ramón Jiménez og Rilke, svo einhverjir séu nefndir.

Hvernig barn varstu — dreymið, leitandi, leshneigt, eða hávært, baldið, hugrakkt? Eða kannski þeytingur samsettur úr öllum fyrrgreindum eiginleikum?

Ég var orkumikill en ekkert sérstaklega dreyminn framan af, þótt ég hafi orðið það smám saman eftir því sem ég óx úr grasi. Þessi draumóraárátta er eitt af því sem ég hef þurft að hafa töluvert fyrir að vinda ofan af nú seinna mér. Ég var ekki áberandi listhneigður en mér féll vel við dýr og var viðkvæmur eða næmur á sumt. Eftir að ég byrjaði að geta lesið sjálfur fletti ég mest Atlasnum sem pabbi gaf mér þegar ég varð sjö ára. Af orðunum í spurningunni er „leitandi“ hugsanlega það sem lýsir mér skást sem barni. Annars er ég ekki einu sinni viss um það, og seinna meir hef ég hallast að því að draga sem allra mest úr þessari eilífu leit líka.

Áttu þér gullin trikk til að koma þér í skapandi gír við skrifin? Eða ertu maður hins óvænta, og óútreiknanlega, innblásturs?

Ég myndi segja að hugarástandið sé mér mikilvægast þegar kemur að ljóðum, ég þarf að stilla mig inn á líðandi stund og leyfa huganum að hljóðna svolítið. Ég má ekki vera of upptekinn og ég þarf að hafa næði og tíma til að dvelja einfaldlega við ástandið inni í mér og í kringum mig. Við þær aðstæður þarf oft bara litla kveikju og þá opnast fyrir eitthvað, og kveikjurnar eru alls staðar, allt sem er endalaust að eiga sér stað. Stundum hjálpar mér þó að vera að lesa ljóð frekar en aðra texta, þegar ég er að skrifa eða vinna með ljóð.

Nú veit ég að þú ert maður hugleiðslu og kennir meira að segja jóga. Liggur þráður í gegnum slíka andlega iðkun og skrifin? Eru lestur og skrif hugleiðsla?

Hjá mér liggur þráður þarna á milli já, en þá á ég ekki við neina hugmyndafræði heldur kannski einkum áhersluna á ástand vitundarinnar og vissa innhverfni, að huga að jarðveginum og hreinsa hann eftir fremsta megni, svo maður verði móttækilegur fyrir einhverju sem er ekki bara manns eiginn hugarburður. Að rækta með sér næmni og vinda ofan af hlutunum frekar en að blása sig út með hugmyndum og sjálfsmyndum. Í mörgum austrænum hefðum er þessi áhersla á skynjun og að læra að horfa á hlutina milliliðalaust og án orða. Ég velti þessu oft fyrir mér í sambandi við ljóðlistina. Það er ekki að ástæðulausu að mörgum ljóðskáldum er tíðrætt um þögnina og mikilvægi þess að geta sleppt því að nota orð þegar við horfumst í augu við hlutina. Ég hugsa að ég hefði ekki farið að skrifa ljóð hefði ég ekki þagnað svolítið hið innra fyrst. Allavega hugsa ég að hjá mörgum skáldum komi þögnin fyrst, svo ljóðið. Varðandi spurninguna um hvort lestur og skrif séu hugleiðsla mundi ég telja það afar misjafnt, en hvort tveggja býður upp á þann möguleika þegar best lætur.

Fyrst austræna speki ber á góma: Ég er staddur í Japan, mun eyða hér stórum hluta sumars og hef af því tilefni aðeins reynt, af veikum mætti, að setja mig inn í japanska hugsun (sem er ekki alltaf auðvelt vestrænu fólki). Eitt sem situr í mér: fegurð í gerð hluta er þegar notagildi og útlit fara saman. Þetta tvennt er raunar óaðskiljanlegt: fallegt áhald er líka ákjósanlegt verkfæri, ekki aðeins skrautmunur. Þetta stríðir í raun þvert á hugmyndafræði síðkapítalismans, sem reynir sífellt að búa til gerviþarfir og selja okkur gagnslaust skran eða skammlíft fjöldaframleiðsluvíl, breyta okkur í ósjálfbjarga neytendur söluvarnings. Nýjustu atlögunni virðist svo stefnt gegn hugum okkar og innra lífi: þú ert ekki til nema þú varpar daufri eftirmynd af þér inn í forrit gegnum raftæki undir vökulu eftirliti stjarnfræðilega auðugs stórfyrirtækis. Og þetta samþykkjum við, kannski vegna þess að fagurfræði samtímans — hugmyndir okkar um fegurðina, ef einhverjar eru — hafa beðið (furðu mótþróalausa) hnekki. Þetta umhverfi hampar ekki sjálfstæðri hugsun — einstaklingum, lesendum — heldur býflugnabúskrafti læksins. Fjöldasamþykkisins. Andhverfu bókmenntanna.

Getur verið að fegurð bókmennta rýrni í þessu staðlaða umhverfi stafrænunnar, sem útskýrir að nokkru yfirstandandi krísu fagurbókmennta og hugarspunnina frekar staðreyndadrifinna skrifa?

Og skiptir útlit bókmennta máli? Pappír vs. raf, og svo framvegis.

Nú vekurðu hjá mér töluverða löngun að vera í japanskri sveit. En jú, það er margt bogið við það hvernig tæknin neyðir okkur til lags við allt mögulegt sem við ættum helst að hlaupa í burtu frá. En hugur mannsins hefur kannski aldrei verið sérstaklega frjáls frá umhverfi sínu, þannig að það vandamál er eftir sem áður af sambærilegum toga og áður, hugsa ég, fyrir hvert og eitt okkar.

Og ég veit ekki með áhrif alls þessa á fegurð bókmennta. Ég er ekki viss um að vaxandi aðdráttarafl staðreyndadrifinna skrifa, svokallaðra, sé eitthvað sem ætti að líta á sem eitthvað andstætt fagurbókmenntum sérstaklega. Þetta er að vissu leyti þróun sem sumir spekingar kölluðu eftir fyrir löngu síðan, fyrir fagurbókmenntirnar. Svo eru mörkin í þessu öllu svo óljós og það er ekkert nýtt. Maður situr uppi með sjálfan sig. Mér finnst áhugavert verkefni að setja staðreyndadrifin skrif í fagurfræðilegan búning, ég get sagt það. Í ljóðum fást sumir við það.

Varðandi pappír og útlit bóka. Já, og Japan. Mér finnst góð endurskilgreiningin á efnishyggju, sem bendir á hefðir í zen búddisma, um að raunveruleg efnishyggja snúist um að hlúa vel að efninu og nýta það vel. Við verðum bersýnilega öll að fara í þá áttina, og þetta er jú allt orðið ansi brýnt, þetta með meðferð okkar á efninu, og það verður áhugavert að sjá hver áhrif alls þessa verða á bókmenntirnar. Bækur hafa auðvitað þann stóra kost að vera áþreifanlegar.

Einmitt — og áþreifanleikinn er vanmetinn. Og vanmetum við ekki líka — þjökuð af kvíða og minnimáttarkennd, þunglyndi og framtíðarbeyg — notagildi hins hægláta miðils sem prentaða ljóðabókin t.d. er? Ég yrki ljóð, og teikna, langoftast fyrir sjálfan mig: til að reyna að sjá veröldina betur sjálfur, án rafknúinnar hækju. Og mér finnst það hjálpa mér. Og mér finnst hjálpa mér að lesa ljóð, af pappír. Getur verið að í alltumlykjandi andapotti tækninnar fljóti hvergi lausn hinna mörgu aðstenjandi vandamála mannkyns — hrun náttúrunnar, hnignandi virsmunalíf og svo framvegis — heldur einmitt sjálf rót vandans?

Mig grunar — ég óttast — það.

En kærar þakkir fyrir spjallið, Kristinn Árnason. Ég hlakka mikið til að fá áþreifanlega útgáfu af Regntímabilinu í hendurnar (ég á nú þegar eitt sem bíður mín í Reykjavík).

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s