Ráðunautur Leslistans: Friðgeir Einarsson

Fridgeir

Friðgeir Einarsson er sviðslistamaður og rithöfundur, sendi nú síðast frá sér bókina Ég hef séð svona áður og samdi og flutti, ásamt Snorra Helgasyni, tónlistarmanni, einleikinn Club Romantica í Borgarleikhúsinu, sýningu sem sló í gegn og fékk frábær viðbrögð jafnt gagnrýnenda sem óbreyttra leikhúsgesta.

Sverrir Norland: Kæri Friðgeir Einarsson, hjartanlega velkominn í ráðuneyti Leslistans. Þú mátt setjast eða standa meðan við röbbum og fá þér, eða fá þér ekki, kaffi. Velkominn!

Friðgeir Einarsson: Takk. Með auðmýkt, stolti og þökk þigg ég sæti í ráðuneyti Leslistans.

Fyrsta spurning, þ.e. fyrsta skref í vígsluathöfninni, er jafnan einföld og blátt áfram: Ertu að lesa eitthvað gott í augnablikinu?

Þegar þetta er skrifað er ég með tvær bækur í takinu, en hvor um sig er svo þykk að það er mér verulega til efs að ég eigi nokkurn tímann eftir að klára þær. Fyrst ber að nefna Moby Dick eftir Melville. Ég er að taka baðherbergið mitt í gegn og hlusta því á hana í hljóðbókarformi meðan ég ríf út flísar og myglaðar spýtur. (Ég hef hlustað í margar klukkustundir en það sér ekki högg á vatni). Við lesturinn (hlustunina) hef ég haft uppi „Top Gun-gleraugun“, þ.e. ég hef gert í því að oftúlka kynferðisleg tákn og ætlaða ástleitni milli persóna sögunnar, sem vel að merkja eru nánast allar karlkyns, rétt eins og skemmtilegt er að gera þegar horft er á kvikmyndina Top Gun. Það hefur reynst mér heilladrjúgt.

Hins vegar hef ég verið að lesa Sapiens eftir Yuval Harari, sem er einkar áhugaverð, en ekki beint skemmtileg, því hafi ég haldið að ég væri eitthvað merkilegri en hver annar apaköttur sem lifir og deyr án þess að skilja eftir sig neina varanlega minnisvarða, eða að maðurinn væri eða hefði nokkurn tímann verið annað en vargur og meinsemd á jörðinni, þá hefur Harari fært þær hugmyndir í rétt form.

Heldurðu að þú munir einn daginn skrifa sögu eða leikrit, sem heitirBaðherbergið, og fjallar um mann sem er að gera upp baðherbergið hjá sér og hlusta á Móbý Dick, stóra skáldsögu sem gerist úti á hafinu mikla og tekur við daglegum sendingum okkar þegar við sturtum niður (í baðherberginu sem við vorum að gera upp)?

Af því að ég er listamaður í fullu starfi þarf ég að gera eins mikið og ég get sjálfur í baðherbergisframkvæmdinni til að eiga efni á henni. Ég þarf að tileinka mér ýmis konar handbragð og kunnáttu sem ég hef fram að þessu ekki haft hundsvit á og garfa í ýmsu sem ég hef sannast sagna engan áhuga á. Þetta bjástur útheimtir mikinn tíma sem ég hefði vel getað hugsað mér að nýta einhvern veginn öðruvísi, en til að minnka skaðann hef ég einmitt lagt á ráðin með að nýta reynsluna í listaverk. Ég gæti vel hugsað mér að skrifa sögu um óviljuga hetju sem neyðist til að rífa út baðherbergisinnréttingu til að uppræta myglu, tileinka sér vinnubrögð sem henni eru ekki töm og hugleiða feigð — feigð og myglu. Myglan er stórmerkilegt fyrirbæri, hún á eftir að lifa okkur öll og mola niður þessa kumbalda okkar eftir að mannkynið er horfið af sjónarsviðinu. Hvort umrædd sögupersóna hlustar á Moby Dick á hljóðbók á meðan hún starfar veit ég ekki, en ég hef raunar verið að gæla við að nota hvali sem umfjöllunarefni í öðru verki sem ég ætla ekki að tjá mig um að svo stöddu.

Sögurnar þínar fá mig stundum, eins og allar góðar bókmenntir, til að hugsa til annarra fínna höfunda — Alejandro Zambra, Lydiu Davis, Braga Ólafs — en þó eru þínar bækur alveg sér á báti, með sinn eigin tón. Sem sagt, áður en þú hnakkreiðist og slítur viðtalinu í fússi: ég er ekki að ásaka þig um að stæla aðra. (Róaðu þig niður.) En kannastu við að eiga þér áhrifavalda? Eða er veröldin bara ein stór áhrifakrumla sem lýkst um þig og krestir þannig að stíllinn — húmorinn, viðfangsefnin — vætla af sjálfu sér út úr vitund þinni, eins og skrúfað sé frá krananum inni á baðherberginu sem þú ert að gera upp? Og fyrrgreind nafnatog mitt þar með bara ég að slá um mig?

Ég hef hvorki heyrt um Alejandro Zambra né Lydiu Davis, en hlakka til að kynna mér þeirra verk. Braga Ólafs hef ég hins vegar lengi haldið upp á. Raunar skrifaði ég B.A. ritgerðina mína á sínum tíma um Gæludýrin, og get vel fallist á að bækur Braga hafi veitt mér innblástur, jafnvel að ég sé undir áhrifum. Hann kemur svo vel til skila ákveðinni stemningu sem einkennist af vanmætti, verkleysi, tómleika og kvíða sem mér finnst afar heillandi. Ég held líka mikið upp á Carver og Bukowski, en þeir fara allt aðra og einfaldari leið að fyrrnefndum tilfinningum. Og auðvitað Gyrðir Elíasson. Og auðvitað Kafka. Upp á síðkastið hef ég líka orðið fyrir áhrifum frá Miröndu July sem er feiknarlega lunkin að spinna þræði og flækja þá.

En annars er það einna helst smáborgarlegt vafstur sem veitir mér innblástur fyrir verk og sögur. Í gær var ég til að mynda í Sorpu og fylgdist þar með rosknum karli taka hækju af palli á bíl og fleygja henni í gám. Þessi sýn á örugglega eftir að rata í sögu hjá mér, þó að ég viti enn ekki hvenær eða hvernig. (Að sama skapi hlýtur mygla í baðherbergisinnréttingu að vera gjöf til mín frá skáldgyðjunni, happadrættisvinningur).

Lestu inni á baðherberginu (þegar þú ert ekki að gera það upp) og þá hvað helst? Henta sumar bókmenntir betur á baðherberginu en aðrar og gætu þar með talist svokallaðar baðherbergisbókmenntir? Og les maður kannski eitthvað allt annað á klósettinu en í heitu baði? Og síðast en ekki síst: Heldurðu að lestrarvenjur þínar inni á baðherberginu muni breytast, nú þegar þú lýkur við að gera það upp? Með öðrum orðum: Hefur náumhverfið áhrif á lestur okkar og einbeitingu og er best að vera hreinn, þ.e. nýkominn úr baði, þegar maður les eða er það málinu óskylt?

Ég þarf mikið næði og góðan tíma til að geta einbeitt mér að lestri, en hef aldrei komist upp á lagið með að lesa inni á klósetti. Kannski taka búklegar athafnir of skjótt af til að ég geti helgað mig verkefninu með fullnægjandi hætti. Yfirleitt fikta ég í símanum mínum meðan ég geng örna minna (ef fólk skyldi þyrsta að vita það). Við konan mín höfum verið að velta fyrir okkur hvort við eigum að fá okkur baðkar, þar sem ég gæti þá legið í næði og flett í bókum, en því miður held ég að það sé bara pláss fyrir sturtu, og í sturtu er ákaflega erfitt að einbeita sér að lestri. Ég öfunda fólk sem getur lesið hvar og hvenær sem er, óháð stað og tíma, í bíl, á diskóteki, fullt, dópað, eða já, á dollunni.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s