Bækur, 28. desember 2018

Þegar smásagnasafnið Tales of Natural and Unnatural Catastrophes kom út árið 1987 var höfundur þess, Patricia Highsmith, gagnrýnd fyrir að sýna (mennskum) sögupersónum sínum ekki nægjanlega samúð. Highsmith er raunar með þekktari mannafælum í bókmenntum tuttugustu aldar. Einu sinni var hún innt eftir því hvers vegna hún byggi ekki til geðþekkari sögupersónur. „Eflaust er það vegna þess að mér geðjast ekki að neinum,“ sagði hún. „Hugsanlega munu síðustu bækur mínar fjalla um dýr.“

Annar sigursæll mannhatari, Alfred Hitchcock, lét einu sinni hafa eftir sér greindarlega athugasemd um frásagnarlist: ef innbrotsþjófur er fyrsta persónan sem við sjáum í kvikmynd, þá höldum við framvegis með innbrotsþjófnum. (Eitthvað svoleiðis; og ég held að ég fari rétt með að Hitchcock hafi sagt þetta.) Gott dæmi um slíkt söguupphaf væri „Moby Dick II; or The Missile Whale“, önnur sagan í fyrrnefndu safni Highsmith. Tveir búrhvalir synda um í söltum sjó og kýrin er um það bil að ala kálf – þegar hópur manna ræðst að hinu ástfangna pari og myrðir hana. Tarfurinn stendur því einn eftir, dapur og reiður. Hefst nú mikið ævintýri þar sem búrhvalurinn kemur tugum, ef ekki hundruðum, manna fyrir kattarnef – og það hlakkar í lesandanum.

Hinar sögurnar í safninu fjalla um ýmsar skemmtilegar hliðar jarðlífsins: kjarnorkustríð, siðblinda stjórnmálamenn, kakkalakka-faraldur. Mæli með.

Highsmith er auðvitað þekktust fyrir bækur sínar um hinn hæfileikaríka herra Ripley (sem kvikmyndaleikstjórinn Anthony Minghella gerði eftir frekar doðalegar kvikmyndir), og það er leitun að ósympatískari aðalpersónu en í þeim fimm bóka flokki. Það væri þá helst að sama höfundi hefði tekist að fitja upp á meira fráhrindandi sögupersónu í öðru verki sínu, This Sweet Sickness, sem kom út árið 1960 og fjallar um David Kelsey, afburðagreindan vísindamann sem starfar í plastverksmiðju, býr á gistiheimili í litlum bæ og ekur burt um helgar undir því yfirskini að hann verji frídögunum með veikri móður sinni. Sannleikurinn er hins vegar sá að móðir hans er löngu látin. David hefur keypt rándýrt hús undir fölsku flaggi, sem William Neumeister, og unir sér um helgar í sveitinni; þar ímyndar hann sér að Annabelle sé með honum og þau sötri í sameiningu kokteila, snæði fínan mat, hlusti á klassíska tónlist. David er með öðrum orðum ástsjúkur og ímyndunarveikur narsissisti sem missir smám saman tökin á lífi sínu og fjarlægist veruleikann. Lengi vel fannst mér að Highsmith hefði hér færst of mikið í fang; Kelsey/Neumeister væri einfaldlega of hrjúf og kaldranaleg persóna, en eftir því sem líður á verkið byggist upp knýjandi spenna og ég hlakkaði til að halda áfram með bókina. Sem sagt: Fínasta bók og festir Highsmith enn í sessi sem einn af eftirlætishöfundum mínum til að lesa í sumar- eða jólafríi. (SN.)

Ég fékk eina áhugaverða bók í jólagjöf frá konunni minni og börnunum mínum. Það er bókin Kristur – Saga hugmyndar eftir Sverrir Jakobsson sem við höfum áður rætt um stuttlega í Leslistanum. Mér fannst hún svo góð að ég ákvað að setja hana á áðurnefndan árslista okkar Sverris, en þar er hægt að lesa meira um hana. (KF.)

Þegar ég er á ferðalögum finnst mér alltaf skemmtilegt að grípa í bækur sem leynast á gistiheimilum eða í leiguíbúðum, uppi í hillum hjá vinum eða ættingjum. Í vikunni fékk ég þetta í andlitið. Við fjölskyldan höfum síðustu vikurnar verið á ferðalagi um Mexíkó, og því fannst mér við hæfi að glugga í The Vintage Book of Latin-American Short Stories, sem leyndist í kiljubroti í húsinu þar sem við gistum yfir hátíðardagana. Bókin var hundseyrð og nokkuð snjáð eftir talsverðan velting, en ég lét það ekkert á mig fá. Á mig runnu hins vegar tvær grímur þegar ég tók eftir því að fyrri lesandi hafði rifið út inngangsorð Julio Ortega (sem ritstýrði safninu ásamt Carlos Fuentes) og einnig fyrstu smásöguna, „The Aleph“ eftir Borges. Nokkuð pirrandi, en sjálfsagt hefur nefndur lesandi bara heillast svo ákaflega af kröftugri innsýn Ortega í heim suður-amerískrar smásgnalistar og jafnframt af hinni þekktu sögu Argentínumannsins, að hann stóðst ekki mátið og heftaði síðurnar inn í dagbókina sína. Gott og vel. Þegar ég hafði hins vegar lesið nokkrar sögur úr safninu og fundist sumar þeirra nokkuð endasleppar, tók ég eftir því að það var raunar engin tilviljun: í gegnum alla bókina var búið að rífa hér og þar út eina og eina blaðsíðu, eins og gagngert til að hrekkja græskulausan sakleysingja á borð við mig. Sem betur fer þekkti ég reyndar margar sagnanna fyrir – sumar þeirra birtustu nýlega í íslenskri þýðingu í Smásögum heimsins – Rómönsku Ameríku, sem ég las síðastliðið sumar – og því naut ég lestursins þrátt fyrir stöku gloppur og glompur. Ég held líka að í þessari ergelsislegu upplifun leynist efniviður í smásögu en ég á eftir að klóra mig fram úr því á hvaða lund hún verður, nákvæmlega. Ég mæli annars með smásögum frá þessum heimshluta; það kraumar í suður-amerískum bókmenntum einhver sérstakur kraftur, ólgar eitthvert sérstakt hugarflug sem þrífst ekki annars staðar.

Ragnar Jónasson, spennusagnahöfundur, gekk í ráðuneyti Leslistans í síðustu viku og mælti með fjölmörgum spennandi bókum, meðal annars The Mistletoe Murder eftir P.D. James. Ég tók Ragnar á orðinu og spændi í gegnum hana í stuttri flugferð. Ég hafði ekki lesið neitt eftir hina heimsþekktu P.D. James áður, og fundust sögurnar góðar, vel uppbyggðar – notalegar. (SN.)

 


 

Óskalisti Leslistans:

  

Elísabet Kristín Jökulsdóttir gaf á dögunum út nýja ljóðabók, Lítil sál sem aldrei komst til jarðar. Hún fór auðvitað beint á óskalistann hjá mér og séðir áskrifendur Leslistans munu ekki tvínóna við að tryggja sér eintak. Hér er gamalt Leslistaspjall við skáldið. (SN.)

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s