Árslisti Leslistans 2018

featured_STACK-OF-BOOKS-facebook.jpg

Hér að neðan höfum við tekið saman þær bækur sem stóðu upp úr hjá okkur á árinu sem er að líða. Þetta eru ekki endilega alltaf bækur sem voru gefnar út á árinu 2018 heldur bara verk sem hafa glatt og frætt okkur persónulega. Vonandi hafið þið bæði gagn og gaman af.

-Kári og Sverrir

Listi Kára Finnsonar:

Af öllum þeim bókum sem ég las á árinu 2018 þá eru nokkrar bækur sérstaklega eftirminnilegar. Ég ákvað að velja sex bækur sem ég las á árinu sem mér finnst líklegt að ég lesi aftur. Ég held að ég hafi örugglega skrifað um allar þær bækur sem ég hef lesið og lauslesið á árinu á Leslistanum, enda styttist í að við fögnum ársafmæli listans. Þær voru flestar stórfínar en skilja þó mismikið eftir sig.

Ef ég set mér einhver áramótaheit fyrir árið 2019 þá verður það að lesa meira af slíkum bókum — bókum sem ég gæti hugsað mér að lesa aftur. Maður þarf nefnilega stundum að minna sig á að jafnvel mestu lestrarhestar heimsins ná aldrei að lesa nema brotabrot af öllum þeim bókum sem til eru þarna úti. Lífið er líka of stutt til að lesa leiðinlegar bækur. Á næsta ári ætla ég því að lesa færri bækur, lesa þær hægt og lesa þær vel.

Skin in the Game eftir Nassim Taleb

Ég hef ekki farið dult með það á þessum vettvangi að Nassim Taleb er einn af mínum eftirlætis hugsuðum og rithöfundum. Það kann að stafa af því að ég kynntist verkum hans þegar ég var í hagfræðinámi í miðju efnahagshruni. Þá var ég búinn að missa alla trú á þeim hagfræðikenningum sem ég hafði stúderað fram að þessu og fannst það sem kom fram í fyrstu tveimur bókum hans, Fooled by Randomness og Black Swan, vera ferskur andblær hugmynda sem gjörbyltu því hvernig ég hugsaði. Í þeim bókum fjallaði hann annars vegar um hversu mikið við vanmetum handahófskennda atburði og hins vegar um hvernig við vanmetum ólíklega atburði sem hafa miklar afleiðingar, svokallaða „svarta svani“. Nýjasta bókin, sem kom út á þessu ári, heitir Skin in the Game og snýst fyrst og fremst um siðfræði, þótt það sé erfitt að festa fingur á eitthvað eitt sem bókin fjallar um. Með „skin in the game“ á Taleb við mikilvægi þess að maður hafi eitthvað í húfi þegar maður lýsir yfir skoðunum sínum. Hversu miklu gagnlegra það er að dæma fólk af verkum þess frekar en því sem það segir og hvað það skiptir miklu máli að þekkja hlutina á eigin skinni áður en maður tjáir sig um þá. Hér lýsir höfundurinn kjarna bókarinnar, en ég hvet alla til að lesa hana — og fleiri bækur eftir hann.

Hinir smánuðu og svívirtu eftir Dostojevskí, (þýð. Gunnar Þorri Pétursson og Ingibjörg Haraldsdóttir)

Ég spændi í gegnum frábæra þýðingu þeirra Gunnars Þorra Péturssonar og Ingibjargar Haraldsdóttur á Hinum smánuðu og svívirtu eftir Fjodor Dostojevskí í sumar. Lesturinn sannaði fyrir mér að Dostojevskí er einhver allra mesti meistari skáldsögunnar sem uppi hefur verið. Ég hafði minnst á það í einhverjum Leslistanum að persónusköpun hans er svo lifandi að manni líður eins og hann sé að skrifa um ættingja manns. Nokkrum mánuðum eftir að ég lauk við lesturinn eru þessar persónur enn ljóslifandi í huga mér. Ekki spillir fyrir hvað þýðingin var afburðagóð.

Scale — The Universal Laws of Growth, Innovation, Sustainability, and the Pace of Life in Organisms, Cities, Economies, and Companies eftir Geoffrey West

Ég hef gaman af stórhuga rithöfundum og hugsuðum sem ætla sér að segja frá gangverki heimsins út frá einni ákveðinni hugmyndafræði. Gallinn við slík verk er augljós, þeim tekst að sjálfsögðu ekki ætlunarverk sitt enda er heimurinn flókinn, skrítinn og þversagnarkenndur í eðli sínu. Það er hins vegar hægt að læra margt af slíkum rithöfundum og verkum þeirra. Ein slík bók er Scale, eftir Geoffrey West. Eins og ég ræddi í Leslistanum fyrr á árinu fjallar hún í örstuttu máli um lögmál skölunar, sem snúast í mjög einfaldaðri útgáfu um hvernig kerfi bregðast við því þegar þau stækka. West útskýrir hvernig þessi lögmál tengja saman ólík viðfangsefni á borð við eðlisfræði, líffræði, borgarskipulag, fyrirtækjarekstur og margt fleira. Eftir að hafa melt bókina meira kann ég að meta það hversu vel honum tókst til með að útskýra þessi lögmál, enda sitja dæmin sem hann tekur í bókinni mjög fast í mér. Það eru kannski helstu verðmæti bókarinnar og trompa alla þá galla sem hún hefur.

Factfulness eftir Hans Rosling

Það kom mér á óvart hversu mikið ég fílaði bókina Factfulness eftir Hans Rosling. Ég hafði heyrt mikið talað um hana, lesið nokkrar greinar um hana og var strax viss um að þarna væri á ferðinni bók sem ég væri hjartanlega ósammála. Á yfirborðinu fjallar hún um að heimurinn sé allur að horfa til betri vegar, að mannkynið hafi náð gríðarlegum framförum á öllum helstu sviðum á síðustu áratugum og að staðan sé býsna góð þegar heilt er yfir litið. Í grunninn er ég ósammála þessu viðhorfi. Ég er þeirrar skoðunar að heimurinn sé hvorki að verða betri né verri — við erum alltaf sama mannskepnan, þótt við séum betur klædd og eigum ísskápa og iPhone. Svo las ég loksins bókina og hún kom mér skemmtilega á óvart. Hún fær mig ekki beinlínis til að skipta um skoðun, heldur fær hún mig til að líta á staðreyndir um stöðu heimsins öðrum augum. Ég hugsa t.d. með öðrum hætti um svokölluð „þróunarlönd“ eftir lestur bókarinnar og hef aðra mynd af stöðu heimsins en áður. Verðmæti bókarinnar fyrir mér var fyrst og fremst fólgið í því að breyta því hvernig ég nálgast heiminn og hún fékk mig til að hugsa frekar um staðreyndir málanna en eigin tilfinningar. Ég kannski bæti við öðru áramótaheiti — að lesa fleiri bækur eftir höfunda sem ég er ósammála. Maður lærir miklu meira af því.

The Case Against Education eftir Bryan Caplan

Talandi um höfunda sem maður er ósammála. Bókin The Case Against Education eftir hagfræðinginn Bryan Caplan hafði mikil áhrif á mig á árinu. Hún fjallar í stuttu máli um æðri menntun og nytsemi hennar. Caplan heldur því fram að háskólamenntun sé í besta falli dýrt „merki“ (e. signal) fyrir vinnumarkaðinn og að hún geri manni lítið sem ekkert gagn fyrir utan það. Ég er ekki alveg sammála þeirri nálgun, enda er ég þeirrar skoðunar að menntun eigi fyrst og fremst að snúast um að gera mann að heilsteyptri manneskju frekar en að einhvers konar tannhjóli fyrir atvinnulífið. Rökin sem hann færir hins vegar fyrir máli sínu eru skotheld og bókin er ótrúlega sannfærandi og vel unnin. Sama hvort maður sé sammála eða ósammála honum þá held ég að þetta sé holl lesning fyrir alla þá sem hafa einhvern áhuga á menntavísindum.

Kristur — saga hugmyndar — Sverrir Jakobsson

Ég fékk þessa ágætu bók í jólagjöf frá konunni minni og börnunum mínum og hafði virkilega gaman af henni. Bókin fjallar í stuttu máli um þær fjölmörgu hugmyndir sem hafa verið uppi um Jesú Krist, sem er að öllum öðrum ólöstuðum áhrifamesti maður allra tíma. Sverri tekst mjög vel til með að setja hlutina í samhengi, segja vandlega frá samtíma Krists og þeirri flóru trúarbragða og hugmyndafræði sem voru ríkjandi við upphaf okkar tímatals. Einnig fer hann vandlega yfir þær ýmsu hugmyndir sem hafa verið uppi um Krist og þá merkingu sem hann hefur haft á meðal kristinna manna. Þetta er viðfangsefni sem á erindi við alla, sama hvort þeir hafa áhuga á trúarbrögðum eða ekki. Kristin hugmyndafræði á mun ríkara erindi í okkar samtíma en margir vilja meina og þess vegna skiptir miklu máli að vita hvernig við höfum hugsað um Jesú og hans boðskap í aldanna rás. Ég er fullviss um að ég muni líta aftur til þessarar bókar síðar meir.

Listi Sverris Norland:

Mér sýnist í fljótu bragði að ég hafi lesið hátt í tvö hundruð bækur á síðasta ári og því ákvað ég að vera ekkert að iðka einhverja þykjustuhógværð tæpa á allmörgum titlum sem stóðu upp úr. Þetta eru ekki endilega „bestu“ bækurnar heldur frekar þær áhugaverðustu eða eftirminnilegustu — bækur þar sem höfundurinn tókst á við eitthvað nýtt og hressandi, sem er alltaf kærkomið í hinu stofnanakennda færibandaumhverfi netmiðlanna sem við lifum við.

Ég hnykki á því að hér er fjarri því einungis um að ræða bækur sem komu út á árinu 2018. (Góðar bækur eru alltaf nýkomnar út í huga þess sem opnar þær í fyrsta skipti.) Þá ætti ekki að ráða nokkra merkingu í uppröðun bókanna, sem er handahófskennd.

Bókasafn föður míns eftir Ragnar Helga Ólafsson

Gott ef þetta var ekki eftirminnilegasta bókin sem ég las á árinu. Ragnar Helgi lýsir því þegar hann þurfti að fara í gegnum 4000 titla bókasafn föður síns í kjölfar andláts hans.

Ég tek fram að ég las verkið í próförk (og að Ragnar Helgi er vinur minn) en það breytir einhvern veginn engu. Þetta er bók sem er engri annarri lík. Og ætti það ekki að vera mælikvarðinn á gott bókmenntaverk; að það snerti við manni og segi um leið eitthvað eftirminnilegt á alveg nýjan hátt?

Ungfrú Ísland eftir Auði Övu Ólafsdóttur

Það er sjaldgæft að höfundur nái að segja jafn mikið á svo tæran og rembingslausan hátt og Auður Ava gerir hér í sjöttu skáldsögu sinni. Hún hefur skrifað sitt Heimsljós og snýr upp á dæmigerðar hugmyndir um kynin í bók sem er í senn léttleikandi og læsileg en um leið full af áleitnum spurningum og hugmyndum.

Tregahandbókin eftir Magnús Sigurðsson

Á sínum tíma skrifaði ég meðal annars: „Mér fannst Tregahandbókin eftir Magnús Sigurðsson eiginlega byggjast á eftirfarandi mótsögn: Maður les bækur til að gera lífið bærilegt — en eftir því sem maður les fleiri bækur, þeim mun óbærilegra verður lífið. Og eins: Maður les til að lina einmanaleika og þjáningu, en eftir því sem maður les meira, þeim mun meira einmana verður maður og þjáðari.“ Sannarlega með frumlegri og eftirminnilegri bókum sem ég las á árinu, og hefur vaxið og dafnað innra með mér frá því að ég lagði hana frá mér.

Kudos eftir Rachel Cusk

Lokahnykkurinn í skáldsagnaþríleik hinnar eitursnjöllu Cusk. (Fyrri bækurnar tvær eru Outline og Transit.) Cusk snýr upp á allar „reglur“ í persónusköpun og útkoman er skáldsagnaþríleikur sem líkist engu öðru sem ég hef lesið.

King Kong Theory eftir Virginie Despentes

Mér finnst stimpillinn „skyldulesning“ oft kjánalegur en set hann engu að síður á þessa bók. Eitt kraftmesta femínista-manífestó sem ég hef lesið. Despentes er magnaður höfundur, rödd hennar eins og elding, og í King Kong-kenningunni fjallar hún meðal annars um það þegar henni var nauðgað og skefur ekki utan af hlutunum.

Fyrir þá sem ekki lesa frönsku: Bókin er til í vandaðri enskri þýðingu, sem gefin var út af The Feminist Press í New York.

Jón lærði & náttúrur náttúrunnar eftir Viðar Hreinsson

Verkið rekur ævi Jóns Guðmundssonar lærða (1574–1658), en höfundur heldur mörgum boltum á lofti og talar beint inn í samtíma okkar hvað snertir hugmyndir og samband okkar um og við náttúruna — og heimkynni okkar, jörðina. Bók (doðrantur!) sem þyrfti að fara sem víðast.

After the Winter eftir Guadalupe Nettel

Ég seildist eftir þessari skáldsögu eftir hina mexíkönsku Nettel vegna þess að ég var á ferðalagi um fæðingarland hennar — og sá sko ekki eftir því. Cecilia flyst frá Mexíkó til Parísar í því skyni að leggja stund á bókmenntir; Claudio býr í New York og vinnur sem prófarkalesari hjá útgáfufyrirtæki. Sögur þeirra skarast með ófyrirséðum hætti. Mjög sterk skáldsaga, og persónurnar afar eftirminnilegar.

America: The Farewell Tour eftir Chris Hedges

Heimsveldi rísa og hníga og nú virðist sem Bandaríkin séu að liðast í sundur. Sú er í hið minnsta tilfinning mín — hefur aukist mikið eftir að Trump komst til valda — og ég veit að ekki er ég einn um það. Í America: The Farewell Tourfærir Chris Hedges rök fyrir því að Bandaríkin beri nú öll helstu einkenni deyjandi heimsveldis. Idíótarnir taka við stjórnartaumunum á lokadögum deyjandi siðmenningar, ritar hann. Fólk flýi í síauknum mæli inn í ímyndaða heima til að forðast að horfast í augu við veruleikann — símaskjái, kvalalosta, stríðsbrölt, haturskölt, vímuefni, klám. Ég þurfti margsinnis að líta upp úr bókinni og taka mér hvíld. Mögnuð.

Radio Free Vermont; a fable of resistance eftir Bill McKibben

Hinn 72 ára gamli útvarpsmaður Vern Barclay stofnar ásamt ungum tölvunörd á Asperger-rófi hreyfingu sem hefur að keppikefli að Vermont-fylki skilji sig frá Bandaríkjunum og lýsi yfir sjálfstæði. Bókin gerist í samtímanum (Trump er forseti) og tekur á ýmsum pólitískum málefnum með gamansömum hætti, einkum þó loftslagsmálum (McKibben er einn þekktasti umhverfissinni samtímans). Þessi kom skemmtilega á óvart.

On the Move: A Life eftir Oliver Sacks

Sjálfsævisaga Oliver Sacks, taugasjúkdómafræðingsins þekkta. Hér kynnist maður höfundinum afar náið. Ég vissi til dæmis ekki að Sacks hefði ungur verið með kraftlyftingadellu; að hann hafði verið samkynhneigður og að mestu í skápnum (skírlífur í meira en þrjátíu ár! — sögurnar sem lýsa fyrstu þreifingum hans í tilhugalífi eru vægast sagt pínlegar); að hann þjáðist af andlitsblindu og bar einkum kennsl á fólk af rödd þess, hreyfingum, fasi; að hann hefði verið með ástríðu fyrir mótorhjólum og næstum drepið sig í slysi sem hlaust af því áhugamáli; og svo framvegis. Loks var hann algjör graffómaníak og sískrifandi, einkum á stöðuvatnsbakkanum eftir nektarsundspretti í uppsveitum New York. Mjög eftirminnileg frásögn.

The Last American Man eftir Elizabeth Gilbert

Ævisaga Eustace Conway, bandarísks manns (og hálfgerðrar ofurhetju) sem fluttist sautján ára gamall út í skóg og hefur búið þar síðan, nánar tiltekið á Skjaldbökueyju, Turtle Island. Eustace er í senn ómótstæðilegur og óþolandi, heillandi og hræðilegur; hann lifir 100% utan neyslusamfélags nútímans, veiðir sér í matinn, saumar öll sín föt, byggir öll sín híbýli (hann bjó í meira en áratug í „teepee“-tjaldi) og svo framvegis. Hann er svona maður sem finnur dauðan íkorna úti í vegarkanti, kippir honum með sér heim, fláir hann og notar í súpu.

Walden eða lífið í skóginum eftir Henri David Thoreau, í íslenskri þýðingu Elísabetar Gunnarsdóttur og Hildar Hákonardóttur

Stórtíðindi útgáfu síðasta árs, 2017. Meistaraverk eins mesta höfundar í sögu Bandaríkjanna, í snilldarlegri íslenskri þýðingu.

Elsku drauma mín, minningabók Sigríðar Halldórsdóttur, skrásetjari Vigdís Grímsdóttir

Sigríður lýsir æskuheimili sínu, Gljúfrasteini, hinum þjóðþekktu foreldrum sínum, Auði og Halldóri Laxness, og rekur sögur af öðrum skyldmennum, vinum, ástmönnum — sumar eru fyndnar, aðrar sárari — og lífi sínu allt frá blábernsku og fram til dagsins í dag. Textinn er blæbrigðaríkur og lifandi og Sigríður slær, undir öruggri stjórn Vigdísar, einhvern heillandi tón sem helst út alla frásögnina; að lestri loknum líður manni eins og maður myndi heilsa henni úti í búð. Bók sem ýmist má bruna í gegnum á einni beit eða grípa niður í meðfram öðru.

Extra Yarn eftir Mac Barnett, myndskreytt af Jon Klassen

Afar falleg og eftirminnileg bók, með fléttu sem gengur upp á órökrænan hátt, eins og svo margt í góðum skáldskap. Annabelle finnur litla öskju með lopa í öllum regnbogans litum og tekur að sauma peysur á alla í þorpinu sínu — og síðan einnig á dýrin þar, húsin, trén. Lopinn virðist aldrei þrjóta.

Sparkie! eftir Jenny Offill, myndskreytt af Chris Appelhans

Skemmtilegasta barnabók sem rataði á mínar fjörur árið 2018. Lítil stelpa eignast letidýr sem gæludýr — og letidýrið nennir auðvitað ekki að gera neitt, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir stelpunnar til að bregða á leik með þessum nýja vini sínum.

Hin órólegu eftir Linn Ullmann í þýðingu Ingibjargar Eyþórsdóttur

Ullmann fjallar á fínlegan og djúpstæðan hátt um foreldra sína, heimsþekkta listamenn (Ingmar Bergmann og Liv Ullmann). Bók sem dansar á mjórri línu milli þess að vera skáldsaga og minningabók. Mjög flott, myndræn og áhrifamikil.

T. Singer eftir Dag Solstad

Kannski besta skáldsaga sem ég las á síðasta ári. Aðalpersóna bókarinnar er ósköp venjulegur og raunar fremur látlaus norskur bókasafnsfræðingur sem fer nokkuð hljóðlega í gegnum lífið. Á tímum veltir maður því fyrir sér hvort Singer sé nógu áhugaverður til að verðskulda heila bók um sig — en einmitt þar liggur svo, þegar upp er staðið, styrkur bókarinnar. Hversu margir menn eins og Singer eru ekki til í heiminum? Hinn norski Solstad fer meistaralega með söguefnið og tekst á afar sannfærandi hátt að draga af þolinmæði upp mynd af ævi venjulegs manns yfir heilu áratugina.

The Overstory eftir Richard Powers

Það er merkilegt hversu fáar (vel heppnaðar) skáldsögur hafa verið samdar um stærsta málefni samtímans, loftslagsbreytingarnar. Besta bókin, sem reynir með einhverjum hætti að glíma við þessi mál og ratað hefur á mínar fjörur, er The Overstory eftir Richard Powers. Hún fjallar fyrst og síðast um tré. Um menn og tré; samband manna við tré; og hvernig trén hafa verið hér miklu lengur en við og hafa vitsmuna- og tilfinningalíf sem okkur er framandi, en er eflaust ekki síður margslungið og flókið. Frábær, og ólík öllu öðru sem ég hef lesið.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s